17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

159. mál, skólakostnaður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að ræða hér aðeins um eitt atriði í þessu frv., en það er það atriði, sem nokkuð hefur verið hér minnzt á í þeim umr., sem hér hafa farið fram, og varðar þau ákvæði í frv., að innheimta skuli gjald vegna rekstrarkostnaðar framhaldsskóla hjá þeim sveitarfélögum, þaðan sem nemendur koma í þessa skóla. Þessi ákvæði er að finna í 21. gr. frv., í tveimur síðari mgr. þeirrar gr. Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég lýsi alveg undrun minni yfir því, að hæstv. menntmrh. skuli vilja taka upp þennan hátt, sem þarna er gert ráð fyrir. Og ekki sannfærðist ég um nauðsynina á þessum ákvæðum af því, sem hæstv. menntmrh. sagði hér, þegar þetta mál var hér síðast til umr. varðandi þetta atriði.

Samkv. þessari gr. er gert ráð fyrir, að í sjö tilteknum ríkisskólum, héraðsskólum, — skuli sá háttur verða tekinn upp, að í stað þess að ríkið hefur greitt allan rekstrarkostnað þessara skóla á nú að fara að innheimta tiltekinn hluta af rekstrarkostnaði skólanna frá þeim sveitarfélögum, þaðan sem nemendur koma í skólann. Og hér er ekki aðeins um heimildarákvæði að ræða, heldur er hér um beina skyldu að ræða. Þetta mundi þýða það í framkvæmd, að frá þessum skólum verða auðvitað sendir út reikningar til fjölda margra sveitarfélaga í landinu og þau krafin um tiltekna greiðslu miðað við nemendafjölda, sem kemur úr hverju einstöku sveitarfélagi. Og þetta er gert til þess að létta eitthvað á ríkissjóði. Ekki vildi nú hæstv. menntmrh. þó leggja aðaláherzlu á það, en vegna hvers þá? Jú, það er gert vegna þess, að menn vil ja reyna að skapa samræmi varðandi þennan rekstrarkostnað hjá þessum 7 héraðsskólum og hliðstæðum skólum, sem reknir eru t.d. í kaupstöðum landsins, þ.e. í gagnfræðaskólum. En þar verða viðkomandi kaupstaðir eða sveitarfélög að borga þennan tiltekna rekstrarkostnað skólanna. Og hæstv. menntmrh. virtist telja, að hér væri um svoleiðis fádæma misrétti að ræða á milli þessara gagnfræðaskóla í kaupstöðum og þessara 7 héraðsskóla, að við það væri ekki unandi. Og hann beinlínis túlkaði málið hér þannig, að til þeirra í menntmrn. kæmu fulltrúar frá bæjar- og sveitarfélögum og bæru sig upp undan þessu. Ja, að því leyti, sem ég þekki til, er þessu ekki svona varið og ég trúi því varla, að það séu til þeir sveitarstjórnarmenn, sem í fullri alvöru eru að gera kröfu um það að taka upp slíka innheimtuaðferð sem þessa, svo hvimleið sem hún hlýtur að vera, til þess að koma á þann hátt nokkrum gjöldum á einstök sveitarfélög í landinu, svo að þau geti þá sagt, að þau verði að standa undir svona kostnaði vegna þessara héraðsskóla, eins og kaupstaðirnir verða að standa undir vegna sinna gagnfræðaskóla.

Ég held, að hér hafi í rauninni ekki verið á ferðinni neitt annað en það, sem við þekkjum í fjölda mörgum öðrum tilfellum. Við vitum, að í mörgum öðrum greinum hefur ríkið lagt af mörkum nokkuð meiri fjárhæð, bæði til reksturs og stofnkostnaðar og annars þess háttar, þar sem í hlut hafa átt minni sveitarfélög eða sveitarhreppar, en kaupstaðirnir hafa sætt sig við það vegna allrar sinnar miklu sérstöðu í þessum málum að fá þar nokkru minni stuðning frá ríkinu og hafa ekki amazt þar við. Þetta hefur verið svona í fjölda mörgum greinum. Ég held því, að þessi rök séu afskaplega léttvæg og það eigi ekki að taka upp jafnhvimleiðan hlut sem þetta af þessum ástæðum.

Þá er einnig í þessari sömu gr. gert ráð fyrir því, að kaupstaðirnir, sem reka gagnfræðaskóla, geti tekið upp sams konar innheimtuaðferð varðandi þú nemendur, sem til þeirra leita. Og það er vitanlega verið að gæta samræmis í þessum efnum. Þar með upphefst sú leikur, að þegar nemendur úr nærliggjandi sveitarfélögum hér við Reykjavík leita í gagnfræðaskólana í Reykjavík, og það sama gildir auðvitað á öðrum stöðum í landinu, getur Reykjavík farið að senda reikninga til sveitarfélaganna og krafið þau um tiltekinn hluta af rekstrarkostnaði skólanna, vegna þess að nemendur úr öðrum sveitarfélögum höfðu leitað í þessa skóla. Ég trúi því varla, að Reykjavíkurborg sendi marga slíka reikninga, þó að hún fái heimild til þess arna. Ég rak mig strax t.d. á það, að bæjarstjórinn hjá okkur í Neskaupstað vakti sérstaka athygli mína á þessum gr. báðum og lýsti eindreginni andúð sinni á þeim. Hann sagðist ekki óneyddur taka upp á því að senda svona reikninga til annarra sveitarfélaga, þó að nemendur hefðu komið í gagnfræðaskólann í Neskaupstað úr öðrum sveitarfélögum. Við lítum þannig á, að þeir nemendur, sem leita í gagnfræðaskólann í Neskaupstað frá nærliggjandi sveitarfélögum, hafi ærinn vanda að leysa og þau sveitarfélög á óbeinan hátt líka, þó að ekki sé farið að bæta við það að innheimta af þeim sérstök gjöld vegna skólaverunnar. Og það er ábyggilegt, að hafi þetta ákvæði í síðustu mgr. 21. gr. verið sett inn eftir einhverjum tilmælum sveitarstjórnarmanna, eru þar fáir menn á ferð. Þetta er ekki ósk sveitarstjórnarmanna, það er alveg ábyggilegt.

Þar að auki er það svo þannig, að þær röksemdir, sem færðar eru fram einnig fyrir þessu ákvæði, standast ekki eins og þær koma hér fram í frvgr. Hæstv. menntmrh, sagði, að sum sveitarfélög gætu komið sér undan því að koma upp skólum og reka skóla eða taka á sig þennan kostnað með því að senda nemendur sína í skóla á öðrum stöðum, og af því væri alveg nauðsynlegt að hafa svona ákvæði. En hvað er þá að segja um það, að þeir staðir, sem hafa komið sér upp gagnfræðaskóla og reka hann, eiga einnig samkv. þessu ákvæði að þurfa að borga fyrir þá nemendur, sem leita í aðra skóla. Þetta mundi þýða það í framkvæmd, að þegar svo vill til, að einhverjir nemendur úr Neskaupstað leita í gagnfræðaskóla á Ísafirði og einhverjir frá Ísafirði leita til Neskaupstaðar, þá ætti bæjarstjórnin í Neskaupstað að senda þeim á Ísafirði reikning vegna Ísafjarðarnemendanna, því að Ísafjörður á að taka ákveðinn þátt í greiðslu rekstrarkostnaðar gagnfræðaskólans á Neskaupstað, og svo kæmi auðvitað annar reikningur frá Ísafirði til Neskaupstaðar. Hver er það, sem óskar eftir slíku brölti sem þessu? Hver er það? Auðvitað er það ekki bæjarstjórnin í Neskaupstað, sem er að senda nemendur til Ísafjarðar í skóla þar, og ekki bæjarstjórnin á Ísafirði, sem er að senda neinn nemanda. Það er frjálsræði í þessu landi að velja sér skólastað, ef hægt er að fá þar pláss, nemendurnir ákveða þetta sjálfir. Viðkomandi staðir hafa þegar lagt á sig þau útgjöld, sem stafa af því að koma upp skóla og reka svona skóla. En eigi að síður er gert ráð fyrir því, að þessir staðir verði að taka þátt í því að greiða fyrir þá nemendur, sem frá þessum stöðum fara í aðra skóla. Og hæstv. menntmrh. taldi nú, að það væri hægt að koma þessu öllu fyrir á mjög einfaldan hátt, því að það væri hægt að skiptast á með þetta reikningsuppgjör allt hér í rn. fyrir sunnan, þar sem þessi mál öll gengju í gegn og það mundu því einhverjir menn hér syðra taka að sér þetta aukabókhald allt að gera upp á milli sveitarfélaganna í sambandi við svona tilfærslur á nemendum. Það fengju þá einhverjir vinnu við þá skýrslugerð. En hvað um það. Ég held, að þetta sé ekki einu sinni svona einfalt. Ég held, að þeir geti þetta ekki í mörgum tilfellum. Í sumum tilfellum mundi samkv. þessu verða sendur reikningur til sveitarfélags, sem hreinlega rekur engan skóla, bara engan. Þannig getur staðið á. Hvað verður þá um þann reikning og þá kröfu? Þá þarf sá staður, sem á kröfuna á þetta sveitarfélag, sennilega að elta þetta uppi, kannske með málsókn eða öðru slíku. (Gripið fram í.) Þetta er svo fráleitt, að ég trúi því bara ekki, að í slíkum lagabálki, sem liggur hér nú fyrir og efalaust eru mörg merkileg ákvæði í, — ég trúi því bara ekki, að hæstv. menntmrh. leggi neitt ofurkapp og að halda slíkum óskapnaði inni í frv. sem þessu. Þar að auki vil ég benda á það, að ég er ekki í neinum vafa um, að þetta verður mjög leiðinlegt í framkvæmd í einstökum persónulegum tilfellum. Ég býst við, að þegar svo vill til í einu byggðarlagi, að sumir foreldrar hafa sent börn sín í skóla annars staðar af ýmsum ástæðum, þá verði þau ekkert ánægð yfir því að heyra í sínu litla sveitarfélagi, að það hafi nú verið krafið um ákveðin útgjöld vegna þess að þau sendu sína nemendur í aðra skóla. Ég býst ekki við því, að menn verði á litlum stöðum ánægðir yfir slíku.

E. t. v. ættum við svo eftir að glugga í hreppsreikningana — og þá skulum við bara hugsa okkur það, að jafnvel hittist nú svo á í einhverju tilfelli, að oddvitinn í hreppnum leyfði sér að senda eitt eða tvö af börnum sínum í skóla annars staðar. Svo kæmi einn liður í næsta hreppsreikningi: Greitt í rekstrarkostnað í þessum og þessum skóla vegna barna oddvitans. Ég býst við því, að í ýmsum slíkum tilfellum þætti mönnum þetta heldur hvimleitt, og ég skil ekki, hvað getur í rauninni legið til þess, að reynt er að halda þessu fram. Það er ábyggilegt, að það er óþarfi að vera með þetta vegna þess að sveitarstjórnarmenn óski almennt eftir þessu. Það er einhver misskilningur þar á ferðinni. Ef til vill eru þeir sveitarstjórnarmenn, sem telja sig hafa óeðlileg útgjöld af því, að nemendur í öðrum sveitarfélögum sæki í skóla þeirra, hafa þeir eflaust í framkvæmd alla möguleika til þess að koma sér undan slíku, án þess að taka upp ákvæði eins og þetta.

Ég vil svo víkja aðeins að því, sem hér var sagt af hv. 1. þm. Austf. varðandi Eiðaskóla og að svari hæstv. ráðh. Það er ekki deilt um það, að Eiðaskóli eigi að vera ríkisskóli og rekinn fullkomlega af ríkinu samkv. samningi, það viðurkennir hæstv. ráðh., ríkisskóli, þar sem ríkið eigi að hafa allan kostnað af rekstri skólans. En nú er verið að byggja hér upp ákveðið kerfi um það, að tiltekinn hluti af rekstrarkostnaði þessa skóla á ekki lengur að greiðast af ríkinu, heldur af sveitarfélögum þeirra unglinga, sem í skólann koma. Með þessu er auðvitað verið að víkja frá því, að þetta sé í raun og veru hreinn ríkisskóli. Það er verið að velta tilteknum hluta af rekstrarkostnaðinum yfir á aðra. Og hæstv. ráðh. hefur hér sagt í umr. áður, að það sé verið að gera þetta til þess að gera rekstrarfyrirkomulag þessara skóla að þessu leyti sambærilegt við það, sem er hjá skólum þeim, sem ekki eru ríkisskólar, hjá sveitarfélagaskólum. Það þurfti einmitt að byggja upp sérstakt kerfi til þess að hafa þarna jöfnuð á milli, m. ö. o., það er verið að stíga hér skref í þá átt að hætta að hafa þessa skóla, sem hér voru teknir upp sem algerir ríkisskólar og áttu að rekast á kostnað ríkisins, í raun og veru sem ríkisrekna skóla og verið að koma rekstrarkostnaði þeirra fyrir á svipaðan hátt og nú er í skólum kaupstaðanna. Þetta hlýtur hæstv. menntmrh. að sjá, að er hreinn orðaleikur af hans hálfu. Með því að velta þessum hluta af rekstrarkostnaði skólans yfir á sveitarfélögin á hliðstæðan hátt og hann segir, að sé hjá gagnfræðaskólunum, er hann að hlaupast undan því samningsákvæði, sem ríkið er bundið við, en það er það, að ríkið eitt reki skólann.

Varðandi Eiðaskóla kemur þetta þannig út í framkvæmd, að yfirgnæfandi meiri hl. nemendanna í skólanum er úr sveitarfélögunum í Múlasýslum, sem sömdu við ríkið. Nú á kannske ekki að beinu formi til að láta Múlasýslur borga þennan kostnað, en það á hins vegar að láta sveitarfélögin í Múlasýslum borga kostnaðinn. Þetta er auðvitað í framkvæmd að svíkja samninginn. Og því held ég, að í raun og veru sé það svo, að ríkið komist ekki upp með þetta samkv. þeim samningi, sem fyrir liggur.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, því að það var ekki ætlun mín að tala hér langt mál um þetta frv. Það eru, eins og ég sagði, mörg ákvæði í frv., sem eru til bóta. Ég hef því miður ekki getað kynnt mér þetta nægilega vel. En það sé ég strax, að þessi ákvæði, sem felast í 2. og 3. mgr. 21. gr. frv., eru alveg fráleit og af því beini ég þeim orðum mínum enn einu sinni til hæstv. menntmrh., að hann taki þetta á ný til athugunar að mæta þeim fjölmörgu óskum, sem hér hafa komið fram um það að fella niður þessi ákvæði. Þau hafa hér ekkert að gera. Og ég beini þeim orðum mínum einnig hér til hv. þm. — og þá ekki sízt til þm. úr stjórnarliðinu — að þeir telji sig ekki svo bundna í þessu máli, að þeir geti ekki breytt ákvæðum eins og þessu. Ég trúi því ekki, að nokkur hv. þm, óski eftir því í raun og veru, að þessi innheimtuaðferð verði tekin upp. Ég held, að það sé rétt að hafa þetta eins og það hefur verið. Það er búið að standa þannig í nokkur ár, að héraðsskólarnir eru reknir að fullu og öllu af ríkinu og ég tel, að það eigi að gerast áfram, og þeir, sem reka gagnfræðaskólana og hliðstæða skóla, eigi að standa undir rekstri þeirra eins og verið hefur, og það eigi ekki að vera að blanda nemendunum inn í þetta mál á einn eða neinn hátt eða sveitarfélögum þeirra. Það vinnur enginn neitt á þessu. Ríkið getur kannske velt af sér nokkrum kr. á hverju ári, en það er í rauninni slíkt lítilræði, að það skiptir hér engu máli.

Ég skal svo ljúka þessu og vænti þess, að tillit verði tekið víð nánari athugun til þessara sjónarmiða, sem ég hef hér sett fram.