06.12.1966
Neðri deild: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

75. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 87 frv. til l. um breyt á l. um stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum.

Frv. þetta er aðallega og má segja eingöngu flutt til þess að samræma l. um stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum við l. um stýrimannaskólann í Reykjavík, eftir að þeim hafði verið breytt allverulega á síðasta Alþ.

Sú breyt., sem lagt er til hér, að gerð verði á umræddum 1., er við 2. gr., en þar er í l. gert ráð fyrir, að skólinn starfi í einni tveggja ára deild fyrir fiskimannapróf, en lagt til í frv., að skólinn starfi í eins og tveggja ára deild fyrir fiskimannapróf. Við 3. gr. er lagt til, að á eftir orðunum „íþróttir“ komi „einkum sund“. Við 4. gr. er lagt til, að hún breytist þannig, að í skólanum skulu vera fiskimannapróf 2. og 1. stigs, en í l. er aðeins gert ráð fyrir fiskimannaprófi.

4. gr. þessa frv., sem yrði 5. gr. l., ef samþ. verður, er um námsefni til fiskimannaprófs 1. stigs, og er í öllum aðalatriðum sama efnis og nú er í gildandi l. um stýrimannaskólann í Reykjavík, að því er fiskimannapróf 1. stigs varðar. Það sama er að segja um 5. gr. þessa frv., hún er einnig um námsefni í skólanum og er til samræmis við tilsvarandi grein í l. um stýrimannaskóla í Reykjavík, að því er fiskimannapróf 2. stigs varðar.

Við 6. gr. er gerð sú breyt., að eins og nú er í l., er gert ráð fyrir að hafa tvo prófdómara í öllum fögum, auk kennara, en í þessu frv. er gert ráð fyrir, að aðeins skuli vera einn prófdómari, auk kennara, nema í fallgreinum, þar skulu vera tveir prófdómarar.

Í 7. gr. frv., sem yrði 8. gr., ef frv. verður samþ., fjallar um prófskírteini, og gerir ráð fyrir, að prófskírteini við brottför skuli, auk þess að vera á íslenzku, einnig vera a.m.k. á einu alþjóðamáli, en aðeins á íslenzku varðandi fiskimannapróf 1. stigs.

Í heild eru þær breyt., sem lagt er til, að gerðar verði á l. um stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, til samræmis við núgildandi l. um stýrimannaskólann í Reykjavík og verður það að teljast eðlilegt, þar sem báðir þessir skólar útskrifa skipstjóraefni, að því er varðar fiskimannapróf, með hliðstæðum réttindum, séu einnig l. að þessu leyti samhljóða og námsefni einnig.

Um stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum skal ég geta þess, að á þeim stutta tíma, sem hann hefur starfað, mun hann nú í vor hafa útskrifað rúmlega 40 nemendur, þar af flesta með fullnaðarprófi, og hefur aðsókn að skólanum farið nokkuð vaxandi ár frá ári og hygg ég, að hann svari þeim vonum, sem Vestmannaeyingar gerðu sér um hann, þegar til hans var stofnað. Ég hef það eftir þeim prófdómurum, sem þar hafa verið við burtfarapróf,. að kennsluaðstaða þar og kennsla svari alveg því, sem til er ætlazt skv. l. um stýrimannaskólann þar og sambærilegt við það, sem ætlazt er til í l. um stýrimannaskólann í Reykjavík, þannig að þau skipstjóraefni, sem útskrifuð eru frá þessum skóla, ættu sízt að vera verr undir það búin að gegna því starfi, sem þeim er ætlað að loknu námi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. menntmn.