11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Haustið 1959, þegar Sjálfstfl. myndaði stjórn með Alþfl., var dimmt yfir íslenzku þjóðlífi. Vinstri stjórnin hafði hrökklazt frá völdum, vegna þess að hún sá engin úrræði til lausnar þeim vanda, sem að steðjaði. Skuldir söfnuðust erlendis og lánstraust þjóðarinnar var þroti. Gjaldmiðillinn fékkst ekki skráður í erlendum bönkum og íslenzkir peningar voru einskis virði í augum erlendra manna. Vöruskortur, höft og skömmtun var yfirvofandi, líkt og á stríðstímum. Atvinnuvegirnir voru í spennitreyju og hefðu stöðvazt, ef ekki hefði verið breytt um stefnu í efnahagsmúlum, eftir að núv. ríkisstjórn tók til starfa.

Þessa sögu ættu allir landsmenn að kunna utanbókar, vegna reynslunnar af þeim myndarskap, sem rúmlega tveggja ára vinstri stjórn hafði leitt yfir þjóðina. Þeir, sem eru það ungir að muna ekki þá tíma, ættu að lesa hlutlausar skýrslur og kynna sér heimildir um þetta efni, enn fremur að ræða þessi mál við hina eldri, sem muna, á hvaða vegi þjóðin var stödd í byrjun þess stjórnartímabils, sem nú hefur staðið talsvert á 8. ár. Nauðsynlegt er, að þjóðin geri samanburð á þjóðarhag nú miðað við það, sem var um það leyti, sem Hermann Jónasson, forsrh, vinstri stjórnarinnar, lýsti uppgjöfinni.

Á ræðum stjórnarandstæðinga í kvöld má heyra, að stefna þeirra er enn óbreytt frá vinstri stjórnar tímum. Staðan út á við og viðhorf annarra þjóða til Íslands er nú gjörbreytt frá því, sem áður var. Um það vitna opinberar skýrslur og alþjóðastofnanir. Íslendingar njóta nú trausts og virðingar meðal menningarþjóða, m. a. fyrir það, hversu vel hefur tekizt um stjórn efnahagsmálanna og uppbyggingu atvinnulífsins í landinu. Það er ekki lengur um það deilt, að lífskjörin á Íslandi eru með þeim beztu, sem gerast meðal vestrænna þjóða. Það kemur til af því, að með efnahagslöggjöfinni í ársbyrjun 1960 var mörkuð stefna framfara og athafnastefna frelsis og framkvæmda. Þjóðin fagnaði stefnubreytingunni og framfarahugur fór um þjóðlífið. Þannig var traustur grundvöllur fenginn fyrir mesta og glæsilegasta framfaratímabilið, sem yfir þjóðina hefur komið.

Á þessum tíma hafa verið góð aflaár og hagstætt tíðarfar öðru hverju. Verðlag á útflutningsafurðunum hefur einnig verið hagstætt meiri hl. þessa tímabils. En það hefði ekki komið að gagni að þessu sinni fremur en á árunum 1957 og 1958, en þá voru metaflaár, ef stjórnarstefnan og meðferð efnahagsmálanna hefði ekki tryggt jákvæða þróun atvinnuveganna og hagnýta meðferð þeirra verðmæta, sem þjóðin aflaði. Með tilkomu hinna stóru fiskibáta, sem búnir eru fullkomnustu tækjum, hefur tekizt að ná í aflann, þótt langt væri að sækja.Ef flotinn hefði ekki verið endurnýjaður með stórhug og víðsýni, eins og raun ber vitni, hefðu síldveiðar verið litlar undanfarin ár. Ef verksmiðjur og iðjuver hefðu ekki verið byggð, eins og sjá má víða um land, hefði ekki reynzt unnt að hagnýta þann afla, sem að landi hefur borizt. Alhliða uppbygging í sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði var óframkvæmanleg með sveltistefnu, eins og stjórnað var eftir á vinstri stjórnar árunum. Það reyndist mögulegt að afla tækjanna, vegna þess að breytt var um stjórnarstefnu, vegna þess að þjóðin vann aftur það traust út á við, sem hún hafði glatað, og hafði þannig möguleika til þess að fá að láni hluta af andvirði skipa og véla, sem nauðsyn bar til, vegna takmarkaðs gjaldeyris á fyrstu árum viðreisnarinnar. Það var mikils vert, að athafnavilji landsmanna var vakinn með því, að frelsið var aukið til farsælla athafna. Með endurnýjun og aukningu atvinnutækjanna var atvinna aukin og lífskjör almennings bætt. Atvinnuleysi er nú óþekkt og fjarlægt í hugum þeirra, sem yngri eru og ekki muna fyrri tíma. Endurnýjun og aukning siglingaflota í lofti og á legi er ekki lítill þáttur í fjölbreytni atvinnulífsins. Aukinn ferðamannastraumur og þjónusta við erlenda ferðamenn gefur vaxandi gjaldeyristekjur og veitir mörgum atvinnu. Efling landbúnaðar með mikilli ræktun, vélvæðingu og byggingum kostar mikla fjármuni í fyrstu, en gefur þjóðinni varanlegan hagnað og treystir sjálfstæði hennar.

Á örfáum árum hefur orðið mikil eignaaukning í þjóðarbúskapnum, vegna uppbyggingar á flestum sviðum þjóðlífsins. Talið er, að eignaaukning þjóðarinnar á árum viðreisnarinnar nemi um 13 þús. millj. kr. Safnazt hefur gjaldeyrisvarasjóður í stað skulda, sem áður söfnuðust. Eignaaukningin er í framkvæmdum, sem alls staðar blasa við hverjum sjáandi manni. En svo virðist vera, sem sumir menn eigi erfitt með að sjá og þess vegna hefur það komið fyrir að þeir hafa spurt, hvað hefur orðið af þeim verðmætum, sem aflazt hafa í góðærinu undanfarið? Þannig er það, að jafnvel nú á dögum geta menn efazt, þótt þeir þreifi á og hafi fyrir sér það, sem þeir virðast ekki geta komið auga á. Iðnaðurinn mun á næstu árum veita atvinnu vaxandi fjölda vinnandi handa og verða þannig stór þáttur í því að tryggja öllum landsmönnum atvinnu. Aukin vinnsla og hagnýting landbúnaðarvara og sjávarafurða krefst vaxandi vinnuafls, auk þess sem iðnaður úr innfluttu hráefni á fullan rétt á sér hérlendis eins og víða annars staðar meðal iðnaðarþjóða.

Til þess að iðnaður þróist í landinu, þarf raforku á hagstæðu verði. Virkjunarstaðir hafa verið rannsakaðir víða um land og sem betur fer er mikið vatnsafl hér með hagstæðum virkjunarskilyrðum. Er nú unnið að undirbúningi að nýjum virkjunum og aukningu á eldri virkjunarstöðum. Stefnt er að því að tengja saman orkuverin til þess að tryggja betri nýtingu orkunnar og jafna aðstöðu notendanna, hvar sem þeir eru búsettir. Með stórvirkjun í Þjórsá er mörkuð ný og heillarík stefna í virkjunarmálum. Með Þjórsárvirkjun var horfið frá þeirri reglu, sem áður þótti óhjákvæmilegt að fylgja vegna fjárskorts, að virkja smátt, en fá þannig mun dýrari orku en fæst, ef hagkvæmasti virkjunarkostur er valinn. Þegar ákvörðun var tekin um stórvirkjun í Þjórsá, voru margir stjórnarandstæðingar mótfallnir því og vildu virkja með það fyrir augum, að miðað væri við þann orkumarkað, sem fyrir hendi var í landinu vegna heimilisnota og iðnfyrirtækja, sem landsmenn einir hafa með höndum. Með byggingu álverksmiðjunnar fæst stór kaupandi að þeirri raforku, sem virkjun við Búrfell hefur umfram þarfir landsmanna. Þannig mun álverksmiðjan borga öll þau lán, sem tekin verða vegna þessarar virkjunar og verða lánin því aldrei baggi á þjóðinni. Með þessu er í raun og veru lagður fjárhagsgrundvöllur að áframhaldandi virkjunum í landinu á ákjósanlegasta hátt. Með stórvirkjun er lagður mikilsverður grundvöllur að ýmiss konar iðnaði. Undirstaða iðnaðar er nægileg og ódýr raforka. Með því að rétt var að farið með virkjun við Búrfell, má ætla, að um mörg ár verði raforkan allt að 60% ódýrari en verið hefði frá smærri virkjun í Þjórsá. Þeir, sem vildu smærri virkjun og þar með dýrara rafmagn, gleyma því, að atvinnuvegirnir á vélaöld byggjast að miklu leyti á því, að þeir eigi kost á raforku með hagstæðu verði. Víða um land munu koma byggðakjarnar, sem notfæra sér þá aðstöðu, sem tiltölulega ódýr raforka veitir. Við sjálfstæðismenn höfum unnið að því undanfarið, að svo mætti verða. Margþætt löggjöf, sem sett hefur verið að undanförnu, miðar að því að jafna aðstöðuna og koma þannig í veg fyrir, að öll fólksfjölgunin verði á Faxaflóasvæðinu. Lög um strjálbýlissjóð stuðla að því að veita fjármuni til staða víða um land, vegna uppbyggingar og atvinnurekstrar, m. a. í kauptúnum, þar sem þess gerist þörf. Árangur er þegar kominn í ljós hvað þetta snertir. Samkv. manntali Hagstofunnar hefur fólki nú fjölgað í ýmsum byggðarlögum úti á landi, þar sem fækkun átti sér stað fyrir 5–10 árum.

Lög, sem snerta landbúnaðinn og sett hafa verið í tíð núv. stjórnar, eiga stóran þátt í hagstæðri þróun landbúnaðarins og bættum kjörum bænda og skal aðeins drepið á örfá atriði í þessu sambandi. Lög hafa verið sett um bændaskólana og fjárveitingar til þeirra. Hefur mikil endurbót verið gerð á skólunum og öllum aðbúnaði þeirra. Hefur aðsókn aukizt mjög mikið og því orðið að vísa ýmsum frá síðustu árin vegna plássleysis. Fyrir fáum árum var aðsókn ekki meiri en svo, að talað var um, að nægilegt væri að hafa aðeins einn bændaskóla. Nú minnist enginn á slíkt, enda hefur reynslan sýnt, að skólarýmið þarf frekar að auka heldur en minnka, og með nýju skólabyggingunni á Hvanneyri mun verða unnt að veita fleiri nemendum móttöku nú en áður. Minna má á lög um lánamál landbúnaðarins, sem voru að loknu valdatímabili framsóknarmanna í mesta öngþveiti, þar sem lánasjóðirnir voru gjaldþrota. Árið 1966 voru veitt 1578 lán að upphæð 154.1 millj. kr. úr stofnlánadeild landbúnaðarins. Hafa lán frá stofnlánadeildinni aukizt ár frá ári, síðan hún tók til starfa á rústum gömlu sjóðanna. Nú hafa allir gætnari og skynsamari framsóknarmenn séð, að það var rangt að hafa uppi áróður gegn þessari þörfu stofnun, sem eflist stöðugt og verður landbúnaðinum sú lyftistöng, sem beztu vonir stóðu til. Minna má á lög um búreikningaskrifstofu landbúnaðarins og aukna fjárveitingu til hennar. Standa vonir til, að starfsemi búreikningaskrifstofunnar megi verða landbúnaðinum til gagns.

Rétt er að geta um margs konar lagfæringar á framleiðsluráðslögunum, sem gerðar hafa verið til þess að tryggja bændum meiri rétt en þeir áður höfðu. Síðan 1960 hefur oftast tekizt að greiða fullt grundvallarverð fyrir afurðirnar. Mátti það verða vegna laga um tryggingu á útflutningi búvara, sem seljast á lágu verði erlendis. Áður en núv. ríkisstj. kom til valda, urðu bændur sjálfir að taka á sig tapið, sem leiddi af lágu útflutningsverði. Miklar umbætur hafa verið gerðar á jarðræktarlögunum og framlög stóraukin til framkvæmda, sem jarðræktarlögin ná til. Árangur af því hefur ekki látið á sér standa. Ræktunin hefur stóraukizt og aðrar framkvæmdir, sem njóta framlaga samkv. þessum l. Opinberar skýrslur sýna, að allt fram til 1930 var ríkisframlag samkv. jarðræktarlögunum 5–10% af heildarkostnaðinum, en síðustu 5 árin hefur þetta hækkað mjög mikið og var 1965 18.2% af heildarkostnaðinum. Jarðræktarframlag 1965 nam 20 þús. kr. á hvern jarðabótamann. Búnaðarfélag Íslands gegnir mikilvægu hlutverki. Það hefur fært út kvíarnar í tíð núv. ríkisstj., aukið leiðbeiningastarfsemina og hlutazt til um víðtækari rannsóknarstarfsemi í þágu landbúnaðarins heldur en áður var unnt að gera. Búnaðarfélagið bjó lengi við fjárskort. Árið 1958 var fjárveiting til Búnaðarfélagsins 2.6 millj. kr., en 1967 13.6 millj. kr. Búnaðarsamböndin eru þýðingarmiklar stofnanir, en bjuggu lengi við þröngan fjárhag. Á valdatímum framsóknarmanna 1958 fengu búnaðarsamböndin framlag úr ríkissjóði 520 þús. kr. til sinnar starfsemi. Á árinu 1967 er gert ráð fyrir, að greiðslur til búnaðarsambandanna nemi 4 millj. kr.

Árið 1961 ákvað Stéttarsamband bænda að gera áætlun um hugsanlegar framkvæmdir í landbúnaðinum fyrir áratuginn 1961–1970. Á hálfnuðu áætlunartímabilinu kemur í ljós, að framkvæmdirnar eru miklu meiri á flestum sviðum en menn þorðu að gera áætlun um. Áætlunin var talin í byrjun mjög djörf af mörgum og vonlítið væri, að hún gæti staðizt. Aukinn stuðningur ríkisvaldsins með fjárframlögum og endurbótum á búnaðarlöggjöfinni hefur gert hinar mikilvægu framkvæmdir áhugasamra og dugandi bænda mögulegar. Miklar lagfæringar hafa verið gerðar á tollamálum landbúnaðarins. Í tíð vinstri stjórnarinnar varð að greiða 33% í tolla af flestum búvélum, en fyrir 4 árum var tollurinn lækkaður í 10%. Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður í vetur með 50 millj. kr. stofnframlagi. Er þar um að ræða nýmæli og standa vonir til, að góður árangur fáist af þessari lagasetningu. Jarðeignasjóður ríkisins verður stofnaður með 36 millj. kr. framlagi. Er sjóðnum ætlað að kaupa jarðir, sem af þjóðhagslegum ástæðum er talið eðlilegt, að fari úr byggð.

Lög um landgræðslu og gróðurvernd hafa verið sett. Eru það merk nýmæli, sem vænzt er mikils árangurs af. Lögð er aukin áherzla á gróðurvernd samfara uppgræðslunni. Hafa fjárveitingar verið stórauknar til landgræðslu. Á vinstri stjórnar árunum var árleg fjárveiting innan við 2 millj. kr., en á þessu ári 9.63 millj. kr. Sett hafa verið lög um skjólbelti og er unnið að skógræktarmálum með auknum stuðningi ríkissjóðs. Mikið af þeim endurbótum, sem gerðar hafa verið á landbúnaðarlöggjöfinni síðustu 7 árin, hefur verið gert í góðu samstarfi við stjórn Stéttarsambands bænda og trúnaðarmenn bændastéttasinnar. Það kemur stundum fyrir, að þm. Framsfl., sem studdu aðgerðaleysi og ráðleysi vinstri stjórnarinnar í landbúnaðarmálum, telji, að nú sé illa að landbúnaðinum búið. Hefur margur bóndinn brosað, þegar hlustað hefur verið á tal þessara manna, sem sættu sig við aðbúnaðinn, sem landbúnaðurinn varð við að búa á vinstri stjórnar árunum.

Áhugi fyrir fiskirækt hefur aukizt með þjóðinni. Hefur tilkoma fiskiræktarstöðvarinnar í Kollafirði átt drjúgan þátt í því. Veiðimálastjóri og veiðimálastofnunin gátu ekki starfað á dögum vinstri stjórnarinnar vegna fjárskorts. Þá voru aðeins veittar árlega til þessara mála 300 þús. kr. Síðan hefur fjármagnið verið stóraukið, og eru á þessu ári veittar til veiðimála 2.6 millj. kr. auk þess fjár, sem fer til Kollafjarðarstöðvarinnar, sem byrjað var að koma upp árið 1962 og fengið hefur árlega fjármagn síðan. Kostnaður við Kollafjarðarstöðina er nú kominn upp í 20 millj. kr. Stöðin er hvort tveggja í senn til leiðbeininga og tilrauna. Er þess vænzt, að með rekstri hennar fái þjóðin beint og óbeint margfalt aftur það, sem til hefur verið kostað.

Rafvæðing sveitanna er nú komin vel á veg. Lokaátakið er þó eftir, en mörg ár þarf ekki héðan í frá til þess að koma rafmagni til allra landsmanna. Um síðustu áramót höfðu 3320 býli rafmagn frá samveitum, en frá einkarafstöðvum 1326 býli. Má því ætla, að um 700 býli hafi ekki rafmagn. Árið 1958 fengu 148 býli rafmagn, en þá mátti vegalengd milli bæja ekki vera yfir 1 km. Á árunum 1960–1965 fengu 188 bæir rafmagn árlega að meðaltali og á s.l. ári voru tengdir 210 bæir. Nú er vegalengdin allt að 1½ km milli bæja og verður því tenging kostnaðarsamari en áður. Raforkusjóður lánar að jafnaði 50 þús. kr. til kaupa á díeselvélum með 6% vöxtum til 10 ára. Á s.l. ári fengu 200 bændur þess konar lán.

Með vegalögunum 1963 var stigið mikið framfaraspor í vegamálum. Síðasta vinstri stjórnar árið var varið til vegagerðar aðeins 83 millj. kr. eða 4.8% af útgjöldum ríkissjóðs, útflutningssjóður meðtalinn. Þá þótti aldrei fært að gera stórt átak í vegamálum. Síðan hefur Reykjanesbrautin verið gerð, vegur fyrir Ólafsvíkurenni, Strákavegur, Múlavegur og vegagerð samkv. Vestfjarðaáætluninni. Framkvæmdir þessar hafa kostað hundruð millj. kr. og eru viðkomandi byggðarlögum og þjóðinni allri til mikils gagns. Aðrar vega- og brúargerðir hafa einnig verið stórauknar. Fyrsta árið, sem nýju vegalögin voru í gildi, 1964, voru tekjur vegasjóðs áætlaðar 262.2 millj. kr. Þar af voru 47 millj. kr. framlag ríkissjóðs. Tekjur vegasjóðs 1965 samkv. áætlun voru 281.1 millj. kr., 1966 331.9 millj. kr. og 1967 368.3 millj. kr. Tekjurnar hafa alltaf orðið umfram það, sem áætlað var, og hefur það yfirleitt verið notað til þess að mæta verðhækkunum, sem orðið hafa. Á árinu 1967 mun ríkissjóður útvega fé til vegar á milli Húsavíkur og Mývatnssveitar að kísilverksmiðjunni. Sá vegur mun kosta 52.6 millj. kr. og verður unnið á þessu ári fyrir tæplega 30 millj. kr. Ríkissjóður ber allan kostnað af þessari vegagerð. Til vegaframkvæmda verður því á þessu ári varið 398.3 millj. kr. auk þeirra lána, sem tekin eru til ýmissa framkvæmda samkv. framkvæmdaáætlun ríkisstj. En samkv. því mun verða að útvega 81 millj. kr. til vegaframkvæmda. Það verða því 480 millj. kr., sem varið verður til vegamála á þessu ári eða nærri 600% hærri upphæð en 1958, þegar framsóknarmenn fóru með vegamálin. Af þessari upphæð fara 42 millj. kr. í vaxtagreiðslur. Framsóknarmenn hafa sagt, að vegasjóður væri gjaldþrota. Þetta er auðvitað ómerkt tal. Vegasjóður hefur staðið við öll fyrirheit samkv. vegáætlun eins og fram hefur komið í skýrslum, sem lagðar hafa verið fram á Alþ. í vetur um framkvæmdir í vegamálum. Það kemur enn fremur fram í till. þeirri, sem liggur fyrir Alþ. um endurskoðun á vegáætluninni fyrir árið 1967–1968. Hækkun tekna vegasjóðs frá 1964 hefur orðið samkv. reikningsyfirliti 163.2 millj. kr. Hluti af þessari hækkun hefur notazt til þess að mæta auknum kostnaði, en stærri hlutinn er til framkvæmda, sem ekki var reiknað með í fyrstu áætlun í vegagerð skv. nýju vegalögunum. Þarfirnar í vegagerð eru miklar og því eðlilegt, að óskað sé eftir auknu fjármagni til vegagerðarinnar. Því verður þó ekki neitað, að miklar umbætur hafá orðið. Menn ættu að gera sér grein fyrir því, hvernig viðhorfið væri, ef ekki hefðu verið sett ný vegalög, ef enn væri búið við gömlu aðferðina í framkvæmd með því að leggja á benzínskatt og láta hann renna í ríkissjóð. Um leið og unnið verður að því að auka vegafé almennt, er ákveðið að undirbúa vegagerð með varanlegu slitlagi, þar sem umferðin er mest. Er hér um að ræða 200–300 km vegalengd á næstu árum. Þetta kostar mikið fé og undirbúning. Undirbúningur verður hafinn á þessu ári og unnið að því að ljúka við hann á árinu 1968, til þess að fyrir liggi útboðslýsingar seinni hluta árs og hefjast megi handa með framkvæmdir á árinu 1969, en þá hefst nýtt fjögurra ára áætlunartímabil í vegagerð, eins og vegalög gera ráð fyrir. Unnið verður að því að fá erlent fjármagn til varanlegrar vegagerðar, sem nemur allt að 40% af heildarkostnaði. Það er ljóst, að gera verður ýmsar frekari ráðstafanir til þess að afla fjár í þessu skyni á víðtækari hátt, m. a. með því að auka tekjur vegasjóðs.

Til flugvallagerðar var varið á s.l. ári um 55 millj. kr. og verður svipuð upphæð á árinu 1967. Til samanburðar má geta þess, að árið 1958 var varið aðeins 6.7 millj. kr. til þessara mála. Þess má geta, að kostnaður við flugvalla- og vegagerð mun hafa hækkað síðan um 80% eða nálægt því og er því greinilegur munur á fjárveitingum þeirra ára, sem borin eru saman.

Kjör almennings hafa batnað í tíð núv. ríkisstj. Afurðaverð landbúnaðarins hefur verið hækkað, þannig að hlutur bænda er núna nær því en nokkru sinni fyrr að vera til jafns við það, sem aðrir hata. Kaupgjaldið hefur hækkað í krafti aukinnar framleiðslu og hækkaðs verðs á útflutningsvörum landsmanna. Til viðbótar því hafa almannatryggingarnar verið stórum auknar og hlutur fólks í sveitum og kauptúnum leiðréttur til samræmis við það, sem gilti í kaupstöðum. Fá nú allir jafnar tryggingabætur, hvort sem búið er í sveit, kauptúni eða kaupstað. Leiðrétting á tryggingamálunum fékkst ekki fyrr en núv. stjórnarflokkar komu sér saman um það. Tryggingabæturnar hafa yfirleitt fimm-sexfaldazt síðan núv. ríkisstj. gerði endurbætur á tryggingalöggjöfinni.

Á s.l. ári lækkaði verð á útfluttum fiskafurðum. Hefur það skapað erfiðleika í bili. Vona allir, að hér sé um stundarerfiðleika að ræða og hefur þeim verið mætt með aðstoð úr ríkissjóði og verðstöðvunarlögum, sem vissulega koma útflutningsatvinnuvegunum til góða. Hafa ýmsir talið, að verðstöðvunin hefði átt að koma fyrr til framkvæmda. Rétt er að gera sér grein fyrir því, að á meðan útflutningsafurðirnar seldust á hækkandi verði, var vonlítið um, að verðstöðvun og kaupgjaldsstöðvun væri framkvæmanleg. Verðstöðvun að þessu sinni hefur verið mætt með skilningi af almenningi, vegna þess að flestir gera sér grein fyrir nauðsyn hennar, eftir að útflutningsframleiðslan hefur lækkað í verði. Gjaldeyrisvarasjóður er mikils virði fyrir þjóðina, ekki sízt, ef erfiðleikar steðja að í framleiðslu- og verðlagsmálum útflutningsatvinnuveganna. Ekki gera allir sér grein fyrir því, hvers virði gjaldeyrisvarasjóðurinn er, enda hafa komið fram till. um það að verja helmingi varasjóðsins nú þegar til kaupa á vélum og ýmsu, sem menn gjarnan kynnu að hafa áhuga fyrir að kaupa. Undanfarið hefur verið unnið öfluglega að vélvæðingu og verður auðvitað haldið áfram með það eftir því, sem nauðsyn ber til. Þeir, sem ekki gera sér grein fyrir gildi gjaldeyrisvarasjóðsins, mundu við fyrsta tækifæri gera ráðstafanir til þess að eyða honum fyrir innflutning ýmiss konar vara samkv. vinstri stjórnar stefnunni. Gjaldeyrislaus þjóð verður við fyrsta áfall, svo sem minnkandi afla í fáa mánuði eða lítið verðfall á afurðum, að taka upp skömmtun og höft. Við Íslendingar höfum lengst af búið við gjaldeyrisskort og ættum því fremur en aðrir að varast þá erfiðleika og leiðindi, sem af því leiðir.

Við sjálfstæðismenn munum halda áfram að vinna að uppbyggingu atvinnuveganna og aukningu framleiðslunnar. Við munum stuðla að því, að komizt verði áfallalítið yfir þá erfiðleika, sem gert hafa vart við sig vegna verðfalls afurðanna og lélegs afla það, sem af er þessari vertíð. Við munum leggja kapp á að skapa fjölbreytni í framleiðslunni og auka atvinnutækin. Þannig mun öllum verða tryggð atvinna. Með þeim hætti mun þjóðin ávallt afla nægilegra verðmæta til þess að mæta þeim útgjöldum, sem af innflutningi, neyzlu og fjárfestingu leiðir. Þannig mun fást jafnvægi í efnahagsmálum og æskileg þróun fjármála og framkvæmda.

Menntun og samhjálp ber að efla og vernda frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar. Auðlindir landsins ber að nýta og fiskimiðin á landgrunnssvæðinu til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Frelsi þjóðarinnar og frelsi einstaklingsins verður ekki aðskilið. Þjóðfélaginu verður bezt borgið með því, að þegnarnir hafi sæmilegt athafnafrelsi. Megi komandi ár verða tímar framfara og velgengni ekki síður en verið hefur á árum viðreisnarinnar. — Góða nótt.