14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

1. mál, fjárlög 1967

Axel Jónsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. ræddi hér fyrr á fundinum skólamál Kópavogskaupstaðar. Ég er honum sammála um allt það, sem hann sagði um þá brýnu þörf, sem þar hefur verið og er fyrir skólabyggingar. Ég tek undir það, sem hann sagði um hina háu prósentutölu um barna- og unglingafjölda okkar miðað við íbúatölu. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að ég lít svo á, að þau orð, sem hann lét falla um samskiptí sveitarfélagsins og ríkisvaldsins nú á þessu kjörtímabili varðandi skólabyggingar, mætti skilja svo sem sérstaða Kópavogs hafi ekki verið virt og viðurkennd í þessu efni og við Kópavogsbúar höfum verið settir hjá. Staðreyndin í þessu máli er sem betur fer allt önnur. Og ég vil með örfáum orðum skýra það, til þess að menn verði ekki haldnir þeim skilningi, að Kópavogskaupstaður hafi þarna orðið eitthvað afskiptur. Ég tel miklu fremur, og það ber að fagna því, — að það sé þveröfugt farið.

Á fjárl. fyrir árið 1964 fengum við Kópavogsbúar samþ. tvo áfanga, einn í barnaskólabyggingu og íþróttahús, 1965 áfanga í gagnfræðaskóla og sundlaug, á fjárl. 1966 nýjan áfanga í barnaskólabyggingu og 1. áfanga að nýjum gagnfræðaskóla, og á því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er nýr áfangi í barnaskólabyggingu. Með þessu hefur verið fullnægt öllum óskum bæjaryfirvalda í Kópavogi, og ég endurtek: Það ber að fagna því, að svo vel hefur verið brugðizt við þeirri brýnu þörf, sem var í þessu sveitarfélagi fyrir þessar stórfelldu barna- og gagnfræðaskólabyggingar. Það er rétt, að í sumum þessara tilvika, sem ég gat þarna um, hefur það komið á daginn, að þær kostnaðaráætlanir, sem voru lagðar til grundvallar í upphafi, hafa reynzt of lágar. Þar er ekki um að sakast við ríkisvaldið, það er þá fremur við okkur heimamenn að sakast.

Hv. 4. þm. Vesturl. rakti hér fyrr á fundinum, hvernig reglurnar eru um þátttöku ríkisins í greiðslu byggingarkostnaðar skólanna. Framlag ríkisins greiðist á 5 árum. Að þeim tíma loknum er áætlunin endurskoðuð, og komi í ljós, að þar sé þá eftir vangreitt af hálfu ríkisins, greiðist það á þremur árum. Við Kópavogsbúar þurfum ekki að kvarta undan því, að við höfum ekki notið til jafns við aðra og fyllilega það þessara ákvæða.

Ég tel, að með þessum orðum mínum liggi það ljóst fyrir, að þessi barnmargi kaupstaður þurfi ekki að kvarta undan því, að hans sérstaða hafi ekki verið virt, bæði hvað óskir um byggingu barna- og gagnfræðaskóla snertir og eins varðandi fjárframlög af hálfu ríkisins. Þarna hefur sérstaða þessa sveitarfélags verið viðurkennd, og ber að fagna því. En ég tel rétt, að hv. þm. hafi fulla vitneskju um, hvernig gangur þessara mála hefur verið.