14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins staðfesta þau orð hv. síðasta ræðumanns, að það eru forustumennirnir sjálfir úr hinum nýstofnuðu samtökum síldveiðisjómanna, sem hafa óskað eftir því, að þessi háttur væri á hafður, enda er það kannske eðlilegt, þegar þess er gætt, að þessi svonefndu samtök síldveiðisjómanna eru aðeins rúmlega mánaðar gömul og enn þá engin reynsla fengin á, hvernig þeim takist að gegna sínu hlutverki. Ef þeim tekst það, þá álít ég, að þetta fyrirkomulag að skipun fulltrúa í stjórn síldarverksmiðjanna gangi einmitt að þeirra eigin óskum, eins og segir í lögum þeirra, en í 7. gr. þeirra laga segir, með leyfi hæstv. forseta: „að markmið þeirra m.a. sé að efla samvinnu þeirra stéttarfélaga, er taka til hinna ýmsu starfshópa um borð í síldveiðiskipum og samhæfa starfsemi þeirra í þjónustu sameiginlegra hagsmuna.“ Og við skulum ekki gleyma því, að þessi nýstofnuðu samtök eru ekki stéttarfélag í samræmi við ákvæði núverandi vinnulöggjafar, heldur hagsmunasamtök. Stéttarfélagasamtökunum er falið sameiginlega að skipa þennan fulltrúa og það er, eins og forseti Alþýðusambandsins benti réttilega á, fullur skilningur og samstaða meðal þeirra um að skipa þann mann, sem gegnir þessari trúnaðarstöðu að vera formaður þessara samtaka, til þess að taka þetta sæti fyrir þeirra hönd í stjórn síldarverksmiðjanna. Ég hefði haldið, að það þyrfti ekki að verða neinn ágreiningur út af þessu. Við þekkjum dæmi þess, að þessi þrenn samtök skipi mann til trúnaðarstarfa fyrir sín samtök sameiginlega, og bendi ég þar á verðlagsráðið, en þar eru það þessi þrenn samtök, sem skipa mann á víxl, ef til þarf, í yfirnefnd. Mér er ekki kunnugt um það, að nokkur ágreiningur hafi orðið á milli þeirra vegna þeirrar skipunar, og ég held einmitt, að sú þróun, sem orðið hefur á seinni árum í samskiptum þessara samtaka, bendi til þess, að það komi kannske enn síður til ágreinings á næstu árum en undanfarið, þótt hv. 5. þm. Austf. léti í það skína, að svo gæti farið. Það er einmitt það, að þessi nýju samtök, sem hér hefur verið vikið að, urðu til vegna úrelts skipulags hjá þeim samtökum, sem fyrir eru. Það hefur aldrei komið fram ósk frá þeim um að hin eldri samtök yrðu lögð niður eða vanmat á þeirra starfi í einu eða neinu. Hins vegar vildi ég halda því fram, að tilorðning þessa nýja félags eða samtaka stafl fyrst og fremst af því, að skipulagið og starfsemi þeirra er úrelt, og þar sem nú er að því unnið að reyna að ná fram breytingum á þessu skipulagi, þá held ég að síður sé ástæða til að ætla, að illa fari í samstarfi þessara samtaka í framtíðinni en fram til þessa.