17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

159. mál, skólakostnaður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar kvatt mér hljóðs við 2. umr. þessa máls og ætlaði þá að ræða nokkuð um frv. í framhaldi af þeim umr., sem fram höfðu farið af hálfu meiri og minni hl. hv. menntmn. Vegna einhvers misskilnings hafði nafn mitt fallið út af mælendaskránni, þannig að það varð ekki úr því, að ég tæki þá til máls.

Ég hafði hugsað mér að ræða í þess stað málið nokkuð við 3. umr., en mun nú ekki eyða til þess löngum tíma. Ég vildi þó minnast á það m. a., að ég hef nokkurn beyg af því ákvæði frv., sem gerir ráð fyrir því, að í stað þess, að ríkið greiðir nú stofnkostnað skóla á fimm árum, skuli það greiða hann á þremur árum, ekki vegna þess að það væri ekki í sjálfu sér mjög æskilegt, að ríkið gæti lokið stofnkostnaðargreiðslum sínum á þremur árum, heldur vegna þess að mér er fullkunnugt um, að ríkið hefur í seinni tíð átt mjög erfitt með að inna af hendi 5 ára greiðslur sínar í tæka tíð. Þetta mun mörgum vera minnisstætt frá afgreiðslu fjárl, í vetur. Mér er það t.d. minnisstætt, að sem fyrsta greiðsla í skóla, sem á að kosta eitthvað 7–8 millj., voru á fjárl. veittar, ef ég man rétt, 400 þús. kr. og sem fyrsta greiðsla í skóla, sem munu kosta tugi millj., a.m.k. eina tvo, sem ég man eftir, voru veittar sem fyrsta greiðsla 1.4 millj. kr. Og mér er það jafnkunnugt, að allmikið skortir á, að ríkissjóður hafi greitt sinn hluta á 5 árum til ýmissa skóla, sem í smíðum hafa verið, þannig að þar er nú að myndast skuldahali eins og hjá höfnunum.

Nú er mér spurn: Hvernig hefur hæstv. menntmrh, hugsað sér að framkvæma þetta nýja ákvæði l.? Hefur hann gert ráðstafanir til þess fyrir sitt leyti, að það fé, sem ríkissjóður veitir árlega til skólabygginga, verði aukið svo mjög, að ekki einungis verði hægt að standa í skilum með greiðslur samkv. 5 ára ákvæðinu, heldur verði einnig hægt að standa í skilum á þrem árum, eða er það meiningin að fækka svo mjög þeim skólabyggingum, sem ríkið styrkir árlega, að sú fjárhæð dugi, sem á fjárl. er til þess að greiða upp ríkishlutann á þrem árum? Af þessu hef ég nokkrar áhyggjur í sambandi við þetta ákvæði og áhyggjur af því, hvernig fer þá um marga af þeim skólum, sem menn hafa gert ráð fyrir að hefjast handa um að byggja á næstunni og ljúka á 5 árum.

Hæstv. menntmrh. er ekki viðstaddur hér í d. nú og hann var heldur ekki viðstaddur við 2. umr., að ég ætla, þegar verið var að spyrjast fyrir um ýmis atriði í sambandi við þetta frv. Ég hefði einnig viljað spyrjast fyrir um það — ég veit ekki, hver því vill svara í fjarveru ráðh. — í sambandi við 2. gr., þar sem það er algerlega lagt á vald menntmrn. að ákveða skiptingu landsins í fræðsluhéruð og skólahverfi og ekki gert ráð fyrir, að fræðsluráð heima í sýslunum hafi þar um neitt annað að segja en láta í ljós álit sitt, hvort það sé svo, að undanfarið hafi verið uppi ágreiningur milli menntmrn. og fræðsluráðanna um staðsetningu skóla og skiptingu í skólahéruð eða skólahverfi? Ég veit, að slíkur ágreiningur hefur verið uppi milli fræðslumálastjórnarinnar og sumra sveitarstjórna. En það, sem ég er að spyrja um, er það, hvort uppi hafi verið slíkur ágreiningur, þannig að til baga hafi verið, milli fræðslumálastjórnarinnar og fræðsluráðanna, sem taka hvert um sig yfir heila sýslu. Það er annað mál. Þetta vildi ég nú minnast á, hvort sem svör við því koma nú eða ekki. Þau koma þá kannske í hv. Ed., ef málið kemst þangað.

Ég vildi líka skjóta því fram, að einhvers staðar í þessu frv. er ákvæði um það, að menntmrh. geti ákveðið, að skreyta skuli skólahús með listaverkum og verja til þess viðbótarupphæð, sem nemi 2% af byggingarkostnaðinum. Einhvers staðar í grg. er áætlun um það, hverju þetta geti numið og eru það töluverðar upphæðir. Þetta er í 10. gr. Þar segir:

Menntmrn. getur að fenginni umsögn sveitarstjórnar, ákveðið listskreytingu skólamannvirkja, og telst kostnaður, sem af því leiðir, til stofnkostnaðar. Má verja í því skyni 2% af stofnkostnaði skólamannvirkis miðað við reglur byggingadeildar, þó aldrei hærri fjárhæð en 500 þús. kr. til hvers einstaks skóla, að viðbættri hækkun samkv. byggingarvísitölu, sbr. 8. gr.

Það er út af fyrir sig ekki nema gott um það að segja, að skólamannvirki og skólahús verði skreytt listaverkum, en það kann að skipta nokkru máli, hver þessi listaverk eru, og mér er spurn, af því að ég átta mig ekki alveg á því samkv. gr.: Er það menntmrn., sem ákveður það, með hvaða listaverkum einstök skólahús verði skreytt og er það þá kannske meiningin, að ríkissjóður greiði einn kostnaðinn við þessa skreytingu? Það skiptir nokkru máli. Í gr. stendur, að þetta geti orðið ákveðið „að fenginni umsögn sveitarstjórnar,“ en ekki gert ráð fyrir því, að sveitarstjórnin geti fyrir sitt leyti ráðið þessu eða komið fram með hindranir. Mér finnst nú eðlilegt, að þetta hefði verið ákveðið í félagi af menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða skólanefnd, a.m.k. ef sveitarfélögin eiga að greiða hluta af þessu. Um þetta óska ég upplýsinga. Ég sé, að hæstv. menntmrh. er hér kominn, svo að hann ætti að geta svarað þessu og eins því, sem ég spurði um áðan, hvort uppi hafi verið ágreiningur, sem til baga hafi orðið, milli fræðslumálastjórnarinnar og fræðsluráða, ekki sveitarstjórna og skólanefnda, heldur fræðsluráða, um skiptingu fræðsluhéraða og staðsetningu skóla. Um þetta vil ég gjarnan fræðast. En það fyrsta, sem ég spurði um var, hvernig hæstv. menntmrh, hefði hugsað, sér það, ef í gildi gengur ákvæðið um, að ríkið skuli greiða framlag sitt til skólamannvirkja á þremur árum, hvort hann hefði hugsað sér og kannske gert ráðstafanir til þess, að framlög ríkisins í heild yrðu hækkuð frá því, sem nú er, sem þessu svarar eða hvort það er meiningin, að þeim mun minna verði unnið að skólabyggingum og að ýmsir skólar verði að bíða því lengur sem þessu nemur. Svo vil ég segja það, að þar sem gert er ráð fyrir því í frv., að ríkið greiði að fullu kostnað við að byggja heimavistir við skóla skyldustigsins, þ, e. a. s. barnaskóla og unglingaskóla finnst mér eiginlega fremur óeðlilegt, að hið sama gildi ekki einnig um heimavistir gagnfræðaskóla. En um það ætla ég ekki nánar að ræða.

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs vegna brtt., sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. á þskj. 545 við 14. gr. frv. Nú hefur hæstv. ráðh. lagt til, að þessi gr. falli niður, og vegna þess munum við bera fram skrifl. brtt. um, að breytingin verði gerð á annarri gr. Ég ætla ekki að fara að ræða það deilumál, sem hér hefur komið fram í sambandi við þá héraðsskóla, sem eru orðnir ríkiseign, enda þótt ég sé þeirrar skoðunar, að þeir, sem hafa gagnrýnt þá gr., hafi mikið til síns máls.

Í 3. mgr. 14. gr. stendur: „Laugaskóli í Suður-Þingeyjarsýslu komi undir ákvæði þessarar gr., verði sá skóli afhentur ríkinu samkv. heimild í l. nr. 34 1962.“

En í l. nr. 34 1962, sem eru skólakostnaðarlög, er ákvæði um það, að ríkið skuli taka að sér sem sína eign og til rekstrar nokkra tiltekna héraðsskóla, sem þá voru starfandi. Samkv. þessu ákvæði hefur ríkið yfirtekið alla þessa skóla nema einn, Laugaskóla í Suður-Þingeyjarsýslu, og þess vegna eru þessi sérákvæði í 14. gr. um hann.

Nú er brtt. okkar hv. 5 þm. Norðurl. e. um það, að á eftir þeim málsl., þar sem stendur, að Laugaskóli í Suður-Þingeyjarsýslu komi undir ákvæði gr. samkv. l. frá 1962, skuli koma: „Sama gildir um heimavistarskóla gagnfræðastigs, sem Norður-Þingeyjarsýsla rekur í Lundi í Öxarfirði, ef skólahús og aðrar eignir, sem skólinn notar, verða afhent ríkinu.“ En til vara viljum við bera fram aðra skrifl. brtt., og raunar mun þá vera rétt eftir atvikum að taka aftur aðaltill. og óska aðeins eftir, að varatill. komi til atkv., en hún er við 12. gr. þess efnis, að aftan við gr. bætist ný mgr. svo hljóðandi:

„Ríkið yfirtekur samkv. ákvæðum l. nr. 34 1962 heimavistarskóla gagnfræðastigs, sem Norður-Þingeyjarsýsla rekur í Lundi í Öxarfirði, ef skólahús og aðrar eignir, sem skólinn notar, verða afhent ríkinu.“

Ég vil leyfa mér að skýra með nokkrum orðum þetta mál. Norður-Þingeyjarsýsla er eitt þeirra héraða, þar sem ekki hefur verið héraðsskóli starfandi og enginn gagnfræðaskóli nema unglingadeildir barnaskólanna á Raufarhöfn og Þórshöfn. Það var lengi svo, að unglingar úr Norður-Þingeyjarsýslu fengu aðgang að Laugaskóla og einnig nokkuð að Eiðaskóla og fleiri skólum, en eftir því sem árin liðu hefur þetta orðið æ erfiðara, þannig að unglingar úr þessari sýslu hafa eiginlega ekki haft neinn vísan stað, þar sem þeir hafa getað sótt gagnfræðaskóla eða héraðsskóla eða svo var það til skamms tíma. Þess vegna var það, að innan héraðsins kom upp mikill áhugi fyrir því að bæta úr þessu og koma upp héraðsskóla eða gagnfræðaskóla innan sýslunnar. Og að þessu er búið að vinna í sýslunni í allmörg ár.

Byrjunarframkvæmdir urðu þær, að veturinn 1963–64 og 1965–66 starfaði unglingadeild við barnaskólann í Skúlagarði í Kelduhverfi og veitti þar fræðslu til undirbúnings gagnfræðanámi. Svo gerðist það haustið 1965, að Norður-Þingeyjarsýsla ákvað að koma upp gagnfræðaskóla eða héraðsskóla í Lundi í Öxarfirði og þessi skóli hefur verið rekinn núna í tvo vetur, veturinn 1965–1966 og nú aftur 1966–1967. Þessi skóli hefur verið viðurkenndur af fræðslumálastjórninni og ríkisframlag til hans áætlað á gildandi fjárl. Í vor sem leið fór fram við þennan skóla bæði gagnfræðapróf og landspróf, þannig að hann starfaði í fyrra og starfar í vetur á hliðstæðan hátt og aðrir héraðsskólar, sem útskrifa nemendur með gagnfræðaprófi og landsprófi.

Sá húsakostur, sem þessi skóli hefur, eru tvö skólahús, sem eiginlega eru tilheyrandi barnaskóla Öxfirðinga í Lundi. Annað er gamalt hús, sem hefur verið endurbætt allmikið vegna héraðsskólans, en hitt er nýtt hús, sem skólinn hefur einnig til sinna nota, og af þessu hefur svo leitt, að börnin í Öxarfirði hafa sótt barnaskóla Keldhverfinga í Skúlagarði. Þetta er mjög hagkvæmt fyrirkomulag og hefur gengið eftir því, sem efni stóðu til. Nú er það svo, að ef samþ. væri og sett í lög hér á hinu háa Alþ., að ríkið yfirtæki þennan gagnfræðaskóla Norður-Þingeyjarsýslu í Lundi, mundu þessi tvö skólahús og aðrar eignir, sem skólinn hefur til afnota, verða afhent ríkissjóði. Okkur finnst það mjög eðlilegt, að þetta verði nú tekið í lög. Norður-Þingeyingar eiga á því alveg sama rétt að okkar dómi og aðrir, sem rekið hafa héraðsskóla, að óska þess, að ríkið geri hann að sínum skóla. Og mér er ekki kunnugt um, ef það kann að skipta máli, að í neinu öðru héraði standi þannig á nú. Ég veit ekki til þess, að fyrir utan gömlu héraðsskólana sé neinn héraðsskóli starfandi á þennan hátt nema héraðsskóli Norður-Þingeyjarsýslu í Lundi.

Ég held, að ég hafi svo ekki um þetta fleiri orð, en vil biðja hæstv. forseta að taka við hinni skrifl. brtt. við 12. gr., sem ég nú þegar hef lesið, og þar sem sú gr. kemur fyrr til atkv. en 14. gr., munum við taka aftur till. á þskj. 545, og vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt.

Það væri að sjálfsögðu margt annað en það, sem ég minntist á áðan, sem ég hefði viljað gera aths. við í sambandi við þetta frv., en ég ætla ekki að gera það. Það eru sérstaklega ákvæðin í 20. gr. frv. um greiðslu rekstrarkostnaðar, sem ég eins og fleiri á dálítið erfitt með að átta mig á og hefur verið erfitt að fá umsagnir um frá, reyndum mönnum, sem haft hafa skólarekstur með höndum. En einhvern veginn var nú, eins og hv. frsm, minni hl. n. tók fram við 2. umr. þannig valið í undirbúningsnefndir af hæstv. ríkisstj., að allir, sem í þeim voru, voru embættismenn í Reykjavík og nágrenni hennar, góðir og gegnir að vísu, en raddir þeirra, sem hafa með skólahaldið og skólareksturinn að gera víðs vegar um landið, hafa ekki komið fram í sambandi við grg. þessa frv. En út af þessari 20. gr. hef ég, eins og ég sagði, allmiklar áhyggjur og vil nú spyrja um eitt atriði í sambandi við hana, af því að ég er með spurningar hér hvort eð er. Og það er mjög einfalt atriði. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. um það, hvað hann álíti um minnsta skólann, sem hér er gert ráð fyrir í 20. gr., þ.e.a.s. með 10 nemendum, það mundi eiga við farskóla, t.d., hvað börnin í þeim skóla mundu eftir þessu frv. fá margar kennslustundir á dag.

Skal ég svo láta máli mínu lokið og afhendi hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. við 12. gr.