13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

123. mál, lögtak

Fram. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Skv. frv. þessu er lagt til, að verkalýðsfélögin fái þá aðstoð við innheimtu á gjaldi til sjúkrasjóðs, að það megi taka lögtaki án undanfarins dóms eða sáttar. Eins og kunnugt er, sömdu nokkur verkalýðsfélög um það við atvinnurekendur árið 1961 að greiða 1% af kaupi verkamanna í sjúkra- og styrktarsjóð félaganna, og flest verkalýðsfélög munu nú hafa stofnsett sjúkra- og styrktarsjóði á hliðstæðan hátt. Gjaldið til sjúkrasjóðanna er, eins og ég sagði, 1% af kaupi verkafólks, og eiga atvinnurekendur að skila því í árslok til viðkomandi félags. Reynslan hefur sýnt, að á þessu hefur viljað verða misbrestur, og er frv. þetta flutt til að bæta úr því, og gera flytjendur frv. ráð fyrir, að lögtaks- og fjárnámsrétturinn, sem í frv. felst, reynist nokkurt aðhald báðum aðilum til góðs, en ekki þurfi oft að beita þessum rétti. Allshn. leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.