11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar kjörtímabili er nú að ljúka, er enginn vafi á því, að hinn almenni dómur kjósenda hvarvetna á landinu um stjórnarfarið undanfarin ár er sá, að illa hafi verið nýtt þau tækifæri, sem einstök góðæri hafi veitt stjórnarvöldunum til stórfelldra átaka í þeim málum, sem alþjóð varðar mestu. Hinn almenni borgari í landinu hefur í æ ríkara mæli verið ofurseldur óheftu gróðabraski þeirra fjáraflamanna, sem mótað hafa þá stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin tvö kjörtímabil. Þessir aðilar hafa dyggilega notað sér þá aðstöðu, sem meiri hl. vald Sjálfstfl. fyrir tilstyrk Alþfl. hefur veitt þeim til að byggja þjóðfélagsskipunina í æ ríkari mæli upp á þann veg, að hún þjóni sem bezt þeirri lífsskoðun, að allur rekstur þjóðarbúsins og öll samskipti manna eigi að miðast við gróðamöguleika útvaldra einstaklinga. Engin svið þjóðlífsins hafa verið friðhelg fyrir gróðabraski þessara skjólstæðinga ríkisstj. til athafna á kostnað almennings og sízt þau málefni, sem helzt hefði þó verið hægt að ætlast til, að haldið væri utan við gróðabraskið, en húsnæðismálin, einmitt þau mál, þar sem frekast hefði mátt gera kröfu til, að hagsmunir almennings væru einhvers metnir, hafa orðið hvað mestur gróðavettvangur og þar hefur almenningur orðið að greiða hvað þyngstan skatt vegna ráðsmennsku stjórnarflokkanna og þá að sjálfsögðu mest það fólk, sem hefur verið að basla við að eignast þak yfir höfuðið, og öll alþýða manna hefur orðið að gjalda fyrir þau áhrif, sem gróðabrask þeirra, sem byggja og selja íbúðir, hefur haft á dýrtíðarþróunina í landinu, þá dýrtíðarþróun, sem er að eyðileggja allan grundvöll undir rekstri atvinnuveganna. Barátta Alþb. fyrir því, að almenningi verði búin viðunanleg kjör í húsnæðismálum er löng og verður ekki rakin nema í nokkrum dráttum á þeim stutta tíma, sem ég hef hér til umráða. Fram að stjórnartíma vinstri stjórnarinnar hafði veðlánákerfið engar eigin tekjur og hafði einungis yfir að ráða því fé, sem unnt reyndist að fá að láni á hverjum tíma úr bankakerfinu eða annars staðar að. Veðlánakerfið var til þess tíma ekki fært um neitt annað en framlána það fé, sem tókst að skrapa þannig saman fyrir hverja úthlutun, en vinstri stjórnin lagði grundvöllinn að lánakerfi, sem byggði á árvissum eigin tekjustofnum. Með því var stigið mikilvægt byrjunarskref í rétta átt og það var launþegum afar mikilvægt, að stjórnarvöldin héldu áfram úrbótum eftir þeirri braut, sem þá var mörkuð. En það var öðru nær en ákvarðanir viðreisnarstjórnarinnar, sem síðan tók við völdum, gengju í þá áttina. Gengislækkanir og gífurleg verðbólguþróun, sem eftir fylgdi, hefur valdið stórfelldri hækkun á byggingarkostnaði og þar á ofan bættust vaxtahækkanir, sem viðreisnarstjórnin greip til við upphaf stjórnferils síns, enda dró úr íbúðarbyggingum, en góður gróðavettvangur myndaðist fyrir þá, sem aðstöðu höfðu til að fá lóðaréttindi og fjármagn til bygginga íbúða til sölu.

Eftir að felldar höfðu verið á Alþ. till. Alþb. um niðurfellingu tolla á byggingarefni til íbúðarhúsa og lækkun vaxta á íbúðarlánum, flutti Alþb, vorið 1964 viðamikið frv. um úrbætur í húsnæðismálum, þar sem einkum var annars vegar lögð áherzla á að auka svo fjármagn byggingarsjóðs ríkisins, að honum væri unnt af eigin fé að veita lán, sem næmu 67–75% byggingarkostnaðar til 35 ára og með 3% vöxtum til nýbygginga og til kaupa á eldri íbúðum. Hins vegar var það eitt meginatriði frv. Alþb. að færa sem mest af byggingum íbúðarhúsnæðis á félagslegan grundvöll með stofnun eins almenns byggingarsamvinnufélags í hverju sveitarfélagi, en þessum byggingarsamvinnufélögum yrði gert kleift að annast verulegan hluta íbúðarbygginga á hverjum stað, en íbúðirnar síðan seldar félagsmönnum á kostnaðarverði. Var þá einnig gert ráð fyrir því, að kaupendum væri heimilt að annast byggingu íbúða sinna sjálfir, en þeir gerðu þá venjulegan verksamning við byggingarsamvinnufélagið. Allar voru þessar ráðstafanir ætlaðar til þess, eins og sagði í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta: „að koma í veg fyrir, að milliliðir og braskarar geri íbúðarhúsnæði miklu dýrara en vera þarf.“ En þær staðreyndir, sem í Reykjavík hafa verið dregnar fram í dagsljósið þessa dagana, sanna, að ekki hefði verið vanþörf á slíkum ráðstöfunum til verndar þeim, sem brutust í því að eignast eigið húsnæði. Framlag ríkisstj.- flokkanna var svo það eitt, eins og ég áðan lýsti, að hækka byggingarkostnaðinn stórkostlega, stytta lánstímann og hækka vextina. Það varð því ljóst, að til þess að koma í veg fyrir, að húsbyggjendur þyrftu að búa við svo stórkostlega versnandi hag, að til alvarlegra vandræða horfði á meðan núv. stjórnarflokkar færu með meirihlutavald á Alþ., meirihlutavald, sem reynslan hafði sýnt og sannað, að var miskunnarlaust beitt gegn öllum till. til úrbóta í húsnæðismálum, varð að beita samtakamætti verkalýðsfélaganna til þess að knýja fram, að svo miklu leyti, sem unnt væri, þær úrbætur, sem ekki fengjust með eðlilegum hætti lögfestar á Alþ.

Vegna þess, hversu stjórnarflokkarnir komu húsnæðismálum almennings í uggvænlegt horf við upphaf stjórnarferils síns og vegna algerrar og margítrekaðrar andstöðu þeirra gegn öllum úrbótum í þeim málum á Alþ., hefur stjórnartímabil þessara flokka m. a. einkennzt af því, að úrbætur í þessum brýnu hagsmunamálum alls almennings hafa verið knúnar fram við lausn kjaradeilna, þar sem ríkisstj. hefur verið þrýst til að gefa yfirlýsingar um, að lögfestar skyldu sömu eða hliðstæðar úrbætur í húsnæðismálum og ekki hafa fengizt fram með eðlilegum hætti á Alþ. Má þar til nefna aukningu tekna byggingarsjóðs ríkisins, sérstaka byggingu 1250 staðlaðra íbúða á 5 árum á vegum ríkisins og sveitarfélaga með forkaupsrétti fyrir láglaunafólk í verkalýðsfélögum og með sérstökum lánakjörum, þar sem lán nema 80% af verðmæti íbúðar. Lánstími er 33 ár og engar afborganir fyrstu 3 árin. Enn fremur sérstök viðbótarlán, 75 þús. kr. til efnalítilla félagsmanna verkalýðsfélaga. Þannig hafa auknar íbúðabyggingar og bætt lánakjör verið eitt af meginatriðum samkomulags um launamál 1964 og 1965 og þær ráðstafanir verið knúðar fram með afli verkalýðssamtakanna þvert gegn því, sem ríkisstj. hafði fyrirhugað um húsnæðismál, eins og bezt sést á því, að ekki var ráð gert fyrir neinum slíkum fjárhagsráðstöfunum í framkvæmdaáætlun ríkisstj, fyrir árin 1963–1966. Nauðsyn þess, að almenningur í landinu búi við viðunandi kjör í húsnæðismálum verður ekki ofmetin. Ekki er aðeins afkoma hvers alþýðuheimilis að mjög verulegu leyti háð því, hver húsnæðiskostnaðurinn er, heldur hefur sá útgjaldaliður hin víðtækustu áhrif á öll verðlags- og efnahagsmál og öll barátta gegn verðbólgu er vonlaus, meðan gróðabrask og vaxtaokur er látið setja aðalmark á húsnæðismálin. Þess vegna er það eðlilegt, að þegar verkalýðsstéttina skortir nægilegan tilstyrk á Alþ. til þess að knýja fram brýnustu hagsmunamál almennings í húsnæðismálum, sé afli verkalýðssamtakanna beitt til þess að knýja fram þær úrbætur, sem ekki er liðsstyrkur til að fá fram á Alþ. með eðlilegum hætti. En það er eigi að síður almenningi dýrt að hafa ekki við alþingiskosningar, í þeirri kjarabaráttu, sem þá fer fram og útlátaminnst er, tryggt þá skipan þingsins, að kröfur verkalýðssamtakanna og allrar alþýðu um úrbætur í húsnæðismálum eigi þar tryggan og öruggan framgang og því afli, sem verkalýðssamtökin þurfa ávallt og ævinlega á að halda í hinni beinu launabaráttu, þurfi ekki að verulegu leyti að beina til þess að knýja fram löggjafaratriði, sem alþýða manna á kost á að tryggja sér við alþingiskosningar með því að fjölga þar fulltrúum sínum, en kasta ekki atkv. sínu á flokka, sem fyrst og fremst gæta hagsmuna þeirra, sem mestan áhuga hafa á að gera sér húsnæðisþarfir almennings að féþúfu, eins og reynslan hefur sýnt og sannað.

Þrátt fyrir það, sem verkalýðshreyfingunni hefur tekizt að knýja fram til úrbóta í húsnæðismálum, eru kjör þeirra, sem eru að reyna að eignast þak yfir höfuðið, svo óviðunandi, að mikil barátta er fram undan til þess að úr fáist bætt. Byggingarkostnaðurinn hefur hækkað svo stórlega á tímabili viðreisnarstjórnarinnar, að frá árinu 1961 hefur kostnaðarverð 350 rúmmetra íbúðar samkv. byggingarvísitölu hækkað um rúml. 450 þús. kr. eða um nærri 25%, meira en nemur öllu því hámarksláni, sem ætlunin er, að húsnæðismálasjóður láni út á íbúð á þessu ári. Ástandið er því þannig í dag, að verulega skortir á, að lánuð sé sú hækkun, sem orðið hefur á raunverulegum byggingarkostnaði á s.l. 5 árum, en ekkert kemur upp í þann byggingarkostnað, sem þá þegar var fyrir hendi.

Fulltrúar og málgögn Alþb. hafa haldið því fram, að það verð, sem almenningur, einkum í Reykjavík og nágrenni, hefur orðið að sæta við kaup á íbúðum, sé óeðlilega hátt og langt umfram raunverulegan kostnað. Ekki sé þar aðeins um að ræða skort á skipulagi við framkvæmdir og skort á hagkvæmu og nægu fjármagni, heldur hafi fjáraflamenn og braskarar féflett íbúðakaupendur í stórum stíl. Nú nýlega hafa þessar staðhæfingar verið sannaðar og staðfestar með því, að opinberlega hafa verið birtir reikningar byggingarsamvinnufélags í Reykjavík, sem sýna, að verð íbúða, sem félagið hefur byggt, er svo miklu lægra en almennt markaðsverð á sambærilegum íbúðum, að sýnilegt er, að ýmsir þeirra, sem byggja íbúðir til sölu, hirða um 80–100% ágóða eða 300–500 þús. kr. á íbúð. Öll var þó sú bygging, sem hér er um að ræða, unnin samkv. ströngustu uppmælingatöxtum og er vert að vekja á því athygli, að þar með fellur um sjálfan sig allur sá andróður, sem hefur verið haldið uppi gegn iðnaðarmönnum og launakjörum þeirra og þær staðhæfingar, að laun þeirra væru aðalorsök óhóflegs húsnæðiskostnaðar. Það liggur því fyrir, hvaða hlutverk byggingabraskarar hafa leikið undanfarið og það er auðsætt, að þeir hafa að jafnaði gert drjúgum meira en hirða af íbúðarkaupendum í hreina álagningu allt húsnæðismálasjóðslánið og stundum tvöfalda lánsupphæðina, svo að þegar almenningur á við að kljást meiri hækkun raunverulegs byggingarkostnaðar á s.l. 5 árum en nemur hámarksláni og þar á ofan kemur skattgjald til þeirra sem eiga sérstakan aðgang að byggingarlóðum og fjármagni, svo að nemur allt að tvöföldu húsnæðismálasjóðsláninu, er naumast annars að vænta en venjulegt fólk sé að kikna undan þessum byrðum.

Því er oft haldið á loft, að íslenzk ungmenni fái að búa við þá sérstöku mildi forsjónarinnar, að þau þurfi ekki að eyða, hluta af dýrmætasta tíma æsku sinnar til þess að gegna herskyldu svo sem æskufólk í öðrum löndum. En íslenzk æska þarf að búa í húsum eins og æska annarra þjóða og hún þarf, þegar tími hvers og eins kemur, að eignast eigið heimili og þá býr þjóðfélagið svo að íslenzku æskufólki, að þótt það komist hjá því að fórna nokkrum tíma til þess að tryggja raunverulega eða ímyndaða hagsmuni þjóðar sinnar við herskyldustörf, hafa hin sívaxandi yfirráð fjáraflamannanna í þjóðfélaginu dæmt þessa sömu æsku til þess í staðinn, ef hún vill eignast heimili, að fórna hverri frístund öll sín beztu ár til þess að standa undir þeim ágóða, sem fjáraflamennirnir áskilja sér af íbúðinni. Það er mál, að slíkri þegnskylduvinnu í þágu braskaranna linni. Íslendingar guma af því, að þjóðarframleiðsla á mann hér á landi sé með því allra mesta, sem þekkist í heiminum. Það ættu því að vera allar aðstæður til þess, að landsmenn fengju að búa við svipuð kjör um húsnæðismál og gerist meðal nágrannaþjóðanna, sem minni hafa þjóðartekjur á mann. En til þess þurfa launþegar að láta kosningarnar í sumar ekki sízt snúast um það, að úrbætur verði gerðar í húsnæðismálum og fólki með venjulegar tekjur verði gert kleift að standa undir húsnæðiskostnaði án sleitulauss þrældóms um langt árabil, eins og nú á sér stað. Launþegar geta því aðeins gert sér vonir um, að þær úrbótatill., sem Alþb. hefur lagt fram á Alþ., nái fram að ganga, að þeir hver og einn beiti til þess kjörseðlinum í sumar og veiti Alþb. aukið áhrifavald á Alþ., en helztar þessara till. eru íbúðarbyggingar á félagslegum grundvelli án milliliða og braskara, lengri lánstími, afnám vísitöluálags á afborganir og vexti íbúðarlána, bygging leiguhúsnæðis, bygging íbúða utan Reykjavíkur á sama grundvelli og nú eru að hefjast framkvæmdir á í Reykjavík með sérstökum kjörum fyrir láglaunafólk samkv. samningum, sem verkalýðsfélögin knúðu fram við kjarasamninga 1965. Aðild iðnnema að viðbótarlánum þeim, sem verkalýðsfélögin sömdu um sumarið 1964 og nú síðast frv, um að þeir verkamenn verkalýðsfélaga, sem ekki fá lán úr lífeyrissjóðum, fái 125 þús. kr. viðbótarlán úr sérreikningi síns verkalýðsfélags í atvinnuleysistryggingasjóði til 33 ára með 4% vöxtum, afborgunarlaust fyrstu 3 árin.

Til þess að þessar og aðrar úrbætur fáist í húsnæðismálum, þarf sú ríkisstj., sem nú situr og alið hefur fjármálabraskarana, að falla. Einungis verulegur sigur Alþb. í alþingiskosningunum í sumar getur tryggt það. Forystumenn ríkisstj.-flokkanna vita, að fylgi flokka þeirra með þjóðinni er minna nú en við síðustu alþingiskosningar. Hið eina, sem getur því bjargað stjórninni frá að missa meiri hl. sinn, er, að atkv. þeirra, sem nú hverfa frá stuðningi við stjórnarflokkana, falli að einhverju leyti á Framsfl., því að með því móti falla þau dauð. Hverjum, sem eitthvað fylgist með, er ljóst, að Framsfl. á hvergi í nokkru kjördæmi nokkurn kost á að auka þingmannatölu sína. Flokkurinn fékk við síðustu kosningar fullnýtta alla möguleika sína varðandi kjördæmakjörna þm. og við úthlutun uppbótarsæta kemur Framsfl. ekki til greina. Hann var svo fjarri því við síðustu kosningar að fá uppbótarsæti, að þótt úthlutað hefði verið 5 sætum til viðbótar við þau 11, sem fyrir eru, hefði Framsókn ekki fengið eitt einasta þeirra. Það er því ekki að ástæðulausu, að ríkisstj.-flokkarnir setja nú allt traust sitt á, að þau atkv., sem þeir fyrirsjáanlega missa, kunni að einhverju leyti að falla á Framsókn og nýtast þannig ekki gegn stjórninni. Hvert einasta atkv., sem Alþb. fær, getur hins vegar ráðið úrslitum um skiptingu uppbótarsætanna milli Alþb. og stjórnarflokkanna. Milli ríkisstj.-flokkanna og Alþb. stendur því baráttan um fall viðreisnarstjórnarinnar og nýja stefnu í þjóðmálum, ekki sízt um framgang þess brýna hagsmunamáls, að almenningi sé gert kleift að rísa undir húsnæðiskostnaðinum. Ég beini því sérstakri áskorun minni til allra þeirra, sem láta sig miklu skipta lausn þessa máls, að þeir geri sér ljóst, að það kemur til þeirra kasta hvers og eins í alþingiskosningunum í sumar að tryggja því framgang með auknum styrk Alþb. á Alþingi. — Góða nótt.