08.04.1967
Neðri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

73. mál, sala kristfjárjarðarinnar Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi

Frsm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Í fjarveru form. landbn. og frsm. vil ég segja um þetta nokkur orð.

Landbn. þessarar virðulegu d. hefur haft til athugunar frv. til l. á þskj. 85 um sölu kristfjárjarðarinnar Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi ásamt brtt. á þskj. 230. Samkvæmt frv. er óskað heimildar fyrir hreppsnefnd Miklaholtshrepps til að selja ábúanda jarðarinnar hana fyrir það verð, er um semst eða metið verður af dómkvöddum mönnum. Frv. þetta er flutt samkv. beiðni oddvita hreppsins fyrir hönd hreppsnefndar. Samkv. brtt. á þskj. 230, sem borin er fram af flm. frv., heimilist hreppsn. að mynda sjóð af söluandvirði jarðarinnar, er bera skal nafn gefandans, Gísla Árnasonar, og vera í umsjá hreppsn. Þá heimilist að verja 273 hl. af tekjum sjóðsins til hins nýja barna- og unglingaskóla í Laugargerði. Tildrög málsins eru þau, að hreppsn. Miklaholtshrepps telur, að eignar- og umráðaréttur hreppsins samkv. gjafabréfinu frá 1880, sem prentað er sem fskj. með frv., sé nokkuð takmarkaður, en er fús að selja ábúandanum jörðina, ef leyfi hins háa Alþingis liggur fyrir. Hins vegar hefur hreppsn. synjað ábúandanum um fjárframlög til umbóta á jörðinni, a.m.k. fyrst um sinn, umfram það, sem gert hefur verið til þessa. Hv. landbn. hefur leitað umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og segir þar, að það sé umdeilanlegt, hvort leyfilegt sé að selja kristfjárjarðir, sem eru dánargjafir, og að fræðimenn séu ósammála um það eða telji, að gerningar, sem gerðir hafa verið, séu jafnvel ólögmætir. En einnig telur jarðeignadeildin sig skorta kunnugleika af gjafabréfinu, en þar virðast nú hafa orðið mistök hjá stofnuninni, vegna þess að gjafabréfið er prentað sem fskj. á 2. síðu frv. Einnig hefur n. leitað umsagnar landnámsstjóra ríkisins, en í bréfi hans segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Jörð þessi er að fasteignamati 16 300 kr., þar af landverð 7400 kr. og húsaverð 8900 kr. Því nær allt land jarðarinnar er ræktanlegt. Hins vegar er jörðin ekki landrýmisjörð, en myndi með aukinni ræktun geta framfleytt mjög góðu búi fyrir eina fjölskyldu. Tún jarðarinnar er 6,53 ha. Frú Ingveldur Jóhannsdóttir hefur framfleytt á jörðinni s.l. 3 ár þessum bústofni: 1963–64 12,80 kúgildum, 1964–65 14;20 kúgildum og 1965–66 12,85 kúgildum. Af því er ljóst, að ábúandi hefur ekki fullnægjandi ræktun samanborið við bústofn, og er því mikil nauðsyn að umbæta jörðina, auk þess sem húsakostur jarðarinnar þarf nauðsynlega að endurbyggjast. Þar sem hreppurinn færist undan að veita aðstoð sína til umbóta á jörðinni, verður að telja ósk ábúandans um kaup á jörðinni eðlilega, þar sem vænta má, að söluráðstöfun með þeim hætti, sem frv. gerir ráð fyrir, myndi betur tryggja ábúð á jörð þessari, einkum þar sem vænta má, að börn eða skyldmenni myndu taka við búi þar, ef núverandi ábúandi yrði að hætta búskap. Mæli ég með, að frv. verði, eins og það liggur fyrir, samþykkt.

Virðingarfyllst,

Pálmi Einarsson.“

Skv. l. nr. 111, 9. okt. 1941 um eftirlit með opinberum sjóðum bar að leita umsagnar félmrn. svo og eftirlitsmanna með opinberum sjóðum um hliðstæð mál og hér um ræðir, en þar sem 1. þessi voru felld úr gildi með 1. nr. 20 frá 20. maí 1964 og ríkisendurskoðendum falið að annast eftirlit með þeim sjóðum í landinu, sem hlotið hafa staðfestingu forseta (eða konungs áður) á skipulagsskrá, svo og öðrum hliðstæðum sjóðum, var leitað umsagnar ríkisendurskoðanda um þetta mál, og vil ég vitna í þá umsögn, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til munnlegrar beiðni um umsögn mína um heimild hreppsn. Miklaholtshrepps til að selja kristfjárjörðina Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi, skal tekið fram, að með því að opinberir aðilar hafa nú tekið í sínar hendur, á skipulegan hátt, alla þá félagslegu umönnun, sem tekjum af kristfjárjörðum var fyrr á tímum ætlað að standa undir, m. a. Miklaholtshreppur að sínu leyti eins og önnur sveitarfélög, og engin ástæða er til að búast við, að á því verði breyting í fyrirsjáanlegri framtíð, tel ég, að ekki ætti neitt að vera því til fyrirstöðu, að hreppsnefnd Miklaholtshrepps ráðstafi eign sinni, Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi, svo sem væri hún kvaðalaus.

Virðingarfyllst,

Einar Bjarnason, ríkisendurskoðandi.“

Eins og fram kemur í nál. hv. landbn. á þskj. 392, mælir hún með sölunni, en ég vil taka fram, að 2 nm., þeir hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Norðurl. v., voru ekki mættir á fundinum, en með tilvísan til þess þskj., sem ég nefndi áðan, mæli ég með því fyrir hönd n., að tilgreint frv. ásamt brtt. á þskj. 230 verði samþ. og málinu vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.