15.04.1967
Neðri deild: 69. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í samræmi við till. mþn., sem kosin var á síðasta Alþ. og í áttu sæti fulltrúar allra flokka. Hún gerði, eins og kunnugt er, till. um það að lækka kosningaaldur um eitt ár, úr 21 ári niður í 20 ár.

Það má segja, að í Ed. væri í meginatriðum samkomulag um þetta frv. Einstaka þm. vildu að vísu ganga lengra, lækka aldurinn niður í 18 ár eða hafa það opið fyrir hinn almenna löggjafa að ákveða, að slíkt mætti gera, en meginhluti Ed. var sammála um að halda sér við till. mþn. Er ekki önnur breyting í þessu frv. fólgin heldur en sú að efni til og svo hin, að 5 ára búsetuskilyrðið er nú fellt niður, en í stað þess ákveðið, að menn þurfi að eiga lögheimili hér á landi, sem sjálfsagt má telja.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. Ed. taldi ekki ástæðu til þess að kjósa sérstaka stjórnarskrárnefnd, eins og oft hefur verið gert, vegna þess, hversu breytingin er einföld, og er þá væntanlega ekki ástæða til þess heldur hér í þessari hv. d. að hafa þann hátt á. Legg ég því til, að málinu sé vísað til allshn.