11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti, góðir hlustendur fjær og nær. Þó að atvinnumálin hljóti ávallt að skipa öndvegissess meðal hinna ýmsu þátta þjóðmálanna, er að fleiru að hyggja, ef hér á að dafna heilbrigt menningarþjóðfélag á nútíma vísu. Þarfir nútímafólks eru fjölþættar og kröfur til lífsgæða og afkomuöryggis að sjálfsögðu miklar, enda er hægt að fullnægja þeim með eðlilegum hætti, ef rétt er á haldið. Skiptir þá mestu, hversu landinu er stjórnað og hversu þjóðartekjunum er skipt og varið. Þess vegna er það jafnbrýnt í nútímaþjóðfélagi að sinna vel, ásamt traustri atvinnu- og efnahagsuppbyggingu, hvers kyns félagsmálum í víðustu merkingu þess orðs, þar með talin heilbrigðismál, fræðslu- og menntamál o. s. frv., en það verður ekki gert án markvissrar stefnumótunar og traustrar forystu. Því miður hafa þessi mál orðið fórnardýr þess mikla stjórnleysis, sem einkennt hefur þjóðmálin undanfarin ár. Í stað þess að nota góðærið og hina miklu verðmætissköpun síðustu ára sem grundvöll undir varanlega uppbyggingu á sviði félags-, heilbrigðis- og menningarmála, þá ber flest, sem gert hefur verið í þessum málum, vitni um skipulagsleysi og skort á heildaryfirsýn.

Nýlega hafa orðið miklar umr. um heilbrigðismál á opinberum vettvangi og manna á meðal um allt land. Þessar umr. áttu sér óvenjulegan aðdraganda, sem var í því fólginn, að sjálf ríkisstj. fór að hlutast til um efni fasts útvarpsþáttar og fékk því til leiðar komið, að flutningur þáttarins var bannaður í ríkisútvarpinu að fullu og öllu. Þetta sýnir einræðishneigð ríkisstj., en hitt einnig, að hún er dálítið seinheppin. Bannið á útvarpsþættinum „Þjóðlíf“ vakti almenningsálitið til andstöðu gegn þeim yfirgangi, sem þarna var framinn, og knúði á um umr. á opinberum fundum og í blöðum um sjúkrahúsmál og önnur heilbrigðismál. Þó að ríkisstj. telji sér skylt og rétt að einoka ríkisútvarpið bæði leynt og ljóst, þá er hér þó enn ritfrelsi og fundafrelsi, og stjórnin hefur því fengið að reyna það, að ritskoðun útvarpsþátta er til lítils gagns fyrir lélegan málstað hennar.

Í heilbrigðismálum er ástandið þannig, að um 20 læknishéruð víðs vegar um land eru læknislaus. Skortur er heimilislækna í Reykjavíkurborg. Sérfræðingar haldast ekki við í landinu vegna lélegs aðbúnaðar og ófullkominnar vinnuaðstöðu á sjúkrahúsum. Hjúkrunarkvennaskortur stendur starfsemi sjúkrahúsa fyrir þrifum og geigvænlegur skortur er á öðru sérþjálfuðu starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni. Sjúkrahúsaskorturinn er þó hvað alvarlegastur. Daglega verður að neita sjúklingum af ýmsu tagi um sjúkrahúsvist og senda sjúklinga fyrr heim af sjúkrahúsum en forsvaranlegt getur talizt. Byggingu sjúkrahúsa miðar nálega ekkert áfram. Þau eru mörg hver áratugi í smíðum, enda eins líklegt, að margt í búnaði þeirra og skipulagi verði úrelt orðið og á eftir tímanum, þegar þau loks verða tekin í notkun.

Í framhaldi af því, sem ég hef nú sagt um heilbrigðismálin, má minnast á þann mikla þátt, sem almannatryggingakerfið hefur í sambandi við uppbyggingu réttláts þjóðfélags. Þó að mörgu hafi verið til leiðar komið á því sviði, stendur þó enn margt til bóta. Meðal þeirra mála, sem Framsfl. hefur barizt fyrir, er það, að stofnaður verði almennur lífeyrissjóður, sem allir landsmenn eigi kost á að tryggja sig hjá. A.m.k. síðustu 10 ár hefur þetta verið sérstakt baráttumál framsóknarmanna, og svo er komið, að sérstök stjórnskipuð n., sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, vinnur að því að semja frv. til l. um slíkan almennan lífeyrissjóð. Almennur lífeyrissjóður er mikið hagsmuna- og réttlætismál og mundi gjörbreyta, ef vel tekst til, lífsafkomu aldraðs fólks og annarra, sem sjóðsréttinda nytu. Einnig vil ég minnast á það hér, að á nýafstöðnu flokksþingi framsóknarmanna var samþ. að undanþiggja bæri frá sköttum, — og ákveða með l., — bótagreiðslur almannatrygginga og þurftartekjur aldraðs fólks. Það er bæði ranglátt og óþarft að skattleggja gamalmenni, þótt vinnufær teljist, sem aðeins bera þurftartekjur úr býtum.

Mennta- og menningarmálin í landinu eru meðal þeirra málaflokka, sem nú ríður mest á aó taka til fullkominnar endurskoðunar, þar sem höfuðáherzla verði lögð á að samræma þau kröfum og þörfum nútímans, þótt áfram verði reist á grunni hins þjóðlega menningararfs, sem okkur ber framar öðru að varðveita og ávaxta. Eitt hið allra brýnasta í skólamálum nú er að jafna aðstöðu barna og unglinga til skólagöngu, hvar sem er á landinu, en mjög vantar á, að slíkum jöfnuði sé náð. Enn eru heil héruð og landshlutar, sem skortir gagnfræðaskóla og sækist seint að fá úr því bætt, þótt vitað sé, að árlega er vísað frá fullsetnum héraðsskólum nemendum í tuga- eða jafnvel hundraðatali. Þetta er ófremdarástand, sem fyrst og fremst bitnar á æsku sveitanna og hinna smærri þorpa. Einnig sækist allt of seint að útrýma leifum farskólafyrirkomulagsins, sem löngu er vitað, að er stórgallað og í engu samræmi við kröfur tímans. Því miður eru aðgerðir ríkisstj. allt of íhaldssamar í þessu efni, enda hefur hún í fjölmörgum dæmum staðið í vegi fyrir skólaframkvæmdum með því að setja ýmsar hömlur á, að í þær væri ráðizt, þótt áhugi og vilji hafi verið heima fyrir. Eru nú þegar tugir skóla á biðlista og alltaf bætast nýir við, en ríkissjóður er langt á eftir með lögboðinn hluta af framlögum til skólamannvirkja. Þetta getur ekki gengið svona ár eftir ár. Skólabyggingarmálin verður að taka þeim tökum, sem nauðsyn krefst. Það er óheilbrigt að láta þau ávallt sitja á hakanum og gera þau að fórnardýri ringulreiðar í framkvæmda- og fjárfestingarmálum.

Tímans vegna get ég ekki rætt þessi mál frekar að sinni, en ég vil leyfa mér að leiða athygli hlustenda að ályktun síðasta flokksþings framsóknarmanna um mennta- og menningarmál, þar sem stefna flokksins í þeim efnum er ítarlega mörkuð.

Það getur tæplega orðið að ágreiningsefni, að húsnæðisþörfin er ein af frumþörfum mannsins, ámóta eins og fæði og klæði. Það er einnig ljóst, að þeirri þörf verður ekki fullnægt án víðtækra samfélagsaðgerða. Húsnæðismálin eru eitt hið stærsta félagslega verkefni þjóðarinnar og einnig hið fyrirferðarmesta fjárfestingarmál. Byggingarþörf er hér meiri en í flestum löndum, sem fyrst og fremst stafar af því, að þjóðinni fjölgar mjög ört, auk þess sem eldra húsnæði er ófullkomið og úr sér gengið. Hjá því verður ekki komizt, að við fjárfestum mikið í íbúðarhúsabyggingum. En á því veltur að skipuleggja byggingariðnaðinn þannig, að sem mest nýting verði á því fjármagni, sem varið er til þeirra mála, en á það brestur nú stórum. Þó að byggingariðnaðurinn sé ein fyrirferðarmesta grein þjóðarbúskaparins, fer hitt ekki milli mála, að hún er sú grein hans, sem einna lakast er skipulögð hvað snertir fjármagn, vinnutilhögun og notagildi. Það ber að harma, að engar frambúðarlagfæringar hafa verið gerðar á húsnæðismálum hin. síðari ár, þó, að skilyrði hafi verið til þess vegna óvenju hagstæðs árferðis, auk þess sem reynslan sannar, að frá þjóðhagslegu sjónarmiði er endurskipulagning húsnæðismála sennilega brýnni en margt annað. Verðbólguþróunin á að verulegu leyti rætur að rekja til hins óhagstæða húsnæðiskostnaðar og annars ófremdarástands í byggingarmálum. Í þessum málum þurfa að verða alger straumhvörf. Það verður að taka upp nýja byggingarhætti, útrýma braskinu, stöðva húsnæðisokrið og umfram allt að koma upp starfhæfu veðlánakerfi, sem stuðlar að því, að almenningur geti eignazt hóflegar íbúðir með viðráðanlegum kjörum. Nauðsynlegt er að stofnsetja húsnæðisbanka, sem hafi með höndum almenna húsnæðislánastarfsemi og aðra yfirstjórn húsnæðismála og ákveða bankanum svo rúm fjárráð, að hægt sé að lána út á staðlaðar íbúðir allt að 80–90% af verði þeirra til langs tíma. Einnig þarf að koma upp sjóði, sem lánar til kaupa og endurbóta á eldra húsnæði. Mundi það stuðla að betra viðhaldi og nýtingu eldra húsnæðis, sem í ýmsum tilfellum kann að reynast hagkvæmara en að ráðast í nýbyggingar. Meginmáli skiptir, að öll lánskjör séu miðuð við það, að árleg kostnaðarbyrði af húsnæði sé í eðlilegu samræmi við almennt kaupgjald á hverjum tíma. Það hlýtur ávallt að skipta höfuðmáli, að réttlátt hlutfall sé á milli tekna og húsnæðiskostnaðar. Fari það hlutfall stórlega úr skorðum, eins og viðgengst hér á landi, mun m. a. reynast ógerningur til frambúðar að hafa hemil á verðbólgu og dýrtíð. Húsnæðismálin eru eitt okkar alvarlegasta efnahagsvandamál og þau ber að leysa ekki sízt með þá staðreynd í huga.

Góðir áheyrendur. Winston Churchill nefndi árin fyrir síðari heimsstyrjöld „árin, sem engispretturnar átu“: Við Íslendingar getum með svipuðum hætti nefnt síðustu 7–8 ár, eða valdatíma núv. stjórnarflokka, „ár hinna glötuðu tækifæra“. Allan þennan tíma hefur verið góðæri innanlands og síbatnandi viðskiptakjör út á við. Eigi að síður hefur flest sigið á ógæfuhlið í stjórnarfari landsins og miklum tækifærum til framfara og framtíðaruppbyggingar verið glatað. Það er því kominn tími til umskipta og nýrrar stjórnmálaforystu. Þá fyrst er hugsanlegt, að hægt sé að hefja það endurreisnarstarf í ísl. þjóðmálum, sem nauðsyn krefst, eftir stjórnleysi og glötuð tækifæri síðustu ára. — Góða nótt.