11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Sjö ár eru liðin, síðan núv. stjórnarflokkar tóku upp nýja stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þessi nýja efnahagsmálastefna, sem hlaut nafnið „viðreisn“, hefur vissulega fengið fullan reynslutíma. Hún hefur haft margvísleg áhrif í atvinnu- og fjármálum landsins og einnig sett sinn svip á félagslegar framkvæmdir, þróun menningarmála og sjálfstæðismál þjóðarinnar. Það er því eðlilegt og sanngjarnt, að miklar umr. fari fram um viðreisnarstefnuna, um eðli hennar og tilgang og um þau áhrif, sem hún hefur haft í ísl. þjóðmálum. Eftir tvo mánuði fara fram kosningar til Alþ. Í þeim kosningum gera stjórnmálaflokkarnir upp ýmis átakamál sín á milli og þá gerir þjóðin líka upp reikningana við flokkana. Við slíkt uppgjör hlýtur ráðandi stjórnarstefna að vera tekin til sérstakrar athugunar. Við skulum nú athuga í stuttu máli stöðu íslenzkra atvinnuvega eins og hún er í dag og kanna nokkuð áhrifin frá efnahagsstefnu ríkisstj.

Í upphafi viðreisnar var því mjög haldið fram, að ætlunin væri að fella niður alla styrki til framleiðsluatvinnuveganna og allar uppbótagreiðslur. Reynslan hefur orðið allt önnur, eins og allir vita. Nú er talið, að styrkir til atvinnuveganna, útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur á vöruverði muni nema rúmum 1700 millj. kr. á árinu 1967. Slíkar greiðslur hafa aldrei fyrr orðið svona háar. Í upphafi viðreisnar var mikið um það talað, að óhjákvæmilegt væri að taka upp hina nýju stefnu, m. a. vegna þess, að þjóðin hefði safnað skuldum erlendis með miklum kaupum á fiskiskipum og öðrum framleiðslutækjum. Eftir sjö ára viðreisn hafa erl. skuldir þjóðarinnar ekki minnkað, heldur aukizt, og eru skuldirnar nú ekki aðeins vegna kaupa á framleiðslutækjum, heldur einnig vegna kaupa á daglegum eyðsluvörum.

Hin neikvæða afstaða viðreisnarinnar til framleiðsluatvinnuveganna kom skýrt fram strax í upphafi. Þannig var ein fyrsta fjármálaákvörðunin fólgin í því að hækka stórlega alla vexti á lánum. Vaxtahækkunin hafði lítil áhrif á hag verzlunarfyrirtækja og annarra, sem fengust við innlend viðskipti. Slíkir aðilar veltu hækkuninni auðveldlega af sér út í verðlagið og tóku jafnvel til sín nokkra aukahækkun í leiðinni, enda verðlagningin gefin frjáls að mestu leyti. En vaxtahækkunin skall með fullum þunga á útflutningsatvinnuvegunum, fyrst með beinum útgjöldum aukins vaxtakostnaðar og síðan í hækkandi dýrtíð í landinu. Jafnhliða vaxtahækkuninni komu svo fyrirmæli um lækkun á lánum Seðlabankans út á framleiddar afurðir. Sú ráðstöfun leiddi enn til aukinnar hækkunar á vöxtum framleiðslunnar, þar sem afurðalán Seðlabankans voru með lægstum vöxtum áður. Þessi ráðstöfun hafði auk þess það í för með sér, að rekstrarlán framleiðslunnar minnkuðu frá því, sem þau höfðu lengi verið áður. Þessum ráðstöfunum, sem allar voru fyrst og fremst gegn hagsmunum framleiðslunnar, fylgdu svo fyrirskipanir um það að stytta lánstíma á stofnlánum atvinnuveganna. Þannig voru 20 ára stofnlán færð niður í 15 ár og 15 ára lán í 12 ár. Það fór ekki á milli mála í upphafi viðreisnartímabilsins, að álit þeirra viðreisnarmanna á ísl. atvinnuvegum var ekki upp á marga fiska. Það var ljóst, að þeir ætluðu að byggja viðreisn sína á öðru en trausti á þeim atvinnuvegum, sem þjóðin hafði byggt á og sótt sína velgengni í um áraraðir. Dæmi um þessi viðhorf forystumanna viðreisnarinnar eru mörg. Ég nefni till. til þál., sem sjö þingmenn Sjálfstfl. fluttu árið 1961, þar sem þeir skoruðu á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að þeir nýju stálfiskibátar, sem þá voru að koma til landsins, 150–250 rúmlestir að stærð, yrðu settir á veiðar við Afríkustrendur, þar sem enginn grundvöllur væri til útgerðar slíkra skipa við Ísland, eins og tillögumenn orðuðu það.

Þannig var álit viðreisnarinnar á síldarútvegi landsmanna, og þannig var skilningur forystumanna viðreisnarstefnunnar á möguleikum ísl. útgerðar. Þeirra viðhorf var að telja skuldir vegna nýrra skipa sérstakt dæmi um lélega efnahagsstöðu. Og skipin sjálf voru í þeirra augum mestu vandræðafyrirtæki. Aðalspámenn viðreisnarinnar, þeir Jónas Haralz og Jóhannes Nordal, lýstu því báðir yfir árið 1962, að þeir teldu útilokað að byggja efnahagsafkomu þjóðarinnar á sjávarútvegi eins og gert hefði verið, þar sem fullvíst væri, að sjávarútvegurinn gæti ekki staðið undir meiri framleiðsluaukningu en sem næmi 4.5–5% á ári. Reynslan hefur hins vegar sýnt, að framleiðsluaukningin í sjávarútvegi hefur numið að meðaltali 14% á ári s.l. 5 ár.

Hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, hefur einnig hvað eftir annað lýst yfir sams konar vantrú sinni á ísl. atvinnuvegum og þeirri skoðun sinni, að nauðsynlegt væri fyrir landsmenn að leggja grundvöll að nýjum atvinnugreinum og þá helzt stóriðju í höndum útlendinga. Þessi dæmi, sem hér hafa verið nefnd um afstöðu viðreisnarmanna til atvinnuveganna, er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar atvinnu- og efnahagsmál þjóðarinnar eru rædd og stefna ríkisstj. í þeim málum. Þær staðreyndir, að framleiðsla þjóðarinnar hefur stóraukizt á síðustu árum, tekjur farið vaxandi og hagvöxtur orðið meiri hér en víðast hvar annars staðar, eiga því ekkert skylt við stefnu ríkisstj. í atvinnu- og efnahagsmálum. Framleiðsluaukningin hefur byggzt á hagstæðu árferði, hinum dýrmætu fiskimiðum við landið og dugnaði og kappi ísl. sjómanna og allra þeirra, sem unnið hafa langan vinnudag til þess að gera aflann að verðmætri útflutningsvöru. Hinn hagstæði árangur hefur náðst, þrátt fyrir alranga og hættulega efnahagsmálastefnu ríkisstj.

En hvernig er svo staða framleiðsluatvinnuveganna eftir margra ára góðæri frá náttúrunnar hendi, en sjö ára viðreisnarstefnu í framkvæmd? Í upphafi viðreisnartímabilsins voru gerðir út 46 togarar í landinu. Nú á að heita, að gerðir séu út 16 togarar. 30 hafa hætt rekstri. Togaraútgerðin er rekin með miklum styrkjum og þó með stórfelldu tapi.

Ríkisstj. hefur aðgerðalaust horft á eyðingu togaraflotans. Hún hefur drepið allar till. um endurnýjun skipanna og breyt. á rekstri þeirra í þá átt, sem gerzt hefur með öðrum þjóðum. Vélbátaútgerðin, þ.e.a.s. minni bátanna, er að komast í sömu þrotin og togaraútgerðin. Mþn., sem athugaði afkomu minni vélbáta, komst að þeirri niðurstöðu, að rekstrargrundvöll skorti fyrir útgerð þeirra. Reynslan sýnir, að þessi bátafloti, sem þó er meginundirstaða fiskiðnaðarins, er alltaf að minnka og rekstrartími bátanna styttist vegna fjárhagsörðugleika. Ríkisstj. horfir aðgerðalaust á þessa þróun. Þýðingarmesta grein fiskiðnaðarins, frystiiðnaðurinn, er einnig að komast í þrot. Þrátt fyrir miklar verðhækkanir á erl. mörkuðum nokkur undanfarin ár, er nú svo komið, fyrst og fremst vegna verðbólguþróunarinnar innanlands, að frystihúsin þola ekki neina lækkun á útflutningsverðinu og gefast upp um leið og hún gerir vart við sig.

Í iðnaði hefur gætt vaxandi samdráttar í nokkur ár, og ljóst er, að hagur margra iðnfyrirtækja fer óðum versnandi. Í landbúnaði varð samdráttur á s.l. ári, þ.e.a.s. framleiðslan beinlínis minnkaði, og augljóst er, að málefni landbúnaðarins eru komin í hina mestu sjálfheldu vegna algers skipulagsleysis.

Og nú síðast er svo komið, að sá þáttur framleiðslunnar, sem verið hefur sterkastur, síldarútgerðin og síldariðnaðurinn, er einnig kominn í fjárhagslega erfiðleika.

Þannig er þá ástandið eftir nokkurra ára uppgripaafla og síhækkandi verðlag á útflutningsvörum þjóðarinnar. Þannig er þá ástandið eftir meiri framleiðsluaukningu hér á landi en hjá öðrum þjóðum og eftir meiri og örari hagvöxt hér en annars staðar. Hvað veldur þessu ástandi? Lítum svolítið nánar á málið og athugum, hvað hefur verið að gerast.

Á sjö ára starfstíma viðreisnarstjórnar hefur verðlag í landinu á vörum og þjónustu hækkað um 130%. Þessi óstjórnlega dýrtíð hefur ætt yfir vegna þess, að ríkisstj. hefur gefið milliliðum lausan tauminn. Hún hefur hvað eftir annað samþykkt hækkanir á álagningu. Hún hefur gefið verðlagningu á margvíslegum vörum og þjónustu frjálsa. Hún hefur horft aðgerðalaus á brask með íbúðarhús almennings. Og sjálf hefur stjórnin gengið á undan með álögur ofan á álögur, skatt á skatt ofan, hækkað söluskatt svo að segja árlega og þannig stórmagnað dýrtíðina í landinu. Jafnhliða því, að óðaverðbólgan hefur grafið undan atvinnuvegunum, hefur ríkisstj. knúið fram þá stefnu í peningamálum, sem óhjákvæmilega hefur þrengt kosti framleiðsluatvinnuveganna, þannið að nú er komið í algert óefni. Minnkun afurðalána Seðlabankans leiddi óhjákvæmilega til þess, að viðskiptabankar framleiðsluatvinnuveganna, Landsbankinn og Útvegsbankinn, urðu að taka á sig aukin rekstrarlán til atvinnuveganna. Stóraukin framleiðsla kallaði auðvitað líka á aukin peningalán. Þrátt fyrir þessar staðreyndir voru rekstrarlánabankar framleiðslunnar knúðir til þess að binda í Seðlabankanum og framkvæmdaáætlun ríkisstj. 40% af öllu nýju innstæðufé. Þessi peningapólitík ásamt með þeirri staðreynd, að nýir og nýir bankar, sem aðallega störfuðu á viðskiptasviðinu, drógu til sín sparifé landsmanna í auknum mæli, hefur leitt til þess vandræðaástands, sem nú er komið upp í aðalviðskiptabönkum landsins og þyngst bitnar á framleiðsluatvinnuvegunum. Stofnlánaþörf framleiðslufyrirtækja er ekki sinnt nema að litlu leyti og rekstrarlán eru algerlega ófullnægjandi, og þó eru þau veitt í mörgum greinum þvert ofan í settar reglur. Ríkisstj. og ráðunautar hennar virðast ekkert við það hafa að athuga, þó að sívaxandi hluti af fjármagni þjóðarinnar bindist í verzlun og viðskiptum eða í beinu milliliðabraski, en undirstöðuatvinnuvegirnir séu að komast í þrot vegna fjárskorts. Það er næsta nöturlegt ástand, sem nú blasir við augum í ísl. atvinnu- og fjármálum og æði mótsagnakennt. Annars vegar liggur fyrir sú staðreynd, að þjóðarframleiðslan hefur náð nýju hámarksmeti og þjóðartekjurnar á hvern íbúa eru orðnar með því hæsta, sem þekkist í heiminum. En hins vegar liggur fyrir sú staðreynd, að undirstöðuatvinnuvegirnir, sem öll þessi velgengni byggist á, eru komnir í fjárhagslegar kröggur. Annars vegar blasir við metinnflutningur og meteyðsla, 5 þúsund bílar keyptir á einu ári fyrir rúmlega 1000 millj. króna, fyrir 1 milljarð kr., og 10 þús. sjónvarpstæki á sama ári fyrir 250 millj. kr. og önnur eyðsla eftir því, en hins vegar blasir svo líka við hrynjandi togaraútgerð, minnkandi bátaútvegur og ríkisstyrkt frystihús.

Hún er sláandi, þessi tvöfalda mynd. Annars vegar má sjá brosandi og ánægðan heildsala og státinn viðskiptamálaráðherra og seðlabankastjóra með 2 þús. millj. gjaldeyrissjóð. En hins vegar á myndinni gefur svo að líta hnípinn útgerðarmann úr Sandgerði, sem neyðzt hefur til þess að selja nýjasta bátinn sinn vegna fjárskorts.

Svona er ástandið í ísl. atvinnu- og fjármálum í dag. Viðreisnarspekingarnir eru þeir sömu og áður og hagstjórnarvísindi þeirra eru þau sömu og fyrr. Þeir viðurkenna að vísu, að fram undan séu erfiðleikar í efnahagsmálum, en ráð gegn þeim vanda sjá þeir engin önnur en gömlu úrræðin. Þeir boða meiri samdrátt í útlánum bankanna. Hin miklu útlán bankanna skapa þenslu, segja þeir, og virðist þá engu máli skipta í þeirra augum, hvort lánin hafa farið til þess að auka við framleiðsluna, auka við tekjur þjóðarinnar eða til þess að standa undir aukinni eyðslu á gjaldeyri. Útlán eru útlán, segja spekingarnir, og þau verður að stöðva. Það verður ekki langt þangað til þeim tekst að stöðva alla framleiðslu landsins með áframhaldi þessarar stefnu.

Í byrjun s.l. árs knúði ríkisstj. enn fram nýjar álögur á þjóðina. Þær munu hafa numið 250–300 millj. kr., miðað við ár. Allar hafa þessar nýju álögur farið út í verðlagið og aukið dýrtíðina a.m.k. jafnmikið og álögunum nam. Afleiðingar þessa koma fram í auknum erfiðleikum útflutningsatvinnuveganna. Tekjur ríkissjóðs urðu miklar á árinu, einkum vegna mikils innflutnings og mikillar verzlunar. Tekjur ríkissjóðs fóru 850 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga, og hreinn greiðsluafgangur nam 474 millj. kr. Afkoma ríkissjóðs sýnir, að álögurnar í upphafi ársins voru óþarfar og niðurskurðurinn á verklegum framkvæmdum þurfti enginn að vera. Greiðsluafgangur ríkisins sannar, að ríkið hefur tekið meiri fjármuni til sín en það hefur þurft og þar með aukið dýrtíðina í landinu að þarflausu. Mikill hluti greiðsluafgangsins er nú lagður inn í Seðlabankann og þannig er þessi skattheimta ríkisins notuð sem viðbótarsparifjárbinding.

Þrátt fyrir góða afkomu ríkissjóðs og óhóflega eyðslu á ýmsum sviðum, er haldið fast við þá stefnu að skera niður áætlað fé til verklegra framkvæmda ríkisins, eins og hafnarframkvæmda, skólabygginga, sjúkrahúsabygginga og vegagerðar. Þessi niðurskurðarstefna er knúin í gegn, þó að ekki megi blaka hendi við óþarfa innflutningi, byggingu verzlunarhalla og byggingu bílasölustöðva eða annarrar eyðslu á vegum einstaklinga eða félaga. Skipulagsleysið er eitt helzta einkennið á stjórn ísl. efnahagsmála í dag. Dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar er eytt af algjöru handahófi og oft í fánýtt glingur. Fjárfestingin er einkum miðuð við duttlungagróðasjónarmið: Allt skipulag er eitur í beinum efnahagsráðunauta ríkisstj., nema þá það skipulag, sem miðast við niðurskurð á framkvæmdum opinberra aðila, þeim framkvæmdum, sem sérstaklega varða þjóðarheildina.

Þeir erfiðleikar, sem nú steðja að ísl. atvinnulífi, virðast ekki hafa mikil áhrif á ríkisstj. og ráðunauta hennar. Skýringar þeirra eru einfaldlega þær, að erfiðleikarnir stafi af því, að atvinnuvegirnir séu ótraustir og fallvaltir. Ástandið er atvinnuvegunum að kenna, en ekki stjórnarstefnunni að þeirra dómi. Og í beinu framhaldi af þeim skýringum undirbýr ríkisstjórnin aukna þátttöku útlendinga í atvinnurekstri í landinu í nýjum atvinnugreinum. Samdráttur í ísl. iðnaði og minnkandi rekstur í vissum greinum sjávarútvegsins valda ríkisstj. og ráðunautum hennar engum sérstökum vonbrigðum. Þeir segja blátt áfram, eins og ekkert óvænt hafi gerzt, að hinar nýju stórframkvæmdir við Búrfell og síðar á þessu ári við Straumsvík, ásamt með framkvæmdum við Kísilgúrverksmiðjuna, þurfi á miklu vinnuafli að halda og að óhjákvæmilegt sé að greiða fyrir þessum framkvæmdum. Og enn er unnið að undirbúningi nýrra stórframkvæmda á vegum útlendinga, og er olíuhreinsunarstöðin þar efst á blaði. Stefna núv. ríkisstj. er ísl. atvinnuvegum háskaleg. Hún er við það miðuð, að ísl. atvinnuvegir búi við allt önnur og lakari kjör en atvinnurekstur útlendinga á að búa við.

Í kosningunum í sumar verður þjóðin að koma í veg fyrir það, að þessari háskastefnu gagnvart ísl. atvinnuvegum verði haldið áfram. Eftir kosningar verður að taka upp nýja stefnu. Sú stefna þarf að einkennast af þremur grundvallaratriðum.

Í fyrsta lagi, að ráðstafanir í fjárhags- og peningamálum séu miðaðar við hagsmuni undirstöðuatvinnuveganna og þá fyrst og fremst útflutningsatvinnugreinanna. Þannig sé verðlag innanlands ekki látið fara fram úr því, sem útflutningsframleiðslan getur borið og stefnan í markaðs- og viðskiptamálum verður að miðast við þarfir útflutningsatvinnuveganna.

Í öðru lagi, að allar ráðstafanir í efnahagsmálum þurfa að gerast í samráði við launþegasamtökin í landinu. Þannig á að leysa húsnæðismál almennings og ýmis félagsleg réttinda- og hagsmunamál, og þannig á að tryggja launþegum réttlátan hluta af vaxandi þjóðartekjum.

Í þriðja lagi á stefnan að miða að efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði þjóðarinnar. Landsmenn eiga einir að eiga og reka atvinnutækin í landinu og nýta gæði lands og sjávar. Landsmenn eiga sjálfir að móta menningarlíf þjóðarinnar, og þeir eiga einir að ráða landi sínu.

Kosningarnar í sumar geta vissulega orðið örlagaríkar. Í þeim getur það ráðizt, hvernig atvinnulíf landsins þróast á komandi árum. Úrslit kosninganna geta skorið úr um það, hvort útlendur stórrekstur á að setja svipmót sitt á atvinnulíf í landinu á komandi árum eða eigin atvinnurekstur landsmanna grundvallaður á náttúruauðlindum landsins.

Í kosningunum í sumar verða ísl. atvinnurekendur, stórir og smáir, að gera sér fulla grein fyrir þeirri stöðu, sem þeir eru komnir í með atvinnurekstur sinn. Þeir þurfa að átta sig á eðli vandans. Eigendur frystihúsanna hafa vafalítið velt þessum vandamálum fyrir sér síðustu mánuðina og þeir bátaeigendur, sem eru við það að gefast upp af efnahagsörðugleikum, ættu líka að hafa áttað sig á alvöru málsins. Iðnrekendur, sem nú standa frammi fyrir minnkandi rekstri, sífellt harðnandi samkeppni erlendra aðila, en hækkandi tilkostnaði innanlands, hljóta að sjá, hvað að fer, ef þeirri stefnu gagnvart ísl. atvinnurekstri, sem nú er mótuð af ríkisstj., verður haldið áfram. Hvað ætla þessir atvinnurekendur að gera í komandi alþingiskosningum? Ætla þeir að fljóta sofandi að feigðarósi eða bregðast mannlega við vandanum og knýja fram breytta stefnu? Hvað ætla þeir mörgu mennta- og millistéttarmenn að gera, sem hingað til hafa stutt stjórnarflokkana? Ætla þeir að þola áframhaldandi niðurskurð skólaframkvæmda og sjúkrahúsabygginga í mesta góðæri, sem gengið hefur yfir landið? Ætla þeir af misskilinni flokkshollustu að styðja áfram þá flokka, sem sýnt hafa einstakt andvaraleysi gagnvart útlendum yfirgangi í landinu og varið hafa og leyft þann ósóma að senda hermannasjónvarp inn á heimili almennings í mesta þéttbýli landsins? Bændur og verkamenn munu ábyggilega að miklum meiri hluta skipa sér gegn þeim flokkum, sem stjórnað hafa landinu undanfarandi ár. Þeir hafa fengið að finna til dýrtíðarstefnunnar, skipulagsleysisins, húsnæðisokursins og skilningsleysis ríkisstj. í málefnum hinna lægst launuðu. Í kosningunum í sumar þurfa að verða þáttaskil í ísl. stjórnmálum. Flokkaböndin eiga að bresta. Sú andúð á stjórnarstefnunni, sem enginn vafi er á að er mikil, á að koma fram skýrt og ótvírætt.

Núv. ríkisstj. er þegar fallin í áliti almennings í landinu. Í hlutlausri skoðanakönnun mundi stjórnin verða í miklum minni hluta, því að stefna hennar er andstæð vilja og hagsmunum þjóðarinnar.

Í kosningunum í sumar hlýtur Sjálfstfl., forystuflokkur ríkisstj., að stórtapa fylgi. Það væri blátt áfram hlægilegt, ef fylgistap Sjálfstfl. yrði til þess að efla Alþfl., sem er í raun og veru ekkert annað en það sem forysta íhaldsins vill á hverjum tíma. Staða Framsfl. í kosningunum í sumar er sú, að hann getur hvergi unnið þingsæti, og uppbótarsæti fær flokkurinn ekki. Fylgisaukning Framsóknar mun því engu breyta um valdaaðstöðu . núv. ríkisstj. Þeir missa ekki meiri hluta sinn á Alþ., stjórnarflokkarnir, nema með atkvæðaaukningu Alþb. Stefna Framsfl. er þannig, að enginn veit, hvað flokkurinn í raun og veru vill. Stefnan er tvöföld í flestum málum. Framsókn er t.d. með vestrænu varnarbandalagi, eins og það er orðað, og vill efla varnirnar, en mótmælir þó varnarframkvæmdum t.d. í Hvalfirði. Hún var ýmist með eða móti erlendri stóriðju, sumir flokksmenn með henni; ef hún yrði fyrir norðan, en aðrir með henni, af því að hún var ákveðin fyrir sunnan. Framsfl. er nú á móti hermannasjónvarpinu, en hann leyfði það á sínum tíma: Þannig hefur Framsókn tvær andstæðar stefnur í flestum stórmálum. Enginn veit, hvað gerast mundi í ísl. stjórnmálum með eflingu Framsfl. Stefna Alþb: er skýr í öllum meginþjóðmálum. Alþb. er sterkasti fulltrúi ísl. verkalýðshreyfingar. Það miðar stefnu sína við hagsmuni þjóðarheildarinnar. Afstaða þess til hernámsins er skýr og ótvíræð. Afstaða þess til atvinnurekstrar útlendinga í landinu er öllum kunn og ótvíræð. Afstaða þess til ísl. atvinnuvega er einnig skýr. Eina leiðin til þess að tryggja fall ríkisstj. í kosningunum í sumar er að efla Alþb., og efling þess er eina tryggingin fyrir því,. að breytt verði um stefnu í mikilvægustu málum þjóðarinnar.