13.03.1967
Efri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

102. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Í þessu frv., sem er þmfrv., flutt í hv. Nd., felst sú breyt. á læknaskipunarl. frá 1965, að ríkisstj. verði heimilað að ráða lækni, launaðan af ríkissjóði, til þess að veita sjómönnum síldveiðiflotans læknishjálp á fjarlægum miðum. Í grg. með frv. er bent á nauðsyn þess, að kostur sé slíkrar hjálpar, þegar veikindi eða slys ber að um borð í skipunum.

Í frv. var upphaflega ákvæði um það, að slíkur læknir hefði bækistöð um borð í síldarleitar- eða rannsóknarskipi, en í hv. Nd. var samþ. brtt. frá heilbr.- og félmn. þeirrar d. í þá átt, að þetta ákvæði félli niður úr frv., þannig að það yrði þá ekki bundið í l., á hvern hátt slíkri læknisþjónustu yrði fyrir komið í framkvæmdinni, ef aðrar leiðir kynnu að verða taldar heppilegri en sú, sem í ákvæðinu fólst, og yrði slíkt að metast þá á hverjum tíma.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. og óskað um það umsagnar landlæknis. Umsögn landlæknis hefur borizt n., og er hún svo hljóðandi:

„Hér með svar við bréfi heilbr.- og félagsmn. Ed. Alþ., dags. 2. þ, m., þar sem mér er sent til umsagnar frv. til l. um breyt. á læknaskipunarlögunum nr. 43 1965, varðandi heimild til að ráða lækni til þess að veita sjómönnum síldveiðiflotans læknishjálp á fjarlægum miðum. Ég hef engar aths. að gera við frv. þetta.“ Undirritað af landlækni.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 321, mælir heilbr: og félmn. með samþ. frv., en 2 nm., þeir hv. 9. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Vesturl., voru fjarstaddir, þegar málið var afgreitt úr nefndinni.