09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

153. mál, sala níu jarða og grasbýla í Neshreppi utan Ennis og Lækjardals í Öxarfjarðarhreppi

Flm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 301 hef ég ásamt hv. 3. og 5. þm. Vesturl. flutt frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Neshreppi utan Ennis níu jarðir og grasbýli í Neshreppi fyrir það verð, sem um semst eða verður ákveðið samkv. mati dómkvaddra manna. Eins og við flm. höfum tekið fram í grg. með frv., hafa ábúendur jarðanna Keflavíkur innri, Keflavíkur ytri, Dyngju og Kleppsbúðar gefið samþykki sitt og mæla með því við ríkissjóð, að Neshreppi utan Ennis verði seldar jarðirnar, sem þeir hafa haft í ábúð. Þá meðtók ég í gær staðfest símskeyti frá þeim Hafliða Guðmundssyni og Ársæli Jónssyni á Hellissandi, þar sem þeir gefa meðmæli sín með sölu jarðanna Hallslækjar og Kjalvegar til Neshrepps utan Ennis, en þeir hafa haft afnot af nefndum jörðum um árabil og Hafliði byggingarbréf fyrir Hallsbæ eftir því, sem hann tekur fram í símskeytinu.

Frv. þetta er flutt að beiðni hreppsnefndar Neshrepps utan Ennis, með því að hreppsnefndin telur eðlilegt, að hreppsfélagið verði eigandi þess lands, sem kauptúnið byggist á, og annist úthlutun lóða, sem þorpsbúar þurfa að fá á leigu fyrir íbúðarhús og aðrar nauðsynlegar byggingar á Hellissandi. Það er raunar eðlilegt, að sveitarstjórnarmenn æski þess, að hreppsfélagið verði eigandi að landi jarða þeirra, sem mynda kauptúnið Hellissand, og þar með annist hreppsfélagið eitt úthlutun lóða í kauptúninu í stað þess að fimm eða sex aðilar hafa haft með höndum úthlutun lóða í kauptúninu, sem verður að teljast óviðunandi.

Herra forseti. Ég tel óþarft að hafa fleiri orð um frv. að þessu sinni, en óska, eftir, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.