17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

159. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns og till. þeirra þriggja hv. þm. Austf., vildi ég aðeins ítreka og undirstrika það, sem ég sagði víð 2. umr. málsins varðandi Eiðaskóla. Ég tel áfram algerlega vera staðið við þann samning, sem á sínum tíma var gerður milli Múlasýslna og ríkissjóðs varðandi rekstur Eiðaskóla. Eiðaskóli er áfram ríkisskóli. Það er skýrt tekið fram í l., að hann muni verða áfram ríkisskóli. Hitt er svo annað mál, að samningur um það, að ríkið skuli áfram reka skóla í Múlaþingi, getur að sjálfsögðu ekki komið í veg fyrir, að Alþ. t.d. setti lagaákvæði um skólagjöld fyrir slíkan ríkisskóla. En það er í raun og veru hliðstætt því, sem hér er að gerast. Hv. þm. vitnaði í það ákvæði samningsins, að ríkissjóður skuli að öllu leyti kosta skólann. Ég bendi á það, að skólinn er heimavistarskóli og nemendur greiða gjald fyrir sína vist í heimavistinni og engum hefur nokkurn tíma dottið í hug, að slík greiðsla væri í ósamræmi við ákvæði samningsins. Ég lít þess vegna þannig á, að ákvæði samningsins séu að fullu og öllu haldin, þó að frv. sé samþ. eins og gert er ráð fyrir varðandi Eiðaskóla.