28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

138. mál, heimild að selja Kópavogskaupstað nýbýlalönd og hluta jarðarinnar Kópavogs

Flm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er um heimild handa ríkisstj. til að selja Kópavogskaupstað nýbýlalöndin Ástún, Birkihlíð, Grænuhlíð, Lund, Meltungu, Sæból, Snæland og Efstaland og að auki hluta úr jörðinni Kópavogi, sem hefur verið í umsjá heilbrmrn. og liggur austan Hafnarfjarðarvegarins, en sunnan Fífuhvammslækjar. Frv. þetta er flutt samkv. einróma samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs. Ástæðurnar eru augljósar, eins og fram er tekið í grg. með frv., að á þeim 10 árum, sem liðin eru, frá því að Kópavogskaupstaður eignaðist meginhluta Digraness og Kópavogslands, hafa orðið mjög gagngerðar breytingar. Kaupstaðurinn hefur byggzt upp, og eðlilegt er að þetta byggðina innan þeirra marka, sem nú eru, jafnhliða því að byggða svæðið færist út.

Á korti, sem fylgir með hér sem fskj., er nánari skilgreining á því, hvað hér er um að ræða, og þar er einnig sýnt, að þegar fyrir nokkru síðan er talsvert farið að skerða nýbýlalöndin með erfðaleigusamningum og lóðaleigusamningum úr þeim. Eins og fram er tekið í grg., er á sumum þessara nýbýla þegar aflagður búskapur og á öðrum nokkuð dreginn saman og það er ekki ólíklegt, að sú verði þróunin með þau velflest og máske öll.

Það hagar einmitt svo til, að á þeim nýbýlum, þar sem búskapur er aflagður núna, er um að ræða það landsvæði, sem hagkvæmast er að taka til byggingar. Þar má við bæta, eins og vikið er að í grg., að það er hagkvæmt af fleiri ástæðum að byggja þetta svæði heldur en ég hef nú þegar talið, m. a. vegna þess, að þetta svæði er á vatnasvæði Fossvogsholræsisins, sem er mikið mannvirki og Kópavogskaupstaður er aðili að. Enn fremur má minna á, að væntanlegur Suðurlandsvegur mun liggja niður Fossvogsdalinn, þegar þar kemur, að hann verður endurbyggður, og til umr. hefur komið milli bæjaryfirvalda í Kópavogi og borgarstjórnar Reykjavíkur, að sá vegur muni skipta löndum milli Kópavogs og Reykjavíkur. Það er hins vegar líklegt, að vegurinn muni liggja alfarið Kópavogsmegin í Fossvoginum. Þar þurfa því að eiga sér stað makaskipti.

Það er eðlilegast í sambandi við fyrirgreiðslu þess máls að þar eigist bæjarfélögin við, en eins og nú er, er eigandinn að þessu landi ríkið. Ég vil bæta því við, að einnig er ráðgert, að hin nýja Reykjanesbraut, sem liggur úr Blesugróf austan núverandi byggðar í Kópavogi allt suður til Hafnarfjarðar, muni og skipta löndum milli Kópavogs og Reykjavíkur þar og að Reykjavík muni þá láta af hendi til Kópavogskaupstaðar nokkur svæði þar, þannig að ef af þessum samningum og samkomulagi verður, sem allt bendir til, er eðlilegast og þægilegast, að það geti átt sér stað samtímis.

Þá er og farið fram á það, að bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar fái heimild til að taka eignarnámi ábúðarréttindi á eignarlandi kaupstaðarins, ef nauðsyn krefur vegna skipulags. Eins og sjálfsagt er, mun fara um þá framkvæmd, ef til kemur, eftir ákvæðum l. nr. 61 frá 14. nóv. 1917.

Eins og ég vék að, herra forseti, er þetta frv. flutt samkv. einróma samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs, og er það von okkar, að það megi fá afgreiðslu hér á þessu þingi. Ég vil, herra forseti, leyfa mér að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.