13.03.1967
Neðri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

159. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. felast ákvæði um algera endurskoðun á öllum þeim reglum, sem gilda um samskipti ríkis og sveitarfélaga um byggingu og rekstur þeirra skóla, sem byggðir eru og reknir sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Gildandi lög um þetta efni eru frá árinu 1953 og hafa allir, sem þessum málum eru kunnugir, verið á einu máli um, að tímabært sé orðið að láta fara fram gagngera endurskoðun á þeim reglum, sem um þessi efni gilda. Þetta frv. hefur lengi verið í undirbúningi og unnið hefur verið mjög rækilega að því.

Það var í apríl 1965, að ég skipaði n. til þess að endurskoða gildandi lög, og sú n. starfaði í eitt ár, lauk störfum í apríl 1966. Í henni áttu sæti Knútur Hallsson, deildarstjóri í menntmrn., sem var formaður n., Björn Halldórsson, skrifstofustjóri Reykjavíkurborgar, samkv. tilnefningu borgarstjórans í Reykjavík, Hafsteinn Baldvinsson, þáv. bæjarstjóri, samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, Tómas Gunnarsson, sem þá var fulltrúi í fjmrn., samkv. tilnefningu fjmrh., Aðalsteinn Eiríksson, fjármálaeftirlitsmaður skóla, Einar Bjarnason, ríkisendurskoðandi, og Helgi Elíasson fræðslumálastjóri. Má því segja, að upphaflega hafi unnið að þessari endurskoðun allir þeir embættismenn, er samkv. eðli málsins hljóta ýmist að þekkja þau mál, sem hér er um að ræða, eða hafa áhuga á skynsamlegri skipan þeirra.

Það frv., sem þessi n. samdi, var síðan athugað mjög rækilega, bæði í menntmrn. og fjmrn., og kom okkur fjmrh. saman um að fela enn nokkrum embættismönnum að fara rækilega yfir frv. fyrri n. Önnuðust það starf Birgir Thorlacius, ráðuneytisstjóri, Knútur Hallsson, deildarstjóri, Runólfur Þórarinsson, deildarstjóri í fræðslumálaskrifstofunni, Höskuldur Jónsson, deildarstjóri í fjmrn., og Torfi Ásgeirsson, skrifstofustjóri Efnahagsstofnunarinnar. Það eru þessir síðast nefndu menn, sem eru aðalhöfundar frv. eins og það liggur hér fyrir. En enn fremur hefur verið haft náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Kópavogskaupstað, þ.e.a.s. tvö stærstu sveitarfélögin, sem eru aðilar að skólabyggingum. Megintilgangur þessa frv. er sá að koma á einfaldari reglum um samskipti ríkis og sveitarfélaga, bæði að því er snertir stofnkostnað og rekstrarkostnað. Svo sem kunnugt er, gildir nú sú regla um skiptingu stofnkostnaðar þeirra skóla, sem ríki og sveitarfélög byggja saman, að ríkið greiðir helming af byggingarkostnaði heimangönguskóla, en 3/4 af byggingarkostnaði heimavistarskóla. Þeirri reglu er haldið í frv., að ríkið greiði helming af byggingarkostnaði heimangönguskóla, en hins vegar er hlutdeild ríkisins hækkuð upp í 85% í byggingarkostnaði heimavistarskóla. En auk þess er gert ráð fyrir því, að ef tvö eða fleiri sveitarfélög sameinast um byggingu heimavistarskóla, skuli ríkið greiða allan kostnaðinn við heimavistarhúsnæðið. Það nýmæli er tekið upp í frv., að greint er á milli kennsluhúsnæðis í skólabyggingu og heimavistarhúsnæðis í skólabyggingu, þ.e.a.s. það verður hætt að telja skóla annaðhvort heimavistarskóla eða heimangönguskóla. Ríkið greiðir ávallt helming af kostnaði við þann hluta byggingarinnar, sem notaður er við kennslu, en 85% eða jafnvel 100% af kostnaði við þann hluta byggingarinnar, sem er heimavist. Með því að kveða svo á, að ríkið skuli borga allan stofnkostnaðarhluta vegna heimavistar, ef tvö eða fleiri sveitarfélög sameinast um skólabyggingu, er að því stefnt, að sveitarfélög sameinist í enn ríkari mæli en þó á sér nú stað um byggingu heimavistarskóla í dreifbýlinu. Þá er og sú mjög mikilvæga breyt. gerð í þessu frv., að gert er ráð fyrir, að því verði hætt, að ríkið greiði ákveðinn hundraðshluta af byggingarkostnaði skóla, hver svo sem byggingarkostnaðurinn kann að reynast. En þannig hafa gildandi reglur allt til þessa dags verið og eru enn þann dag í dag. Ég tel, að hér sé um að ræða langmikilvægasta og langmerkasta nýmæli þessa frv.

Gert er ráð fyrir því, að komið verði á fót í menntmrn. sérstakri byggingadeild, þar sem starfi sérfróðir menn, verkfræðingur, arkitekt, húsameistari og byggingaeftirlitsmenn, og verði það m.a. verkefni þessarar deildar, að semja reglur um það, hver sé eðlilegur byggingarkostnaður skóla, þar sem hann er fyrirhugaður, m. ö. o., setja reglur eða norm um það, hvað teljast megi eðlilegur byggingarkostnaður skóla af ýmsum tegundum. Síðan er ákveðið, að ríkið borgi helming, 85% eða 100% af byggingarkostnaði skólans samkv. þessum normum, samkv. þessum reglum. Hlutaðeigandi sveitarfélög hafa forgöngu um skólabygginguna eftir sem áður. Ef sveitarfélaginu tekst að byggja ódýrar en hinar almennu reglur byggingadeildarinnar segja til um, er það hagnaður hlutaðeigandi sveitarfélags. Ef það hins vegar kýs að byggja dýrar eða af einhverjum ástæðum byggir dýrar, er það á ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags sjálfs og verður það að greiða kostnaðinn við það. Allir, sem um þetta hafa fjallað, eru á einu máli um, að hér væri stigið mjög mikilvægt spor í framfaraátt. Þessar reglur mundu hvetja til þess að byggja hagkvæmt og byggja ódýrt. En ef það tekst að byggja hagkvæmara og ódýrara en nú á sér stað eða hefur átt sér stað á undanförnum árum, má gera ráð fyrir, að það taki skemmri tíma en ella að fullnægja réttmætri eftirspurn eftir viðbótarskólahúsnæði.

Að því er snertir rekstrarkostnað skólanna, skiptingu hans, gilda nú um það mjög flóknar reglur. Ríkið greiðir nú eða greiddi 1964 (síðustu endanlegu tölur, sem fyrir liggja) 64% af rekstrarkostnaði barnaskóla í kaupstöðum. Það borgar 71% af rekstrarkostnaði heimangönguskóla utan kaupstaða og 76% af rekstrarkostnaði gagnfræðaskóla. Hlutdeild ríkisins í rekstrarkostnaði skólanna hefur heldur farið minnkandi á undanförnum árum samkv. þeim reglum, sem gilt hafa. Það er ekki tilgangur þess frv. að breyta kostnaðarhlutfallinu milli ríkisins og sveitarfélaganna, heldur er tilgangurinn sá að gera reglurnar, sem um skiptinguna gilda, einfaldari. Það er svo til ætlazt, að engin breyt. eða a.m.k. mjög lítil breyt. verði á hlutdeild ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar í rekstrarkostnaði skólanna. Sú litla breyt., sem verður, er frekar ríkinu í óhag, þ.e.a.s. sveitarfélögunum í hag, vegna þess að á undanförnum áratug hefur þetta hlutfall raskazt á hinn veginn. Meginreglan, sem nú kemur til með að gilda, er sú, að ríkið greiðir öll laun, bæði laun fastakennara og stundakennara, við alla skóla, sem ríki og sveitarfélög reka saman, en öðrum rekstrarkostnaði er skipt eftir tiltölulega mjög einföldum reglum, og fer hlutdeildin í kostnaðinum fyrst og fremst eftir því, hvort skólinn er lítill eða stór.

Á árinu 1962 samþykkti Alþ. lög, sem heimiluðu ríkissjóði að taka að sér rekstur héraðsskólanna svonefndu og samkv. þeim l. hafa allir héraðsskólarnir nema einn, Laugaskóli, verið afhentir ríkinu, sem síðan hefur annazt eitt allan rekstur þeirra og sömuleiðis staðið eitt straum af öllum viðbótarbyggingarkostnaði, sem stofnað hefur verið til í sambandi við héraðsskólana. Með þessum l. er aftur gerð nokkur breyt. í þessu efni.

Það er gert ráð fyrir því, að ríkið eitt skuli ljúka þeim byggingarframkvæmdum við alla héraðsskólana, sem nú standa þar yfir. Það er einnig gert ráð fyrir því, að ríkið skuli halda áfram að leggja út eða greiða allan rekstrarkostnað þeirra héraðsskóla, sem það nú rekur, en hins vegar er í l. ákvæði um það, að ríkið getur endurheimt venjulegan sveitarfélagshluta af rekstrarkostnaði þessara skóla hjá sveitarfélagi því, sem á nemanda í skólanum. Um héraðsskólana munu því í grundvallaratriðum gilda alveg sömu reglur og um alla aðra gagnfræðaskóla í landinu, þannig að ríkið annars vegar og sveitarfélögin hins vegar standa undir rekstri þeirra. En það verður ekki eitt ákveðið sveitarfélag eða nein ákveðin sveitarfélög, sem greiða sveitarfélagshlutann í rekstrarkostnaði héraðsskólanna, heldur þau sveitarfélög, sem eiga nemendur í héraðsskólunum. Hliðstæð regla er líka sett um gagnfræðaskóla, sem hafa nemendur úr öðrum skólahéruðum. Því skólahéraði, sem rekur gagnfræðaskóla, sem hefur nemendur úr öðrum skólahéruðum, er veittur réttur til þess að innheimta hjá sveitarfélagi nemandans sveitarfélagshlutann af rekstrarkostnaði þessa gagnfræðaskóla. Hlýtur þetta að teljast eðlilegt, að þau sveitarfélög, sem ekki hafa sjálf komið á fót gagnfræðaskóla, taki nokkurn þátt í rekstrarkostnaði þeirra gagnfræðaskóla, sem veita nemendum þessara sveitarfélaga gagnfræðamenntun.

Þá vil ég geta þess, að það er nýmæli í frv., að menntmrn. geti ákveðið listskreytingu skólamannvirkja, að fenginni umsögn hlutaðeigandi sveitarstjórna, og skuli kostnaðurinn við listskreytinguna teljast til stofnkostnaðar. Er heimild til þess, að listskreytingin megi kosta allt að 2% eða til hennar megi verja allt að 2% af stofnkostnaði skólamannvirkis, en þó ekki meira en ½ millj. eða 500 þús. kr. á hvern einstakan skóla. Eins og haft hefur verið náið samráð við sveitarfélögin, samband sveitarfélaganna og stærstu sveitarfélögin, við undirbúning þessa frv., er einnig talið æskilegt að hafa við framkvæmd málanna sem allra nánast samstarf við sveitarfélögin, og er, því lagt til í frv., að komið verði á fót fastri samstarfsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga, sem fá skuli til meðferðar öll framkvæmdaatriði varðandi þetta mál.

Með þessum orðum held ég, að ég hafi vikið að því, sem telja má meginatriði, kjarna þessa frv., og skal við svo búið láta sitja. Það er skoðun allra þeirra manna, sem að undirbúningi málsins hafa unnið, allra þeirra manna, sem um málið hafa fjallað, að hér sé mikið nauðsynjamál á ferðinni og mundi vera til mikilla bóta, að sú nýskipan, sem hér er gert ráð fyrir, komi sem fyrst til framkvæmda. Ég legg því mikla áherzlu á, að hið háa Alþ. afgreiði þetta mál nú, áður en þingstörfum lýkur.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. menntmn.