21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

134. mál, sala sex eyðijarða í Grýtubakkahreppi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um sölu á sex eyðijörðum í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Allar eru þessar jarðir í hinni fornu Þönglabakkasókn, sem náði yfir Þorgeirsfjörð, Hvalvatnsfjörð og Keflavík í Fjörðum. Þetta byggðarlag var allfjölmennt á sumum tímum landsbyggðarinnar, t.d. voru þar 120 íbúar árið 1880. Síðasta jörð í þessu byggðarlagi mun hafa farið í eyði árið 1944. Þessar sex jarðir eru að sjálfsögðu í eign ríkisins, úr því að þetta frv. er flutt, en hins vegar á sveitarfélagið eitthvað af öðrum eyðijörðum í þessu forna byggðarlagi en einstakir menn þó eina eða tvær jarðir, að ég hygg. Allar eru þessar jarðir húsalausar nú og tún komin öll í órækt, en eitt hús stendur þð á hinu forna prestssetri, Þönglabakka, skipbrotsmannaskýli. Nokkur hlunnindi fylgja sumum þessum jörðum, bæði reki og veiði í ám, og þarna var áður fyrr mikið útræði, á meðan byggð hélzt í Fjörðunum.

Nú er álitið, að ekki komi til mála að reisa þarna byggð að nýju, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Þetta frv. hefur verið sent til umsagnar jarðeignadeild ríkisins og landnáminu, og umsagnir hafa borizt frá báðum þessum stofnunum, báðar jákvæðar og leggja eindregið til, að ríkinu sé heimilað að selja sveitarfélaginu þessar sex jarðir, svo sem frv. gerir ráð fyrir. Landbn. hefur tekið þetta mál fyrir á fundi sínum og mælir einróma með, að frv. verði samþ.