11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

Almennar stjórnmálaumræður

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur: Ekki fer milli mála, að stjórnarsamsteypa Sjálfstfl. og Alþfl., sem nú hefur farið með völd í landinu nokkuð á 9. ár, hefur haft meiri og betri möguleika til þess að koma fram varanlegum umbótum í íslenzku þjóðfélagi heldur en nokkur önnur ríkisstj., sem setið hefur í landinu fyrr og síðar. Kemur þar fyrst til, að valdatímabil stjórnarinnar er orðið lengra en dæmi eru til, samstarf flokkanna svo innilegt, að þar hefur hnífurinn ekki gengið á milli og þó fremur öðru sú staðreynd, að flest það, sem stjórnvöldum er ósjálfrátt, hefur gengið þeim og þjóðinni í haginn. Samfellt góðæri hefur ríkt til lands og sjávar, hvert aflametárið rekið annað, verðlag á útflutningsafurðum þjóðarinnar farið síhækkandi, gjaldeyrisöflun vaxið að meðaltali um 14% á ári, þjóðartekjur aukizt öruggum skrefum í kjölfar góðæranna allt upp í 9–10% á ári. Þannig hafa öll ytri efnaleg skilyrði til stórfelldrar uppbyggingar í landinu verið fyrir hendi, undirstaða afkomuöryggis ætti að vera traustari en nokkru sinni fyrr, atvinnuvegirnir að standa með blóma, lífskjör almennings vera betri, framtíðarhorfur allar bjartari en nokkru sinni; þó að eitthvað blési á móti um stundarsakir, þ.e.a.s., ef málefnum þjóðarinnar hefði verið stýrt með heildarhagsmuni hennar eina fyrir augum. Slík stjórn hefði lagt á það höfuðkapp að treysta stöðu undirstöðuatvinnuveganna í efnahagskerfinu. Hún hefði beint bróðurhluta fjárfestingarfjármagns þjóðarinnar til þess að byggja þá upp af bættri tækni, aukinni rekstrarhagkvæmni og möguleikum til vaxandi fullvinnslu afurða, sem gerði þá hæfa til árangursríkrar samkeppni á heimsmörkuðum, þótt tímabundnum og tilviljanakenndum verðhækkunum slotaði. Í þessu skyni hefði hún kappkostað að láta þessa atvinnuvegi njóta arðsins, sem hún hefði skapað, og þannig stuðlað að því, að fjármagn og vinnuafl leitaði fremur til þeirra en til óarðbærra þjónustugreina og milliliðastarfsemi. Hún hefði sett stolt sitt í það að skila þjóðinni sjálfbjarga og gróskumiklum atvinnuvegum, sem færir væru um að bjóða vinnandi fólki til lands og sjávar afkomuöryggi, batnandi launakjör, styttan vinnudag og félagslegar umbætur. Og hún hefði leitazt við að tryggja varanleik umbótanna með því að halda verðlagi innanlands í þeim skefjum, að þær brynnu ekki jafnharðan upp í eldi verðbólgu og dýrtíðar. En það er ærið breitt bilið á milli þeirra möguleika, sem fyrir hendi hafa verið, og þess viðskilnaðar, sem nú blasir við. Arður góðæranna hefur ekki runnið til undirstöðuatvinnuveganna eða þeirra, sem við þá starfa. Þeir hafa verið mergsognir af milliliðum og verzlunarvaldi, sem nú hirðir til sín fjórfaldan til fimmfaldan hlut móts við það, sem var fyrir valdatöku viðreisnarinnar. Ótrúlegur hluti arðs þeirra hefur einnig runnið sem skattpeningur til fjárfestingarsjóða, þaðan sem þeir svo náðarsamlegast geta fengið lánað aftur sitt eigið fjármagn með okurvöxtum. Þessir skattar einir nema nú milli 500–1000 millj. kr. á ári og allan kostnaðarauka af völdum óðaverðbólgunnar hafa þeir einnig mátt þola. Afleiðingin hefur orðið sú, að hinn trausti og heilbrigði rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuveganna, sem lofað var, er nú fólginn í tilkomu umfangsmesta styrkja- og uppbótakerfis, sem sögur fara af, sem nú gleypir álíka upphæð árlega og nemur öllum tolltekjum ríkissjóðs, en fullnægir þó ekki þörfum útflutningsatvinnuveganna betur en svo, að þeir eru í ýmsum greinum reknir með geigvænlegum halla.

Uppbygging atvinnuveganna lýsir sér m. a. í því, að verið er að þurrka út togaraflotann og bátaflotann, sem eru hornsteinar fiskiðnaðarins í landinu og um leið líftaug sjávarbyggðanna víðs vegar um landið. Það einstæða afrek hefur verið unnið að taka út úr rekstri 30 togara og nær 100 báta á fáum árum. Á móti hefur að vísu komið fjölgun síldveiðiskipa og aukin gúanóframleiðsla, sem haft hefur lánið með sér nú um skeið, en sem er frumstæð atvinnugrein og ein sú ótryggasta, hvað markaði og verðlag snertir. En samt er þetta í dag eina stóra grein útflutningsatvinnuveganna, sem telst sjálfbjarga, þegar á heildina er litið.

Skattheimtukerfi ríkisins hefur vaxið risaskrefum undanfarin ár jafnframt því, sem skattalögunum hefur verið umturnað þannig, að gróðamynduninni í landinu hefur verið hlíft, en söluskattar, sem lenda með mestum þunga á almenningi, og nefskattar hafa verið þyngdir að sama skapi. Samt er nú svo komið að fjárlög eru nú raunverulega afgreidd með 100 millj. greiðsluhalla, sem falinn er með fölskum tölum um fjárþörf uppbótakerfisins og með því að taka stórfelld lán til framkvæmda ríkisins utan fjárl. Svo er nú komið, þrátt fyrir það, að reynt verður að halda uppi tekjuöflun ríkisins með stórfellt meiri gjaldeyriseyðslu en þjóðin hefur efni á, miðað við samtímatekjur. Skattheimtubáknið rís ekki lengur undir byrðum verðbólgustefnunnar fremur en höfuðatvinnuvegirnir og allur almenningur í landinu. Þrátt fyrir skattheimtu, sem á þessu ári nemur hvorki meira né minna en röskum 4000 millj. kr., sem er um fimmföldun á valdatímabili viðreisnarstjórnarinnar, skortir algerlega samtímatekjur fyrir aðstoð við sjávarútveg og fiskiðnað og til niðurgreiðslna á vöruverði, samtals um 282 millj. kr. og auk þess framkvæmdafé, sem hrifsa á úr viðskiptabönkum, upp á a. m. k. 200 millj. kr. Raunverulegur halli verður því eftir áætlunum stjórnarliðanna sjálfra ekki undir 500 millj. kr., þrátt fyrir það, að innflutningur og þar með tolltekjur fari stórlega vaxandi. Þannig eru höfuðdrættir þeirrar myndar efnahagslífsins, sem nú blasir við. Stórfelldur hallarekstur ríkisbúskaparins, gífurlega versnandi gjaldeyrisstaða, útflutningsatvinnuvegunum haldið gangandi til bráðabirgða með uppbóta- og styrkjakerfi, sem samtímatekjur eru ekki til fyrir.

En þá er spurt: Hefur þá ekki hinn almenni maður í landinu gengið með rýran hlut frá borði? Staðreyndir tala þar um sínu skýra máli. Samkv. viðmiðunaraðferðum, sem hlotið hafa viðurkenningu jafnt verkalýðssamtakanna sem samtaka vinnuveitenda, er kaupmáttur tímakaups verkamanna því sem næst hinn sami nú og 1959, en kaupmáttur daglauna eða vikukaups fyrir umsamdan vinnudag er í dag talsvert lægri en hann var þá eða sem svarar styttingu dagvinnutímans, sem um var samið sumarið 1965. Hversu oft hefur okkur ekki verið sagt, að kjarabætur ættu að vera í samræmi við vöxt þjóðarteknanna? Ef þeirri kenningu, sem er vafalaust réttlætislágmark, hefði verið fylgt, hefði kaupmáttur átt að aukast um 5–7% á ári að undanförnu, en ekkert slíkt hefur gerzt, heldur hefur vinnandi fólk orðið að sækja sína rauntekjuaukningu, að því leyti, sem um hana hefur verið að ræða, að öllu leyti í lengdan vinnutíma og tímabundnar yfirborganir, þar sem umframeftirspurn hefur á annað borð verið eftir vinnuafli. Það eru þessar staðreyndir um þróun kjaramála verkafólks ásamt síversnandi afkomu undirstöðuatvinnuveganna og lánsfjárkreppu, sem þegar í dag hefur leitt af sér alvarlegan samdrátt í ýmsum greinum atvinnulífsins og til tilfinnanlegs atvinnuleysis í heilum landshlutum, sem nú um sinn hafa sett eðlilega og lífsnauðsynlega kjarabaráttu vinnandi fólks í sjálfheldu og ógna nú jafnvel þeim neyðarmöguleikum, sem verkafólk hefur þó haft til þess að framfleyta sér og sínum með gegndarlausri yfirvinnu. Styttur vinnutími, svo knýjandi, sem hann þó er, hlýtur að leiða til neyðarástands, ef kaupgjald hækkar ekki að sama skapi eða kaupmáttur tímakaups er ekki aukinn eftir öðrum leiðum, sem því svarar. Og það er slíkt ástand, sem nú er að skapast í æ ríkara mæli. Úr þessari sjálfheldu verður íslenzk verkalýðshreyfing að brjótast og það getur hún, ef hún beitir til þess jöfnum höndum samtakamætti sínum á sviði hinnar faglegu hagsmunabaráttu og á stjórnmálasviðinu og tryggir sér þar sterk áhrif í samfélagi við þau þjóðfélagsöfl, sem nú hafa þar sömu hagsmuna að gæta.

Eins og nú er komið eftir 8 ára stjórn verzlunarvaldsins, er það orðin ríkari nauðsyn en nokkru sinni áður, að framleiðslustéttirnar, verkafólk, bændur og atvinnurekendur, sem bera hitann og þungann í sjávarútvegi og iðnaði, snúi bökum saman í íslenzkum stjórnmálum. Hinir sameiginlegu hagsmunir eru auðsæir. Kjör vinnustéttanna verða ekki bætt varanlega, nema staða framleiðsluatvinnuveganna í efnahagskerfinu verði bætt að miklum mun. Meðan þeir eru mergsognir af milliliðum og verðbólgu, verða óhjákvæmilegar kjarabætur ekki sóttar í þeirra hendur. Meðan ríkisvaldið hindrar ekki, að þessar afætur hrifsi til sín sívaxandi hluta af fjármagni og vinnuafli þjóðarinnar og þær látnar eftirlitslaust ráðstafa æ hærri hluta af gjaldeyri hennar til óarðbærrar eyðslu, meðan það er þolað, að algert stjórnleysi ríki í fjárfestingu landsmanna og ekkert er aðhafzt til þess að skipuleggja rekstur atvinnuveganna og gera þeim fjárhagslega kleift að endurbæta hann með aðstoð nútímatækni og vísindastarfsemi, geta framleiðslustéttirnar ekki vænzt bjartari eða betri tíma.

Tímabil slembilukkunnar, einstæðra aflaára og samfelldra verðhækkana geta reynzt brigðul, eins og reynslan sannar. Til langframa getum við ekki reiknað með því, að okkar útflutningsafurðir hækki um 40–50% á fáum árum, meðan aðrar þjóðir verða að sæta nokkurn veginn föstu verðlagi. Og þá er okkur aðeins eftir skilin sú leiðin, sem öll þróuð þjóðfélög í austri og vestri hafa farið til þess að auka hagvöxt sinn og bæta lífskjör þegnanna, að bæta rekstur atvinnufyrirtækjanna með hvers konar tækni og auka þannig framleiðsluna og nýtingu vinnuafls og fjármagns. En í okkar örsmáa þjóðfélagi verður slíkt ekki framkvæmanlegt nema með skynsamlegri heildarstjórn á öllum stærstu þáttum þjóðarbúskaparins, afnámi þess milljarða arðráns, sem framleiðsluatvinnuvegirnir og fólkið, sem við þá vinnur, verður að þola. Og þessi eina færa leið til hagsældar verður heldur ekki farin nema stórfelld fjármunatilfærsla frá þessum aðilum og til framleiðsluatvinnuveganna verði framkvæmd og þannig skapaðir möguleikar þeim til handa til hraðrar uppbyggingar og aukinna framleiðsluafkasta. Núríkjandi stjórnarsamsteypa hefur sýnt og sannað, að hún hvorki vill né getur stýrt þjóðarbúinu eftir þeim leiðum, sem nú eru einar færar, og stendur því ráðþrota og skilningsvana í því öngþveiti og stjórnleysi, sem stefna hennar hefur skapað. Það er því mál til komið, að hún fái hvíldina og hinum nauma þingmeirihl. hennar verði hnekkt í komandi kosningum.

Eins og flokkaskipan í landinu er nú háttað, verður slíkt þó því aðeins mögulegt, að Alþb. hljóti vaxandi traust og fylgi, sem skapi því úrslitaáhrif á löggjafarþinginu á næstu árum. Þau úrslitaáhrif mun það öllu öðru fremur nota til þess að móta og framkvæma markvissa uppbyggingarstefnu í atvinnumálum þjóðarinnar í samvinnu við framleiðslustéttirnar til lands og sjávar og til að tryggja öruggar lífskjarabætur og félagslegar framfarir á þeim grundvelli. Alþb. hefur nú birt framboð sín um allt land og um þau hefur verið og er alger einhugur og sigurvissa í 7 kjördæmum af 8. Hitt er ekki launungarmál, að í einu kjördæmi hefur orðið ágreiningur um skipan framboðslista. Við þá, sem þegar hafa reynt og munu reyna að nota sér þann ágreining til framdráttar lélegum málstað, vil ég aðeins segja þetta: Maður, líttu þér nær og tíundaðu þá einingu, sem í þínum flokki ríkir. Allan ágreining, stóran sem smáan, innan Alþb. ber að harma, en hann mun ekki, má ekki og getur ekki hindrað, að allt það stóra, sem sameinar, ráði úrslitum, þegar meira er í húfi í tvísýnni baráttu fyrir framtíð íslenzkrar þjóðar en nokkru sinni áður. Ágreininginn gerum við upp á réttum vettvangi innan okkar eigin raða, en tvíeflum baráttuna fyrir fullum sigri þeirrar einingarstefnu verkalýðshreyfingarinnar, sem vinstri menn og verkalýðssinnar hafa háð árum saman innan Alþb. sem utan og ein getur skapað verkalýðshreyfingunni þá stjórnmálalegu brjóstvörn, sem hún nú þarfnast öllu öðru fremur. — Góða nótt.