17.04.1967
Efri deild: 69. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er ekki mikið að vöxtum. Sú ein breyt. felst í því, að bætt er tveim mönnum við þá fimm, sem sæti eiga í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Aðdragandi þessa máls er sá, að á almennum fundi síldarsjómanna, sem haldinn var á Reyðarfirði s.l. sumar, var samþ. álit þess efnis að óska eftir því, að síldarsjómenn fengju að tilnefna einn mann í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, til viðbótar við þá fimm, sem þar eiga sæti. Forustumenn þessara nýju samtaka fóru þess síðar á leit við Alþýðusamband Ísl., Farmanna- og fiskimannasamband Ísl. og Sjómannasamband Ísl., að þessi samtök, sem fara með samningsrétt fyrir alla sjómenn í landinu, gerðu þá kröfu að fá að tilnefna sameiginlega einn fulltrúa í stjórn síldarverksmiðjanna og hefðu um það samflot við Landssamband ísl. útvegsmanna, sem einnig hafði gert svipaða ályktun á sínum fundi og ítrekað hana síðar. Undirrituðu þessir aðilar svo sameiginlega bréf til sjútvmrh., þar sem þessar kröfur voru gerðar. Ráðuneytið féllst á að verða við óskum þessara aðila um að leggja þetta frv. fram, þótt seint væri, á þinginu, og það er ástæðan til þess, að þetta frv. er nú hér komið til umr. Hv. Nd. hefur afgreitt þetta mál einróma á mjög skömmum tíma, og ég ber fram þá ósk til þessarar hv. d., að frv. þetta megi fá sem allra skjótasta afgreiðslu. Ég tel ekki þörf á að hafa fleiri orð um þá breyt., sem í frv. felst, nema sérstakt tilefni gefist til.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.