15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

181. mál, hafnalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Ég þarf fyrir hönd sjútvn. að bera fram skrifl. brtt. og fara fram á það við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir henni. Er þarna aðeins um að ræða lítilfjörlega leiðréttingu á einni þeirra breytinga, sem hv. d. samþykkti á frv. til hafnalaga á fundi sínum í gærkvöld. Breytingin er við 11. gr. frv., þar sem segir svo eftir breytingu, sem háttv. d. gerði í gærkvöld:

„Sveitarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans samkv. till. hafnarstjórnar“. Breytingin, sem n. ber nú fram, er í því fólgin, að í staðinn fyrir orðið „samkv.“ í umræddri mgr. komi: „að fengnum“, og þá hljóðar þetta þannig:

„Sveitarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans að fengnum till. hafnarstjórnar“.

Allir nm. hv. sjútvn. eru sammála þessari breytingu, og ber ég hana fram í umboði n.