11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Hv. hlustendur nær og fjær. Hin tíðu stjórnarskipti, sem áttu sér stað, áður en núv. stjórnarsamstarf hófst, hafa án alls efa verið þjóðinni skaðleg og sízt til þess fallin að efla trú manna á það lýðræðis- og þingræðisstjórnarfar, sem við höfum valið okkur. Þetta þarf ekki að rökstyðja með mörgum orðum, því að augljóst er, að þegar ein og sama stjórn situr aðeins skamman tíma, verða úrræði hennar í aðsteðjandi vandamálum, hvort sem þau hafa nokkuð til síns ágætis eða ekki, aldrei reynd til hlítar, og þegar næsta ríkisstj. tekur við, sem einnig verður skammlíf, og reynir gagnstæðar leiðir, verður árangurinn engu betri, og þannig koll af kolli.

Einkum á þetta við í efnahagsmálunum og var það raunar meðferð þeirra, eða stundum óviðráðanleg þróun, sem áður varð flestum stjórnum að falli, þegar rekin var ýmiss konar tilraunastarfsemi á því sviði. Stefna núv. stjórnarflokka í efnahagsmálum, sem þeir mótuðu í upphafi og hafa síðan haft tækifæri til að framfylgja í 8 ár, hefur hins vegar borið mikinn og góðan árangur, sem alls staðar blasir við og er vel til þess fallinn að endurvekja traust þjóðarinnar á lýðræðislegu — og þingræðislegu stjórnarfari ísl. ríkisins. Á hinn bóginn er svo reynsla fyrri ára þjóðinni til varnaðar um þær afleiðingar, sem það kynni að hafa, ef hún kysi sér í þingkosningunum í júnímánuði n. k. stjórn, sem færi í gagnstæða átt, eða hina leiðina, og stefndi að niðurrifi þess, sem upp hefur verið byggt á síðustu 8–9 árum. Sú niðurrifsstefna er margyfirlýst af hálfu stjórnarandstöðunnar, og er raunar það eina áþreifanlega í stefnu hennar. Allt annað í þeim herbúðum einkennist af fálmkenndum yfirboðum og kjósendaveiðum. Langar og margendurteknar þingræður stjórnarandstæðinga, svo og blaðaskrif og samþykktir á flokksþingum þeirra, benda ótvírætt til þess, að með því, sem Eysteinn Jónsson hefur nefnt „hina leiðina“, stefni stjórnarandstaðan, og þá einkum Framsfl., að slíku niðurrifi. Kjarninn í þeim boðskap er sá, að horfið skuli frá sparifjárbindingu, vextir lækkaðir, útlán aukin án tillits til getu bankanna og gjaldeyrisvarasjóðnum eytt.

Það er þó öllum vitanlegt, að útlán peninga í heilbrigðu hagkerfi hljóta að byggjast á innlánum og sparnaði, sem fæst því aðeins, að greiddir séu viðunandi vextir og girt sé fyrir verðgildisrýrnun innlánsfjárins. Einnig er augljós þörfin fyrir öflugan gjaldeyrisvarasjóð, þar sem þannig hagar til, eins og hér á landi, að útflutningsframleiðslan er tiltölulega einhæf, og þjóðin þarf að flytja inn flestar vörur til neyzlu og fjárfestingar. Verðsveiflur og magnsveiflur í útflutningnum geta valdið mjög snöggum umskiptum í gjaldeyrisstöðunni til hins verra, og þá er ámetanlegt að geta gripið til gjaldeyrisvarasjóðs, í stað þess að innleiða hafta- og skömmtunarkerfi í líkingu við það, sem áður þekktist hér, og allir voru fegnir að vera lausir við þegar viðreisnin afnam það.

Það mætti segja, að fyrirætlanir stjórnarandstöðunnar um niðurrif þess efnahagskerfis, sem viðreisnarflokkarnir hafa byggt upp, væru réttlætanlegar, ef hægt væri með rökum að sýna fram á, að þeir erfiðleikar, sem nú steðja að ýmsum greinum atvinnuveganna, væru kerfinu að kenna og ættu rót sína að rekja til ágalla þess. Svo er þó alls ekki, heldur er auðvelt að sanna, að ástandið mundi vera orðið miklu verra en raun ber vitni, ef ekki hefði verið komið upp gjaldeyrisvarasjóði, ef ekki hefðu verið bundnar innstæður til að sjá atvinnuvegunum fyrir lánsfé og ef vextir hefðu ekki verið hækkaðir til þess að örva þann sparnað, sem er grundvöllur þess, að eitthvað fáist til útlána. Vegna stefnunnar í þessum málum hefur fjármagnsmyndun í landinu orðið meiri en nokkru sinni áður, og þjóðin er nú efna hagslega sjálfstæðari en hún var fyrir viðreisn.

Við stjórnarsinnar játum fúslega, að ekki hefur tekizt að stöðva dýrtíðina, þó margt hafi einnig áunnizt í því efni og miðað í rétta átt. Það hefur verið dregið stórlega úr dýrtíðarvextinum með ýmsum aðgerðum stjórnarinnar og málamiðlun í kjarasamningum og samningum um afurðaverð til bænda. Þó má telja víst, að árangurinn á þessu sviði hefði orðið betri, ef skilningur á efnahagsmálastefnu stjórnarflokkanna hefði verið almennari, en stjórnarandstöðunni hefur vissulega tekizt að villa ýmsum sýn í þessu efni með stöðugum áróðri og blekkingum. Á sú iðja stjórnarandstöðunnar drjúgan þátt í því, að ekki hefur tekizt að leggja dýrtíðina að velli eða draga hæfilega mikið úr vexti hennar. Þrátt fyrir þetta mundi ástandið í dýrtíðarmálunum vera miklu verra, ef ekki hefði tekizt að framfylgja stefnunni í þeim mæli, sem raun ber vitni. Það markmið hefur náðst að stórauka framleiðsluna og halda uppi almennri og mikilli atvinnu, og lífskjörin hafa farið ört batnandi. Framkvæmdir hafa verið eins miklar og vinnuafl hefur frekast leyft, og meira fé hefur verið varið til fjárfestingar en títt er á meðal flestra annarra þjóða. Sú fjárfesting hefur verið mest í atvinnuvegunum, sbr. þær upplýsingar, sem fjmrh. gaf þinginu í síðustu viku um framkvæmd fyrstu fjögurra ára áætlunarinnar. Hún er einnig mikil í opinberum framkvæmdum og íbúðarhúsabyggingum, og allt mun þetta skila framtíðinni miklum arði og létta þjóðinni lífsbaráttuna langt fram í tímann. Hið sama gildir um stórvirkjun, sem nú er hafin, og þá stóriðju, sem á henni byggist.

Stjórnarandstaðan hamrar á því í tíma og ótíma, að stjórnarflokkarnir sýni atvinnuvegunum lítinn skilning og hrunsöngur hennar hljómar sífellt hér á Alþ. og í eyrum þjóðarinnar, eins og hlustendur hafa heyrt í kvöld. Ef trúa mætti þessum söng, væru bændur landsins allir á vonarvöl, útgerðin öll á hausnum og iðnaðurinn upp til hópa að gefa upp öndina. Sem betur fer, eru lýsingar stjórnarandstöðunnar mjög ýktar, þótt finna megi þeim einhverja stoð, og er það ekkert nýtt í sögunni, að ekki sé alls staðar eða í öllum greinum jafngóð útkoma. Ýkjur stjórnarandstæðinga að þessu leyti eru öllum opinberar, sem á annað borð vilja viðurkenna staðreyndir, en staðreyndirnar tala sínu máli um mikla viðreisn og framfarir á flestum sviðum um gjörvallt landið. Þannig ber það síður en svo vott um skilningsleysi á þörfum atvinnuveganna, þegar litið er yfir 4 ára áætlunina og í ljós kemur, að fjárfesting atvinnuveganna hefur farið fram úr áætlun, en fjárfestingu þess opinbera hefur verið haldið innan ramma áætlunarinnar. Það ber heldur ekki vott um slíkt skilningsleysi, að á s.l. ári, þegar ríkissjóður kemur vel út, lækkar hann skuld sína við Seðlabankann um 331 millj. kr., einmitt til þess, að bankakerfið hafi þeim mun meira fé til ráðstöfunar til fyrirgreiðslu við atvinnuvegina. Stjórnarandstaðan heldur því fram, að þessi skuldagreiðsla hafi verið óþarfi. Það hefði mátt nota þessa fjármuni til vegagerðar, hafna, skólabygginga o.s.frv. Setjum svo, að það hefði verið gert. En hvaðan átti þá bankakerfið að fá jafnháa upphæð, 331 millj. kr., til útlána handa atvinnuvegunum? Það sjá vonandi allir, að annað hvort varð að gera og að útilokað var að gera hvort tveggja með sömu peningum. Þeir voru látnir renna til atvinnuveganna í gegnum bankakerfið, en ekki notaðir til vinsælla, opinberra framkvæmda, enda þótt kosningar fari í hönd. Það eru hagstjórnaraðferðir eins og þessi, sem Eysteinn Jónsson sagði í kvöld, að verkuðu eins og eitur á atvinnulífið.

Ég drap á það áðan, að þeir erfiðleikar, sem nú steðja að sumum greinum atvinnuveganna, væru síður en svo efnahagskerfinu að kenna. Þeir mundu þvert á móti vera miklu meiri, ef efnahagskerfið væri ekki slíkt, sem það er. Bankarnir megnuðu t.d. á síðasta ári að auka útlán sín til atvinnuveganna um meiri fjárhæð en innlánsaukningu nam á árinu. Það hefðu þeir ekki getað nema í skjóli innstæðubindingarinnar. Ríkissjóður var látinn taka á sig á s.l. ári og þessu ári hundruð millj. kr. í auknar niðurgreiðslur, til þess að unnt væri að koma á verðstöðvuninni. Hann hefur einnig tekið á sig stóraukna aðstoð við sjávarútveginn, til þess að útgerð til þorskveiða og fiskvinnsla stöðvaðist ekki vegna verðfalls á erlendum mörkuðum. Hvorugt þetta hefði ríkissjóður getað gert, ef ekki hefði verið fylgt þeirri stefnu undanfarin ár að reka greiðsluhallalausan ríkisbúskap og beita aðhaldi í rekstri ríkisins. Slíkar hagstjórnaraðferðir segir Eysteinn Jónsson, að verki eins og eitur á atvinnuvegina. Ekkert af þessu hefði verið mögulegt, ef fylgt hefði verið annarri stefnu. Þá hefði ekki verið unnt að koma atvinnuvegunum til hjálpar í þrengingum þeirra nú, á þann hátt, sem gert hefur verið, og er þó engan veginn séð fyrir endann á því, að sú aðstoð reynist nægileg, hvað sjávarútveginn snertir, vegna þess, hversu vetrarvertíðin hefur verið ógæftasöm og afli víðast hvar rýr. En það er viðhorf, sem ekki var hægt að sjá fyrir, og þannig er það því miður allt of oft í þeim atvinnuvegum okkar, sem háðir eru veðráttunni.

Í almennum umr. um afkomuna síðustu árin er það áberandi, að stjórnarandstaðan viðurkennir ekki slík tilvik, en heldur þeim mun betur á loft árgæzku og góðum aflabrögðum og þakkar þeim, en alls ekki efnahagskerfinu, þær framfarir, sem hún er tilneydd til að viðurkenna.

Annar ræðumaður Alþfl. mun hér á eftir kryfja það nánar til mergjar, hversu mikillar árgæzku stjórnarfl. hafa notið á stjórnarárunum, en í því tilliti mun gæta óhappa, ekki síður en happa, þegar yfir það er litið, og með hliðsjón af því verður að meta þátt efnahagskerfisins í þeim árangri, sem náðst hefur. Sá þáttur er vissulega svo mikilvægur, að það væri ógæfa þjóðarinnar, ef stjórnarandstaðan fengi nú tækifæri til að framkvæma ráðagerðir sínar um að brjóta efnahagskerfið niður. Ég er fyrir mitt leyti bjartsýnn á, að stjórnarandstöðunni verði ekki fengið slíkt tækifæri í kosningunum.

Þjóðin hefur skilið nauðsyn verðstöðvunarinnar, og enn þá hefur stjórnarandstaðan ekki treyst sér til atlögu við hana. Í augnablikinu er það mikilvægast, eins og útlitið er með útflutningsframleiðsluna og markaðsverð fiskafurða erlendis, að stöðva kapphlaupið á milli kaupgjalds og verðlags, og ráðstafanir stjórnarinnar á því sviði hafa átt almennum skilningi að mæta. En tíminn fram undan er nokkurs konar umþóttunartími, því að ef ekki rætist úr með útflutninginn á næstu mánuðum, verður að grípa til nýrra ráða í lok þessa árs, og þann vanda verða þeir að leysa, sem þá ráða í ríkisstj. og á Alþ. Það má ekki henda, að kjósendur stofni afkomu sinni og þjóðarinnar í tvísýnu með því að greiða Framsókn og Alþb. atkv. Það síðastnefnda er nú í upplausn og ekki líklegt til samstilltra átaka, sbr. þann ágreining í röðum þess, sem Björn Jónsson gerði að umræðuefni í lok ræðu sinnar áðan. Framsókn rekur sína venjulegu valdastreitu- og hentistefnupólitík og hamast nú hvað mest gegn því efnahagskerfi, sem fært hefur þjóðinni velmegun, atvinnuöryggi og stórstígar framfarir. Framsókn er tvöföld í flestum málum, eins og Lúðvík Jósefsson lýsti skilmerkilega hér fyrr í kvöld. Stjórnarflokkarnir hafa að vísu ekki samið fyrir fram sín á milli með tilliti til hinna nýju vandamála, en ég fyrir mitt leyti efast ekki um, að ef þjóðin vottar þeim traust í kosningunum, muni þeim takast að endurnýja samstarfið og semja um hin nýju og breyttu viðhorf.

Þegar um þetta tvennt er að velja, annars vegar glundroða og stefnuleysi stjórnarandstöðunnar, en hins vegar heiðarlegt og markvisst samstarf Alþfl. og Sjálfstfl., sem ágætlega hefur reynzt í 8 ár, á valið að verða auðvelt. Alþfl. hefur lengi haft lykilaðstöðu í stjórnmálunum. Með þetta vald sitt hefur flokkurinn jafnan farið með fyllstu ábyrgðartilfinningu og alltaf látið hag og heill þjóðarinnar og umbjóðenda sinna sitja í fyrirrúmi fyrir þröngum flokkshagsmunum. Flokkurinn hefur hiklaust unnið með öðrum flokkum að úrlausn erfiðra, tímabundinna vandamála og um leið komið fram ýmsum stefnumálum sínum, t.d. auknum almannatryggingum, launajöfnuði kvenna og karla, áætlunarbúskap og nú síðast auknum kosningarrétti handa ungu fólki. Launajöfnuðurinn hefur þegar fært vinnandi konum ótaldar millj. kr. í bættum launakjörum og áætlunargerðin hefur tryggt betri hagnýtingu vinnuafls og tækja og þar með auknar framkvæmdir. Áætlunargerð er hafin fyrir einstaka landshluta, og hafa þegar verið gerð stór átök í samgöngumálum Vestfjarða skv. slíkri áætlun. Tryggingakerfið hefur aldrei áður greitt hinum tryggðu jafnháar bætur. Þannig lýsir stefna Alþfl. sér í framkvæmd.

Fái flokkurinn aðstöðu til að semja um stjórnarsamstarf á ný, að afstöðnum kosningum, mun hann leggja höfuðáherzlu á að standa vörð um það, sem áunnizt hefur t.d. á sviði almannatrygginga, og einnig fylgja fram þeirri stefnu sinni að koma á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, en þeirri réttarbót verður naumast komið á, nema á tímum góðra rekstursskilyrða fyrir höfuðatvinnuvegina. Þess vegna m. a. fer það saman, að flokkurinn mun leggja sig fram um að styrkja rekstursgrundvöll sjávarútvegsins, og þeirra atvinnuvega, sem mesta þýðingu hafa fyrir þjóðarbúið.

Nú hefur Alþfl. átt aðild að ríkisstj. með Sjálfstfl. í tæp 8 ár, en þar áður fór flokkurinn einn með stjórn í 1 ár. Þessi festa í stjórn landsins komst á með kjördæmabreytingunni, og tvímælalaust hefur hún reynzt affarasælli heldur en þau tíðu stjórnarskipti, sem áður áttu sér stað. Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa, eins og alls staðar má sjá, ef menn horfa í kringum sig án þess að setja upp Framsóknarmóðuharðindagleraugu. Sá árangur er báðum samstarfsaðilum að þakka, og einnig ber að skipta ábyrgðinni á því, sem miður kann að hafa farið, jafnt á þá báða. Enginn heldur því fram, að allur vandi hafi verið leystur, en því verður hins vegar ekki í móti mælt, að aldrei hefur þjóðinni vegnað betur en á þessum árum. Þá velmegun hefur Alþfl. átt sinn þátt í að skapa og tryggja, og hann gengur þess vegna til kosninganna í vor í fullu trausti þess, að kjósendur láti hann njóta sannmælis. — Ég þakka þeim, sem hlýddu.