13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

Almennar stjórnmálaumræður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Gylfa Gíslasyni, hæstv. menntmrh., vildi ég segja það, að Alþb. er lýðræðisleg samtök, og framboð þess hér í Reykjavík, sem ráðh. sveigði að, var ákveðið með atkvgr. félagsmanna sjálfra, eins og vera ber, og kom þar vilji félagsmannanna greinilega í ljós.

Í þessum útvarpsumr. hafa talsmenn stjórnarfl. lagt höfuðkapp á að sanna fyrir hlustendum, að velgengni undanfarinna veltiára sé stjórnarstefnunni að þakka, velgengnin sé ávöxtur viðreisnarinnar. Einhvern grun hafa stjórnarsinnar þó um, að þetta sé kannske ekki vel ljóst fyrir almenningi og þess vegna þurfi að útskýra það rækilega. Fulltrúi Alþfl., Sigurður Ingimundarson, eyddi t.d. öllum ræðutíma sínum í fyrrakvöld í að reyna að sanna, að aflametin og góðæri undanfarinna ára væri viðreisninni að þakka. Auðvitað er þessu þveröfugt farið, og flestir landsmenn vita, að nær sanni væri að segja, að hin góða fjárhagsafkoma þjóðarinnar hin síðari ár hefur orðið, þrátt fyrir stjórnarstefnuna — þrátt fyrir viðreisnina. Hér hafa allt önnur öfl verið að verki. Það er hinn mikli sjávarafli, og þar fremst síldveiðarnar, sem eru undirstaða hinnar góðu afkomu. Annað höfuðatriði er mjög hagstætt og lengst af hækkandi verð á útfluttum sjávarafurðum. Hvorugt þessara atriða, aflametin eða verðið á afurðunum, sem standa undir allri fjárhagslegri velgengni okkar á undanförnum árum, verða þökkuð ríkisstj. eða stefnu hennar. Stefna ríkisstj. og stefnuleysi birtist hins vegar í því, að sá atvinnuvegur, sjávarútvegurinn, sem mesta björg hefur fært í búið, á nú við mikla erfiðleika að stríða og er kominn á nýtt uppbótakerfi. Ástæðurnar fyrir þessari stöðu sjávarútvegsins eru þessar helztar: Algert getuleysi ríkisstj. til að hafa hemil á verðbólgunni og hið óhefta frelsi verzlunarvaldsins og hvers konar milliliða og braskara, sem hrifsað hafa til sín bróðurpartinn af því, sem undirstöðuatvinnuvegirnir hafa fært í búið.

En það eru fleiri atvinnugreinar, sem nú eiga við erfiðleika að stríða og þá ekki sízt meginhluti verksmiðjuiðnaðarins. Stöðnun og samdráttur er nú víða í atvinnulífi okkar. Verkafólk um land allt hefur fengið af því reynslu á þessum vetri. Atvinna hefur dregizt saman og víða verið atvinnuleysi. Hér í höfuðborginni hefur það skeð í vetur, að fullvinnufærir verkamenn hafa á tímabili enga atvinnu haft, og fyrir nokkrum dögum skýrði eitt dagblaðanna hér frá því, að kona frá verksmiðjuiðnaðinum hefði sótt um bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði, sú fyrsta í þeirri grein þau 10 ár, sem sjóðurinn hefur starfað, en atvinna fyrir konur hefur einmitt verið með allra minnsta móti hér í vetur. Í mörgum atvinnugreinum hefur samdrátturinn lýst sér í því, að yfirvinna hefur algerlega lagzt niður, og menn hafa þá misst þann hluta af tekjum sínum, sem hefur gert þeim fært að lifa af kaupi sínu í þeirri miklu dýrtíð, sem hér ríkir. Það er ekki ofsagt, að í vetur hefur margur maðurinn ekki átt mikið eftir af kaupi sínu, þegar gjaldheimtan hafði hirt sitt og húsnæðiskostnaðurinn verið greiddur. Emil Jónsson, hæstv. utanrrh., sagði í þessum umr., að gæfusamlegast væri, að atvinna hefði verið næg undanfarið. Því miður er ekki hægt að segja þetta um ástandið á þessum vetri. Umsamið kaup flestra verkamanna er nú 9–10 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnu. Hæstv. forsrh. lýsti því hér, hversu mjög ráðstöfunartekjur launþega hefðu aukizt. Það er á allra vitorði, að launþegar hafa mætt síhækkandi verðlagi með þrotlausri vinnu á óhóflega löngum vinnudegi. Í þessu felast engar kjarabætur, nema síður væri, en þetta hefur verið hægt vegna mikils framboðs á atvinnu. En þegar þessum möguleika er kippt burtu, er engin von til þess, að verkafólk geti haldið í horfinu með tekjur af dagvinnunni einni. Til þess er dagkaupið allt of lágt. Það væri áreiðanlega lærdómsrík reynsla fyrir þá, sem stöðugt halda því fram, að það sé kaup verkafólksins, sem allt sé að sliga í þjóðfélaginu, að reyna sjálfir að lifa af 9–10 þús. kr. á mánuði.

Alvarlegasti samdráttur í atvinnulífinu er, hve atvinna í sjávarútveginum hefur minnkað, og þá ekki sízt hér í Reykjavík. Í þessum efnum verða menn að gera sér grein fyrir, hvaða undirstaða togaraútgerðin hefur verið í atvinnulífi borgarinnar. Í tíð viðreisnarstjórnarinnar hefur togurum í rekstri landsmanna fækkað um 30, eða jafnmarga og nýsköpunarstjórnin festi kaup á á sínum tíma, og má það teljast táknrænt. Í Reykjavík hefur togurum í rekstri fækkað um helming á nokkrum árum. Þessi stórvirku atvinnutæki á ekki að selja úr landi eða að leggja þeim, þótt rekstur þeirra sé erfiður, án þess að annarra sé aflað í staðinn. Verzlunarhallir geta ekki komið í þeirra stað og heldur ekki atvinna við erlenda stóriðju. Stjórnarliðar kalla það svartsýni að draga fram þessa hlið málanna, og þá svartsýnismenn, sem það gera. Ég læt mér slíkar nafngiftir í léttu rúmi liggja, því að hér hefur aðeins verið bent á staðreyndir, en þeir, sem ekki sjá eða vilja ekki sjá þessar staðreyndir, fljóta sofandi að feigðarósi og ættu því ekki að hafa nein afskipti af þessum málum. Eitt það nauðsynlegasta í ísl. atvinnumálum nú er, að öll heilbrigð öfl í þjóðfélaginu sameinist um að treysta og byggja upp undirstöðuatvinnuvegi okkar og bægja frá allri hættu á samdrætti í atvinnulífinu.

Í þessum umr. hafa ræðumenn stjórnarflokkanna mjög lofsungið það óhefta athafna- og viðskiptafrelsi, sem þeir telja sig hafa komið á. Sjálfsagt eru þeir orðnir æðimargir fjáraflamennirnir og braskararnir, sem fullum hálsi og með þakklátum huga taka undir þennan söng. Viðreisnarárin hafa verið þeirra tíð.

En það væri einnig þess virði fyrir launþega þessa lands að staldra aðeins við og íhuga, hvernig þetta marglofaða frelsi hefur snúið að þeim. Skal þess þá fyrst minnzt, að með gengislækkunarlögunum 1960 voru afnumin úr frjálsum samningum verkalýðsfélaganna þau ákvæði, að greiða skyldi verðlagsuppbætur á kaup eftir vísitölu. Það var að því stefnt, að launþegar skyldu bótalaust þola allar verðhækkanir af völdum gengislækkunarinnar. Vitað var, að því mundu verkalýðsfélögin ekki una, og hlaut því þessi lagasetning að stofna til ófriðar á vinnumarkaðinum. Þegar svo verkalýðsfélögin sömdu um kauphækkun, eftir harða verkfallsbaráttu, sumarið 1961, kauphækkun, sem ekki jafnaði metin um verðhækkanirnar, greip ríkisstj. til þess dæmalausa úrræðis að fella gengi krónunnar enn á ný, einvörðungu í hefndarskyni við verkalýðshreyfinguna, til þess að sanna launþegum, að hún hefði öll þeirra ráð í hendi sér og að kaupgjaldsbarátta borgaði sig ekki. Næst er svo, að haustið 1963 hafði ríkisstj. knúið í gegnum allar umr. á Alþ. frv. að l., sem bannaði allar kauphækkanir um nokkurt skeið, en á síðustu stundu tókst sameinaðri verkalýðshreyfingu að koma í veg fyrir, að frv. yrði samþ. Þetta eru nokkrar skyndimyndir af því frelsi, sem viðreisnarstjórnin hefur haft upp á að bjóða launþegum og verkalýðsfélögum þessa lands. Það ber að þakka styrkleika verkalýðshreyfingarinnar og sjálfsagt einnig ráðum hyggnari og gætnari manna í stjórnarflokkunum, að ekki tókst alltaf eins og til var stofnað, og því hafa samskipti í samningamálum verið með öðrum og betri brag síðustu þrjú árin.

Það verður að teljast hin mesta kaldhæðni, að það skyldi einmitt vera Ingólfur Jónsson, hæstv. landbrh., sem hæst kyrjaði frelsissönginn hér í fyrrakvöld, en það verður nú vart komið tölu á þau brbl., sem þessi maður hefur gefið út í ráðherratíð sinni til að banna verkföll og koma í veg fyrir frjálsa samninga fjölmargra starfsstétta, allt frá verkfræðingum til verkamanna. Öðrum ferst máske, en honum ekki.

Grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingarinnar í kaupgjaldsmálum hefur ávallt verið að meta kaupið í hlutfalli við verðlagið á hverjum tíma, þ. e. kaupmátt launanna, en ekki hitt fyrst og fremst, hversu krónurnar væru margar. Verkalýðshreyfingin telur hinn mikla vöxt verðbólgunnar, sem hér hefur orðið, óhagstæðan launafólki, en við höfum lagt ríka áherzlu á að tryggja launin fyrir verðhækkunum, tryggja kaupmátt launanna. Vorið 1964 bauð A.S.Í. ríkisstj. samstarf um gerð kjarasamninga og baráttu gegn verðbólguþróuninni. Árangur þess varð júnísamkomulagið. Þá var því heitið, að hemill skyldi hafður á verðhækkunum, en efndir urðu engar. Hvort mundi nú ekki margt með öðrum hætti og hagur atvinnuveganna betri, ef þá hefði verið farið að ráðum verkalýðshreyfingarinnar og verðhækkanir stöðvaðar. Með júnísamkomulaginu endurheimti verkalýðshreyfingin verðtryggingu á launin, eftir vísitölu, og því hafa kauphækkanir, sem síðan hafa orðið, komið að meiri notum og þokað kaupmættinum upp á við. Samt er kaupmáttur tímakaupsins nú svipaður og hann var 1959 og þó nokkru lægri, ef stytting vinnutímans er ekki reiknuð með, svo mikil var kjaraskerðingin orðin á viðreisnartímanum. Í samningum verkalýðsfélaganna 1964 var samið um verulega hækkun á lánum til húsnæðismála og fjáröflun til byggingarsjóðs. Þá var einnig samið um sérstakan byggingarflokk fyrir meðlimi verkalýðsfélaga í Reykjavík, þar sem lán verða 80% af byggingarkostnaði. Þessi mál voru meginefni í afrekaskrá ríkisstj. á sviði félagsmála, sem hæstv. félmrh., Eggert G. Þorsteinsson, tíundaði hér í fyrrakvöld. Má með sanni segja, að þær skrautfjaðrir voru fengnar að láni.

Í haust kom ríkisstj. á hinni svonefndu verðstöðvun, sem kosta mun ríkissjóð nokkur hundruð millj. kr. Sagt er, að ekki þurfi að leggja á nýja skatta vegna þessara útgjalda, en allir vita þó, að þessum málum er aðeins frestað fram yfir kosningar og þá muni koma að skuldadögunum. Ef Alþ. verður eins skipað eftir kosningar og nú er, mun þessum skuldaböggum verða velt yfir á almenning. Það hefur verið sagt í þessum umr., að kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar væri í sjálfheldu. Þetta er að vissu leyti rétt, en enginn skyldi þó halda, að verkalýðshreyfingin muni sætta sig við aðgerðarleysi í kjaramálunum vegna skipulagsleysis og óstjórnar stjórnarvaldanna í málum þjóðarinnar. En allt launafólk þarf nú jafnframt að tygja sig til pólitískrar sóknar. Í kosningunum í sumar getur atkvæðaseðillinn ráðið úrslitum um framgang kjaramálanna, en það verður aðeins með því móti, að launþegar fylki sér um Alþb. og efli það til áhrifa með fleiri mönnum á Alþingi. Alþb.-fólk um allt land, og þá ekki sízt hér í Reykjavík! Vinnum vel að sókn og sigri samtaka okkar í kosningunum í sumar.