17.04.1967
Efri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

159. mál, skólakostnaður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem væntanlega fær þetta frv. til athugunar, og mun mér þar gefast kostur á að athuga málið og láta uppi skoðun mína á einstökum atriðum frv., og af þeirri ástæðu er ekki þörf á, að ég tali mjög langt um þetta mál nú við 1. umr. Ég tel þó rétt að segja, þegar á þessu stigi málsins, nokkur orð um það í heild og viss atriði, sem ég tel ávinning að, að sé vakin athygli á, áður en málið fer til n. Það er nú talað um það meðal þm., að brátt muni líða að því, að þinglausnir fari fram að þessu sinni, og ef það er rétt, sem talað er um, er sýnilegt, að þessari hv. d. gefst lítið ráðrúm til þess að fjalla um þetta mál. Hér er þó um að ræða stórt fjárhagsmál um samskipti ríkisins og sveitarfélaganna, mál, sem er mjög margþætt, og erfitt að átta sig til hlítar á sumum ákvæðum þess. Ég verð því að átelja mjög þau vinnubrögð eða þann hátt, sem hafður er á um afgreiðslu þessa máls, hvað þessari hv. d. er ætlaður lítill tími til þess að fjalla um málið.

Meginefni þessa frv. er um fjárhagsleg samskipti ríkisins og sveitarfélaganna í landinu að því er snertir stofnkostnað og rekstrarkostnað allra þeirra skóla, sem frv. tekur til. Það liggur í augum uppi, að þessi fjárhagslegu samskipti og sá kostnaður, sem skólahaldinu fylgir, er svo mikill, að það er full ástæða til þess, að þm., sem um þetta mál fjalla og taka ábyrgð á afgreiðslu l. með atkvæði sínu, kosti kapps um að gera sér grein fyrir því til hlítar, hvað í einstökum atriðum þessa frv. felst. En um meginstefnuna, sem frv. virðist byggt á, má fá nokkra hugmynd með því, er segir í grg. frv., þar sem má segja, að meginstefnan sé dregin saman í örfá orð. Og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vekja sérstaka, eftirtekt á þessari mgr. Hér segir í grg. frv.:

„Eðlilegt er, að menn vilji gera sér grein fyrir, hvaða breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkissjóðs og sveitarfélaga ákvæði þessa frv. feli í sér. Við það hefur verið miðað, að greiðslubyrðin í heild og hvors aðila um sig, ríkissjóðs og sveitarfélaga, haldist nokkurn veginn óbreytt. Þó má gera ráð fyrir, að fremur halli nú á ríkissjóð í samskiptunum, enda er talið samkv. því, sem áður hefur verið skýrt hér a,ð framan, að greiðsluhlutfall hafi fremur breytzt sveitarsjóðum í óhag á undanförnum árum. Hitt verður að játa, að erfitt er nema með mjög ýtarlegri og umfangsmikilli rannsókn að gera tölulegan samanburð á kostnaði samkv. gildandi fyrirkomulagi og kostnaði samkv. þeim reglum, sem frv. gerir ráð fyrir. Fyrirsjáanlegur kostnaður og þá fyrst og fremst vegna hinnar nýju byggingadeildar verður að sjálfsögðu nokkur, en þar á að koma á móti sparnaður vegna styttri byggingartíma og meiri undirbúningsvinnu og aukins eftirlits með byggingarframkvæmdum“.

Þessi orð úr grg. segja til um þá stefnu, sem frv. virðist byggjast á. Hér er það viðurkennt, að það sé aðalsjónarmið, að greiðslubyrðin í heild hjá hvorum aðila, ríkissjóði og sveitarfélagi, haldist nokkurn veginn óbreytt. En jafnframt er tekið fram af þeim, sem hafa samið þetta frv., að það verði að játa, að það sé mjög erfitt nema með ýtarlegri og umfangsmikilli rannsókn að gera sér grein fyrir þessu til hlítar. Nú hef ég bent á það, að þessari hv. d. eru ekki ætlaðir nema örfáir dagar í mesta lagi til þess að skoða þetta mál, en höfundar frv. viðurkenna, að til þess að gera sér grein fyrir efni þess, þurfi ýtarlega og umfangsmikla rannsókn. Af þessu má ljóst vera, að þm., a.m.k. í þessari hv. d., eru ekki búin í hendur af hálfu hæstv. ríkisstj. góð skilyrði til þess að afgreiða löggjöf sem þessa, sem hér er borin fram. Það kemur einnig fram í grg., að höfundar frv. hafa reynt að gera sér grein fyrir því, hvernig þróunin um skiptingu kostnaðar af skólahaldi hefur verið á undanförnum árum að því er snertir hlutdeild ríkisins annars vegar og hlutdeild sveitarfélaganna hins vegar. Það er birt yfirlit yfir það í stuttum töflum hér á bls. 8 og 9 í grg. Þær sýna, að þróunin hefur verið sú, að hlutur sveitarfélaganna hefur þyngzt allverulega frá árinu 1956, en hlutur ríkissjóðs að sama skapi orðið léttari. Þetta hlutfall er þó ekki hið sama um alla skólaflokka. Að því er snertir barnaskóla í kaupstöðum er talið, að hlutdeild ríkissjóðs í rekstrarkostnaði hafi á árinu 1956 verið 69.8%, en hlutdeild sveitarfélaganna í rekstrarkostnaði 30.2%. Þetta hlutfall hefur breytzt þannig, að 1964 er hluti sveitarfélags í rekstrarkostnaðinum orðinn 35.8% í stað 30.2% 1956.

Þegar kemur að öðrum skólaflokki, þ.e. heimangönguskóla utan kaupstaða, verður þessi munur enn þá meiri samkv. því, er segir í grg. frv. Talið er, að 1956 hafi hluti ríkissjóðs í rekstrarkostnaði þessara skóla numið 80.7%, en hluti sveitarsjóðs 19.3%. 1964 er sú röskun orðin á þessu hlutfalli, að hluti sveitarsjóðs er orðinn 28.9% í stað 19.3% 1956.

Ef litið er á gagnfræðaskóla, er niðurstaðan svipuð. Talið er, að hluti sveitarfélaganna, í rekstrarkostnaði þessara skóla hafi 1956 numið 22.4%, en er orðinn 24.3% 1964.

Þegar fjallað hefur verið um breytingar á skólakostnaðarl. á liðnum tíma, hefur þróunin hér á hv. Alþ. ævinlega verið sú, að það hefur verið létt á sveitarfélögunum, en hlutdeild ríkissjóðs í fræðslumálunum aukin að sama skapi. Sú þróun, sem ég var að lýsa, að orðið hefur á þessu sviði síðan 1956, gefur ótvírætt til kynna, að nú væri sérstök ástæða til þess að fara að eins og gert hefur verið áður við endurskoðun skólakostnaðarl., þ.e. að létta nokkuð hlut sveitarfélaganna, en auka sem því nemur þau framlög, sem ríkið stendur straum af. En það er meginstefna þessa frv., eins og grg. lýsir og ég hef áður vakið athygli á, að greiðslubyrðin í heild og hvors aðila um sig, ríkissjóðs og sveitarfélaga, haldist nokkurn veginn óbreytt með setningu þessara l., og þá skil ég það svo, að miðað sé við, að hún haldist óbreytt við það, sem nú er í framkvæmd, þegar þetta frv. er lagt fram.

Þegar litið er á þessa meginstefnu frv., verð ég að láta í ljós þá skoðun mína, að það hefði þurft að ganga lengra heldur en gert er í ýmsum greinum þess í þá átt að létta hlut sveitarfélaganna og bæta aðstöðu þeirra frá því, sem nú er, til þess að standa straum af lögboðnu og nauðsynlegu skólahaldi í landinu.

Ég vil þá þessu næst víkja að fáum atriðum frv., því að vitanlega hef ég ekki ætlað mér og gefst ekki kostur á nú við 1. umr. að fjölyrða um öll ákvæði þess. Þegar ég fékk þetta frv. í hendur og fór að kynna mér efni þess, furðaði ég mig nokkuð á ákvæðum 14. gr. frv., en sú gr. er um heimavistarskóla gagnfræðastigs, þá sem venjulega eru kallaðir héraðsskólar, og í samhengi við þessa gr. voru ákvæði í 2. og 3. mgr. 21. gr. Ég furðaði mig á þessum ákvæðum, vegna þess að það er ekki langt síðan Alþ. steig það spor að taka þessa skóla yfir á ríkissjóð með heimildarl. frá 1962, sem eru grundvöllur að samningum milli sýslnanna eða þeirra aðila í héruðum, sem að þessum skólum stóðu áður, og ríkisins. Og samningar á grundvelli þessara heimildarl. munu hafa verið gerðir um Reykholtsskóla, Núpsskóla, Reykjanesskóla, Reykjaskóla í Hrútafirði, Skógaskóla og Laugarvatnsskóla. En Laugaskóli í Þingeyjarsýslu mun ekki enn hafa notfært sér heimildarákvæði l. frá 1962, en honum stendur það vitanlega opið, hvenær sem forráðamenn skólans í héraði óska eftir að taka slíka samninga upp. Nú var ákvæði þessa frv. þannig, að það átti að stíga hér spor til baka á þann veg, að héruðin færu nú aftur að taka á sig fjárhagsbyrðar af stofnkostnaði og við rekstur þessara skóla, stofnkostnaði á þann hátt, sem viðbyggingar kynnu að eiga sér stað við skólana, og mundi það þá að mínum dómi taka jafnt til kennslurýmis sem kennarabústaða og heimavistarrýmis, sem nauðsyn bæri til að auka við þessar stofnanir. Í annan stað átti samkv. frv. að láta heimasveitir þeirra nemenda, sem nám stunda í þessum skólum, greiða tiltekinn hluta af rekstrarkostnaði skólanna, og það átti, að mér skilst, að ná til þeirra nemenda, sem stunda nám í því húsrými, sem þegar er komið og er notað.

Nú hygg ég, að þetta hafi verið gagnrýnt allsterklega í hv. Nd., og ég sé á þskj., að till. hafa verið fluttar um það, m. a. af minni hl. menntmn. Nd., að þessum ákvæðum, sem ég geri nú að umtalsefni, yrði breytt. Ég hef nú ekki getað fylgzt með öllum umr, eða atkvgr. um þetta mál í hv. Nd. En ég sá rétt í þann mund, að þessi fundur var að hefjast, að hæstv. menntmrh, hefur lagt fram brtt. við frv. við síðustu umr. þess í Nd., og ég skildi mál hans svo hér áðan, að þær brtt. hefðu verið samþ. og þar með væri búið að nema úr frv. þau ákvæði, sem ég nú hef verið að gera að umtalsefni.

Þá vil ég álykta sem svo, að afleiðingin af þessari breytingu sé sú, að starfsemi þessara skóla verði þá framvegis eins og verið hefur hin síðari ár, byggð á grundvelli heimildarl. frá 1962 og þeim samningum, sem síðan hafa verið gerðir, þannig að þessir skólar verði reknir af ríkinu að öllu leyti og stofnkostnaður þeirra, að því leyti sem þurfa þykir að bæta við þá eða endurbæta þá, verði einnig greiddur af ríkinu að öllu leyti. Ég dreg þá ályktun af þessari breytingu, sem gerð hefur verið í Nd., og ef þetta er ekki réttur skilningur, vænti ég, að aðrar skýringar komi fram. En ég tók eftir því í framsöguræðu hæstv. ráðh., að hann lét orð falla á þá leið, að það mundi verða athugað frá lögfræðilegu sjónarmiði í sumar um þann samning, sem gerður var á sínum tíma um Eiðaskóla og stöðu þessara héraðsskóla gagnvart ríkisvaldinu. Ég vil út af þessu fara örfáum orðum um Eiðaskóla og þá sérstöðu, sem hann hefur að þessu leyti. Ég vil segja hæstv. ráðh. það, að staða Eiðaskóla hefur fyrr komið til athugunar og álits á hv. Alþ. að þessu leyti. Skólinn var upphaflega stofnaður með samningi, sem Múlasýslur gerðu við ríkið, og sá samningur öðlaðist síðan lagagildi. Meginefni þessa samnings eru þau, að Múlasýslur lögðu fram og afhentu ríkinu til eignar og umráða skólahús og innbú, sem tilheyrði búnaðarskóla, er sýslurnar höfðu áður rekið á Eiðum. Enn fremur voru lagðar fram jarðeignir, höfuðbólið Eiðar og einar 5 jarðeignir aðrar í grennd við þetta höfuðból, sem ríkinu var afhent til eignar, og þessu fylgdi bústofn, sem þá var á Eiðabúinu, allverulegur, a.m.k. 400 fjár, þegar samningurinn var gerður, og annar bústofn. Þetta var allt afhent ríkinu, en það skilyrði fylgdi, að ríkið stofnaði og ræki vel búinn alþýðuskóla á Eiðum og yrði hann að öllu leyti rekinn á kostnað landssjóðs, eins og segir í l. frá 1917.

Þegar lög um skólakerfi og fræðsluskyldu voru sett á þinginu 1945 og lagabálkurinn um gagnfræðanám, kom það mjög til athugunar og var rætt í menntmn. Alþ. um þá sérstöðu, sem Eiðaskóli hafði og hefur á grundvelli þessa samnings. Og niðurstaðan hjá hv. Alþ. þá eftir allmikla athugun í menntmn. var sú, að Eiðaskóli ætti að halda sinni sérstöðu, sem hann hefur haft allt frá 1917. Síðan l. um skólakerfi og fræðsluskyldu öðluðust gildi 1946, hefur því Eiðaskóli í framkvæmd haft þá sérstöðu, sem staða hans upphaflega mótaðist af. Þær byggingar, sem síðan hafa verið gerðar á Eiðum, hafa allar verið kostaðar af ríkinu að öllu leyti, og m. a. vil ég benda hæstv. ráðh. á, að sérstaða Eiða hefur komið fram m. a. að því leyti, að það hefur engin skólanefnd starfað við þessa ríkisstofnun, þó að skólanefndir starfi samkv. 1. við aðra skóla á gagnfræðastiginu, heldur hefur skólastjóri þessarar ríkisstofnunar komið yfirleitt með sín erindi beint til menntmrn. til úrlausnar. Og þegar l. um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, voru sett 1955, er Eiðaskóli enn látinn halda þessari sérstöðu, vitanlega eftir athugun á hv. Alþ. Þetta vildi ég láta koma fram og tel, að út af fyrir sig sé þetta bæði svo skýrt og aðstaða Eiðaskóla í þessu efni hefðbundin um langan tíma og henni hefur verið haldið með vitund og vilja Alþ., þegar meiri háttar breytingar hafa verið gerðar á l. um skólakerfi og fræðsluskyldu og gagnfræðanám að undanförnu, að ég tel út af fyrir sig ekki þurfa neina nýja lögfræðilega athugun á þessu atriði.

Þá vildi ég leyfa mér þessu næst að vekja athygli, áður en málið fer til n., á einu atriði, sem ég tel eftirtektarvert. Með þessu frv. á að nema úr gildi 1. frá 1955 um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Þau lög hafa tekið til barnaskóla, skóla gagnfræðastigsins og húsmæðraskóla. En þau lög hafa ekki tekið til iðnfræðslunnar, heldur hafa verið sérstök lög um iðnskóla og iðnfræðsluna í landinu og kostnað við þann skólaflokk. Nú er sú breyting gerð, að með 1. gr. þessa frv. er ákveðið, að lög þessi taki til barnaskóla, unglingaskóla, miðskóla, gagnfræðaskóla, iðnskóla og húsmæðraskóla, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Hér er bætt við með þessu frv. þessum skólaflokki, iðnskólunum. En um leið og þetta er ákveðið, verð ég að álykta svo, að ákvæði 25. gr. þessa frv. taki til iðnskólanna, en þau eru þannig: Skólamannvirki þau, sem lög þessi taka til, skulu vera eign ríkis og sveitarfélaga, í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. — Hér er þá komið að einu veigamiklu atriði, þ.e. um eignarhlutdeild iðnskólanna í landinu. Nú eru til nýsett lög um iðnfræðslu. Þau voru afgr., á hv. Alþ. fyrir tæpu ári, 30. apríl 1966. Þar er gert ráð fyrir að gerbreyta iðnfræðslunni og aðstöðu iðnskólanna frá því, sem áður var, þannig að það verði settir upp fáir, en stórir og vel búnir iðnskólar, einn í hverju kjördæmi landsins. En um leið og þessir stóru skólar koma upp, eiga að falla niður eða sameinast hinir mörgu og litlu iðnskólar, sem nú veita iðnfræðsluna. En vitanlega var Alþ. það ljóst, þegar þessi lög voru sett s.l. vor, að svo stórum áfanga eða stórfelldum breytingum á iðnfræðslunni yrði ekki komið við í framkvæmd nema á nokkuð löngum tíma. Þess vegna er mælt svo fyrir, að ráðh. ákveði, að fengnum till. iðnfræðsluráðs, hvenær ákvæði 1. mgr., þ.e.a.s. um þessa nýju skóla, komi til framkvæmda og hverjir núverandi iðnskólar skuli starfa áfram til frambúðar eða fyrst um sinn.

Þegar þessi lög voru til athugunar hér á hv. Alþ., lá fyrir yfirlit um það, hve iðnskólarnir eru margir nú og hve þeir voru fjölmennir á skólaárinu 1964, en það var síðasta árið, sem yfirlitið náði yfir. Og þá kemur það fram, að það eru reknir 20 iðnskólar á landinu, eins og skipan þessara mála er nú, að þrír þessara skóla höfðu 100 nemendur eða fleiri, 5 skólanna 30–80 nemendur, en 11 skólar voru með innan við 30 nemendur. Þessir skólar hafa verið stofnaðir eftir hinum eldri iðnfræðslulögum og þeir hafa lengst af starfað samkv. ákvæðum þeirra l., sem felld voru úr gildi s.l. vor. En samkv. þeim l. mátti stofna til iðnskóla með ýmsu móti. Bæjarfélög gátu stofnað til þeirra, sýslur og iðnaðarmannafélög eða samband þeirra, enda komi meðmæli og samþykki bæjarstjórnar eða sýslunefndar til. Þegar stofnunin hafði verið undirbúin á þennan hátt, átti ráðh. að löggilda iðnskóla. Ég vil nú álíta, að þetta að löggilda iðnskóla hafi falið það í sér, að ráðh. átti að kynna sér og fá það staðfest, að þeir veittu þá fræðslu, sem tilskilin er, störfuðu í samræmi við iðnfræðslul. Hins vegar hef ég ekki fundið eða getað komizt að raun um, að nokkur lagastafur sé til um það, hverjir eiga þessa 20 iðnskóla, sem nú starfa í landinu, hvernig eignarrétti þeirra er háttað, hvort til hans getur ekki verið stofnað á fleiri en einn veg. Ég sé t.d. í fjárl., að þar er talað um að veita styrk til Iðnskólans í Reykjavík og styrk til Iðnskólans í Hafnarfirði og svo framlag til iðnfræðslu utan Reykjavíkur. En nú vil ég spyrja: Er það svo, að Iðnskólinn hér í Reykjavík eða allir þessir iðnskólar séu nú sameign ríkisins og sveitarfélaganna? Hefur það verið athugað í sambandi við þetta mál? Og ef svo er ekki, er hér um atriði að ræða, sem snertir aðstöðu þeirra sveitarfélaga eða annarra aðila, sem nú halda uppi iðnfræðslunni, og þess vegna vil ég bera fram þessa ákveðnu spurningu til hæstv. ráðh., og mér þætti nokkru skipta að fá svar við henni, áður en málið fer til n.: Er það ætlun ráðh. og skilningur hans á ákvæðum þessa frv., að þeir 20 iðnskólar, sem nú starfa á víð og dreif um landið, verði, um leið og þetta frv. öðlast gildi sem lög, sameign ríkisins og sveitarfélaganna? Eða er það skilningur ráðh., að þessi skipan eigi að koma í gildi, þegar hinum nýju, stóru iðnskólum verður komið á fót samkv. hinum nýsettu l. Ég vænti þess, að þessu verði skýrt svarað við þessar umr. og skal ekki fjölyrða um þetta atriði þá frekar.

Þá vildi ég mega víkja að því, að sum ákvæði þessa frv. eru að mínum dómi vægast sagt varhugaverð. Þessu til sönnunar vil ég minna á ákvæðin um það, að hér eftir skuli stofnkostnaður eða hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði skólanna fara eftir áætluðum kostnaði, eftir áætlun, en ekki vera gerður upp eftir raunverulegum reikningum að verkinu loknu. Ég tel þetta ákvæði mjög varhugavert og eiginlega ekki hægt að sjá fyrir, hvaða byrðar kunna að geta fallið á sveitarfélög í sambandi við þetta ákvæði. Við vitum það ákaflega vel, sem eigum sæti hér á hv. Alþ. og fylgjumst með framkvæmdum í landinu, einkum hver í sínu kjördæmi, að það er mjög oft, að ég ekki segi það algenga, að áætlanir, sem gerðar hafa verið af vel menntuðum og hæfum, verkfróðum mönnum um mannvirki á ýmsum sviðum, standast ekki í reynd. Kostnaður fer fram úr áætlun og oft svo mjög miklu nemur. Þetta er ekkert sérstakt um skólamannvirki, heldur kemur þetta fram á mörgum öðrum sviðum, svo sem í samgöngumálum, við brúargerðir, í raforkumálum og við þekkjum söguna um félagsheimilin, og margt fleira mætti nefna í þessu sambandi. Vitanlega á mikinn þátt í þessu sú verðlagsþróun, sem við höfum búið við. Það má segja, að þegar verðlagið hækkar jafnört og reynslan hefur sýnt á undanförnum árum, eru áætlanir jafnvel orðnar hálfúreltar, þegar kemur að framkvæmdunum sjálfum. Svo örar eru verðlagsbreytingarnar. Ég veit, að ákvæðin um byggingarvísítölu eiga að vega upp á móti þessu, en að mínum dómi gera þau ákvæði það ekki fyllilega. Ég tel, að í þessum ákvæðum frv., sem ég nú geri að umræðuefni, felist of mikil áhætta fyrir sveitarfélögin til þess, að það sé rétt eða eðlilegt af hv. Alþ. að ganga frá málinu eins og hér er stofnað til með þessum ákvæðum.

Þá vil ég enn benda á það, að gert er ráð fyrir því í frv. að gera mun á framlögum ríkissjóðs vegna stofnkostnaðar fullbúins heimavistarrýmis, annars vegar eftir því, hvort tvö eða fleiri sveitarfélög standa saman að slíkum skóla og hins vegar eftir því, hvort í skólanum fer fram skyldunám eða nám á síðari hluta gagnfræðastigs, sem kalla má frjálst nám. Þetta tel ég óeðlilegt og á þessu þurfi að fást breyting. Aðstaða getur verið þannig í fámennu og efnalega veikbyggðu sveitarfélagi, að það eigi örðugt með að vera í samvinnu eða sambandi við aðra um sitt skyldunám. En með ákvæðum frv., eins og það er nú, á hlutdeild ríkisins við slíka aðstöðu að vera 15% lægri í stofnkostnaði heimavistarrýmis en þegar um samvinnu sveitarfélaga eða sameiningu þeirra um slíka framkvæmd er að ræða. Ég tel líka, að það þurfi að koma til athugunar, hvort þessi ákvæði eiga ekki að ná lengra en til skyldunámsins. Það er nú yfirleitt svo, að þjóðfélagið heimtar meiri og meiri undirbúningsmenntun undir flest störf, sem unga kynslóðin á að takast á hendur, og landspróf eða gagnfræðapróf, þ.e.a.s. nám í efri bekkjum gagnfræðastigsins er nauðsynlegur og óhjákvæmilegur undirbúningur undir slíka verkmenntun eða þjálfun, sem þjóðfélagið krefst af unga fólkinu, og reynslan er sú, að langflestir unglingar, a.m.k. í þéttbýlinu, halda áfram, þegar skyldunáminu er lokið. Mér finnst því, að það séu full rök fyrir því að breyta þessum ákvæðum á þann veg, að þau nái lengra en til skyldunámsins eins.

Ég skal nú fara að stytta mál mitt, þó að margt fleira sé athugavert í þessu frv. En ég vil að síðustu þó minna á aðeins tvö atriði með örfáum orðum. Hér er gert ráð fyrir því, að rn. verði heimilað að fresta greiðslu fjárveitinga að einhverju eða öllu leyti til byggingar skólamannvirkja, sem fyrirsjáanlegt er, að hvorki er hægt að ljúka að fullu né að nothæfum áfanga með fjárveitingum Alþ., sem fyrir hendi eru, og framlögum sveitarfélaga. Og það er gengið svo langt, að séu þegar samþykktar fjárveitingar Alþ. til skólamannvirkis ónógar til að greiða 1/3 af áætluðu stofnkostnaðarframlagi ríkisins, þá má menntmrn. ekki leyfa að hefja framkvæmdir fyrr en að fengnu skriflegu samþykki fjmrn. Ég hygg, að þó að ástæða kunni að vera til að hafa einhver ákvæði í þessa stefnu, þá sé sá hemill, sem hér er settur, um of. Ég tel eðlilegt, að nokkuð sé dregið úr þessum ákvæðum í sambandi við athugun og meðferð á þessu máli.

Þá get ég ekki lokið svo máli mínu að minnast ekki örfáum orðum á 20. gr. frv. Það er greinin, sem kveður á um skiptingu rekstrarkostnaðar milli ríkisins og sveitarfélaga. Þessi gr. á víst að vera sett í frv. til þess að gera málin einfaldari en þau hafa verið. En ákvæði þessarar gr. eru svo flókin, að eftir því, er ég hef fyrir satt, hefur það vafizt mjög fyrir manni eins og Aðalsteini Eiríkssyni, sem hefur haft það að atvinnu og sérgrein í 10 ár að yfirfara reikninga um skólakostnað, að gera sér grein fyrir því, hvað í þessum ákvæðum felst raunverulega. Þegar þessu er þannig háttað, þá er nú ekki hægt að leggja þm. það til lasts, þó að þeir svona á örstuttri stund eigi erfitt með að kanna þetta til hlítar eða gera sér grein fyrir því, hvernig ákvæði þessarar gr. verða í framkvæmd. En það vil ég segja og láta koma fram hér, að ég hef orðið þess var, að þeir, sem fylgjast með í þessum efnum úti á landi, og oddvitar, sem hafa með höndum fjárreiður ýmissa skólastofnana og hafa reynslu af því að fást við fjármál af þessu tagi, þeir hafa látið í ljós við mig í símtölum og á annan hátt allmikinn ugg út af ákvæðum þessarar gr., m. a. hringdi til mín í morgun oddviti hér á Suðurlandsundirlendinu, sem ég er nú ekki gagnkunnugur, en þekki svona í sjón, og við höfum talazt við, og fór sérstaklega að færa í tal í alllöngu símtali ákvæði þessarar gr. og lét í ljós alveg eindreginn ugg út af því, að sér lítist ekki á blikuna, þegar hún kæmi til framkvæmda. Ég verð því að segja, að það er mjög illa farið, ef hæstv. ráðh. hugsar sér að láta afgr. þetta mál í mesta. flaustri. Þetta mál hefði þurft að koma fyrir Alþ. mörgum vikum fyrr en það gerði, en úr því sem komið er, hefði það náttúrlega veitt miklu meiri upplýsingar um málið, hefði afgreiðsla þess ekki verið knúin fram nú, en frv. sent til umsagnar oddvitum og ýmsum mönnum, sem kunnugir eru af eigin reynslu að fjalla um fjármál skólanna. Þá hefði málið allt í heild getað legið miklu skýrar fyrir þm. næsta haust, og þá hefði gefizt tóm til að setja þessa löggjöf í sæmilega góðu næði og að beztu manna yfirsýn á haustmánuðum, og hefði hún getað öðlazt gildi um n. k. áramót.