09.03.1967
Efri deild: 49. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

75. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta er þmfrv., flutt í Nd. Alþ. og var þar samþ. einróma og óbreytt. Eins og fram kemur í grg. við frv., er það flutt til þess að samræma l. um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum samsvarandi ákvæðum í hinum nýju l. um stýrimannaskólann í Reykjavík, sem samþ. voru á síðasta þingi. En þau ákvæði, sem þarna er um að ræða, eru þau, sem varða fiskimannadeild.

Í stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum er nú starfandi ein tveggja ára fiskimannadeild, eða deild fyrir fiskimannapróf, en með frv. er lagt til, að í þess stað verði ákveðið, að þar starfi eins og tveggja ára deild fyrir fiskimannapróf. 3. gr. frv. er svo í beinu samhengi við 1. gr., en hins vegar fjalla 4. og 5. gr. frv. um námsefni. Ég sé ekki ástæðu til að rekja fleiri gr. frv., en vil aðeins bæta því við í framhaldi af því, sem ég áður sagði, að efni einstakra greina er svo að segja eða í flestum tilfellum alveg orðrétt fært til samræmis við það, sem er í l. um stýrimannaskólann í Reykjavík.

Menntmn. þessarar hv. d. hefur haft málið til meðferðar og, eins og fram kemur á þskj. 310, leggur n. til, að frv. verði samþ. Einn nm., hv. 4. landsk., var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt í n.