18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

159. mál, skólakostnaður

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. var kvödd til fundar um miðnætti s.l. nótt, og nm. báru saman ráð sín um þetta mál nokkra stund. Það kom þegar í ljós, að samstaða mundi ekki verða um flutning brtt., og þess vegna varð ekki samstaða í n. um afgreiðslu málsins. Annar tími hefur ekki gefizt til þess að athuga þetta mál í n. Ég bar fram þau tilmæli um miðnætti í nótt, að n. kæmi saman á fund fyrir hádegið og fengi til viðtals ráðh. eða ráðuneytisstjóra um eitt ákveðið atriði í frv., sem ég mun víkja síðar að, en þetta hefur ekki orðið.

Við 1. umr. þessa máls, sem fram fór í gær, gerði ég nokkra grein fyrir frv. almennt og vék að nokkrum atriðum, sem ég taldi, að þyrftu breytingar við. Í samræmi við þetta berum við fram, sem skipum minni hl. menntmn., þ.e. hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, á þskj. 595 allmargar brtt. við frv., og mun ég í stuttu máli gera grein fyrir efni þeirra. Í frv. er kveðið svo á, að stofna skuli sérstaka deild í menntmrn., byggingadeild, sem á að annast undirbúning skólamannvirkja, samþykkja áætlanir, endurskoða reikninga o. s. frv. 1. brtt. okkar fjallar um það, að í frv. sé ekki ákvæði um að stofnsetja sérstaka deild í þessu skyni, heldur hafi menntmrn. þessi mál með höndum og sjái um, að þessi atriði séu framkvæmd, sem í till. greinir. Við teljum alls kostar óþarfa að vera að setja það í lög um skólakostnað, hvernig skipta eigi rn. í deildir. Í sjálfu sér er það óþarft að ákveða deildaskiptingu, en helzt ætti það vitanlega heima í sérstakri löggjöf um Stjórnarráð Íslands, hvernig deildaskipting rn. er, en ekki eitt einstakt atriði í hinum eða þessum almennum 1.

2. brtt. okkar er við 6. gr. frv. Þar segir svo, að sveitarstjórnir ráði sérfræðinga til þess að gera uppdrætti að skólamannvirkjum, verklýsingar og áætlun um framkvæmd verksins og kostnað. Við leggjum til, að við þessa mgr. bætist, að sá kostnaður, sem af þessum undirbúningi skólamannvirkja leiðir, teljist til stofnkostnaðar. Vera má, að það vaki fyrir höfundum frv. og þeim, sem standa að flutningi þess, að þetta verði svo, en eðlilegra er að kveða alveg skýrt á um þetta í l. sjálfum, svo að það sé ekkert vafaatriði, heldur ótvírætt.

Næsta brtt, okkar, sú 3. í röðinni, er við 7. gr. frv., en í 7. gr. er það veigamikla og að mínum dómi varhugaverða ákvæði, að greiðslur ríkissjóðs til stofnkostnaðar skóla skuli miða við áætlaðan stofnkostnað. En fari byggingin raunverulega fram úr áætlun, á sveitarfélagið að bera þann hluta stofnkostnaðarins eitt og njóta hagnaðar að vísu, ef byggingin reynist ódýrari en áætlunin gerir ráð fyrir. Brtt. okkar felur það í sér, að eftirleiðis verði, eins og verið hefur, miðað við raunverulegan kostnað eins og hann reynist samkv. reikningum, þegar verkinu er að fullu lokið og menntmrn. hefur látið taka verkið út, eftir að það hefur að sjálfsögðu fylgzt með byggingarframkvæmdum. Einnig felur brtt. okkar það í sér, að stofnkostnaður skuli greiddur af ríkinu að öllu leyti vegna heimavistarrýmis í öllum þeim skólum, sem þetta frv. tekur til. En eins og frv. er, er þetta takmarkað annars vegar við það, að fleiri en eitt sveitarfélag hafi sameinazt um að standa sannan að byggingu skólahúss, og í öðru lagi er þetta takmarkað við það, að þetta 100% ákvæði nái einungis til heimavistarrýmis vegna skyldunáms. Brtt. okkar gengur lengra en frv., og er það að öllu leyti eðlilegt, einkum eða þó ekki sízt, ef svo ber að, að eitt fátækt og fjárhagslega vanmegnugt sveitarfélag þarf, vegna staðhátta eða af öðrum ástæðum, að standa eitt að skólabyggingu, að hlutur þess sé ekki gerður lakari vegna aðstöðunnar heldur en annarra, þar sem hægara er um, að fleiri aðilar sameinist.

4. brtt. okkar er um það, að 8. gr. frv. falli niður. Þessi brtt. er í sambandi við það, sem ég hef áður tekið fram, að við leggjum til, að ekki sé miðað við áætlun um stofnkostnaðinn, þegar lokafjárhagsskil eru gerð um framkvæmdina milli ríkis og sveitarfélaga, heldur raunverulegan kostnað og verði sú till. samþ. og framkvæmdum hagað á þann veg, eru ákvæði 8. gr. frv. um sérstaka vísitölu, sem Hagstofan reikni út og uppbætur samkv. henni á stofnkostnaðarframlag ríkisins óþörf. Þess vegna leggjum við til, að þessi gr. falli niður.

5. brtt. okkar er við 11. gr. frv. Við berum fram þessa brtt. vegna þess, að á þessum eina stutta fundi, sem menntmn. hélt um málið, lá fyrir n. erindi frá íþróttafulltrúa ríkisins. Þetta erindi var tekið fyrir í n. og lesið eða útdráttur úr því, en samstaða varð ekki um það, að n. tæki upp þá breyt., sem íþróttafulltrúinn leggur til á 12. gr. frv., en það er nokkur breyt. á orðalagi gr. og felur í sér, að ákvæði hennar eru gerð nokkru víðtækari en í frvgr. er kveðið á, en að sjálfsögðu er hér stefnt alveg að sama marki. Við höfum tekið upp brtt. íþróttafulltrúa ríkisins, og er það 5. brtt. á þskj., stíluð við 12. gr. frv. Íþróttafulltrúi lét fylgja þessari till. alllangt erindi og rökstuðning af sinni hálfu, en ég sé nú ekki ástæðu til, nema sérstakt tilefni gefist eða þess verði óskað, að fara að lesa þetta erindi upp.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, bæði í 9. gr. og í 13. gr., að menntmrn. skuli heimilt að fresta framkvæmd skólabygginga, þótt fé hafi verið veitt til þeirra á fjárl., ef sýnilegt er, að ekki sé hægt að koma upp nothæfum áfanga eða ljúka byggingu með fjárveitingum Alþ., sem fyrir hendi eru, og framlögum sveitarfélaga. Og þar er gengið svo langt, að ef fjárveitingar Alþ. eru lægri en 1/3 hluti af áætluðu stofnkostnaðarframlagi ríkisins, þarf fjmrn. að koma til og veita sitt samþykki, og menntmrn. er óheimilt að leyfa að hefja byggingu nema að fengnu samþykki fjmrn., ef fjárveitingar eru ónógar til að greiða 1/3 af áætluðu stofnkostnaðarframlagi. Ég skal nú ekki blanda, mér í samskipti milli rn. eða hvaða hátt hæstv. ráðh. telja eðlilegt að hafa á um þau skipti. En að mínum dómi er í þessum ákvæðum, sem felast í 9. og 13. gr. frv. of langt gengið í þessu efni. Við leggjum því til nokkra orðalagsbreyt. á 13. gr., en efni þeirrar breyt. er það, að ekki megi koma í veg fyrir, að bygging sé hafin, ef fjárveitingar til skólamannvirkis, sem Alþ. hefur samþ., nægja til að greiða 1/3 hluta stofnkostnaðar. Það er gert ráð fyrir því sem meginreglu í frv., að framlög ríkisins skiptist á 2–3 ára greiðslutímabil, og hafi hv. Alþ. fyrir sitt leyti ákveðið að leggja fram 1/3 hluta, hefur það fullnægt þeirri skyldu fyrir sitt leyti, sem l. gera ráð fyrir að hvíli á ríkinu í þessu sambandi, og þá naumast eðlilegt að gera ráð fyrir öðru en að rn. láti framkvæma það, sem Alþ. þá sýnilega ætlast til.

Þá kem ég að 7. brtt., sem er við 14. gr. frv., eins og það er nú orðið eftir 3, umr. í Nd., en þar var felld burt ein gr., og þess vegna breytist greinatalan frá upphaflega frv. Í þessari 14. gr. frv. segir svo: „Greiðsla á framlagi ríkissjóðs hverju sinni er háð því, að framlag viðkomandi sveitarsjóða sé greitt, og skulu framlög þeirra og mótframlög ríkissjóðs greidd í sérstakan reikning byggingarinnar í banka eða sparisjóði, sem samkomulag verður um á milli menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarfélaga.“ Hér er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. eða rn. setji það skilyrði fyrir útborgun fjárveitinga til skólamannvirkis, að mótframlag sveitarsjóðs sé greitt, þ, e. a. s. fyrir fram greitt. Okkur þykir hér vera of langt gengið og viljum, að þetta orðist þannig, að greiðsla á framlagi ríkissjóðs hverju sinni séð háð því, að tryggt sé, að framlag viðkomandi sveitarsjóða sé handbært, þegar á þarf að halda. Og vitanlega er það auðvelt fyrir rn. og þá eftirlitsmenn, sem það hefur í þjónustu sinni, að ganga úr skugga um, hvernig þessu er háttað, hvaða fjárvon er hjá sveitarfélaginu til framkvæmdarinnar, þó að það fé, sem sveitarstjórn getur tryggt, sé ekki fyrir fram fyrirliggjandi í banka.

Þá kem ég að 8. brtt. okkar. Hún er við 15. gr., þar sem við gerum ráð fyrir, að síðari mgr. orðist þannig: „Andvirði skólabifreiða greiðir ríkissjóður, ef með því sparast heimavistarrými, að mati ráðun.“ Þessi brtt. er í nánu sambandi við þá brtt. okkar, að ríkið skuli greiða 100%, af stofnkostnaði heimavistarrýmis skólanna. Ef að mati rn. er hagkvæmara að kaupa skólabifreið og stofna „heimanakstursskóla“ og spara með því heimavistarrými, er það alveg rökrétt, að slík skólabifreið, sem keypt er og rekin með samþykki rn., sé greidd af ríkissjóði að fullu.

Næst kem ég að 9. brtt. Hún er við 19. gr. frv., eins og það er nú orðið, en í þeirri gr., hinni upphaflegu 20. gr. frv., eru mjög margþætt, viðamikil og flókin ákvæði um greiðsluskyldur ríkisins vegna kennslu, umsjónar og margvíslegra annarra starfa hjá skólunum. Þessi ákvæði eru þannig, að það er lítt viðráðanlegt á skömmum tíma að gera sér til hlítar grein fyrir, hvernig þau verða í framkvæmd. Og eins og ég drap á við 1. umr. þessa máls, mun það hafa komið fram í sambandi við athugun á þessu máli, að það hafi vafizt fyrir mönnum eins og Aðalsteini Eiríkssyni og ýmsum öðrum, sem segja má, að hafi það að sérgrein að fylgjast með skólakostnaðarreikningum, að gera sér grein fyrir því, hvað þessi ákvæði í raun og veru þýða. Ég viðurkenni, að með breyt., sem gerðar voru á þessari gr. í hv. Nd., hefur hún tekið nokkrum lagfæringum, og ég tel allar þær breyt., sem gerðar voru á gr, í Nd., vera til bóta, en samt sem áður tel ég, að þær gangi ekki nógu langt, og það má segja, að til öryggis leggjum við til, að 3. mgr. þessarar gr. orðist svo:

„Nú kemur í ljós, að reiknaðar stundir eru ekki nægjanlegar að dómi rn. til að fullnægja námsskrá og þörfum hvers einstaks skóla fyrir nauðsynlega starfskrafta miðað við starfstíma skóla, nemendafjölda, víxlkennslu og störf þau, sem nauðsynleg eru á þessu sviði, og skal þá fjölga reiknuðum stundum svo, að þessu marki verði náð.“

Okkur virðist, sem stöndum að þessari brtt., það vera mjög eðlilegt og raunar sjálfsagt, að ákvæði eins og þetta komi inn í þessa frvgr. Það er fyrir fram ákveðið og í mörgum greinum lögboðið að halda uppi vissri kennslu, og fræðslumálastjórnin gefur út námsskrá til handa skólunum, sem fara á eftir í framkvæmd við kennsluna. Og þá liggur í augum uppi, að það verður að búa svo um í skólakostnaðarlögunum, að það sé hiklaust og snurðulaust hægt að halda uppi þeirri starfsemi, sem menntmrn. og fræðslumálaskrifstofa kveða á um, að skuli gert. Þessi mgr. eða þessi brtt. um umorðun á einni mgr. í 19. gr. frv. miðar að því að hafa nokkurt öryggi í löggjöfinni í þessu efni.

Þá kem ég að ákvæðinu um viss frávik frá meginákvæðum frv. um útgjöld úr ríkissjóði, þar sem kveðið er á um, að þau megi nema allt að 2% af áætluðum heildarútgjöldum samkv. þessari gr. Það hámark er sett, nema samþykki fjmrn, komi til. Þessi ákvæði eru nú í fyrsta lagi talsvert torskilin. Það er ekki alveg ljóst eiginlega, hver sá grundvöllur er, sem á að reikna þessi 2% af, né hve víðtæk þessi heimild er til að greiða samkv. þessu ákvæði, og við leggjum til, að þetta ákvæði falli niður. Einnig leggjum við til, að annað ákvæði í þessari gr. falli niður. Það er um takmörkun á því, hvað megi setja eða skipa marga kennara við skóla og að það takmark er miðað við 80% af þeim stundafjölda, er viðkomandi skóli á rétt á, nema þegar 1–4 kennarar, að skólastjóra meðtöldum, fullnægja kennsluþörf og rétti skólanna með fjölda skyldustunda sinna. Við teljum, að þetta muni verða mjög flókið í framkvæmd. Menntmrn. skipar eða setur kennara við skóla ríkisins, og þegar slíkum embættismönnum er veitt staðan, hlýtur rn. að gera sér grein fyrir því og fá um það yfirlit, hvort þörf er á slíkum starfsmanni eða ekki, og eðlilegt er, að þessi takmörkun kennarafjöldans sé metin í sambandi við það, en ekki samkv. ákvæðum í þessari lagagrein.

10. brtt. okkar er við 20. gr. frv., og hún mælir svo fyrir, að ríkissjóður greiði eftir á, samkv. endurskoðuðum reikningum og fskj., viðhaldskostnað húsa, viðhald og endurnýjun tækja og búnaðar og húsaleigu í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. Flutningskostnað nemenda, þegar við það sparast heimavist, bygging skólamannvirkja eða hagkvæmt þykir af öðrum ástæðum, greiðir ríkissjóður og að fullu. En heilbrigðisþjónustu í öllum skólaflokkum greiðir ríkissjóður að hálfu á móti sveitarsjóði. Þetta er nú efnislega alveg hliðstætt því, sem segir í frv., en þessi ákvæði, eins og þau eru orðuð í okkar till., eru nokkru rýmri en ákvæði frv. sjálfs.

Svipað er að segja um 11. brtt. okkar, þ.e. við 22. gr. frv. Hún felur í sér allmikla rýmkun á ákvæðum frv., en þar er mælt fyrir um greiðslu á vissum kostnaðarliðum vegna rekstrar skólans, þ.e. hitun, rafmagnsnotkun, húsvörzlu og vátryggingargjöld. Það er gert ráð fyrir því í frv., að sveitarfélögin ein beri þennan kostnað, en við leggjum til, að ríkissjóður greiði helming þessara kostnaðarliða og höfum þó það sérákvæði um hitunarkostnað í heimavistarskólum, þar sem ekki nýtur jarðhita, að þá greiðir ríkissjóður 3/4 hitunarkostnaðarins. Þetta ákvæði um að gera mun á þeim skólum, sem njóta jarðhita til upphitunar, og hinum, sem hafa ekki þá aðstöðu, er ekki nýtt. Þetta ákvæði er nú í gildandi l., en það er gert ráð fyrir að fella það niður í þessu frv. Í þessari brtt. okkar felst því það, að það ákvæði, sem nú er í gildandi l. um þetta, haldist áfram. En um hina liðina, hitun, þar sem nýtur jarðhita, rafmagnsnotkun og vátryggingargjöld skólamannvirkja er það að segja, að þessi gjöld reynast mjög há í sumum þeim skólum, sem komið hefur verið upp og teknir eru til starfa, og það er álit okkar, að það sé mjög sanngjarnt, að ríkissjóður beri nokkurn hluta þessara kostnaðarliða. Það muni verða nóg fyrir sveitarfélögin að inna af hendi þann kostnað, sem þeim er að öðru leyti gert að greiða. Og um einn þessara liða, vátryggingargjöldin, vil ég taka það fram, að það sýnist alls kostar eðlilegt, að iðgjöld vegna vátrygginga séu greidd hlutfallslega eftir því, sem eignarhluti aðilanna er í skólahúsinu. Ef skólahús brennur, verður tryggingarféð notað til að endurbyggja húsið, og þá á eignarhlutdeildin væntanlega að haldast óbreytt í hinni nýju byggingu, eins og var í þeirri, sem tjónið náði til. Þess vegna er það algerlega rökrétt, að iðgjöld vegna vátrygginga séu greidd að nokkrum hluta af ríkinu vegna þeirra skóla, sem það á hlutdeild í. Við gerum svo ráð fyrir, að heimavistargjöld vegna húsnæðis verði ekki innheimt hjá nemendum, það verði beinlínis tekið fram í þessu frv. Við vitum, að aðstaða ungmenna til náms er mjög misjöfn í þessu landi, svo að það er eitt af vandamálum landsbyggðarinnar, hin misjafna aðstaða, sem unga kynslóðin þar hefur til skólanáms, samanborið við jafnaldra hennar, þar sem aðstaðan er bezt í þéttbýlinu. Það er reynt að bæta úr þessu með því að gefa unga fólkinu kost á að stunda nám í heimavistarskólum. Og þá teljum við það vera í samræmi við viðleitni ríkisvaldsins til þess að jafna aðstöðumuninn að þessu leyti, að það sé beint tekið fram í skólakostnaðarlöggjöfinni, að heimavistargjöld vegna húsnæðis verði nemendur ekki látnir greiða. Hér er um sanngirnismál að ræða, en vissulega ekki stórt fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð eða þá, sem að rekstri skólanna standa.

Þá kem ég að 13. og síðustu brtt. okkar, við 24. gr., og það er að mínum dómi eitt veigamesta atriðið, sem í brtt. okkar felst. Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að sameign ríkisins samkv. l. um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru af ríki og sveitarfélögum, er afmörkuð við skóla gagnfræðastigsins og húsmæðraskólana. En ég benti á, að með þessu frv. væru skólakostnaðarlögin látin taka til skólaflokks, sem hefði verið farið með eftir sérlögum hingað til, og á ég þar við iðnfræðsluna í landinu. Og ég benti á það, að í 25. gr. frv. segir, að skólamannvirki þau, sem lög þessi taka til, þ.e.a.s. frv., þegar það er orðið að l., skuli vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. Af þessu leiðir, að þessi ákvæði eiga nú hér eftir að taka til iðnfræðslunnar.

Ég beindi þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort það væri skilningur hans á frv. og ætlun hans í sambandi við þessa lagasetningu, að þetta ákvæði næði til hinna mörgu, tiltölulega smáu og dreifðu iðnskóla, sem nú starfa í landinu, eða hvort þetta ætti einungis að taka til þeirra nýju iðnskóla, sem reistir yrðu samkv. iðnfræðslulöggjöfinni frá síðasta þingi. Hæstv. ráðh. svaraði með einni setningu eða svo, sem var efnislega á þá leið, að hann teldi, að iðnskólarnir væru sameign ríkisins og sveitarfélaga. Þetta svar tel ég ekki rétt og ekki fullnaðarsvar við þeirri spurningu, sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh. Mér er ekki kunnugt um, að það sé nokkurs staðar lagaboð um það nú, áður en þetta frv. er orðið að l., að þeir 20 iðnskólar, sem nú starfa víðs vegar um land, séu sameign ríkisins og hlutaðeigandi sveitarfélaga. En mér virðist, eftir þessu frv. og eftir svari ráðh., að að því sé stefnt, að svo verði eftirleiðis. En í þessu felst raunar miklu meira en ég hafði orð á við 1. umr., og að því vil ég nú leyfa mér að víkja.

Það hefur verið talið ótvírætt til þessa, að barnaskólahúsin, öll skólamannvirki, sem eru reist í þágu barnafræðslustigsins í landinu, bæði í kaupstöðum og út um sveitir, séu eign sveitarfélaganna. Þetta hefur verið talið ótvírætt við setningu fræðslulöggjafarinnar hingað til, og við þurfum ekki annað en fletta upp fasteignamatsbókunum, sem gefnar eru út að tilhlutan fjmrn. og undirbúnar af þar til hæfum mönnum heima í héruðunum. Þar er sagt til um hverja einustu fasteign, hver sé eigandi hennar. Og ef við flettum upp fasteignamatsbókunum og skoðum barnaskólahúsin, hvort sem það er í Reykjavík, öðrum kaupstöðum eða í sveitum, stendur það skráð, óvéfengjanlega, að þetta skólamannvirki, þetta skólahús sé eign viðkomandi sveitarfélags,

Nú segir í þessu frv., að það taki til barnaskóla, skóla gagnfræðastigsins, húsmæðraskóla og iðnskóla. Og 25. gr. kveður á um það, eins og ég áður hef bent á, að skólamannvirki, sem l. þessi taka til, skulu vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. Ég fæ ekki betur skilið en í þessum ákvæðum fellst það, að með þessu ætli menn nú á skammri stundu að færa eignarhald barnafræðsluskólanna allra í landinu úr einhliða eign sveitarfélaganna yfir í sameign ríkisins og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. Ef það er ætlunin, að þetta taki aðeins til þeirra skólamannvirkja, sem síðar verða byggð, eftir að þetta frv. er orðið að l., þarf áreiðanlega að orða þetta eitthvað öðru vísi, vegna þess að þessi lög taka í fjölmörgum atriðum til þeirra skóla, sem nú eru starfandi í landinu. Ég hefði nú talið sjálfsagt að leita um þetta efnisatriði álits sveitarfélaganna, a.m.k. stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og hefur það þó ekki umboð fyrir hin einstöku sveitarfélög til þess að ljá máls á eða segja til um breytingu á eignum þeirra. Ég hefði í sjálfu sér talið eðlilegt, að frv. væri sent út, t.d. í sýslurnar, til skoðunar og fengin umsögn um það, m. a.. um þetta atriði. En þeir, sem standa að frv., virðast ekki hafa hug á þessu. Og það var .út af þessu atriði, að ég mæltist til þess á skyndifundi í nótt, að þetta yrði skoðað betur nú fyrir hádegið í dag og á fund n. til kvaddir t.d. ráðh. eða ráðuneytisstjórar og jafnvel fleiri menn, en til þess hefur ekki gefizt tóm. Vegna þessa, svo og í hvaða farveg þetta mál er nú komið, leggjum við til, sem skipum minni hl., að hafa orðalagið á ákvæði núverandi 24. gr. frv. eins og það er í gildandi l., að afmarka sameign ríkisins og sveitarfélaganna við gagnfræðaskólastigið og húsmæðraskólana, eins og gert hefur verið undanfarin 10 ár, og raunar lengur um gagnfræðaskólana. En ef till. okkar verður samþ., er aðstaða barnafræðslustigsins óbreytt frá því, sem verið hefur, og aðstaða iðnskólanna líka óbreytt að þessu leyti frá því, sem verið hefur. Ef ástæða þætti til við nánari athugun síðar, á næsta þingi eða síðar, eftir að menn hefðu þá kynnt sér álit sveitarstjórnarmanna um þetta, að færa málið í þann farveg, sem frv. að þessu leyti myndar, er nægur tími til að koma þeirri breyt. á löggjöfinni að síðar.

Ég vil svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en tel, að ég hafi gert grein fyrir þessum till. okkar, og þó ekki sízt þessu síðasta efnisatriði, sem ég gerði að umræðuefni.