21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem menn rekur minni til, var á síðasta Alþ., hinn 22. apríl, samþ. þáltill. þess efnis aðallega, að athuga skyldi, hvort tímabært væri og æskilegt að lækka kosningaaldur. Í því skyni var kosin nefnd, sem hefur nú skilað áliti, og er það undirritað hinn 9. febr. 1967. Aðalatriði þess álits er prentað á síðu 6 í fskj. með því frv., sem hér liggur fyrir, þar sem sagt er:

„Þegar litið er til framangreindra atriða og annarra viðhorfa, er það sammæli n., að rétt sé að hverfa að því að lækka kosningaaldur til alþingiskosninga og annarra almennra kosninga frá því, sem nú er. Skiptar skoðanir voru hins vegar um það innan n., hve langt ætti að ganga í þessu efni, en n. er þó sammála um það að mæla með því, að hann verði á þessu stigi lækkaður um eitt ár eða niður í 20 ár.“

Um þetta voru allir nm. sammála, og færa þeir að því þau rök, að staða ungra manna í þjóðfélaginu hafi breytzt verulega hina síðustu áratugi og þá ekki sízt hin allra síðustu ár, þannig að þeir hafi nú mun sjálfstæðari stöðu, bæði í sínu eigin lífi, um hjúskaparstofnun og tekjur, heldur en áður var, og færa að þessu ákveðin rök, svo sem nánar kemur fram í þessu nál. Ég hygg, að allt þetta sé ómótmælanlegt og rökstyðji, að eðlilegt sé að lækka kosningaaldurinn, en hann var lengst af 25 ár, en lækkaður á árinu 1934 í 21 ár.

Nú er kosningaaldur einnig hinn sami og kjörgengisaldur, en áður var þar á munur, þannig að kjörgengisaldurinn var hærri. Eðlilegt er, að menn athugi einnig, hvernig þessu er fyrir komið í öðrum löndum, og þá eru um það allmismunandi reglur. Því verður ekki neitað, að þau þjóðfélög hafa verið fúsust til þess að lækka kosningaaldur, þar sem kosningarrétturinn hefur minnsta þýðingu. Hin hafa aftur á móti verið íhaldssamari í þessum efnum, þar sem almennar kosningar raunverulega ráða, hvaða úrslitaákvarðanir eru teknar um stjórn þeirra ríkja, sem hlut eiga að máli. En þó að reglur séu um þetta býsna misjafnar, er það einnig svo erlendis, að þróunin fer greinilega í þá átt að lækka kosningaaldurinn, eins og n. varð sammála um að leggja til að gert yrði, hér.

Aðalágreiningur innan n. virðist hins vegar hafa verið um það, að sumir hafa viljað láta það standa meira eða minna opið fyrir almenna löggjafann að kveða nánar á um, hver kosningaaldurinn skyldi verða. Mér virðist þó, að lágmark hafi átt að vera 18 ár. Fyrir þessu má færa þau rök, að eðlilegt sé að breyta þessu smám saman, að þróunin fari í þá átt að jafna þann mismun á ungum og gömlum, sem áður var, og óþarft sé að ómaka stjórnarskrárgjafann með slíkum breytingum. Hér er hins vegar um slíkt grundvallaratriði allrar stjórnskipunarinnar að ræða, að eðlilegra sýnist, að um þetta sé kveðið á í sjálfri stjórnarskránni og þá hægurinn hjá svipað og nú að gerá þessa breytingu, þegar hvort eð er á að ganga til almennra kosninga, þannig að óþarfa ómak af þeim sökum verður trauðlega mikið. Og ef menn koma sér saman um að lækka kosningaaldurinn nú ofan í 20 ár, eins og lagt er til í till. n., virðist ósennilegt, að á því yrði gerð breyting á næstu 3–4 árum, hvort eð er. Það er ærinn tími til þess að gera það, næst þegar almennar kosningar fara fram. Það varð þess vegna ofan á og ríkisstj. varð um það sammála að leggja til að breyta þessu ákvæði þannig, að 20 ára aldur kæmi í stað 21 árs aldurs. Þetta þykir næg breyting að sinni. Með því er engan veginn sagt, að menn geti ekki á síðari stigum málsins hugsað sér meiri breytingar, en eins og ég gerði grein fyrir, er þetta það spor, sem allir nm. komu sér nú saman um að leggja til að stigið yrði, og engar ákveðnar till. voru um það, að efnislega yrði farið lengra að þessu sinni en hér er fallizt á.

En úr því að þessu ákvæði átti að breyta, þótti rétt að færa kosningarréttarskilyrðin til meira samræmis við eðlilega reglu, ef svo má segja, heldur en þau hafa verið, og var það þó einkum ákvæðið varðandi 5 ára búsetu, sem ekki þótti lengur eiga við. Þetta ákvæði komst inn, þegar við áttum í stjórnskipulegum deilum við Dani, og var til þess að draga úr hættum, sem ýmsir töldu stafa af jafnréttisákvæðum þeim til handa. Ég hygg, að það hafi þegar verið í stjórnskipunarl. frá 1915 og endurnýjað með nokkuð öðrum hætti í stjórnarskránni 1920. Það er ljóst, að þessi langa búseta á ekki lengur við, eftir að orsakir hennar eru úr sögunni, og ástæðan til þess, að menn hafa ekki breytt þessu, er, að þessi hluti stjórnarskrárinnar hefur verið látinn óhaggaður. Menn héldu sig 1944 að beinum formlegum breytingum, sem urðu nauðsynlegar vegna lýðveldisstofnunar, og síðan að þeim breytingum, sem hafa verið óhjákvæmilegar vegna breytingar á kjördæmaskipan. En efnislega hygg ég að enginn sé lengur með því að hafa 5 ára búsetu. Hins vegar er það rétt, sem mér var bent á, að búsetuskilyrðin hafa alveg fallið niður, og það er meira en ætlunin var, og kemur í ljós, að aldrei er neitt mál af vel skoðað Ég þóttist hafa rennt augunum yfir þetta aftur, eftir að frá því var gengið, en þarna hafa orðið nokkur mistök, sem er hægur hjá að leiðrétta við meðferð málsins á þingi, vegna þess að að sjálfsögðu er það eðlilegt, að þess sé krafizt, að menn séu búsettir hér, og raunar ekki óeðlilegt, að þess sé krafizt, að menn hafi verið búsettir t.d. um eins árs bil, eins og löngum var skilyrði um kosningarrétt og kjörgengi. En látum það vera. A.m.k. er búseta í landinu eðlilegt skilyrði fyrir kosningarrétti að mínu viti.

Hins vegar var sérstaklega athugað, hvort ástæða væri til að fella niður skilyrðið um óflekkað mannorð, sem sums staðar hefur verið fellt niður annars staðar. En það þótti þvílík efnisbreyting, að ekki væri ástæða til þess nema að betur athuguðu máli að fella það úr gildi. Ég vil hins vegar taka fram, að ef menn hér í d. eða á Alþ. í heild telja, að rétt sé að haga þessu með svipuðum hætti og á sér stað nú hjá okkar nágrannaþjóðum, finnst mér það vel koma til athugunar. En sú athugun, sem fram fór og var að vísu í skyndi gerð, þegar þetta frv. var undirbúið, leiddi til þess, að menn töldu ekki ástæðu til þess að fella þetta skilyrði niður. Hins vegar er það nú sem áður mjög rúm heimild, sem löggjafinn er talinn hafa til þess að túlka, hvað í þessu skilorði felst; og naumast í samræmi við almenna réttarvitund enn, að því er ég hygg, að fella skilorðið alveg niður. Það er þó, eins og ég segi, til athugunar. En eitthvert búsetuskilyrði er tvímælalaust rétt að hafa, þó að því hafi verið sleppt, þegar 5 ára búseta var felld niður.

Þá var einnig breytt ákvæði varðandi túlkun á því, hvort konur teldust fjár síns ráðandi við giftingu. Þetta hefur ekki átt við alllengi miðað við núverandi löggjöf, og var því eðlilegt, að það væri fellt niður.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. Efni málsins er einfalt og ljóst. Það er hins vegar greinilegt, að ef frv. verður samþ. nú og aftur að þingkosningum loknum, er eðlilegt, að þegar í stað verði gerðar aðrar og fleiri breytingar á réttarstöðu ungra manna í samræmi við frv.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. fari til 2. umr. Ég hygg, að oftast hafi verið venja, að sérstök stjórnarskrárnefnd hafi verið skipuð til meðferðar stjórnarskipunarfrv., en hvort menn, vegna þess að málið er ekki stærra eða flóknara að þessu sinni heldur en ég hef nú gert grein fyrir, telja nóg, að það fari til allshn., læt ég á vald forseta og hv. d., en bendi á, að þetta tvennt kemur til varðandi nefndarskipun.