13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Andstæðingar ríkisstj. halda því oft fram, bæði í ræðu og riti, að viðreisnarstefnan hafi leitt til fólksflótta utan af landsbyggðinni. Straumurinn liggi til höfuðborgarinnar og næsta nágrennis hennar. Þannig sé byggðajafnvæginu raskað á óheillavænlegan hátt og verði að skrifa þetta á reikning ríkisstj., sem vanræki hagsmunamál landsbyggðarinnar. Bergmál af þessum boðskap mátti heyra í ræðu Gísla Guðmundssonar í fyrrakvöld. Í raun og veru ætti ekki að þurfa að deila um hluti, þar sem óyggjandi staðreyndir liggja fyrir í opinberum skýrslum, sem hvert mannsbarn hefur aðgang að. Í hagtíðindunum eru yfirleitt birtar skýrslur og yfirlit yfir mannfjölda á öllu landinu og í einstökum byggðarlögum. Samkv. þessum skýrslum eru eftirfarandi staðreyndir ljósar.

Á áratugnum 1940–1950 fjölgar allri þjóðinni um 19%, en mannfjöldinn á Reykjavíkursvæðinu vex á þessum sama tíma um 51%. Reykjavíkursvæðið er hér talið ná til Kópavogs og Seltjarnarness auk höfuðborgarinnar sjálfrar. Á áratugnum 1950–1960 fjölgar þjóðinni allri um 22%, en mannfjöldinn á Reykjavíkursvæðinu vex þá um 36%. Á þessum árum heldur því öfugþróunin áfram, þótt röskunin sé ekki jafn geigvænleg og á styrjaldarárunum og fyrstu árunum eftir stríðið. Þá er rétt að athuga, hvað gerzt hefur í þessum efnum síðustu 6 árin, þ.e.a.s. árin 1960–1966. Á þessu tímabili fjölgar þjóðinni í heild um 12%, en fjölgunin á Reykjavíkursvæðinu á sama tíma er aðeins 14%. Óheillaþróunin hefur m. ö. o. næstum því stöðvazt, eftir að núv. ríkisstj. kom til valda og byggðajafnvægið raskazt langtum minna heldur en meðan hinnar svokölluðu byggðastefnu Framsfl. naut við. Við þetta má svo bæta, að ávextirnir af því mikilvægasta, sem núv. ríkisstj. hefur gert til stuðnings hagsmunum landsbyggðarinnar, eru enn ekki fram komnir nema að litlu leyti. Á ég þar við hina stórfelldu eflingu atvinnujöfnunarsjóðs, sem lögfest var á s.l. ári, svo og undirbúning landshlutaáætlana, sem hefur þó vissulega tekið lengri tíma en æskilegt er. En minna má þjóðina á það, að það voru einmitt stjórnarandstæðingar, sem voru andvígir því máli, sem lagði fjárhagslegan grundvöll að aukningu atvinnujöfnunarsjóðs.

Skömmu fyrir áramótin voru samþ. á Alþ. lög um verðstöðvun. Undanfari þessarar löggjafar voru stórauknar niðurgreiðslur vöruverðs úr ríkissjóði síðari hluta ársins 1966, sem haldið er áfram á yfirstandandi ári. Stjórnarandstæðingar voru lítt hrifnir af þessum aðgerðum og sögðu, að ríkisstj. væri að fela dýrtíðina á bak við verðstöðvunarfrv. á líkan hátt eins og Sósfl. felur sig á bak við Alþb. Hér er þó ólíku saman að jafna, þar sem ríkisstj. hefur ekkert að dylja og vill ekkert dylja í þessum efnum. Mælikvarði á verðbólguna, löggiltur og viðurkenndur, er vísitalan. A. m. k. hika stjórnarandstæðingar ekkert við að vitna til vísitölunnar, þegar hún sýnir verðhækkanir, en nú hefur hún staðið í stað á annað misseri og einhverra hluta vegna fer þetta ósköp í taugarnar á stjórnarandstæðingum. Alþfl. lítur á niðurgreiðslur vöruverðs sem áhrifaríka aðferð til að hafa hemil á verðbólgu, enda þótt hún sé ekki einhlít og kosti sannarlega mikil fjárútlát. Kostirnir við niðurgreiðslu vöruverðs eru þessir: 1. Niðurgreiðslurnar draga úr vexti verðbólgunnar og geta jafnvel stöðvað hana um lengri eða skemmri tíma. 2. Niðurgreiðslurnar spara ríkissjóði útgjöld á öðrum sviðum. 3. Niðurgreiðslurnar eru stuðningur við útflutningsatvinnuvegina, sem ekki þola að taka á sig verðlagshækkanir innanlands, eins og nú standa sakir. 4. Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum auka innanlandsneyzluna og draga úr því afurðamagni, sem bændur yrðu ella að selja úr landi fyrir mjög lágt verð. 5. Niðurgreiðslur á mjólk og öðrum nauðsynjavörum eru sérstök kjarabót fyrir láglaunafólk og barnmargar fjölskyldur, þar sem þetta fólk verður að verja stærri hluta af tekjum sínum en aðrar stéttir til kaupa á lífsnauðsynjum.

Á hinn bóginn kosta niðurgreiðslurnar mikla peninga. Forsendan fyrir því, að unnt sé að fara þessa leið er því sú, að fjárhagsafkoma ríkissjóðs sé góð. Að því leyti, sem góð fjárhagsafkoma byggist á auknum innflutningi og meiri tolltekjum, verður traust gjaldeyrisstaða einnig að vera fyrir hendi, en það var einmitt þessi hlekkur, sem varð sífellt veikari og veikari á árum vinstri stjórnarinnar og sem að lokum brast alveg í árslok 1959 og olli því, að hverfa varð frá stöðvunarstefnunni á þeim tíma. Nú horfir þetta betur. Undir viðreisnarstjórn hefur gjaldeyrisstaðan batnað og er enn traust, þrátt fyrir lækkandi verð á útflutningsafurðum okkar. Niðurgreiðsluleiðin er því nú færari en áður, ef sérstök áföll henda ekki. En það eru ekki allir jafn hrifnir af þessari leið. Eysteinn Jónsson kallar þetta einfaldlega að moka peningum í niðurgreiðsluhítina. Hann hefur önnur og betri ráð á takteinum til þess að vinna bug á verðbólgunni og vík ég að þeim síðar.

Þungamiðjan í gagnrýni Framsfl. á hendur núv. ríkisstj. er sú, að ríkisstj. hafi ekki ráðið við verðbólguna í landinu. Framsóknarmenn nota margvísleg orð yfir þetta. Fyrst töluðu þeir um verðbólgu, þar næst töluðu þeir um mikla verðbólgu. Svo komu heitin óðaverðbólga, skriðuverðbólga, hrikaleg verðbólga og loks eftir að stöðvunarl. komu og farið var að hafa meiri hemil á verðbólgunni en áður, er þeim tamast að tala um ofsalega óðaverðbólgu.

Nú má ekki gleyma því, að Framsfl. hefur haft tækifæri til að sýna í verki, hvers hann er megnugur í baráttu gegn verðbólgunni. Framsfl. sat samfellt í ríkisstj. frá því í marzmánuði 1950 þar til í des. 1958. Fyrsta ár þessa tímabils óx verðbólgan um 40%, sem er algert Íslandsmet, og síðustu þrjá mánuði þessa tímabils óx verðbólgan um 9½% miðað við vísitölu vöru og þjónustu, en það er sama hækkun og átt hefur sér stað undanfarna 16 mánuði. Þegar hér var komið sögu, gafst Framsfl. upp á stjórnarforystu eins og alkunnugt er, vegna þess að verðbólgualda var skollin yfir og hann treysti sér ekki til þess að stýra þjóðarskútunni gegnum brimgarðinn. Þá tók minnihlutastjórn Alþfl. við og bjargaði því, sem bjargað varð með stöðvun og niðurfærslu, en Framsfl. lýsti sig andvígan þeim ráðstöfunum. Síðan tók viðreisnarstjórnin við, gengið var fellt og verðbólgan óx á nýjan leik, en þótt vöxtur verðbólgunnar væri nokkuð mikill, varð hann samt mun hægari en sá geigvænlegi verðbólguvöxtur, sem framundan var að dómi efnahagssérfræðinga, þegar Framsfl. gafst upp. Sagan um viðureign Framsfl. við verðbólguna er sagan um flokk, sem ýmist réð ekki við vandann eða hljóp burt frá vandanum. Nú kemur þessi flokkur fram fyrir þjóðina og segist kunna ráð við öllu. Framsóknarmenn hafa þó í rauninni ekkert lært, en treysta því, að þjóðin hafi öllu gleymt, en þar mun þeim skjátlast. Lyfseðill Eysteins Jónssonar til lækningar á verðbólgunni hljóðar á þessa leið. Verðbólga verður ekki læknuð nema með nýjum, jákvæðum aðgerðum, þar sem meginkjarninn er sá að taka hæfilega mikið fyrir, en þá verður það líka að sitja fyrir, sem mestu skiptir, því að annars grefst undan afkomu þjóðarinnar. Svo mörg eru þau heilögu orð og svona einfalt er að leysa þennan mikla vanda.

Framsóknarmenn hafa þó ekki gefið neinar greinargóðar skýringar á því, eftir hvaða reglum á að raða niður framkvæmdum að þeirra dómi og hvaða framkvæmdir það eru sem eiga að sitja á hakanum. Eðlilegt er að spyrja í þessu sambandi, af hverju verðbólguvöxturinn hafi stafað á árunum 1950–1955 að áliti framsóknarmanna. Var þá of mikið tekið fyrir eða var þá of lítið tekið fyrir eða var það látið sitja fyrir, sem minna máli skipti? Framsóknarmenn boða stefnu sína í nokkrum setningum, sem hljóma vel, en segja lítið, eins og t.d. þessar: Að skoða vandamál togaranna frá rótum. Að auka framkvæmdaafl þjóðarinnar. Að leysa atvinnuvegina úr sjálfheldunni. Að taka upp skynsamlegan áætlunarbúskap. Að aflétta vaxtaokri og lánsfjárkreppu o.s.frv., o.s.frv. Hins vegar segir flokkurinn ekkert um það, hvernig á að gera þetta. Stefna Framsfl. er fyrirheit án fyrirhyggju og verður því boðskapur án brautargengis.

Það er engum vafa undirorpið, að á yfirstandandi kjörtímabili hafa verkalýðsstéttirnar hlotið meiri kjarabætur en nokkru sinni áður frá styrjaldarlokum. Er þar fyrst og fremst um að ræða kauphækkanir, styttingu vinnuvikunnar, tilfærslu milli launaflokka og aukinn orlofsrétt. Þetta er ekki einvörðungu álit okkar, sem styðjum ríkisstj. og þá stefnu hennar að hafa góð samskipti við verkalýðshreyfinguna og greiða fyrir faglegum og félagslegum kjarabótum eftir því, sem föng eru á, heldur er þetta einnig skoðun andstæðinga okkar. Í júlímánuði 1965 átti vikublaðið Frjáls þjóð viðtal við Björn Jónsson alþm., sem jafnframt er form. stærsta verkalýðsfélags á Norðurlandi. Viðtalið fjallaði um nýafstaðna kjarasamninga, sem ríkisstj. hafði sérstaklega beitt sér fyrir að leiða til lykta. Blaðið spyr Björn: Nú, þegar samningunum er að heita má lokið alls staðar, hvert er þitt heildarmat á þeim? Og Björn Jónsson svarar: „Í heild eru þetta óvenjuhagstæðir samningar. Engir samningar eftir stríð hafa verið eins hagstæðir launþegum“. Það er eftirtektarvert, að Björn Jónsson viðurkennir, að á valdatíma viðreisnarstjórnarinnar hafi verkalýðnum tekizt að fá betri samninga heldur en á valdatíma þeirra stjórna, sem hans eigin flokkur studdi. Þessum staðreyndum virtist Björn hins vegar vera búinn að gleyma, þegar hann flutti ræðu sína á þriðjudagskvöldið. Við þetta má svo bæta, að á s.l. þremur árum hefur ríkt óvenjugóður vinnufriður í landinu og á síðasta ári fengu láglaunastéttirnar kjarabætur umfram aðra þjóðfélagsþegna. Í þessum eldhúsdagsumr. hafa húsnæðismálin verið ofarlega á baugi. Alþb. hrósaði vinstri stjórninni á sínum tíma fyrir að semja við verkalýðshreyfinguna um aukið framlag til húsnæðismála. Hins vegar finnst talsmönnum Alþb. nú, að það hafi verið eiginlega fráleitt af núv. ríkisstj. að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna um húsnæðismál. Umbæturnar í húsnæðismálunum á valdatíma vinstri stjórnarinnar voru vissulega góðra gjalda verðar, en þó verða þær að teljast smávægilegar miðað við þær mikilvægu úrbætur, sem átt hafa sér stað á undanförnu kjörtímabili. Í upphafi þessa kjörtímabils voru lán húsnæðismálastjórnar út á hverja íbúð 150 þús. kr. Nú nema lánin fyrir þá, sem hefja byggingu á þessu ári, 355 þús. kr. og að auki 75 þús. kr., ef byggjandinn er meðlimur í verkalýðsfélagi eða alls 430 þús. kr. lán út á hverja íbúð. Á sama tíma og byggingarkostnaðurinn hefur hækkað samkv. vísitölu um 64%, hafa lán húsnæðismálastjórnar hækkað um 137–187% út á hverja íbúð.

Á miðju ári 1965 gaf ríkisstj. út yfirlýsingu um húsnæðismál í sambandi við lausn á kjaradeilu verkalýðsfélaga. Í þessari yfirlýsingu var kveðið á um að reisa í Reykjavík á næstu 5 árum 1250 íbúðir handa láglaunafólki, en áætlun þessari skyldi hrinda í framkvæmd í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og Reykjavíkurborg. Íbúðirnar skyldi selja á kostnaðarverði og lán út á hverja íbúð nema allt að 80% af kostnaðarverðinu. Með byggingum þessum á að gera alvarlega tilraun til lækkunar byggingarkostnaðarins, m. a. með því að taka upp fjöldaframleiðsluaðferðir. Síðar var svo lögfest heimild til samsvarandi byggingaráætlana út um landið með sömu kjörum. Um þetta mikilvæga framfaraspor komst Guðmundur J. Guðmundsson, varaformaður Dagsbrúnar, svo að orði í blaðaviðtali: „Félagsleg lausn húsnæðisvandans er stórsigur í réttindabaráttu alþýðu“. Ég er alveg sammála niðurstöðu Guðmundar J. Guðmundssonar í þessu efni.

Í síðustu viku hófust byggingarframkvæmdir við 1. áfanga hinna 1250 íbúða, er reisa á í Reykjavík. Ef allt gengur samkv. áætlun, verða um það bil 100 íbúðir fullgerðar um næstu áramót. Við þessar byggingar eru reyndar ýmsar nýjungar í byggingarmálum okkar. Ég skal ekkert um það segja, hvern árangur þær kunna að bera til lækkunar á byggingarkostnaði í fyrstu atrennu. Samt er nú þegar ljóst, að á vissum sviðum er auðvelt að spara talsvert fé, ef byggingaráfangar eru nógu stórir. Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar hefur á undanförnum mánuðum sent frá sér um það bil 30 útboð. Síðast í gærdag voru opnuð tilboð í eldhúsinnréttingar og þá kom í ljós, að samkv. lægstu tilboðunum kostar hver eldhúsinnrétting, efni, vinna og uppsetning innifalið, tæpar 25 þús. kr. Þetta er vissulega góður árangur. Yfirleitt hefur það komið í ljós við útboðin, að innlendir framleiðendur hafa reynzt vel samkeppnisfærir við erlenda aðila um verðlag og gæði og þeir búa yfir þekkingu, tækni og aðstöðu til fjöldaframleiðsluaðferða. Stórir byggingaráfangar og heilbrigð samkeppni eru tvímælalaust leiðarvísir á brautinni til lækkandi byggingarkostnaðar.

Viðreisnarstefnan hefur fært bændum landsins, sem lengi hafa verið ein tekjulægsta stétt þjóðfélagsins, þýðingarmiklar kjarabætur á undanförnum árum. T. d. hefur kaupmáttur árslauna bóndans samkv. búvörugrundvellinum aukizt um 28% á síðustu þremur árum, er skýrslur taka til. Með stofnun framleiðnisjóðs landbúnaðarins og jarðakaupasjóðs er brotið blað í sögu íslenzks landbúnaðar, framtíðargrundvöllur lagður að bættum búrekstri og leystur brýnasti vandi þeirra, sem verst eru settir.

Íslenzkt sjónvarp, sem innan fárra ára verður komið um land allt, hefur farið af stað með myndarbrag. Sjónvarpið mun rjúfa einangrun hinna dreifðu byggða og færa sveitirnar og þéttbýlið nær hvort öðru.

Alþfl. hefur sett svip sinn á stefnu núv. ríkisstj. og hann hefur á síðustu áratugum með ábyrgri afstöðu sinni knúið fram margfalt fleiri umbótamál fyrir íslenzka alþýðu heldur en Sósfl. og Alþb., enda er það afar fátítt að heyra talsmenn þessa bandalags vitna til þess, sem þeir hafa afrekað fyrir íslenzka alþýðu, þegar þeir komust til áhrifa í ríkisstj. Nú ákalla Alþb.-menn þjóðina til fylgis við sig, á sama tíma og foringi þessa bandalags er nýbúinn að lýsa því yfir á fundi í Reykjavík, að bandalagið sé að dauða komið, en Þjóðviljinn lýsir því yfir á sama tíma, að ágreiningur innan þessa bandalags sé einmitt styrkleiki þess.

Innan fárra vikna gengur þjóðin til kosninga. Í kosningabaráttunni mun Alþfl. einkum skírskota til unga fólksins, sem veitti honum vaxandi traust í sveitarstjórnarkosningunum á síðasta ári. Það er mikilvægt, að unga fólkið leggi það á sig að kryfja stjórnmálin til mergjar og neyti atkvæðaréttar síns að vel yfirveguðu máli. Nú hafa þeir atburðir gerzt, er sýna ljóslega, að jafnaðarmenn eiga ekkert erindi í bandalag með Sósfl. Allt það fólk, sem hvarf úr röðum Alþfl. fyrir rúmum áratug og gekk til samstarfs við Sósfl., er velkomið heim í sinn gamla flokk á ný. Þá gefst því tækifæri til eðlilegra áhrifa á störf og stefnu Alþfl. til heilla fyrir land og lýð. Alþfl. lofar ekki þjóðinni gulli og grænum skógum. En hann heitir því að hlaupast eigi á brott frá þeim skyldum, er þjóðin kann að leggja honum á herðar. Góða nótt.