14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

159. mál, skólakostnaður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir álit minni hl. með fyrirvara, en ég vildi gera almenna grein fyrir minni afstöðu til þessa máls, en skal ekki fara nákvæmlega út í málið sjálft, enda hefur það verið rakið mjög ýtarlega af frsm. beggja hl. menntmn. Það, sem mér finnst fyrst og fremst að í sambandi við afgr. þessa frv., er sú afstaða hæstv. ríkisstj. gagnvart Alþ., sem fram kemur í því. Þetta er svo að segja að verða síður að koma með allstóra lagabálka á síðustu 2 vikunum inn á þingið, lagabálka, sem valda því, að það er svo að segja ómögulegt fyrir n. þingsins, hvað vei sem þær vilja vinna, að afgreiða þessi mál með eins góðu móti og þær mundu óska eftir. Það, sem m.a. veldur því, að þetta er allt miklu óhægara en vera þarf, er sá siður, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp, að láta vinna að undirbúningi svona mála einvörðungu af mönnum í sjálfu ríkisapparatinu, af mönnum, sem eru valdir til þess á hinum ýmsu skrifstofum eða úr stjórnarliðinu einvörðungu.

Ef ýmis svona mál væru annaðhvort undirbúin af mþn., sem allir flokkar ættu fulltrúa í, eða það væri valið í þær þannig, að flokkarnir hefðu a.m.k. óbeint aðstöðu til þess að láta menn, sem þeir treystu vel, kynna sér þessi mál, þá væri allt annar möguleiki á að afgr. svona mál fljótt. Ég held, að þetta sé að verða alveg óþolandi aðstaða. Það eru að verða nokkrir embættismenn ríkisstj. í Rvík, sem eru settir í að undirbúa málin, síðan er málunum fleygt inn á Alþ., þegar kannske 2 vikur eru eftir af þinginu og síðan ætlazt til þess, eins og nú í kvöld, að Alþ. bara afgreiði þetta. Þetta er svoleiðis óvirðing gagnvart Alþ., að það er ekki við það unandi. Þetta þýðir, að það er verið að gera nokkra embættismenn ríkisins að herrum Alþingis, og það á ekki að þolast.

Ég vildi minna á, að það var næstum því það sama, þegar vegalögin voru upphaflega samþ. og liggur við, að það sé svipað nú, þegar á síðan að afgreiða þau fyrir hver 2 ár í einu. Það, sem gerir sérstaklega erfitt með þetta frv. er, að það er ýmislegt gott í þessu frv., en þó sérstaklega fyrir þéttbýlið, en jafnframt því leggur þetta frv. mjög mikið aukið vald í hendur ríkisstj. Að sumu leyti mundu menn kannske segja, að það væri allt í lagi, vegna þess að þetta þýddi aukið aðhald, en það er nú ýmislegt líka við það að athuga. Það, sem ég óttast sérstaklega í sambandi við þetta frv. og yfirleitt þær tilhneigingar, sem fram koma nú víða í þjóðfélaginu, er það, að þeir aðilar, sem eru fjærst höfuðstöðvunum, verði útundan. Ég held, að þeir, sem afskekktastir eru, þeir, sem eru lengst frá í dreifbýlinu, komi til með að eiga einna erfiðast með að sætta sig við þetta frv. Sumar tilhneigingarnar í sambandi við það eru að vísu eðlilegar, það er mjög eðlilegt aðhald, sem verið er að skapa til þess að sjá t.d. um, að tvö sveitarfélög eða jafnvel fleiri sameinist um skólana, það er mjög eðlilegt. En engu að síður er þarna stundum um það að ræða, að erfitt er, svo að segja af landfræðilegum ástæðum, að koma þessu stranga aðhaldi við, án þess að ganga á rétt þess fólks, sem þarna á í hlut.

Og við vitum, hvernig ástandið er í þessum skólamálum. Við vitum, að það er enn þá svo, að það er jafnvel farkennsla, sem menn verða að búa við hér og hvar, og hingað til Rvíkur flytur fólk, sem hefur notið skólagöngu, ef það væri lagt saman, svona í hæsta lagi um 4 ár. Það er misréttið í þessum efnum, sem er ákaflega tilfinnanlegt, og það er ekki bætt úr því misrétti, heldur sums staðar jafnvel aukið með þessu frv. Þetta held ég, að ekki sízt við, sem í þéttbýlinu búum eða erum fulltrúar þess, verðum að leggja áherzlu á, að það dugar ekki, að sú tilhneiging verði ríkjandi í þjóðfélaginu, af því að meiri hl. t.d. allrar þjóðarinnar er nú hérna á 10–20 km svæði hér út frá, þá dugar ekki, að sú tilhneiging verði ráðandi, að svo framarlega sem sæmilega er gert við okkur, sem í þessu þéttbýli búum, þá megi hinir svo að segja eiga sig. Þetta er það, sem er að verða meinsemd í þeim þjóðfélögum, sem annars eru oft velmegandi, að þeir, sem verða útundan, eru það fjarri höfuðstöðvum alls atvinnu- og stjórnmálalífs, að þeir ná ekki rétti sínum.

Það var annað atriði, sem ég vil líka benda á í sambandi við þetta frv. Ég taldi fram sem einn af höfuðkostum þess, eins og fram kemur í II. kafla, 4. gr. og þar á eftir, að þarna eigi að gera miklar framkvæmdaáætlanir um skólabyggingar, og nú eigi að vinna þarna betur en áður. Ég hef áður vakið athygli á því og vil gera það enn, að það vinnst lítið með þessum áætlunum, jafnvel þó að þær séu til 10 ára og þar að auki hver um sig til eins árs, á meðan þessar áætlanir eru aðeins um eitt ákveðið svið í þjóðfélaginu. Þær verða venjulega tóm vitleysa. Ef þið búið til vegáætlun fyrir 10 ár, skólabyggingaáætlun fyrir 10 ár o.s.frv., en hafið enga heildaráætlun fyrir þjóðfélagið, verða allar áætlanirnar vitlausar, vegna þess að þá stemmir ekki, þegar þið leggið saman. Og helmingurinn af öllu í þjóðfélaginu er utan við þetta. Hverjar hafa svo orðið afleiðingarnar? Hér hafa komið lærðir menn frá efnahagsstofnunum og öllu mögulegu og útbúið hér áætlanir, og um leið og við erum búnir að samþ. áætlanir er komið með sérstök lagafrv., þar sem það er ákveðið, að nú skuli skera niður þessar áætlanir. Og af hverju? Af því að sá geiri í þjóðfélaginu, sá hluti í þjóðfélaginu, í atvinnulífinu sjálfu, sem er utan við þetta allt saman, sem er meiri parturinn, allur einkareksturinn, hann heimtar stundum meira til sín, og þá er farið að skera þetta niður. Það hefur verið samþ. hér á Alþ., nokkru eftir að fjárlög hafa verið samþ. skv. ákaflega finni áætlun, að skera niður 10%, 20% og annað slíkt af því.

Allur svona lagabókstafur verður meira eða minna tóm vitleysa, enda er gert ráð fyrir því strax í þessum l. Það stendur þarna í 4. gr.: „Framkvæmdaáætlun þessa skal endurskoða svo oft sem ástæða þykir til.“ Þetta er í raun og veru einfalt samlagningarspursmál, þar sem þarf að kenna ríkisstj. að leggja saman. Að kunna að leggja saman alla geirana í þjóðfélaginu, einkareksturinn, opinbera reksturinn og annað slíkt, og sjá þá, hvernig stendur og hvers konar áætlun maður getur gert. Þess vegna verður það svo, að þar sem hér er talað fallega um áætlun, verður í framkvæmd höft — það verður í framkvæmd höft. Það er ekki til neins fyrir Sjálfstfl. eða Alþfl. að fara að státa sig af því að vera þarna með einhvern áætlunarbúskap. Þetta nýtist ekki, nema það verði ein heild og þá fyrst og fremst heild viðvíkjandi atvinnulífinu sjálfu. Enda verður þetta svo, að um leið og við höfum verið búnir að samþ. áætlanir um sjúkrahús og fjárveitingar um sjúkrahús og skóla og slíkt, er komið rétt á eftir og þetta er skorið niður. Þá er það gamla haftapólitíkin, sem allt í einu er komin í staðinn fyrir þann fagra áætlunarbúskap, sem þarna er verið að státa af.

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því, að það er gengið of langt í því aðhaldi, sem hér er verið að skapa. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, sem stendur hér í 9. gr., seinni partinum af henni, með leyfi hæstv. forseta: „Séu þegar samþ. fjárveitingar Alþ. til skólamannvirkis ónógar til að greiða 1/3 af áætluðu stofnkostnaðarframlagi ríkisins, má menntmrn. eigi leyfa að hefja framkvæmdir fyrr en að fengnu skriflegu samþ. fjmrn.“ Þetta er nýtt ákvæði. Þetta er ákvæði, sem ekki var í gömlu l. nr. 41, frá 17. maí 1955. Þarna er tekið fram, að ef hafnar eru framkvæmdir án þess að framantöldum skilyrðum sé fullnægt, er stofnkostnaður ríkissjóði, óviðkomandi, og að ekki sé heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en fyrsta fjárveiting er fyrir hendi. En hvernig lítur þetta út gagnvart almenningi og gagnvart allri okkar venju hér í okkar stjórnskipun? Hér er tekið upp það ákvæði, að parti af ríkisstj., þ. e. menntmrn., er með l. bannað að gera ákveðinn hlut nema með skriflegu samþ. fjmrn., annars partsins af ríkisstj. Ég vil leyfa mér að biðja menn að athuga þetta. En til nokkurt sambærilegt ákvæði í íslenzkum l.? Við höfum auðvitað ákvæði um það, að sveitarfélög mega t.d. ekki hefja ákveðnar byggingar eða annað slíkt, án þess að fyrir liggi skriflegt samþykki frá ríkisstj. Ríkisstj. er einn aðili gagnvart almenningi í landinu. Það er ekki til nema ein ríkisstj., það er ekki til, þannig séð, eitt menntmrn. og eitt fjmrn. gagnvart almenningi í landinu, það er til ein ríkisstj., sem ber ábyrgð á hlutunum. Og það er ekki hægt bókstaflega að setja svona ákvæði í lög. Svona hlut koma ráðh, sér saman um. Þegar útbúin eru fjárlög, hefur fjmrh. það svo, að hann ræðir við hina ráðh. áður, fær hjá þeim uppástungur og annað slíkt. En það er ekki hægt að setja það í l., að einn hluti úr ríkisstj. megi ekki gera eitthvað, nema annar hluti úr ríkisstj. hafi samþ. það. Ríkisstj. er ekki nema einn aðili gagnvart alþjóð í þessum efnum. Ef fjmrh. vill tryggja sig vel í þessum efnum, verður hann að gera það innan ríkisstj. Hann verður að segja við viðkomandi ráðh., t.d. menntmrh. eða utanrrh., ef honum finnst þeir ætla að eyða of miklum peningum eða leyfa of mikið eða annað slíkt: Ég mun ekki leggja fram fjárlög um t.d. aukafjárveitingar til þess arna. Þetta er hlutur, sem ein ríkisstj. verður að skipuleggja innan sinna vébanda. Mér finnst satt að segja hneyksli að sýna svona á prenti.

Ég verð að segja það líka, bæði í sambandi við þessa grein og fleiri þarna, t.d. 13. gr., að það er alltaf verið að draga þarna úr valdi Alþ. í fjármálum, og það er þó höfuðvald Alþ. Þegar Alþ. er einu sinni búið að veita fé til einhvers, er það þar með gert, og eiga ekki aðrir menn, meira að segja þó að ráðherrar séu, að geta skipt sér þar af. Það á að framkvæma þann hlut, það er fyrirskipun frá Alþ.

Ég skal ekki endurtaka neitt um ýmislegt það góða, sem í þessu frv. er, og greinilega var sýnt fram á hér, bæði af frsm. meiri hl. og minni hl., en það, sem er þarna hættulegt, er, að það er verið að sameina of mikið vald á ákveðnum stað í embættismannastéttinni og draga að sama skapi úr valdi Alþ. Jafnframt er verið að gera aðstöðu fólks úti um land erfiðari gagnvart miðvaldinu í Reykjavík. Ég verð að segja, að svona frv. eins og þetta hefði maður átt að fá það snemma, að það hefði verið hægt að senda það til umsagnar út um land, t.d. til fræðslunefndanna. Til þess eru n. Alþingis og það er vani einmitt, að í byrjun þings séu svona stór frv. lögð fram, svo að það sé góð aðstaða til að senda þau út og fá þannig umsögn um þau. Það er það, sem hefði verið æskilegt í þessu máli. Nú er sem sé svo komið, að ríkisstj. leggur mikla áherzlu á að fá þetta frv. fram. Ég mundi þá vilja spyrja, ef hæstv. menntmrh, væri hér: Vill ríkisstj. reyna að sýna hér einhverja sanngirni á móti? Menntmn. hefur, þennan örskamma tíma, sem hún hefur haft, unnið vel í þessu máli, og það hafa margar góðar breyt. fengizt þarna fram, sem koma fram í áliti meiri hl. og mælt var fyrir, og það eru margar góðar till., sem enn fremur koma fram í áliti minni hl. Vill nú hæstv. ríkisstj. sýna einhverja verulega sanngirni í smáu og stóru að einhverju leyti? Ég vil taka lítið dæmi í sambandi við 21. gr. Við leggjum þar til í minni hl., að felldar séu niður tvær seinni mgr. og orðalagi gr. breytt, sem þýðir raunverulega, að fellt sé niður að endurkrefja skuli heimasveitir þeirra nemenda, sem sækja vissa skóla, um kostnað við þá skóla. Þetta er ekki stórt atriði. Þetta er smáatriði. En ég álít, að það þurfi að reyna á þetta og enn fremur ýmislegt af stærri atriðunum, sem þarna eru lögð til.

Ég vil hins vegar, fyrir utan þær till., sem hér hafa komið fram, leyfa mér að bæta við brtt. út af 9. gr., þess efnis, að 3. málsl. hennar falli niður. Ég skal svo ekki draga umr. um þetta mál, enda fáir fundarmenn orðnir eftir, og ráðh. ekki einu sinni við, en vil biðja hæstv. forseta að leyfa afbrigði fyrir þessari till.