13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

Almennar stjórnmálaumræður

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir áheyrendur. Mælt mál Íslendinga geymir fjölda talshátta. Einn er að sækja vatnið yfir lækinn. Er þá gjarnan um það að ræða, sem ekki heyrir undir hagræðingu, sem nú er mjög um talað. Það er í ótal efnum nokkur hætta á að sækja vatnið yfir lækinn. Hið einfalda, óbrotna líf, sem leitar ánægjunnar í daglegum störfum, er ekki einkenni dagsins í dag. En því miður er margt af því, sem telja verður tízkufyrirbæri, í ætt við þetta, að sækja vatnið yfir lækinn.

Orku og fjármunum er eytt til að leita að einhverri fullnægju, sem raunar aldrei fæst, eða a. m. k. ekki svo sem ætlað var og hefði betur náðst við bæjarlækinn. Hraðinn, sem ná er orðinn á öllu, setur okkur í hættu. Við þurfum að huga ögn betur að, hverju fram vindur, flýta okkur lítið eitt hægar. Nú vilja flest fyrirbæri gleymast fljótt, líka þau, sem gildi hafa lengur en í dag. Það virðist enginn tími nú orðið til að safna í minningasjóð. Í stað þess að staldra við og rísla við minningasjóðinn, sem líkja má við lækinn, sem getur svalað þorsta okkar, þá erum við á hlaupum eftir svölun langt yfir lækinn. Við erum arftakar þjóðar, sem um aldir átti þrá, sem ekki varð fullnægt. Í velferð nútímans er aftur á móti býsna auðvelt að láta ýmislegt eftir sér og þá er nokkur hætta á öfgum. En ég held, að þau einkenni þessa tímabils liði hjá, að hin gegndarlausa kröfupólitík til hinna misskildu lífsgæða eigi sitt gönuskeið, sem nú sé að renna.

Það eru alþingiskosningar í vor eftir tveggja kjörtímabila stjórn undir forystu Sjálfstfl. Má því telja eðlilegt, að spurt sé líkt og í kvæði Jónasar:

„Höfum við gengið til góðs

götuna fram eftir veg?“

Ég ætla ekki að fara að rifja upp ástandið í þjóðfélaginu við uppgjöf vinstri stjórnarinnar. Það hefur svo oft verið gert. En það er vert að gera sér nokkra grein fyrir breytingum tímabilsins, drepa á nokkra þætti þjóðmálanna til glöggvunar. Við skulum líta til landbúnaðarmálanna. Efling lánasjóðanna með l. um stofnlánadeild landbúnaðarins er eitt farsælasta spor, sem stigið hefur verið í landbúnaðarmálum. Lánsfjárveitingar hafa síðan stóraukizt. Stofnlánadeildin vex af eigin fé og verður brátt hinn öflugasti sjóður. Framsóknarmenn börðust hatramlega á móti þessari löggjöf, á móti 1% framlagi af verði framleiðslunnar frá bændum gegn jöfnu framlagi úr ríkissjóði, auk 0.75% álags frá neytendum. En með þessu fæst afl þeirra hluta, er gera skal, fjármagn. Svo hatramlega börðust framsóknarmenn gegn 1% gjaldinu frá bændum, að þeir felldu Pál á Refstað í Vopnafirði úr stjórn Stéttarsambands bænda, af því að hann átti framsýni og einurð til að láta í ljós fylgi sitt við málið. En nú eru framsóknarmenn þagnaðir út af þessu máli. Nú, þegar árangur af framsýnni forystu sjálfstæðismanna í lánamálum bænda verður áþreifanlegri með hverju árinu, sem líður, í sífellt vaxandi sjóði stofnlánadeildar og þar með getu til stuðnings margvíslegra þarfa landbúnaðarins. Og nú er vaxandi skilningur almennt á gildi sjóðsmyndana til að undirbyggja stofnlánakerfi. Má þá nefna auk stofnlánadeildar landbúnaðarins fiskveiðasjóð, sem raunar var fyrirmynd í þessum efnum, iðnlánasjóð, húsnæðislánasjóð, jafnvel atvinnuleysistryggingasjóð, sem nú er orðinn hinn öflugasti fjárfestingalánasjóður. Ég vil minna á stórlega réttan hlut í verðlagsmálum bænda. Það dylst engum bónda, sem man tímana fyrir 1950. Sérstaklega á þetta þó við sauðfjárbændurna. Um það verður ekki deilt, enda hafa þess sézt menjar í góðum sauðfjársveitum. Þar hefur ríkt meiri bjartsýni síðustu árin en áður var.

Ég vil minna á öfluga viðleitni til að rétta hlut minni bændanna með auknum ræktunarstuðningi upp að 25 ha túnstærð og með aukaframlagi, 5 millj. kr. á ári í 5 ár, til að lyfta smærri búunum. Ef ekki næst verulegur árangur með þessum aðgerðum, er það ekki sök ríkisstj. eða landbrh., sem haft hefur forystu um þessi mál. Landgræðsla og gróðurvernd hefur verið stóraukin á þessum árum með auknu fjármagni og bera sandatúnin í Austur-Skaftafellssýslu m. a. glöggt vitni þar um. Framleiðsluaukning í landbúnaði hefur verið mikil í aðalframleiðsluhéruðunum. Hún stafaði m. a. af hagstæðu árferði 1964–1965. Þegar verr árar eins og 1966, segir það til sín í minni framleiðslu, en landbúnaðarframleiðslan mun hafa orðið um 3% minni 1966 en 1965. Hinar miklu framkvæmdir í landbúnaði að undanförnu í ræktun, í byggingum, í vélvæðingu eru mikil trygging fyrir framtíðina, að ekki liggi eftir hlutur þessa þáttar framleiðslustarfseminnar í landinu.

Í upphafi núv. kjörtímabils voru samþ. ný vegalög. Með þeim var stofnaður vegasjóður og vegamálin þannig skilin frá fjárl. og framkvæmdir byggðar á sjálfstæðum tekjustofnum. Vegalögin nýju mörkuðu merkileg tímamót. Stórfelld aukning hefur orðið á því fjármagni, er til vegamála hefur gengið, og stórfelld átök verið gerð í vegamálunum. En fram undan eru þó enn þá stærri átök. Hin gífurlega aukning í bílaeign annars vegar og hins vegar stóraukin þörf viðskiptaþjóðfélags á greiðum og öruggum samgöngum, ekki sízt á landi, gera þetta óumflýjanlegt. Ég vil sérstaklega minna á, að með vegalögunum nýju voru sýsluvegasjóðirnir mjög efldir og hefur orðið gerbreyting á aðstöðu þeirra til að leysa sín verkefni. Kaupstaðir og kauptún fengu hlutdeild í vegasjóðum. En fram undan hlýtur að bíða að taka stór erlend lán í vegakerfið. Varanlegt slitlag á fjölförnustu vegina verður ekki lagt án þess, og árlegar tekjur vegasjóðs geta þá gengið í miklu stærri mæli til uppbyggingar malarveganna, sem auðvitað verða um langa framtíð enn aðalsamgönguæðar í okkar víðáttumikla landi. Enda sýnir reynsla síðustu ára, að góða vegi má gera á þann hátt með þeim tækjum, sem nú er völ á. Með gerð varanlegra vega á mestu umferðarleiðunum losnar fjármagn, sem nú þarf að verja í vonlaust viðhald á þessum vegum, en verja má þá til annarra hluta.

Samgöngumálin eru ein hinna stóru mála bæði strjálbýlis og þéttbýlis og þótt tamara sé að festa augun á óloknum verkefnum, skulum við ekki gleyma stórfelldum framkvæmdum í vegamálum að undanförnu. Má þá nefna Keflavíkurveg, Strákagöng, Múlaveg, Ennisveg, vegi eftir Vestfjarðaáætlun og brúagerðir í Austur-Skaftafellssýslu. Þegar fjmrh. gerði grein fyrir framkvæmdaáætlun ríkisstj. 1967 fylgdi ítarleg skýrsla um þjóðarframleiðslu, verðmætaráðstöfun o. fl. um nokkur undanfarin ár. Vöxtur þjóðarframleiðslunnar hefur verið mjög mikill á 5 ára tímabili, meiri en 5% að meðaltali árlega. Vöxtur þjóðartekna þó enn meiri vegna hagstæðra viðskiptakjara, þ. e. vegna hækkandi verðlags á framleiðsluvörunum erlendis. Hér valda, mestu um síldveiðarnar fyrir Austurlandi á undanförnum árum. En þessar veiðar hafa orðið svo miklar vegna hinna nýju fiskiskipa, sem aflað hefur verið til landsins með fullkomnasta tæknibúnaði, og vegna rannsókna og síldarleitar og stórbættrar aðstöðu í landi til móttöku. Undirstaða þessa er stefna ríkisstj. til athafnafrelsis, sem leysti úr læðingi þau öfl atorku og sjálfsbjargar, sem allar þessar athafnir bera vott um og greitt hefur verið fyrir, að þau öfl fengju notið sín. Og enn er mikill floti stórra síldveiðiskipa í smíðum, sem koma á þessu og næsta ári. En þótt meginhluti verðmætasköpunar síldveiðanna hafi farið fram á svæðinu frá Raufarhöfn og austur og suður til Djúpavogs, hefur blóðrás viðskiptalífsins dreift afrakstrinum meira og minna um allt land. Er sérstök ástæða til að leggja áherzlu á það, hversu öll þjónustustarfsemi og verzlun í landinu hefur blómgazt vegna síldveiðanna undanfarin ár. Þær raddir heyrast, að of langt sé gengið nú orðið í uppbyggingu síldariðnaðarins á Austurlandi. Ég vil benda hér á fróðlegar upplýsingar, sem fylgja í grg. með frv. sjálfstæðismanna um fiskimálaráð, m. a. um vinnslugetu síldarverksmiðja á Suðvestur- og Vesturlandi, á Norðurlandi til Langaness og Austurlandi sunnan Langaness. Vinnslugeta í tonnum er þessi: Suður- og Vesturland, 17 síldarverksmiðjur, afköst 5995 tonn á sólarhring eða ca. 6 þús. tonn. Norðurland, 15 síldarverksmiðjur, afköst 6725 tonn eða ca. 6700 tonn á sólarhring og Austurland, 14 síldarverksmiðjur, afköst 5630 tonn eða ca. 5600 tonn á sólarhring. Hver vill á annan deila, þegar þessar tölur eru athugaðar? Við skulum ekki láta okkur detta í hug, að ekki eigi sér stað einhver vafaatriði, sem nefna mætti mistök, í athafnalífi landsins. Og þótt þau eigi sér vafalaust stað í sjávarútvegi sem öðrum atvinnugreinum, verðum við að muna, hver undirstaða sú atvinnugrein er, muna, að síldveiðarnar síðustu árin hafa verið undirstaða hinnar auknu velmegunar, m. a. vegna þess að stjórnarstefnan hefur rétt örvandi hönd.

Nú er um það bil ár liðið frá því, að Alþ. samþykkti samninginn um álverksmiðju í Straumsvík. Vafalaust er flestum í fersku minni, að flestir stjórnarandstæðingar börðust á móti þeirri löggjöf, Alþb.-menn óskiptir, en nokkur sneið klofnaði út úr Framsókn. En það er athyglisvert, að stjórnarandstöðumenn halda nú þessu máli lítið á lofti. Stofnun álverksmiðju í Straumsvík byggist á nýtingu vatnsorku í Þjórsá. Engum getur dulizt, er rennir huga að verðmætum landsins, að náttúrugæðum Íslands, að orka fallvatnanna er einn okkar dýrmætasti auður, en því aðeins, að menn kunni að nota hana. Við megum ekki óttast að nýta náttúruauðinn, þótt við hefðum margir kosið fremur, að hann hefði að þessu sinni getað komið meir að liði í strjálbýli okkar á þeim landsvæðum, þar sem fólkinu hefði fjölgað hægt eða íbúatala þeirra staðið í stað. Það kemur síðar. Raforkan er vaxandi þáttur í lífi þjóðarinnar. Við eigum að ganga ótrauðir í það að hagnýta þennan náttúruauð, að þessu sinni í Þjórsá, síðan áfram í öðrum fallvötnum í ört vaxandi mæli.

Ég minni á strjálbýlissjóðinn, atvinnujöfnunarsjóðinn, sem einnig var stofnaður með lögum frá síðasta Alþ., sjóð til að styðja strjálbýli landsins, sem í þessum skilningi eru allar byggðir aðrar en Reykjavík og nágrenni hennar. Sjóð, sem auk verulegs stofnframlags og árlegs framlags úr ríkissjóði í 10 ár, fær tekjur sínar frá Straumsvíkurverksmiðjunni, þegar hún er tekin til starfa. Á þann hátt á Straumsvíkurverksmiðjan að styðja alla byggð í okkar landi. Mætti það lengi vera munað í sveit og við sjó um þvert og endilangt Ísland, hverjir lýstu trausti sínu á land og þjóð í þessu máli. Búrfellsvirkjun, álbræðsla í Straumsvík og kísilverksmiðja við Mývatn, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, eru tákn framsýni. Við erum með þessum framkvæmdum, eins og þjóðskáldið Matthías orðaði það, að fella stein við stein og styðja hverjir annan. Og áfram verður haldið. Sjálfstæðismenn óttast ekki stór átök. Án erlends fjármagns verða þau ekki gerð. Fram undan eru stór átök í vegamálum, í raforkuframkvæmdum, á atvinnusviði, en bæði raforkan og samgöngurnar eru þar frumskilyrði.

En í strjálbýlismálum er það mikilvægast, að fólkið í hinum strjálu byggðum trúi á sjálft sig, eigi frumkvæði að athöfnum, skipi sér saman í sterkar heildir, eins og t.d. í sveitarstjórnarmálum, beiti fjárhagsorku sinni að þýðingarmestu verkefnunum. Austfirðingar eiga t.d. ekki að hika við að axla nokkra byrði í byrjun til að mynda raforkufyrirtæki, Austurlandsvirkjun, sem yfirtæki alla raforkuvinnslu á Austurlandi og áframhaldandi orkuöflun með virkjun í Lagarfossi. Dreifing raforku um sveitir landsins hefur verið eitt af viðfangsefnunum á undanförnum kjörtímabilum og mikið hefur áunnizt. En til þess að örar mætti ganga dreifingin, upp að 2 km vegalengd milli bæja, væri hyggilegast að njóta beinnar og óbeinnar aðstoðar strjálbýlissjóðsins. Þannig er hægt að ná því marki, að þeim framkvæmdum verði lokið 1970.

Góðir áheyrendur. „Hin leiðin“ heillar ekki. Við þurfum að halda áfram að starfa með athafnaþránni, með sköpunargleði fólksins, með sól og sumri fyrir land og þjóð til að nýta auðæfin í mold og á miðum, fossum og hverum, en leitast jafnframt við að flýta okkur með þeim hraða, er farsæld fylgir. Slík er viðleitni sjálfstæðismanna og til þeirra hluta treystum við á stuðning fólksins. — Góða nótt.