21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil einungis vekja athygli á því, að það er misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni, að hér sé eingöngu um að ræða till. ríkisstj. Hér er um að ræða till. þeirrar n., sem kosin var á síðasta Alþ. og eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. tók fram allir flokkar áttu fulltrúa í og voru sammála um. Till. þarf ekki að vera skynsamlegri fyrir það út af fyrir sig, en þetta er sú till., sem mþn. bar fram.

Ég hygg, að ef hv. þm. les grg., sjái hann einnig, að ég tók sízt of sterkt til orða, að kosningarrétturinn er lægstur, þar sem hann er minnst virði. Við vitum, að það hefur ekki ýkjamikla þýðingu, hvort menn hafa kosningarrétt eða kosningarrétt ekki í þeim mannflestu löndum, þar sem kosningarrétturinn er 18 ára. Hitt veit hv. þm. jafnvel og ég, að kosningarréttur í Suðurríkjum Bandaríkjanna þykir ekki heldur ýkjamikils virði, a.m.k. fyrir menn, sem eru svartir á hörund, svo að ég sagði sízt of mikið um það í mínum orðum áðan.

Fyrir okkur flesta þm. er það hins vegar ekkert sérstakt viðmiðunartakmark, þessi 18 ár, frekar en 20 ár. Það er að vísu svo, að það eru aðallega lönd í austanverðri Evrópu, sem hafa 18 ár, en við teljum ekkert sérstakt keppikefli eða fullu réttlæti náð, þó að við þau lönd sé miðað.

Hvort mönnum þykir hins vegar ekki taka því að gera þessa breytingu, ef menn telja hér sanngirni á ferðum á annað borð, þá er á það að líta, að ef ég skil rétt þær tölur, sem birtar eru á síðu 6 í grg., þá er þarna um að ræða nokkur þúsund manns á hverju ári, sem munu öðlast kosningarrétt vegna þessara laga, en mundu ekki ella öðlast hann. Og það er þó vissulega töluvert takandi mark á því, hvort þessu fólki sé gert rétt til eða ekki, ef menn eru sammála um, að það sé eðlilegt, að menn hafi þennan rétt, ef þeir eru orðnir 20 ára. Lengra nær samkomulagið ekki enn, en þangað nær samkomulagið, og þá sýnist vera eðlilegt að gera þá breytingu.

Aths. hv. 3. þm. Norðurl. v. voru efnislega réttar, og ég get tekið undir þær, og það má segja, að hann bendi réttilega á, að það sé ekki endilega þörf á því að hafa í l. beint búsetuskilyrði, vegna þess að slíkt hljóti að koma fram, þegar ákveðið skuli, í hvaða kjördæmi menn eigi rétt á að greiða atkv. En ég spyr hann hins vegar sem lögfræðing, sem um þessi efni hefur fjallað með svipuðum hætti og ég fræðilega: Mundi þó ekki vera vissara að hafa sjálft búsetuskilyrðið, vegna þess að ella væri talið hæpið að setja það inn með löggjöf? Ég játa, að þetta er meira deila um keisarans skegg, um kenningu, heldur en raunveruleika, og sjálfur ber ég ábyrgð á frv., eins og það er lagt fram án þessa búsetuskilyrðis. En ég held þó að athuguðu máli, að það sé réttara að hafa sjálft búsetuskilyrðið í frv. Efnislega breytir það engu frá því, sem fyrir mönnum hefur vakað, og það má segja, að skilyrði um eins árs búsetu í kjördæmum, sem áður var ekki fram tekið í sjálfri stjórnarskránni, en kosningalög leiddu til að haldið var, — þetta var aldrei vefengt að fengi staðizt, og hv. þm. getur bent á það sem fordæmi fyrir því, sem hann segir nú. En ég vildi þó, að menn íhuguðu þetta aðeins nánar.