06.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

153. mál, sala níu jarða og grasbýla í Neshreppi utan Ennis og Lækjardals í Öxarfjarðarhreppi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja við þetta frv. brtt. á þskj. 386 þess efnis, að heimilað verði að selja eiganda nýbýlisins Leifsstaða í Öxarfjarðarhreppi eyðijörðina Lækjardal í sama hreppi fyrir það verð, sem um semst eða verður ákveðið að mati dómkvaddra manna, en það eru þau ákvæði um söluverð, sem í frv. voru. Tilmæli um að flytja þessa breyt. eða gera till. um þá heimild, sem hér er um að ræða, barst mér eftir að nál. hafði verið afgreitt frá landbn., en ég hef ásamt nm. öðrum skrifað undir þetta nál. og mælt með samþ. frv.

Leifsstaðir og Lækjardalur voru hvoru tveggja fyrir rúmlega áratug eyðijarðir í ofanverðum Öxarfirði. Þetta eru litlar jarðir samliggjandi og höfðu verið nokkuð lengi í eyði. Svo gerðist það fyrir nokkrum árum, að byggt var nýbýli á Leifsstöðum. Og maðurinn, sem byggði nýbýlið, Rögnvaldur Stefánsson frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi, er nú bóndi þar. Þegar Landnám ríkisins mælti með því, að nýbýli yrði stofnað á Leifsstöðum, var það gert með það fyrir augum, að eyðibýlið Lækjardalur yrði síðar sameinað Leifsstöðum, þannig að nýbýlið ætti báðar jarðirnar. Þessu var ekki hægt að koma í kring þá, m. a. vegna þess að bóndi þar í sveitinni hafði ábúðarrétt og hafði lengi haft Lækjardal, en hins vegar féllst hann á, að nýbýlingurinn mætti rækta land á jörðinni og hafa af henni nokkur not, þangað til sameiningin gæti farið fram. Nú er ekkert lengur til fyrirstöðu, að þessi gömlu eyðibýli verði sameinuð, og eigandi Leifsstaða hefur farið þess á leit við mig, að ég flytji till. um, að söluheimild yrði veitt. Ég hef, af því að nú er orðið mjög áliðið þings, leitað umsagnar hreppsnefndar Öxarfjarðarhrepps um þessa sölu og umsagnar Landnáms ríkisins og hef báðar þessar umsagnir í mínum höndum, en þær eru jákvæðar, þannig að mælt er með sölunni. Einnig hef ég rætt við þann mann, sem hafði ábúðarréttinn í Lækjardal, og hann er því samþykkur fyrir sitt leyti, að salan fari fram. Þar sem landbn. hefur ekki getað athugað þetta mál, vil ég nú, enda þótt ég hafi flutt till. við þessa umr., taka hana aftur til 3. umr. til þess að n. geti kynnt sér þau skjöl, sem ég hef nefnt og vil þá jafnframt mælast til þess, að hún verði tekin til umr. og atkvgr. við 3. umr.