15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

181. mál, hafnalög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja til muna þessar umr., enda eru þær nú nokkrar orðnar, sérstaklega við 2. umr. þessa máls. Nú, þegar frv. er komið til 3. umr., hefur það tekið allmiklum breytingum síðan það var lagt fram hér við 1. umr. Samþ. hafa verið till. sjútvn., sem bornar voru fram við 2. umr. og lít ég svo á, að þær séu a.m.k. yfirleitt til bóta. Hins vegar voru því miður við 2. umr. felldar brtt., sem ég hefði talið mjög til bóta að samþykkja. Það hefur verið fellt, að ábyrgð ríkissjóðs vegna hafnarlána megi vera sjálfskuldarábyrgð. Það hefur verið fellt að fjölga þeim mannvirkjum, sem talin eru til hafnargerða, sem ríkisframlags njóta. Það hefur verið fellt að hækka ríkisframlag út á eina aðalafgreiðslubryggju upp að 150 m að lengd úr 40% í 60% og sömuleiðis að hækka ríkisframlag út á bátakvíar á sama hátt úr 40% í 60%. Þetta var hvort tveggja fellt við 2. umr. Þá var einnig felld sú till. minni hl. n. að hækka ríkisframlag til hafnabótasjóðs úr 8 millj. í 20 millj., þannig að eftir að búið er að fella hafnabótasjóðsgjaldið niður, eru árlegar tekjur þessa sjóðs ekki nema 8 millj. Það hefur einnig verið fellt, að kostnað vegna lóða- eða landkaupa megi telja til hafnargerðarkostnaðar. En hins vegar er í frv. lögð sú skylda á hafnarsjóði að eignast land undir hafnarmannvirki, og er það eitt af skilyrðunum til þess að hafnarmannvirki séu styrkhæf. Þessar till., sem ég hef talið til bóta og sumar mjög mikils verðar, voru allar felldar við 2. umr. Samt er það svo, að þegar ég nú met þetta frv., eins og það liggur fyrir við 3. umr., kemst ég að þeirri niðurstöðu, að á því séu miðað við gildandi hafnalög bæði kostir og gallar. Sumt horfir til bóta, en sums staðar er um afturför að ræða. Þegar ég ber þetta saman, kemst ég að þeirri niðurstöðu, að kostirnir vegi þó öllu meira en gallarnir. Þess vegna mun ég fylgja þessu frv. við lokaatkvgr. hér í d., eins og það nú liggur fyrir. En ég teldi æskilegt, að hafnarsjóðirnir fengju strax að njóta þeirra hlunninda, sem frv. felur í sér, og að vísu mættu vera meiri. Því er það, að ég leyfi mér að leggja hér fram ásamt hv. 3. þm. Vestf. skrifl. brtt. við 28. gr. frv. um það, að gr. orðist svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi“. En í greininni segir, að l. öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 1968. Það er í raun og veru vandséð, ef það er alvara manna að láta l. ekki öðlast gildi fyrr en um næstu áramót, hvers vegna þá er lagt kapp á að afgreiða málið nú í þinglokin, hvers vegna það er þá ekki látið bíða þingsins í haust. Ef það væri lagt fram þá í þingbyrjun og sérstaklega ef þá væri búið að ná um það víðtækara samkomulagi en hefur náðst, ætti að vera hægt að afgreiða það fyrir áramót, og kæmi þá í sama stað niður. En þetta að draga svona að láta l. taka gildi þýðir það, að þau mannvirki, sem unnið verður að í höfnunum í sumar og ættu að koma undir hækkað ríkisframlag, njóta þess ekki. Það sýnist mér óþarfi, eftir að búið er að afgreiða l., að þau taki ekki til þeirra mannvirkja, sem gerð verða eftir að l. hafa verið samþ. á Alþ. og ég á erfitt með að skilja það, hvað málinu þá lá á í raun og veru, ef það átti ekki að taka gildi fyrr en næsta Alþ. er búið að sitja í nokkra mánuði. Þetta vildum við flm. biðja menn að athuga. Svo leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta hina skrifl. brtt. og biðja hann að leita afbrigða fyrir henni. Skal ég svo ekki lengja mál mitt um þetta frv.