18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

156. mál, sala lands úr jörðinni Grenivík í Grýtubakkahr.

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá Nd. og flutt þar af tveimur hv. þm. Norðurlands e. og fjallar um það að heimila ríkinu að selja hluta úr landi Grenivíkur, sem er ríkiseign, sveitarfélaginu í Grýtubakkahreppi, til þess að nota það fyrir athafnasvæði vegna nýrrar hafnar, sem þar er verið að gera. Málið hefur fengið venjulega meðferð í Nd. og hefur verið sent til umsagnar bæði landnámsstjóra og jarðeignadeild ríkisins, og hafa báðar þær stofnanir, þ.e.a.s. landnámið og jarðeignadeildin, lýst sig fylgjandi því, að frv. verði samþ. Landbn. Nd. hefur einnig athugað frv. og telur einboðið að heimila þessa sölu, þar sem þarfir sveitarfélagsins krefjast þess.

Fyrir hönd, landbn. Ed. leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði samþ.