18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 580, mælir allshn. hv. d. með samþykkt frv., en einn hv. nm. skrifar undir nál. með fyrirvara, og hefur hann áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Frv. þetta felur það í sér, að kosningaaldur skuli lækka úr 21 ári í 20 ár, og hefur tekizt víðtækt samkomulag um það hér á hv. Alþ., að þessi breyting skuli ná fram að ganga. Ég vil fyrir mitt leyti og fyrir hönd míns flokks fagna því, að þessi samstaða skuli hafa náðst, því að eins og kunnugt er hefur Alþfl. það á stefnuskrá sinni að lækka kosningaaldur niður í 18 ár. Við gerum okkur það ljóst í Alþfl., að ekki er líklegt, að samstaða náist um að stíga svo veigamikið skref í einum áfanga, en með þessum fyrsta áfanga, sem náðst hefur, teljum við mikið unnið og vonum, að áður en langt líður, náist samstaða um að þoka þessu máli frekar áleiðis. Við vitum, að það eru skiptar skoðanir um það, hvort lækka beri kosningaaldurinn meira, en við höfum tímann fyrir okkur til þess að vinna málinu fylgi og gerum okkur eftir atvikum ánægða með þá afgreiðslu, sem málið nú fær.