13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Síðasta þingi kjörtímabils er að ljúka. Það er því alls kostar eðlilegt, að hér hafi farið fram nokkur heildarúttekt á störfum þings og stjórnar, úttekt á stjórnarstefnu síðustu ára. Eftir tvo mánuði á að leggja málin undir dóm kjósenda. Maður heyrir oft sagt, að ekki sé mikið mark á slíkum umr. sem þessum takandi, heldur lítið upp úr þeim leggjandi. Þar endurtaki sig oftast sama sagan, stjórnarandstæðingar haldi því jafnan fram, að ríkisstj. hafi flest illa tekizt, henni sé um að kenna það, sem í ólestri er. Hins vegar fullyrði stjórnarliðar, að stjórnarfarið hafi verið með þeim ágætum, að naumast verði á betra kosið, árangurinn sé stórkostlegur. En hugsandi menn, sem líta í kringum sig í þjóðfélaginu, spyrja: Ætli sannleikurinn liggi ekki einhvers staðar þarna á milli, sumt hafi allvel tekizt, annað stórum miður? Dómur kjósenda um stjórnarstefnuna hlýtur að markast af því, hvort vegur þyngra að þeirra mati, það, sem vel var gert, eða hitt, sem miður fór. Þegar dómur skal felldur yfir þeirri ríkisstj., sem ráðið hefur stefnunni s.l. 8 ár, fæ ég ekki betur séð en það sé rétt, sem sagt hefur verið áður í þessum umr., að þetta sé ríkisstj. hinna glötuðu tækifæra. Þetta er staðreynd. Það er staðreynd, þótt Jóhann Hafstein dómsmrh. væri að reyna að mótmæla því hérna áðan.

Þessi ríkisstj. hefur setið lengur að völdum samfleytt en nokkur önnur. Í mesta góðæri, sem Íslendingar hafa lifað, hefur fólkið í landinu með dugnaði, tilstyrk nútímatækni og auðlinda landsins lagt upp í hendur stjórnarvalda þvílík tækifæri, sem engin ríkisstj. hefur áður haft. Tækifærið til að treysta undirstöður þjóðfélagsins, tryggja efnahagslegt, menningarlegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði þess á varanlegan hátt. Rangt væri að segja, að öllum tækifærum hafi verið glatað, en sorglega mörg hafa ekki verið nýtt nema til hálfs og önnur alls ekki. Mér dettur ekki í hug að segja, að þessi óhappasaga um hin glötuðu tækifæri stafi af illvilja ráðamanna eða vísvitaðri ætlan þeirra að vinna þjóð sinni tjón. Skýringanna er annars staðar að leita.

Fyrst er að nefna þá háskalegu villukenningu, sem ráðið hefur gerðum núv. ríkisstj. frá upphafi og hún einkennir með orðinu frelsi, frelsi á athafna- og viðskiptasviði, frelsi einstaklingsins, sem til þess hlýtur aðstöðu að græða á náunganum. Þessar kenningar um algert frelsi fjármagnsins hafa leitt til þess skipulagsleysis og stjórnleysis, sem hér ríkir nú á mörgum sviðum. En þessi ranga og háskalega stjórnarstefna veldur því fyrst og fremst, að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar eru nú að þrotum komnir og fá ekki risið undir þeim kröfum; sem til þeirra eru gerðar. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma, hvernig sjávarútvegur og iðnaður hafa verið leiknir. Það hafa aðrir ræðumenn gert í þessum umr. Það veit líka hvert mannsbarn í þessu landi. Ég get þó ekki stillt mig um að kveðja hér til eitt vitni, vitni, sem ríkisstj. og talsmenn hennar hljóta að taka nokkurt mark á. Í ræðu, sem Jóhannes Nordal seðlabankastjóri hélt nýlega, komst hann svo að orði, að árin 1965 og 1966 hefðu einkennzt af lánsfjárskorti og sagði síðan orðrétt:

„Ekki vegna þess að framboð á lánsfé minnkaði, heldur vegna hins, að eftirspurn verður þá óseðjandi, þar sem kapphlaup um fjárfestingu og hvers konar spákaupmennsku nær tökum á efnahagslífinu. Þannig var þetta tvímælalaust, hér á landi,“ hélt Jóhannes Nordal áfram, ,,einkum síðari hluta ársins 1965 og fyrri hluta ársins 1966, en þá leiddi fjárfestingarkapphlaupið til mikillar eftirspurnar eftir lánsfé og óskynsamlegra fjárráðstafana fyrirtækja, sem festu rekstrarfé sitt í nýjum framkvæmdum í trausti þess, að verðþenslan héldi áfram.“

Ég fæ ekki betur séð en seðlabankastjórinn taki hér eindregið undir þá gagnrýni, að fjárfestingin hafi einkennzt af óskynsamlegu og háskalegu kapphlaupi um verðbólgugróða og hvers konar spákaupmennsku. Í þessu kapphlaupi hafa útflutningsatvinnuvegirnir verið þannig leiknir, að þeir eru nú bókstaflega að gefast upp. Það er nöturleg staðreynd, að þrátt fyrir gífurlegan vöxt þjóðartekna og þjóðarframleiðslu um margra ára skeið erum við að dragast aftur úr og búum jafnvel við hreint og beint ófremdarástand, að því er varðar gilda þætti og jafnvel sjálfar undirstöður þjóðfélagsbyggingarinnar. Þetta blasir við í atvinnu- og fjármálum, húsnæðismálum, fræðslu- og menntamálum, í heilbrigðismálum, í samgöngumálum. Getur ástæðan verið önnur en sú, að fylgt hafi verið rangri stjórnarstefnu, stefnu hinnar svokölluðu viðreisnar, sem fólgin hefur verið í sýndarfrelsi, frelsi spákaupmennsku og verðbólgubrasks? Ég held varla. Ein af mörgum háskalegum afleiðingum rangrar stjórnarstefnu síðustu ára er sú, að núv. ráðamenn hafa verið að missa traustið á grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar og orðið æ áfjáðari að flytja þann boðskap, að þessir atvinnuvegir geti ekki lengur staðið undir blómlegu atvinnu- og menningarlífi hér á landi. Þar þurfi annað að koma til og þá einkum stórfelldur iðjurekstur á vegum útlendra auðhringa. Og þegar slíkir eiga í hlut, er ekki hikað við að bjóða upp á tollfrelsi, ódýra raforku og önnur fríðindi, sem innlendur atvinnurekstur fær alls ekki að njóta.

Sjálfstæðis- og utanríkismál hafa ekki verið mikið rædd í þessum umr. Ég tel það miður farið. Ég viðurkenni að vísu, að atvinnumálin eru gildur þáttur íslenzkra sjálfstæðismála og þau eru eðlilega mjög í brennidepli nú. Blómlegt atvinnulíf er einn af hornsteinum sjálfstæðrar þjóðartilveru. Verði atvinnuvegirnir hornrekur, sé þeim ekki gert kleift að þróast með eðlilegum hætti, svo að þeir fái risið undir yfirbyggingunni, getur þess vissulega verið skammt að bíða, að við glötum því frelsi, sem mest er um vert, frelsinu til að lifa einir og óháðir í landi okkar. En það er vissulega víðar en á sviði atvinnu- og fjármála, sem stjórnarár núv. ríkisstj. hafa verið ár hinna glötuðu tækifæra. Við búum enn þá við háska og smán erlendrar hersetu á Íslandi. Enn er verið að reisa hér ný hernaðarmannvirki, að þessu sinni í Hvalfirði. Dátasjónvarpið fæst ekki stöðvað. Við erum áfram aðilar að herbandalagi og kröfu Alþb. um það, að endurskoðun fari a. m. k. fram á afstöðu Íslendinga til NATO, hefur í engu verið sinnt, hvorki af stjórnarflokkunum né Framsfl. Nálgast þó óðum sá tími, að úrsögn úr bandalagi þessu er heimil samkv. stofnsamningi bandalagsins og ýmsar aðrar aðildarþjóðir ræða fullum fetum um breytta afstöðu sína til þess. Á stjórnartíma núv. ríkisstj. hefur utanrmn. Alþ. verið gerð óstarfhæf, enda má segja, að pukur og laumuspil hafi öðru fremur einkennt meðferð þessara mála á liðnum árum. Jafnvel stærstu lífshagsmunamál þjóðarinnar, þar sem á öllu veltur, að alger þjóðareining náist um málsmeðferð og ákvarðanir, eru meðhöndluð eins og einkamál stjórnarflokkanna, ef þau eru þá ekki vanrækt með öllu. Það er yfirlýst stefna Íslendinga að öðlast yfirráðarétt yfir landgrunninu öllu og þetta er eitthvert stærsta og brýnasta hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar. Stjórnarherrarnir hafa neitað samvinnu allra flokka um þetta mál, eins sjálfsögð og hún ætti þó að vera. Þetta er orðið sérstakt feimnismál stjórnarflokkanna og er ástæðan án efa óheillasamningurinn við Breta frá 1961, þar sem undir það var gengizt að breyta í engu núv. fiskveiðilögsögu með einhliða ákvörðunum, heldur skjóta öllum slíkum málum undir alþjóðadómstól.

Barátta Íslendinga fyrir stækkun landhelgi og einhliða útfærsla hennar árið 1958 upp í 12 mílur hafði úrslitaáhrif á viðhorf margra þjóða til fiskveiðilögsögu. Nú er svo komið, að 12 mílna landhelgi hefur hlotið alþjóðaviðurkenningu. Jafnvel höfuðandstæðingar okkar í landhelgisdeilunni, Bretar, hafa tekið upp 12 mílna fiskveiðilögsögu. Þannig hefur tekizt að þoka þessum málum áfram með einhliða útfærslu, og það er langt frá því, að 12 mílur séu neitt alþjóðlegt hámark. Mörg ríki utan Evrópu hafa 50 mílna landhelgi, sum jafnvel enn víðáttumeiri. Í alþjóðlegri skýrslu fiskifræðinga, sem lögð var fram í fyrra, voru færðar á það sönnur, að rányrkja útlendra veiðiskipa á Íslandsmiðum stofnaði fiskistofnunum hér við land í stórhættu og ógnaði hagsmunum þeirra þjóða, sem á þessi mið sækja og þá fyrst og fremst Íslendinga sjálfra. En ríkisstj. Íslands hefur með ógæfusamningi sínum við Breta frá 1961 torveldað nauðsynlegar aðgerðir í þessu máli með því að semja af okkur möguleika til frekari útfærslu án þess að leita til Alþjóðadómstólsins. Á þann veg hefur ríkisstj. viðurkennt úrskurðarvald þessa dómstóls, enda þótt vitað sé, að hann dæmir jafnan eftir þrengsta ríkjandi réttarskilningi á hverjum tíma. Afleiðing þessarar frammistöðu er sú, að þetta stórmál er í algerri sjálfheldu í höndum núv. ríkisstj. Þess vegna neitar hún samstarfi allra flokka um þetta erfiða og vandmeðfarna lífshagsmunamál þjóðarinnar. Þess sjást nú víðar merki, að núv. ríkisstj. er orðin enn þá úrræðaminni, fálmkenndari og máttlausari til allra athafna en nokkru sinni fyrr. Vandamálin hrúgast upp, án þess að hún sýni umtalsverða tilburði til að leysa þau. Þreytumerkjanna gætir alls staðar. Í rauninni er ekki hægt að tala lengur um neina stjórnarstefnu. Af viðreisninni er ekki annað eftir en tætlur einar.

Margt gullið tækifæri hefur glatazt. Það ber að harma. En fyrst og fremst verðum við að draga rétta lærdóma af biturri reynslu. Eins og nú standa sakir, er efling grundvallaratvinnuvega þjóðarinnar brýnasta verkefnið, sem leysa verður. Þar eru ekki aðeins hagsmunir alls almennings í húfi, heldur er sjálfstæði okkar og þjóðartilvera í veði. Kosningarnar í sumar geta markað tímamót og þær þurfa að gera það. Hverfa verður frá þeirri happa- og glappastefnu, sem fylgt hefur verið nú um sinn. Í hennar stað þarf að móta nýja stefnu, sem á markvissan hátt tryggir undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar stórbætta aðstöðu og gerir þeim kleift að rækja það hlutverk sitt að bera uppi efnahagslegt, menningarlegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar. — Góða nótt.