16.02.1967
Neðri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

121. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 222 frv. um breyt. á l. um lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga, og er flutt nú óbreytt.

Efnislega fjallar þetta frv. um það að rýmka nokkuð rétt manna til þess að verða aðilar að þessum lífeyrissjóði, að heimila sjóðstjórninni að veita í fyrsta lagi sjómannafélögum, sem aðild eiga að sjóðnum, rétt til þess að tryggja sína starfsmenn í honum. Það hefur færzt í vöxt á hinum síðari árum, að þessi félög hafa átt þess kost að ráða sjómenn til sín sem starfsmenn í landi. Í flestum tilfellum eru þetta menn, sem koma beint úr starfi af flotanum og hafa notið þessara lífeyrissjóðsréttinda þar, og þess finnast dæmi, að ekki hafa fengizt góðir menn til starfa fyrir þessi félög, vegna, þess að þeir hafa tapað þessum réttindum við það að taka að sér störf fyrir stéttarfélögin. Ég held, að allir hljóti að vera sammála því, að það sé mjög nauðsynlegt, að hinir beztu menn ráðist til slíkra starfa á hverjum tíma, og því er lagt til, að þessi heimild verði veitt. Einnig legg ég til, að útgerðum farskipa, varðskipa og togara sé heimilt að tryggja skipverja sína, þó að þeir séu ekki lögskráðir um stundarsakir, m. a. ef þeir starfa við skip, sem eru í viðgerð, flokkunarviðgerð eða gegna öðrum störfum í þágu útgerðar.

Lögin segja skýrt og skorinort, að aðeins þeir, sem lögskráðir séu á skip, njóti þessara réttinda, aðildar að sjóðnum, á meðan þeir séu lögskráðir, en auðvitað þekkjast þess mörg dæmi, m. a. frá landhelgisgæzlu ríkisins, að talið er nauðsynlegt að hafa undirmenn við ákveðin störf í landi um stundarsakir, en á meðan á því hefur staðið, hafa þessir sömu menn tapað þessum réttindum. Þess vegna er lagt til, að sjóðstjórninni sé heimilt að leyfa útgerðunum að kaupa lífeyrisréttindi í sjóðnum áfram, þegar svona stendur á.

Einnig finnast þess dæmi, að sjómenn hafa hætt við að fara í sérskóla sjómannastéttarinnar, stýrimannaskóla og vélskóla, eða a.m.k. frestað því, vegna þess að þegar þeir fara í skólann, hafa þeir einnig tapað af réttindum þessa sjóðs, en eitt meginatriði í hug sjómanna í sambandi við sjóðinn er það, að honum hefur tekizt að veita aðildarfélögum sínum, auk lífeyrisréttindanna, mikil og góð lán, þegar þeir hafa staðið í húsbyggingum eða íbúðarkaupum og er á margan hátt skiljanlegt í okkar þjóðfélagi, að menn, sem eru komnir með fjölskyldu, hiki við að henda frá sér slíkum möguleika, jafnvel þótt þeir þurfi þá um leið að fórna löngun sinni til frekara náms í sínu fagi. Það er líka lagt til, að heimilt sé fyrir þá að kaupa sér og halda við sínum réttindum í sjóðnum, þótt þeir stundi nám í sjómannafræðum.

Þá hef ég talið eðlilegt að heimila einnig þeim, sem slasast eða veikjast, að halda við sínum réttindum og að stjórn sjóðsins ákveði iðgjald.

Það hefur verið minnzt á það við mig, nú eftir að ég flutti þetta frv., hvort ekki væri rétt að endurskoða fleiri ákvæði í þessum l., þ. á m. ákvæði 18. gr., þ.e. ef skipverji tekur út það tillag, sem hann hefur látið til sjóðsins, ekki til þess að kaupa sér lífeyrisréttindi annars staðar, heldur tekur það út sem eyðslueyri, hvort ekki væri þá rétt að heimila togaraútgerðum að fá sitt framlag einnig endurgreitt. Með hliðsjón af því, hvernig okkar togaraútgerð er komið, og einnig með hliðsjón af því, að þessi sjóður er orðinn einn öflugasti lífeyrissjóður hér á landi, og þótt þetta hafi verið eðlilegt ákvæði við setningu þessara l., finnst mér sjálfsagt, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, gefi gaum að þessu atriði og einnig því, að þess þekkjast dæmi, að sjómenn, aðrir en togarasjómenn og farmenn, hafa óskað eftir því að fá að kaupa sér réttindi í þessum sjóði, án þess að útgerðin kæmi þar við sögu. Mér finnst einnig sjálfsagt, að athugað verði, hvort talið sé fært að koma með slíkar breyt. á þessum l., og í trausti þess óska ég eftir því við þá n., sem fær málið til meðferðar, að hún athugi þessi atriði jafnframt frv. mínu, en ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til sjútvn.