17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

159. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram af hálfu þm. Austf., að ákvæði þessa frv. um alþýðuskólann á Eiðum fái ekki staðizt vegna þess samnings, sem á sínum tíma., 1917, var gerður á milli Múlasýslna og ríkissjóðs og síðar var staðfestur með sérstakri lagasetningu. Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að ákvæði frv. fái staðizt. En með hliðsjón af því, að þeirri skoðun hefur hér verið andmælt af hálfu þm. þess kjördæmis, sem hér á hlut að máli, tel ég ekki rétt, að atkvgr. fari fram nú á þessu þingi um þetta ákvæði, en ég mun gera ráðstafanir til þess, að lögfræðileg hlið þess verði athuguð í sumar, þannig að málið geti komið til kasta Alþ. aftur á næsta hausti og þá að undangenginni lögfræðilegri athugun á þessu atriði. En vegna þess að alveg hliðstæð ákvæði eru í frv. um aðra héraðsskóla í landinu, tel ég líka rétt, að ákvæðin um þá verði tekin út úr frv. og komi síðan aftur til kasta Alþ. á næsta hausti. Í kjölfar þessa siglir svo enn það, að fella þyrfti niður til samræmis úr frv. það ákvæði, setri gerir ráð fyrir heimild til sveitarfélaga, sem láta nemendum úr öðrum sveitarfélögum í té kennslu í skólum gagnfræðastigs, til þess að endurkrefja heimasveitir nemendanna. Í samræmi við þetta leyfi ég mér að flytja skriflega brtt., sem ég skal lesa, með leyfi hæstv. forseta. Hún er mjög einföld. 1. liður er um það, að 14. gr. falli niður, en það er sú gr., sem í frv. er um héraðsskólana. 2. till. er um það að fella niður síðasta málsl. 1. mgr. 21. gr., en hann hljóðar svona:

„Ríkissjóður greiðir ekki kostnað samkv. þessari mgr. vegna skóla, sem taldir eru í 14. gr. og eru að öllu leyti eign hans.“

Þetta þarf sjálfsagt að falla niður líka. Og enn fremur þurfa 2. og 3. mgr. 21. gr. að falla niður, en þar eru reglurnar um heimildina til að endurkrefja heimasveit nemendanna um hlutdeild í sveitarfélagakostnaðinum.

Ég leyfi mér síðan að afhenda hæstv. forseta þessar till.