06.12.1966
Neðri deild: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

84. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um iðnlánasjóð á þskj. 112 er framhald af löggjöf frá síðasta þingi, sem þá var samþ. um breyt. á iðnlánasjóðslögunum, en eins og hv. þm. rekur minni til, var eitt meginefni þeirra breytinga, að iðnlánasjóði væri heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka allt að 100 millj. kr. lán til þess að mynda nýjan lánaflokk í því skyni að veita sérstök hagræðingarlán til viðbótar almennum lánum, er að mati sjóðsstjórnarinnar teldust stuðla verulega að því að auka framleiðni og bæta aðstöðu iðnfyrirtækis til þess að aðlaga sig nýjum viðhorfum vegna breyttra viðskiptahátta, svo sem tollabreytinga og fríverzlunar. Í framhaldi af þessu var í samráði við stjórn iðnlánasjóðsins gefin út reglugerð um hagræðingarlán iðnlánasjóðs 7. júlí í sumar, og snemma í septembermánuði var það til umr. innan ríkisstj. að heimila iðnlánasjóði að hefja lánsfjárútvegun fyrir þessa hagræðingarlánadeild og stuðla að því, að slík lánsfjáröflun mætti takast. Við áttum um þetta viðræður, fjmrh. og iðnmrh., við Seðlabankann, sem hafður var með í ráðum. Síðan hefur málið verið undirbúið milli Seðlabankans og stjórnar iðnlánasjóðs og er nú komið svo langt, að það ætti að vera hægt að hefja mjög fljótlega þetta lánsútboð. En að athuguðu máli þótti nauðsynlegt til þess að gera lánin aðgengilegri og útgengilegri að veita iðnlánasjóði heimild til þess, að ef hann byði út almennt skuldabréfalán, mættu skuldabréfin svo og vextir af þeim vera undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé, sbr. 21. gr. l. nr. 55 17. júlí 1964, um tekjuskatt og eignarskatt. Og þetta ákvæði er meginefni þessa frv., að veita iðnlánasjóði vegna væntanlegra hagræðingarlána þessa skattfrelsisheimild.

Formsins vegna var talið æskilegt að umorða 6. gr. iðnlánasjóðslaganna, nr. 45 frá 3. apríl 1963, eins og hér er gert, og ég vil einnig vekja athygli á því, að almenn lánsheimild iðnlánasjóðs er hér hækkuð upp í 300 millj. kr., en hún var hækkuð úr 100 millj. í 150 millj. með breytingum á síðasta þingi. En eins og nánar er gerð grein fyrir í aths. þessa frv., hefði verið æskilegra þá að hafa hliðsjón af þeim breytingum, sem eiga sér stað, þegar Framkvæmdabanki Íslands hættir störfum nú um áramótin og við verkefnum hans tekur Framkvæmdasjóður Íslands, en gert er ráð fyrir, að hann verði lánasjóður fjárfestingarsjóðanna og þá ekki ólíklega eitthvað í svipuðum mæli lánað t.d. til iðnlánasjóðs eins og Framkvæmdabankinn hefur lánað einstökum iðnfyrirtækjum í iðnrekstri á undanförnum árum, og við það er miðuð þessi till. um að hækka heimildina upp í 300 millj. kr., og má segja, að það hefði átt að taka þetta til athugunar í vor, eins og kemur fram í aths. Það er hugsað að hefja þessa lánsfjáröflun með því að bjóða út 25 millj. kr. af 100 millj. kr. heimildinni, sem hagræðingarlánaflokkurinn hefur fengið, og um það, eins og ég hef áður sagt, hefur verið haft samráð við Seðlabankann, og ég geri mér vonir um, að þessi almennu lán geti verið með þeim kjörum eða skuldabréf, að þau reynist útgengileg, enda má segja, að iðnlánasjóður hafi nokkur tök á því að taka á sig halla af þessu lánsútboði vegna þeirrar hækkunar, sem gerð var á almennu framlagi frá ríkissjóði til iðnlánasjóðs á síðasta þingi, úr 2 millj. kr. í 10 millj. kr.

Mér þykir rétt í sambandi við þetta mál að gera hv. þm. grein fyrir því, að iðnmrn. hefur verið í nokkurri endurskoðun og endurskipulagningu. Það má segja, að það hafi ekki verið mjög veigamikið og við höfum verið liðfáir þar, en úr þessu hefur nú rætzt á þessu hausti, og í sambandi við nokkra endurskipulagningu, bæði varðandi fyrirkomulag og mannafla, varð það að samkomulagi innan ríkisstj., að iðnmrh. skipaði svokallað iðnþróunarráð til styrktar um meðferð meiri háttar mála, sem snerta iðnþróun landsins. Hvað fyrir vakir með þessu, skýrist kannske í fljótustu bragði með því að lesa bréf, sem sent var frá iðnmrn. 7. nóv. til þeirra aðila, sem gert er ráð fyrir, að tilnefni fulltrúa í þetta iðnþróunarráð, og vil ég leyfa mér að gera það, með leyfi forseta. Þar segir svo:

Iðnmrh. hefur ákveðið að skipa iðnþróunarráð, er verði iðnmrn. til styrktar um meðferð meiri háttar mála, er snerta iðnþróun landsins. Er þá við það miðað, að stóriðjunefnd hafi lokið verkefni sínu. Meginverkefni stóriðjunefndar var að kanna möguleika þess, að hafin yrði álbræðsla á Íslandi, og undirbúa fyrir hönd ríkisstj. samningagerðir þar að lútandi. En mörg önnur mál komu til meðferðar hjá stóriðjunefnd, og hafði hún m.a. með höndum athugun þess, að reist yrði kísilgúrverksmiðja á Íslandi, og undirbjó löggjöf um kísilgúrvinnslu við Mývatn. N. fjallaði um aðstöðu til olíuhreinsunar á Íslandi og voru falin önnur verkefni til íhugunar. Gert er ráð fyrir, að verkefni iðnþróunarráðs verði að nokkru framhald af verkefnum stóriðjunefndar, en þó víðtækara, þar sem fjallað yrði um iðnþróun landsins almennt, fjárhagslega, viðskiptalega og tæknilega, og tekið við rannsóknarefnum eða stuðlað að rannsóknum á möguleikum til nýrra iðngreina samhliða eflingu þeirra, sem fyrir eru, í þeim tilgangi að vinna að framkvæmd mála, veita einstaklingum, félögum og samtökum iðnaðarins brautargengi þar að lútandi. Iðnþróunarráð verður þannig skipað, að eftirtaldir aðilar skipi hver sinn fulltrúa í ráðið, en iðnmrh. gegni formennsku þess: Seðlabanki Íslands, Framkvæmdasjóður Íslands, Efnahagsstofnunin, Iðnaðarmálastofnun Íslands, iðnlánasjóður, Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna og iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga.“

Eins og menn sjá af þessu, er þetta iðnþróunarráð þannig samsett, að það er skipað fulltrúum frá samtökum iðnaðarins í landinu, iðnrekendum, iðnaðarmönnum og iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga, en auk þess fulltrúum frá peningastofnunum og fjárfestingarsjóðum, bæði iðnaðarins og Framkvæmdasjóði Íslands auk Seðlabankans og Efnahagsstofnunar, og vildi ég mega vænta, að þetta ætti að gefa iðnmrn. verulegan styrk í þeim margvíslegu verkefnum, sem það þarf og á að inna af höndum til styrktar almennri iðnþróun í landinu. Mér hafa ekki enn borizt allar tilnefningar frá þessum aðilum og sérstaklega ekki Framkvæmdasjóði Íslands, því að enn sem komið er hefur hann ekki tekið til starfa, en hann á að taka við um áramótin af Framkvæmdabankanum, en verður væntanlega fljótlega kölluð saman stjórn framkvæmdasjóðsins, til þess að hún verði undir það búin að taka við þeim verkefnum, sem henni eru ætluð um áramótin, og eftir því að dæma ætti að vera skammt í land, að þetta iðnþróunarráð gæti tekið til starfa.

Eftir þá reynslu, sem við höfðum í ríkisstj. af störfum stóriðjunefndar, var nokkrum sinnum um það rætt að koma upp nefnd eða ráði, sem hefði nokkurt framhald af störfum n. og væri þó viðtækara, og átti ég nokkrum sinnum um það viðræður við formann stóriðjunefndarinnar, dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóra, og þessi hefur nú orðið niðurstaða þessa máls.

Ég vildi mega vænta þess, að enginn ágreiningur þurfi að verða um þetta frv. hér nú. En vegna þess að ég tel mikið við liggja, að hægt sé að hefja lánsútboð fyrir hagræðingarlánadeild iðnlánasjóðs, vildi ég mega mælast til þess við þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugaði að hafa hraðan gang á afgreiðslu þess, sérstaklega, eins og ég sagði, ef enginn ágreiningur verður í málinu, þannig að hægt væri mjög fljótlega að afgreiða það sem lög frá þinginu. Ég vil að svo mæltu leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.