23.02.1967
Efri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

134. mál, sala sex eyðijarða í Grýtubakkahreppi

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram þetta frv. um að ríkisstj. verði heimilað að selja sveitarsjóði Grýtubakkahrepps í Suður-Þingeyjarsýslu sex eyðijarðir, sem ríkið á þar í hreppi. Þetta hef ég gert eftir ósk hreppsnefndar Grýtubakkahrepps, eins og útdráttur úr fundargerð hreppsnefndarinnar sýnir, sem prentaður er með frv. sem fskj. Allar þessar sex jarðir eru í svonefndum Fjörðum, en þeir eru landssvæði nyrzt á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda við Hvalvatnsfjörð, Þorgeirsfjörð og Keflavík. Þetta svæði er fjöllum lukt að kalla má á þrjá vegu inn frá hafinu, en tengt þó aðalbyggð Grýtubakkahrepps, Höfðahverfi, með Leirdalsheiði, sem er að vísu há, en þó slakki milli aðalfjalla, sem raða sér í samfellu að austan og vestan heiðarinnar langs eftir skaganum þarna allt frá Fjörðum og suður á móts við Höfðahverfi og þorpið Grenivík, sem þar er við Eyjafjörð. Í Fjörðum var mannmargt fyrrum og margir rekja ættir sínar til fólks, sem þar átti heima. Þar var stutt á fiskimið og gott til matfanga, þegar fiskgengd var á miðunum, gróðursælt, ef vel viðraði á sumrum, en vetrarríki venjulega mjög mikið og einangrunin óskapleg.

Skáldkonan Látra-Björg, sem uppi var á 18. öld og átti heima á Látrum, sem er næsti bær við Fjörðu, en flakkaði annars og fór víða og kynntist mörgum sveitum, gaf byggðinni, Fjörðum, þessa einkunn:

Fagurt er í Fjörðum

þá frelsarinn gefur veðrið blítt

heyið grænt í görðum,

grös og heilagfiski nýtt.

En er veturinn að þeim tekur sveigja,

veit ég enga verri sveit

um veraldarreit,

menn og dýr þá deyja.

Ég kann ekki gagnorðari lýsingu á þessu gamla byggðarlagi, sem þær sex jarðir tilheyra, sem um ræðir í frv.

Í Fjörðum er talið, að hafi verið 16 býli, þegar flest var, en fimm þeirra hurfu til annarra jarða, svo að nú eru þar 11 eyðijarðir, sjálfstæðar, ef svo má að orði komast um eyðijarðir. Síðustu jarðirnar þrjár voru yfirgefnar 1944. Þær jarðir voru kirkjustaðurinn Þönglabakki í Þorgeirsfirði, Botn í sama firði og Tindriðastaðir í Hvalvatnsfirði. Síðan 1944 hefur enginn maður átt heima í Fjörðum, en bændur Grýtubakkahrepps hafa síðan rekið þangað norður fé sitt til sumarbeitar, því að sumarhagar eru þarna vel grónir og féð unir sér þar ágætlega, en hreppsbúar annars afréttarlandslitlir, sóttu áður afréttarnot til Fnjóskdæla og á Flateyjardalsheiði, Svo afskekktir eru Firðirnir og inniluktir, að varla slæðist þangað kind úr öðrum sveitum en Grýtubakkahreppi. Ekki er því líklegt, að aðrir fari fram á að fá þar beitarnot.

Ég sagði áðan, að í Fjörðum væru nú taldar 11 sjálfstæðar eyðijarðir. Styðst ég þar við bókina Byggðir og bú, sem Búnaðarsamband Suður-Þingeyjarsýslu gaf út 1963 og ætti að vera góð heimild. Fjórar þeirra jarða á sveitarsjóður Grýtubakkahrepps nú þegar, er búinn að kaupa þær af fyrrverandi eigendum. Eru það eyðijarðirnar Kaðalstaðir, Kussungsstaðir og Eyri, allar þrjár í Hvalvatnsfirði, en sú fjórða er Hóll í Þorgeirsfirði. Ríkið á þarna sex jarðir, Gil, Tindriðastaði og Brekku í Hvalvatnsfirði, Þönglabakka og Botn í Þorgeirsfirði og Keflavík vestan Þorgeirsfjarðar en austan Gjögra við samnefnda vík. Ein eyðijörðin er þó ótalin, en það er Þverá í Hvalvatnsfirði. Hún er í einkaeign. Nú vill hreppsnefnd Grýtubakkahrepps, að sveitarsjóðurinn kaupi þessar tilgreindu sex jarðir af ríkinu. Þær hafa að vísu án samninga verið notaðar til sumarbeitar af hreppsbúum, því að þar eru engar girðingar og sauðfé virðir ekki óvarin landamerki. En hreppsnefndin telur þó miklu viðkunnanlegra og eðlilegra, að hreppurinn eignist lönd þessi til óumdeilanlegra frjálsra afnota og fullra umráða. Ekki get ég séð, að það brjóti í bága við hagsmuni eins eða neins, þó að Grýtubakkahreppur fái þessar afskekktu eyðijarðir í sínu umdæmi til eignar. Ég sé ekki betur t.d. en það sé í fullu samræmi við anda þann, sem er í stjfrv. því, sem hefur verið lagt fyrir þetta þing um jarðeignasjóð ríkisins. Þar segir í 6. gr.:

„Jarðeignir, sem ríkið eignast samkv. 1. gr. þessara l, má selja sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum, sem jörðin heyrir til.“

Það skal fram tekið, að engin hús eru lengur nothæf á hinum umsóttu jörðum nema skipbrotsmannaskýli tvö, annað á Þönglabakka og hitt í Keflavík, en þau eiga slysavarnafélög, og ekki mun hreppurinn amast við þeim. Ég leyfi mér samkv. áður sögðu að vænta þess, að hv. þd. geti samþ. frv. og legg til, að eftir þessa umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. landbn.