13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

Almennar stjórnmálaumræður

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar líður að lokum þessa Alþ. og kjörtímabili er einnig að ljúka, er eðlilegt og sjálfsagt, að menn rifji upp og velti fyrir sér, hvernig störf Alþ. hafa tekizt og hvernig þjóðinni hafi vegnað undir forystu þeirrar ríkisstj., sem með völd hefur farið undanfarin ár. Það er einnig eðlilegt, að menn geri samanburð á þessum síðustu árum og öðrum tímabilum í tiltölulega náinni fortíð, þegar aðrar ríkisstj. fóru með völd. Þeim, sem hafa haft þolinmæði til þess að hlusta á hrollvekjuræður stjórnarandstæðinga í eldhúsdagsumr. á þriðjudagskvöldið var og jafnvel í kvöld líka og leggja einhvern trúnað á það, sem þar hefur verið sagt, gefst heldur en ekki á að líta. Samkv. því, sem þeir segja, er hér allt í kaldakoli. Nálega hvergi stendur steinn yfir steini. Þjóðin sé skattpínd og mergsogin, segja þeir, og atvinnuvegirnir í rúst. Varla nokkurs staðar sé ljósglætu að sjá og ömurleikinn uppmálaður hvert sem litið er. Þetta er í aðaldráttum inntakið úr ræðum stjórnarandstæðinga.

Ég varð raunar ekkert undrandi yfir þessum málflutningi. Á slíkan málflutning er maður búinn að hlusta ár eftir ár á mörgum þingum og er raunar orðinn hálfleiður á. En ég á von á því og er raunar viss um, að fjölmargir fylgismenn stjórnarandstöðunnar hafa orðið undrandi. Það getur engum dulizt, sem heilskyggn getur talizt, að verulegur hluti af þessu moldviðri nálgast mjög að vera hrein öfugmæli. Engum blöðum er um það að fletta, að samanburður á afkomu og lífskjörum þjóðarinnar það tímabil, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum, við hvaða ríkisstj.-tímabil annað sem er, er hagstæður fyrir núv. ríkisstj. og þá stjórnarstefnu, sem hún hefur fylgt. Það er fyrst og fremst þetta, sem miða á við, því að það er æðsta skylda hverrar ríkisstj. að hlutast til um, að lífskjör þjóðarinnar séu sem bezt í efnalegu, menningarlegu og félagslegu tilliti. Það vita allir, að ekkert fyrra tímabil stenzt samanburð við stjórnartíð núv. ríkisstj. að þessu leyti. Þetta viðurkenna sumir stjórnarandstæðingar í öðru orðinu, þó að þeir virðist að vísu hálffeimnir við það, en bæta því þá gjarnan við, að þetta sé eingöngu vegna þess, að aldrei hafi jafn hagstætt árferði yfir þetta land komið eins og hin síðari ár. Sigurður Ingimundarson benti réttilega á það s.l. þriðjudagskvöld í ræðu sinni, að þetta er beinlínis rangt. Hitt er vitanlega rétt, að aldrei hefur sjávarafli Íslendinga orðið jafn mikill og hin síðari ár, en það hefur gerzt einfaldlega vegna þess, að það var ekki fyrr en hin síðari ár, að Íslendingar eignuðust skip, tæknibúnað og tæknikunnáttu til þess að veiða síld í stórum stíl á fjarlægum miðum. Þetta var mögulegt fyrst og fremst vegna þess að skynsamlegri stjórnarstefnu var fylgt. Hinu verður að vísu ekki neitað, að hagstæð verðlagsþróun á hér talsverðan hlut að máli, þar til hin síðustu missiri, að brugðið hefur til hins lakara í þeim efnum.

Þó að ástæða sé til að gleðjast yfir framförum og velgengni hinna síðari ára, fer því þó fjarri, að ég vilji halda því fram, að hér sé allt eins og bezt verður á kosið. Því miður er það ekki svo, enda mun það seint verða. Verðbólguþróunin hefur verið mönnum alvarlegt áhyggjuefni í aldarfjórðungsskeið og núv. ríkisstj. hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum hennar þrátt fyrir góðan vilja fremur en fyrri ríkisstj. Í henni er fólgin alvarleg hætta, enda hefur ríkisstj. sýnt fyllstu viðleitni til þess að halda henni í skefjum eins og raunar stjórnarandstæðingar viðurkenna. Engum mun koma til hugar að halda því fram, að framsóknar- og Alþb.-mönnum hefði tekizt að halda verðbólgunni í skefjum, þó að þeir hefðu setið í stjórn þessi ár.

Það munu seint koma þeir tímar, að ekki verði vandamál og erfiðleikar við að etja, og aldrei mun nein ríkisstj. geta þannig haldið á spilum, að ekki geti orkað tvímælis um vissa hluti, sem hún aðhefst. Það er lögmál, sem ekki verður haggað, og til þess er stjórnarandstaða í lýðræðislöndum að vekja athygli á slíku og benda á skynsamlegri leiðir að hennar dómi.

Á undanförnum árum hefur verið mikið um opinberar framkvæmdir á vegum ríkisins og yfirleitt stórum meira en nokkru sinni fyrr. Vissulega hefðu þó flestir óskað þess, að þær hefðu getað verið meiri. En því eru takmörk sett, hverju fámenn þjóð getur afkastað. Það er engan veginn óeðlilegt, að nokkurrar óþolinmæði gæti hjá ýmsum, vegna þess að of hægt þykir ganga með ýmsar framkvæmdir. Það er t.d. kunnugra en frá þurfi að segja, að margir læknar og þó einkum yngri kynslóð þeirra hefur haldið uppi gagnrýni á seinagang í byggingu og viðgangi ýmissa heilbrigðisstofnana. Vissulega vita þessir menn bezt, hvar skórinn kreppir í þessum efnum, en hitt vita þeir líka, þegar þeir leiða að því huga, að við erum með ótal verkefni önnur í takinu, sem óhjákvæmilegt er, að unnin verði samtímis og því miður eru því nokkur takmörk sett, hve miklu hægt er að verja til jafnvel svo brýnna mála sem heilbrigðismála. Ég held því ekki fram, að þessi gagnrýni sé ástæðulaus, en um það má sjálfsagt deila eins og margt annað.

Ef við leiðum hugann að vegakerfi landsins, vita allir, að á því sviði eru óhemjumikil verkefni fram undan til þess að ná því marki, að vegakerfið nálgist það að verða sambærilegt við vegakerfi flestra annarra þjóða. Um þetta tjáir ekki að sakast. Við völdum einfaldlega ekki því fjárhagslega átaki, sem til þess þyrfti, að gera þetta á fáum árum. Hins vegar hljótum við að setja markið það hátt, að það gerist á sem skemmstum tíma, og aldrei hefur jafnmiklu fé verið varið til vegamála og nú hin síðari ár. Sama máli gegnir um aðra þætti samgöngumála. Við höfum til skamms tíma verið vanþróuð þjóð í þessum efnum og má að vísu segja, að við séum það enn. En Róm var ekki byggð á einum degi. Þó að skólabyggingar hafi verið meiri hin síðari ár en nokkru sinni fyrr, eru þar einnig ótæmandi verkefni fyrir höndum. Þannig er þetta á flestum sviðum og engin furða, þó að þjóðin finni til einhverra vaxtarverkja.

Almannatryggingakerfið í núv. mynd sinni hefur verið byggt upp á síðustu 20 árum. Stærsta átakið fram á við, eftir að kerfið var stofnað, gerðist 1960, eftir að Sjálfstfl. og Alþfl. höfðu myndað ríkisstj. Þá voru bætur trygginganna hækkaðar stórkostlega og miklu meira en áður hafði átt sér stað. Síðan hafa verið gerðar mjög þýðingarmiklar umbætur á kerfinu, eins og áður hefur verið bent á í þessum umr. Við Alþfl.-menn teljum þó, að hér megi ekki láta staðar numið. Elli- og örorkulífeyrir þarf að hækka verulega og raunar fleiri tegundir bóta og fleiri umbætur eru æskilegar. Þó að þetta kosti mikið fé, leggjum við á það áherzlu, að þetta gerist eins fljótt og hægt er og eins myndarlega og hægt er. Eins og hér á landi hefur átt sér stað atvinnubylting á hinum síðustu áratugum og með vaxandi hraða hin síðustu ár, eru almannatryggingarnar samsvarandi bylting á félagsmálasviði. Talið er, að greiddar bætur almannatrygginga á s.l. ári hafi numið nokkuð yfir 1 milljarð kr. og gefur sú upphæð nokkra hugmynd um þýðingu þeirra.

Fullvíst má telja, að stjórnarskrárbreyting um lækkun kosningaaldurs í 20 ár verði samþ. á þessu þingi. Alþfl. hefur beitt sér fyrir þessu máli og ungir jafnaðarmenn tóku fyrir allmörgum árum upp baráttu fyrir lækkun kosningaaldurs í 18 ár. Er þetta raunar í samræmi við hefðbundna skoðun Alþfl. um rúman kosningarrétt. Samkomulag varð um það hjá stjórnarflokkunum, að kosningaaldurinn verði færður niður um eitt ár. Er það vissulega mikil réttarbót fyrir ungt fólk, þó að ýmsir hefðu viljað ganga lengra. En ætla má, að allir flokkar styðji þetta mál. Hins vegar mun Alþfl. vafalaust, þegar stundir líða, vinna að frekari lækkun kosningaaldurs og leita samstöðu á Alþ. um það, þegar tækifæri gefst. Ungu fólki mun vafalaust aukast ábyrgðartilfinning með auknum félagslegum réttindum og þessi réttarbót mun áreiðanlega verða þjóðinni í heild til góðs.

Á hinum síðustu missirum hefur verið rætt talsvert um svokallaðar landshlutaáætlanir, fyrst og fremst Vestfjarðaáætlun og nú síðast um Norðurlandsáætlun. Segja má, að áætlunarbúskapur og áætlunarkerfi hafi verið stefna og baráttumál Alþfl. jafnvel áratugum saman. Málinu hefur hins vegar lítt eða ekki verið hægt að þoka áfram fyrr en á hinum síðari árum. Það gerðist fyrst fyrir atbeina núv. ríkisstj., að hafizt var handa í þessum efnum, enda var þetta einn liður í samkomulagi stjórnarflokkanna. Fyrsta tilraunin af þessu tagi hér á landi var þjóðhags- og framkvæmdaáætlun 1963–1966, sem unnin var á vegum Efnahagsstofnunarinnar, eins og kunnugt er. Áætlanir um framkvæmdir bæjar- og sveitarfélaga eru nú í uppsiglingu á ýmsum stöðum, enda hafa bæjar- og sveitarfélög stöðugt með höndum óhemju miklar framkvæmdir. Vestfjarðaáætlunin, sem áður er nefnd, fjallar um vegi og önnur samgöngumannvirki, sem þar hefur skort mjög tilfinnanlega, og hefur nú verið unnið eftir henni um skeið og verður fram haldið eins og efni standa til. Talsmenn Framsfl. hafa nú um sinn tamið sér að tala um röðun framkvæmda eftir fyrir fram gerðri áætlun og sé þá farið eftir því, hvað nauðsyn hvers verkefnis er brýn. Um þetta er ekkert nema gott að segja og batnandi mönnum er bezt að lifa. En þetta er ekkert nýmæli, heldur í samræmi við þá viðleitni, sem núv. ríkisstj. hefur uppi haft í sambandi við áætlunargerðir. Hér er ekki um nýja leið að ræða og vonandi verður framhald á þessu í auknum mæli, því að augljóst er, að skipulag á framkvæmdum er æskilegra en skipulagsleysi. Vitað er, að Efnahagsstofnunin vinnur nú að samningu Norðurlandsáætlunar, en í þeirri áætlun mun megináherzla verða lögð á uppbyggingu atvinnuvega, enda hafa ýmsir bæir og kaupstaðir þar haft laklega atvinnuafkomu nú um skeið. Eru miklar vonir bundnar við það, að framkvæmd Norðurlandsáætlunar, þegar til kemur, geti orðið til þess að bæta afkomu fólksins á því svæði og þar með hamla gegn fólksflótta til Suðurlands, þar sem afkomumöguleikar hafa óneitanlega verið betri. Norðurland á miklar auðlindir í óbeizluðum fallvötnum. Að því kemur áreiðanlega fyrr eða síðar, að stór raforkuver verða þar reist og stóriðnaður hafinn einnig á Norðurlandi. Þá fyrst munu myndast raunhæf skilyrði fyrir örri fólksfjölgun á Norðurlandi í stað fólksfækkunar eða kyrrstöðu, eins og lengi hefur átt sér stað. Engin skilyrði eru þó til þess, að um þetta mál verði fjallað í áætlun þeirri, er ég gat um. En það er spá mín og von, að að því komi fyrr heldur en síðar, að tilefni verði til, að þetta mál komist á dagskrá.

Að lokum beini ég því til Alþfl.-manna og velunnara flokksins um allt land, að þeir skeri upp herör og hefji baráttu fyrir gengi flokksins í kosningunum, sem væntanlega fara fram að tveim mánuðum liðnum. Á því veltur ekki aðeins mikið fyrir þann flokk, heldur alla hina íslenzku þjóð og þá stjórnarstefnu frjálslyndis og víðsýnis, sem fylgt hefur verið undanfarin ár og áreiðanlega er líklegust til, eins og á stendur, framvegis eins og hingað til, að tryggja vaxandi velgengni þjóðarinnar. Með þeim orðum læt ég máli mínu lokið og býð góðar nætur.