07.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1967

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú gefið hér mjög ýtarlega skýrslu um ýmsa mikilvæga þætti fjármálalífsins, og er það þakkarvert út af fyrir sig, en þó þykir mér talsverður galli vera á í sambandi við þessa skýrslugjöf.

Ég hef nokkrum sinnum áður fundið að því hér á Alþ., hvernig hæstv. ríkisstj. hefur staðið að því að semja framkvæmdaáætlanir fyrir hin einstöku ár og hver afstaða ríkisstj, hefur verið varðandi þessi verk til Alþ. Þessi ýtarlega skýrsla, sem hæstv. fjmrh. hefur nú gefið, er því aðeins góð og eðlileg, að það gefist eitthvert tækifæri til þess hér á Alþ., að þessi skýrsla verði rædd, og að þm. gefist kostur á því að fá upplýsingar um fjölmörg atriði, sem þessi skýrsla fjallar um og þeir hafa ekki aðstöðu til að ræða við ríkisstj. En mér sýnist alveg augljóst, að eins og staðið er að þessu máli nú, gefst ekki kostur á að ræða þessa skýrslu á þennan hátt. Þessi langa og ýtarlega skýrsla kemur nú á síðustu dögum þingsins, þegar mikið er þó eftir ógert í þinginu og ég þykist alveg vita, að það muni ekki vinnast tími til þess að fá eðlilegar umræður hér á Alþ um þetta mál.

Þann þátt skýrslu hæstv. ráðh., sem fjallaði um efnahagsþróunina á undanförnum árum, get ég fyrir mitt leyti verið ásáttur um að leiða alveg hjá mér núna, þó að vissulega væri ástæða til að ræða þær ályktanir, sem hann dró þar af ýmsum tölum. Þar er verið að fjalla um það, hvað hafi verið að gerast í efnahagsmálum þjóðarinnar á undanförnum 5 árum, og hæstv. ráðh. var þar að gera nokkurn samanburð á því, hver útkoman hefði orðið í ýmsum greinum, borið saman við það, sem spáð hafði verið í þjóðhagsáætluninni, sem ríkisstj. lagði hér fram fyrir allmörgum árum síðan. Ég býst við, að þessi þáttur verði m. a. ræddur í almennum stjórnmálaumræðum, sem fara fram innan skamms, og mega því gjarnan, eins og komið er a. m. k., liggja hér að mestu milli mála umræður um þann þátt.

En svo var annar þáttur í ræðu hæstv. ráðh., sem fjallaði um framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir yfirstandandi ár, 1967, og það er alveg sérstaklega þessi þáttur, sem ég tel að eigi að ræðast hér á Alþ. og það sé í rauninni vanvirða við Alþ. að bjóða því upp á það ár eftir ár, að Alþ. geti ekki fengið að ræða þennan mikilvæga þátt í fjármálum ríkisins. Sú þróun hefur gengið yfir á undanförnum árum, að fleiri og fleiri þættir, sem varða ríkisbúskapinn, eru raunverulega teknir út af valdsviði Alþ. og Alþ. hefur ekkert orðið með þá að gera, og þar tekur ríkisstj. sér svo að segja sjálfdæmi um það, hvernig skuli ráðstafa stórum fjárfúlgum á hverju ári. Það er nú orðið gert í gegnum þessa framkvæmdaáætlun. Fyrst framan af hafði þessi ríkisstj. þann hátt á, að hún samdi þessar framkvæmdaáætlanir án þess að gera Alþ. einu sinni grein fyrir þeim. Að þessu fann ég á sínum tíma, þegar þingmenn gátu ekki einu sinni fengið í hendur afrit af þessari þýðingarmiklu áætlun. Síðan kom þó það frá hæstv. ríkisstj., að hún fór að gera Alþ. stutta grein fyrir framkvæmdaáætluninni og leggja fram nokkrar tölur til upplýsinga um það, hvað væri að finna í þessari framkvæmdaáætlun, og það var til bóta. En enn er sá háttur hafður á, að ríkisstj. kemur með þessa mikilvægu áætlun og tilkynnir hana þinginu svona um það leyti, sem þingið er að leysast upp og þm. að fara heim. Þetta er ósæmilegt að mínum dómi. Þetta ber að víta. Svona á ekki að vinna að þessum málum.

Reynslan er sem sagt orðin sú, að t.d. fjárveitingar, sem Alþ. hefur ákveðið til hinna ýmsu framkvæmdaþátta í landinu með afgreiðslu fjárlaga, eins og fjárveitingar til hafnargerða, segja ekki nema litla sögu um það, hvað á að gera í hafnarmálum í landinu á viðkomandi ári. Þessi framkvæmdaáætlun, sem kemur á eftir, tekur að vísu sumar af þeim fjárveitingum, sem Alþ. hefur ákveðið til hafnarframkvæmda á hinum ýmsu stöðum. Sumar af þessum fjárveitingum eru teknar og látnar koma inn á framkvæmdaáætlun og ríkið útvegar svo fé annars staðar, þar sem ríkið ræður yfir því og bætir þar við miklu á þennan stað, engu á hinn staðinn o.s.frv., og eftir því skal síðan unnið að hafnarframkvæmdum í landinu á árinu. Þetta kalla ég að draga vald úr höndum Alþ. og það er vitanlega nauðsynlegt að mótmæla því, að þetta sé gert á þann hátt, sem það er gert nú. En þetta er ekki aðeins um hafnarmál. Þessu er einnig svona varið um skólamál, sjúkrahúsabyggingar og vegaframkvæmdir nú orðið, og stórfelldar ráðstafanir í gegn um ýmsa stofnlánasjóði í landinu, en ríkið aflar til þess arna fjár með ýmsum hætti. Það tekur ekki aðeins þær fjárveitingar, sem hafa verið ákveðnar til þessara einstöku þátta í gegnum fjárlög. Nei, nú er t.d. gert ráð fyrir því, að ríkissjóður bjóði út sérstakt skuldabréfalán innanlands upp á 125 millj. kr., með sama hætti og á undanförnum árum, og auðvitað rennur lánið út á nokkrum dögum, því að þetta eru sérstök vildarkjör og ríkisstj. stendur uppi með þessar 125 millj. kr., og svo ákveður hún bara sjálf, 20 millj. af þessu fara í þetta og 30 millj. í hitt, og hún þykist góð nú orðið að koma og segja Alþ. frá því, að þetta hafi hún gert við peningana, rétt um það leyti, sem Alþ. er að standa upp og fara heim. Og það eru ekki aðeins þessar 125 millj. kr. Hún semur við bankakerfið í landinu, sum árin um það, að bankarnir láni til þess að standa undir framkvæmdum framkvæmdaáætlunarinnar 100 millj. kr., nú er gert ráð fyrir 70 millj. kr., og á þennan hátt ráðstafar ríkisstj. þessu og nokkrir fulltrúar með henni. Og svona er þetta sem sagt gert í fjölmörgum tilfellum.

Hér er um stóran hluta af fjárveitingavaldinu í landinu að ræða, sem ríkisstj. tekur bara í sínar hendur og Alþ. er tekið hér í framhjáhlaupi. Væri sá háttur hafður á, að þessi framkvæmdaáætlun fyrir viðkomandi ár væri lögð fram á Alþ. á eðlilegum tíma í upphafi árs, eins og eðlilegt er vitanlega um áætlun fyrir yfirstandandi ár, og Alþ. fengi að ræða áætlunina og menn fengju að koma fram sjónarmiðum sínum og jafnvel gera till. um hina einstöku liði, og það ynnist einhver tími hér á Alþ. til að ræða og fjalla um málið, væri hér eðlilega staðið að, en þessi vinnubrögð, sem hafa viðgengizt nú um nokkurra ára skeið, tel ég alveg forkastanleg.

Ég er hins vegar ekki á móti því, að slík framkvæmdaáætlun sé gerð, síður en svo, það er til bóta að gera slíka áætlun til að reyna að gera sér sem bezta grein fyrir því, hvað á að gera í hinum einstöku framkvæmdaþáttum og hvernig á þá að útvega nægilegt fé, til þess að hægt sé að standa við þessar áætlanir. Þetta er til bóta, og þetta er alltaf að lagast í rauninni í framkvæmd, en það er bara staðið rangt að þessu og Alþ. er lítilsvirt með þessum vinnubrögðum. Á þetta hef ég bent hér margsinnis áður, og ég hlýt að finna að þessu enn þá einu sinni. En vegna þess að ég veit, að hér er í rauninni ekki ætlazt til langra umræðna um þessi mál, skal ég ekki fara langt út í þau að þessu sinni, enda er komið fram að kvöldmatartíma og fundur á aftur að hefjast hér kl. 9. En það er eitt atriði, sem mig langar til að gera fsp. út af, varðandi þessi gögn, sem við vorum að fá á borðið til okkar í dag, og varðandi þessa mikilvægu áætlun, og það gæti þá verið svona aðeins sem sýnishorn af því, að það sé þörf fyrir þm. að fá að spyrja um einstaka mikilvæga hluti í svona áætlun. Hér í þessum plöggum er minnzt á svonefnda byggingaráætlun ríkisins, sem hæstv. fjmrh. minntist líka nokkuð á, og við vitum, að þar er um að ræða, að ríkisstj. hefur fyrir rúmu ári síðan gert sérstakan samning við verkalýðsfélög hér í Reykjavík og nágrenni um það, að hún skuli sjá um, að efnt verði til sérstakra íbúðarhúsabygginga hér í Reykjavík og byggðar skuli skv. þessari áætlun 250 íbúðir á ári í næstu 5 ár, eða 1250 íbúðir alls, og að lánakjör á þessum íbúðum skuli vera með allt öðrum hætti en nú eru almennt á íbúðum í landinu. En það er gert ráð fyrir með þessum samningi, að ríkið skuli sjá um, að lán fylgi hverri íbúð, sem nemi 80% af stofnkostnaði íbúðarinnar. Nú er gert ráð fyrir því, að á yfirstandandi ári, 1967, verði unnið að fyrsta áfanga þessarar byggingaráætlunar og eftir því, sem mér hefur skilizt, er gert ráð fyrir að byggja á þessu ári 330 íbúðir. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að 330 íbúðir, sem á að byggja skv. þessum samningi á þessu ári, geta varla kostað undir 280–300 millj. kr., og 80% af þeirri upphæð verða eitthvað talsvert yfir 200 millj., á því er víst enginn vafi, líklega 240–250 millj. kr., sem þarf að útvega að láni skv. þessum samningi. Nú er í þessari grg., sem hér liggur fyrir, dálítið einkennilega farið með upplýsingar varðandi þetta mál. Hér sé ég fyrir framan mig dálk og yfir honum stendur: Á árinu 1967 er áætluð fjárþörf byggingaráætlunar ríkisins 210 millj. kr. Látum nú vera, að það sé nóg, en það þykir ástæða til að setja þessa tölu í sviga, eina allra í öllum þessum upplýsingum. Og svo í næsta dálki á eftir stendur: Til ráðstöfunar eru 180 millj., í sviga. Og svo í næsta dálk þar á eftir segir: Fjárþörf til þessara framkvæmda 30 millj. og upplýsingar eru gefnar um það, að búið muni vera að útvega þessar 30 millj. frá atvinnuleysistryggingasjóði. Nú spyr ég: Hvaðan koma hinar 180, þær sem í sviga standa? Hvaðan kemur þetta fjármagn? Við höfum hvergi fengið neinar upplýsingar um það, hvaðan þetta fé á að koma. Ég læt mér ekki til hugar koma, að ríkisstj. hugsi sér slíka fásinnu, að hún ætli sér að taka þessar sérstöku byggingar, þann kostnað, sem hlýzt af þessum sérstöku byggingum, af því fjármagni, sem almennt hefur verið í húsnæðismálakerfinu til lánveitinga um allt land. Slíkt væri vitanlega algjör svik á því samkomulagi, sem gert var við verkalýðsfélögin, því að þau voru vitanlega að semja fyrir sig um sérstakar framkvæmdir með sérstökum kjörum en þau voru ekki að semja um að taka það fjármagn af öðrum, sem eru að byggja húsnæði í landinu, sem nú skortir stórlega fé. En þá spyr ég: Hvaðan kemur þetta fé? Á það minntist hæstv. fjmrh. ekki á neinn hátt í sinni ræðu og þau gögn, sem hér liggja fyrir, gefa engar upplýsingar um það, en það er vitanlega full ástæða til þess nú, þegar á að fara að byrja að byggja og það á að byggja svona mikið, eins og hér er um að ræða, eftir sérstökum samningi, og það er beinlínis á vegum ríkisins, að upplýsingar séu gefnar um það. Hvaðan á þetta fé að koma? Hvernig á að útvega þetta fé? Nú spyr ég hæstv. fjmrh. og vænti, að hann gefi hér upplýsingar um það.

Þó hér væri nú margt annað, sem ég vildi gjarnan spyrja um og ræða, skal ég ekki gera það að þessu sinni, vegna þess að ég sé, að það er í rauninni enginn tími til þess nú, en e. t. v. gefst þá tími síðar til þess að ræða þessi mál hér miklu nánar.