13.10.1966
Sameinað þing: 3. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að segja hér fáein orð í sambandi við þessa tilkynningu frá hæstv. ríkisstj., sem forsrh. hefur flutt. Hann lét þess getið, að stefna hæstv. ríkisstj. yrði áfram sú sama og verið hefði og vitnaði til orða hæstv. fyrrv. forsrh. í því sambandi, en stefnan hefði verið sú að tryggja heilbrigðan grundvöll efnahagslífsins. Ég saknaði þess raunar, að hæstv. forsrh. greindi ekki nánar en þetta frá stefnuyfirlýsingum hæstv. ríkisstj., þeim fyrri, sem enn eru í gildi að sögn hæstv. ráðh., því að í þeim var æðimikil útfærsla á þessu meginfyrirheiti. M. a. var því heitið og það sett sem eitt aðalstefnumið að stöðva verðbólguna, stöðva dýrtíðina. Enn fremur að afnema uppbótakerfið í öllum þess myndum og að greiða niður smátt og smátt í áföngum skuldir þjóðarinnar út á við, lækka þær, og þyrfti þjóðin að leggja á sig byrðar, sem þá voru á lagðar með það fyrir augum að lækka þessar skuldir árlega, sem væru orðnar of miklar. Fleiri stefnuyfirlýsingar fylgdu einnig í sama anda, sem ég þarf ekki að eyða tíma hv. þm. til þess að rifja upp, en ég saknaði þess, að hæstv. forsrh. hafði ekki þessi fyrirheit með, þegar hann rifjaði upp meginstefnu ríkisstj., eins og hún átti að verða.

En við vitum nokkurn veginn, hvernig farið hefur. Við búum við óðaverðbólgu með öllum þeim stórkostlegu vandkvæðum fyrir þjóðarbúskapinn og öllum þeim stórhættum, sem af því leiða. Því fer svo fjarri, að uppbótakerfið hafi verið afnumið, að niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur, sem hvort um sig er eins og annar endinn á sama prikinu, nema a.m.k. 1 milljarði á ári eins og horfir í dag og verður sjálfsagt drjúgum meira áður en þessum vetri lýkur. Skuldir við önnur lönd hafa að sjálfsögðu ekki lækkað, heldur vaxið hröðum skrefum, þó að því væri heitið, að þær skyldu lækkaðar ár frá ári. Og fleira mætti nefna í þessu sambandi, sem ég mun ekki að þessu sinni rekja nánar, en ég vildi rifja þetta upp til þess að minna á stefnu hæstv. stjórnar, eins og hún átti að verða.

Þá fannst mér það ekki álitlegt, að hæstv. forsrh. gerði hér ekki grein fyrir því geigvænlega ástandi, sem nú ríkir í efnahagsmálum landsins og atvinnumálum, en sannast að segja hefði mér fundizt það vera lífsnauðsyn að hann hefði gert það í þessari ræðu og þá rakið, hvaða úrræði ætti að nota til bjargar í þeim stórfellda vanda, sem þjóðin er nú stödd, þrátt fyrir óvenjulega góð skilyrði.

Varð ég ekki var við, að hæstv. forsrh. boðaði í þessu efni nein úrræði, sem því nafni væri hægt að nefna, eða neina stefnubreytingu, en hitt hlýtur okkur öllum að vera ljóst, að óbreyttri stefnu getum við ekki haldið, vegna þess að hún er að leiða í hreinan ófarnað og við hljótum að beygja okkur fyrir staðreyndum í því efni. Núv. stefnu er ekki hægt að halda óbreyttri, það verður að taka upp nýja stefnu og nýjar vinnuaðferðir. Það hlýtur okkur öllum að vera ljóst, því að þessar vinnuaðferðir, sem notaðar hafa verið, hafa gefið slæma raun eins og bezt sést á því, hvernig ástandið er í landinu um þessar mundir.

Það má segja, að grundvallaratvinnuvegirnir eða a.m.k. margar stórar greinar grundvallaratvinnuvega landsmanna riði til falls, eins og nú stendur, þrátt fyrir þau góðu skilyrði, sem við búum við. Togaraflotinn er að hverfa úr landinu og ekkert er gert til þess að afla nýrra togara, sem væru þannig gerðir, að von væri til þess að reka þá með góðum árangri. Sumar greinar bátaútvegsins og það ekki neinar smágreinar, það má segja útgerð allra báta, sem ekki geta notað nýtízku áhöld á síldveiðum, er bókstaflega lömuð og dregst saman hröðum skrefum og nærri liggur, að rekstur fiskiðnaðarins reki í strand, eins og glöggar lýsingar hafa verið gefnar á af mörgum mönnum utan hv. Alþingis, sem vel vita, hvað þeir eru að segja.

Margar greinar iðnaðarins hafa orðið að hætta rekstri mörg fyrirtæki, ýmsar greinar hefur orðið að leggja niður og útflutningsiðnaður er auðvitað í sérstakri úlfakreppu allur. Mörg stæltustu og beztu fyrirtæki landsins eru lömuð vegna rekstursfjárskorts og greiðsluvandræði almenn, jafnvel hjá ágætum fyrirtækjum, vegna rekstursfjárskorts, sem að verulegu leyti byggist á þeirri lánastefnu, sem reynt er að beita sem hagstjórnartæki. Landbúnaðurinn berst við þann stórkostlega vanda, að óðaverðbólgan grefur undan útflutningi landbúnaðarafurða og skrúfar upp framleiðslukostnaðinn allan, þannig að fram undan eru hættulegir boðar í rekstri landbúnaðarins.

Nálega engir kjarasamningar eru í gildi í landinu. Þar leikur allt á lausu og ég hygg, að óhætt sé að segja, að launakerfi ríkisins sé í algerri upplausn. Þannig mætti lengi telja til þess að sýna, hvernig ástatt er í hinum ýmsu greinum. Og mætti í því sambandi að lokum nefna ríkisbúskapinn, því að nú er lagt á borð okkar fjárlagafrv., sem gerir ráð fyrir 700 millj. kr. hækkun ríkisútgjaldanna á einu ári, en vantar þó á frv. a.m.k. á annað hundrað millj. kr., sem búið er að gefa fyrirheit um, þannig að raunveruleg hækkun á borðinu er á níunda hundrað millj., en verður þó líklega miklu meiri áður en upp verður staðið. Samt er þannig ástatt, að af þessari ógnarfjárhæð, af á níunda hundrað millj. kr., er aðeins sáralítið, sem á að verja til verklegra framkvæmda og meginhlutinn af því, sem á að fara til verklegra framkvæmda, fer til þess að greiða óreiðuskuldir vegna framkvæmda, sem þegar er búið að vinna. Þannig lækkar það, sem veitt er af sköttum og ríkistekjum til verklegra framkvæmda, óðfluga frá ári til árs. Það er nú svo komið, að segja má, að framlög til ýmissa þýðingarmikilla mála, sem gert er ráð fyrir í löggjöf landsins, eins og t.d. hafnarmála sé að þurrkast út af fjárl., og byggðarlögin verða sjálf að greiða það, sem ríkissjóði er ætlað að greiða. Í þessu sambandi er svo talað um stöðvun. Manni skilst, að þetta sé leiðin til stöðvunar og mun þð öðrum mönnum sýnast annað, og mundi það engu breyta í því efni, þó að hæstv. ríkisstj. reyndi að skrapa saman peninga til þess að leyna um einhverra mánaða skeið, t.d. fram að kosningunum, áframhaldandi vexti dýrtíðarinnar. Verðbólgan vex jafnt fyrir því, þó að henni sé þannig leynt um stundarsakir eins og gert var haustið 1959, þegar vexti verðbólgunnar var leynt í nokkra mánuði, en svo þegar kom fram á vorið, fór lokið af katlinum vegna þeirrar suðu, sem í honum var óbreytt, þrátt fyrir sýndarráðstafanir, sem notaðar voru í þessu skyni.

Ég vil segja það um sjávarútveginn sérstaklega, þær greinar hans, sem erfiðast standa, að ástandið í þeim málum er svo alvarlegt, ástand þessara greina sjávarútvegsins, þ.e.a.s. smærri báta, og fiskiðjunnar er svo hættulegt, að það verður að vera eitt aðalverkefni þessa Alþ. að rétta hlut þessara atvinnugreina og þolir það enga bið.

Mættu menn gjarnan hugleiða, hvernig komið er okkar eigin atvinnulífi í landinu, ef þessi rekstur verður látinn grotna niður, á sama tíma og erlendir aðilar hefja innreið sína í íslenzkt atvinnulíf, eða kannske er það hugsunin að láta þetta rýma fyrir þeim. Ég vil ekki trúa öðru en að það fáist samtök um myndarlegt átak í þessu efni.

Mér fannst mikið á vanta í ræðu hæstv. forsrh., eins og ég tók fram í upphafi þessara orða. Ég hygg, að það stafi sumpart af því, að menn kinoka sér við að ræða í fullri hreinskilni og alvöru hinar raunverulegu rætur vandans í þessum málum. T. d. verður þess vart og það kom raunar óbeint fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann virðist telja, að það sé aðeins eitt nauðsynlegt til þess að berjast gegn óðaverðbólgunni, sem sé að halda niðri kaupi og verði á landbúnaðarvörum. Mál þessi eru flutt eins og það sé aðalundirrót verðbólgunnar hér hjá okkur, að kauptaxtar hafi verið hækkaðir of mikið á undanförnum árum og bændur hafi hrifsað of mikið til sín úr þjóðarbúinu gegnum verðlagningu landbúnaðarafurða. Þannig er talað. Það er talað eins og það sé hið eina sáluhjálplega í þessum efnum að halda niðri kaupi og verði á landbúnaðarafurðum og tækist það, væri búið að lækna verðbólguna. En ég skil ekki þennan málflutning, þegar sú staðreynd liggur fyrir, að endurgjald fyrir venjulegan 8 stunda vinnudag hefur ekkert hækkað frá 1959, ef miðað er við raunverulegan framfærslukostnað og nýja húsaleigan tekin inn í dæmið eða kostnaðurinn við að búa í nýju íbúðunum, sem verið er að byggja. Okkar statistik er nú ekki betri en svo, að það er mjög erfitt að komast að niðurstöðu um þetta. En það er sennilega sízt of mikið sagt, að kaupmáttur venjulegs dagkaups hafi lækkað en ekki hækkað, ef miðað er við raunverulegan framfærslukostnað nú og húsnæðiskostnaðurinn tekinn með. Á sama tíma hafa þjóðartekjur vaxið stórkostlega.

Hvernig geta menn, þegar þetta blasir við, haldið því fram, að það séu ógætilegar kauphækkanir og ógætilegar hækkanir á verði landbúnaðarafurða, sem séu hinar raunverulegu orsakir þeirrar óðaverðbólgu, sem við búum við. Það stangast á við allar staðreyndir. Það stangast algerlega á við allar staðreyndir.

Mér sýnist kjarni vandamálsins, sem íslenzka þjóðin stendur frammi fyrir í efnahagsmálum, vera annars vegar sá að finna leiðir til þess að koma þýðingarmestu verkefnunum í framkvæmd í þjóðarbúinu með því framkvæmdaafli, sem þjóðin ræður yfir. En hins vegar að leysa úr þeirri þraut, sem nú blasir við, að flestir geta lifað sómasamlega af kaupi fyrir 8 stunda vinnu. Það er þetta, sem blasir við. En mörg þýðingarmestu fyrirtæki landsins ná ekki saman endunum samt sem áður. Þetta er það viðfangsefni, sem nú blasir við og sem ég hafði gert ráð fyrir, að hæstv. forsrh. mundi ræða ýtarlegar en hann gerði.

En þessi vandamál verða ekki leyst og þau hefur aldrei verið hægt að leysa með peningapólitískum ráðstöfunum einum saman eða nánar tiltekið með frystingu sparifjár, tilsvarandi lánasamdrætti, háum vöxtum, auknum álögum til ríkissjóðs til þess að draga fé úr umferð og niðurskurði verklegra framkvæmda, en þetta eru hagstjórnaraðferðirnar, sem núv. ríkisstj. hefur beitt og ætlar að halda áfram að beita og átt hafa að lækna verðbólguna.

En þær hafa ekki læknað verðbólguna. Staðreyndirnar tala sínu máli. Þær hafa ekki skapað heilbrigðan grundvöll fyrir atvinnureksturinn né í efnahagslífinu. Þessar aðfarir, lánsfjárhöft, auknar álögur og vaxtaokur hafa beinlínis torveldað þær framkvæmdir hjá fyrirtækjum landsins, sem nauðsynlegastar eru til að koma á jafnvægi efnahagslífsins.

Er nú svo komið í þessum uppgripum, að fyrirtæki hætta rekstri eða leggja niður þýðingarmikla starfrækslu hvert af öðru, og er ekki sjáanlegt lát á því að óbreyttu.

Þessar hagstjórnaraðferðir eða þessi stefna hefur leitt til þess vanda, sem við búum við. En þetta verkefni, að koma áleiðis þýðingarmestu framkvæmdunum og rétta hlut undirstöðuatvinnuveganna, sem jafnframt er aðalleiðin upp úr sjálfu verðbólgufeninu, er miklu vandasamara nú en oft áður vegna stórfelldra framkvæmda erlendra aðila, sem ákveðnar eru á næstunni. En þó er þetta verkefni alveg sérstaklega erfitt vegna þeirrar upplausnar og þess ótta og vantrausts, sem ríkir í landinu og m. a. byggist á því, að menn gera sér grein fyrir því, að óðadýrtíðin, sem skapazt hefur, er ekki nándar nærri öll enn þá komin upp á yfirborðið.

Dýrtíðin, sem búið er að skapa í efnahagskerfinu, er ekki nándar nærri öll komin upp á yfirborðið og það breytir engu í því sambandi, þótt nú sé látið svo sem verið sé að reyna að stöðva verðbólguflóðið með því að auka niðurgreiðslur um stundarsakir, t.d. fram yfir kosningar, eins og gert var 1959 sællar minningar. Það hvorki breytir bókstaflega neinu um meginkjarna þessa máls né læknar til frambúðar þann stórfellda vanda, sem í hefur verið stefnt, þó að hægt sé að draga úr sárindum í bili með slíku, það læknar ekki vandann.

Hinn ofboðslegi fjárfestingarkostnaður, sem búið er að efna til, er t.d. alls ekki kominn í verðlagið allur og því ekki inn í kaupgjaldið. Nýja íbúðaverðið, sem menn búa við núna, er ekki komið nema að litlu leyti inn í kaupgjaldið og þar af leiðandi ekki nema að litlu leyti inn í verðlagið. Við eigum eftir að fá stórar dýrtíðaröldur upp á yfirborðið, sem stafa af því, sem í undirdjúpunum býr nú þegar í þessu efni. Þetta sést bezt með því að bera saman íbúðarverðið eins og það er núna og húsaleiguna nýju og kaupgjaldið fyrir átta stunda vinnudag, og hvaða maður treystir sér til að halda því fram, að það ástand geti staðið eins og það er til frambúðar, og að hægt sé að láta eins og það sé ekki til og hér sé aðeins spurningin um það, hvort menn vilji nema staðar einhverja stund eða eitthvað því um líkt.

Hér við bætist, að þegar litið er til atvinnuveganna og þjónustugreinanna, sem þjóðfélagið sjálft á að annast, kemur glöggt í ljós, að framkvæmdaþörfin er meiri en nokkru sinni. Hún er meiri en nokkru sinni, vegna þess að sumar framkvæmdirnar eru hreint og beint lífsnauðsynlegir liðir í framkvæmd þeirrar stefnu, sem ein getur leitt okkur út úr sjálfheldunni. Einmitt það, að komast út úr sjálfheldunni, kostar nýjar framkvæmdir í mörgum greinum, og sérstaklega af þeim sökum eru þessi málefni erfiðari viðfangs en ella. En í þessum flokki framkvæmda, sem verða að hafa framgang, ef nokkur von á að vera til þess að komast út úr erfiðleikunum, eru fyrst og fremst hagræðingar- og vélvæðingarframkvæmdir stórfelldar í öllum höfuðatvinnugreinum landsmanna, en þessar framkvæmdir eru undirstaða þess, að mögulegt verði að leysa þann hnút, sem kjaramálin eru komin í og rekstur sjálfra fyrirtækjanna, það er ekki hægt með öðru móti og það þýðir nýjar framkvæmdir og nýjan stórfelldan fjárfestingarkostnað.

Þetta sést bezt, svo ég endurtaki það, sem ég sagði áðan, með því að gera sér grein fyrir, hvaða kaupgjald þarf nú orðið til þess að standa undir íbúðarkostnaði, eins og hann er orðinn, ásamt öðru því, sem þarf til þess að framfleyta fjölskyldu, og kaupgjaldið hlýtur að laga sig eftir þessu, ef menn ætla sér að lifa menningarlífi í landinu framvegis. Kaupgjaldið hlýtur að laga sig eftir því, og atvinnuvegirnir verða að geta borið það, og hvernig eiga þeir að geta borið það, eins og búið er að ganga frá þeim núna? Þeir geta það ekki að óbreyttu. Þetta þýðir, að það verður að taka nýtt átak í þessum efnum, sem kostar áreiðanlega mikla fyrirhyggju, mikinn myndarskap, mikið fjármagn og skynsamlega forustu.

Það þýðir ekki að ætla sér að horfa fram hjá þessu og hugga sig við, að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu, vegna þess hvað margir búi í gömlum húsum og hafi ódýra húsaleigu. Það þýðir ekki að miða við slíkt.

Það verður að miða við viðreisnarhúsaleiguna, eins og hún er orðin. Það verður að miða við viðreisnarkostnaðinn við það að koma upp íbúð yfir höfuð sér, eins og nú er ástatt. Við það verður að miða. Við það verður að miða kaupgjaldið, og við þetta mun framleiðslukostnaðurinn miðast á næstu árum, en ekki hitt, þótt einhverjir hafi verið svo gæfusamir að koma upp þaki yfir höfuðið, áður en núv. hæstvirt ríkisstj. fór að véla um þessi efni.

Þá er enn einn þáttur þessara mála sá, að vonlaust má telja, að út úr þessu verði komizt nema með nýrri stefnu varðandi þýðingarmestu þjónustuframkvæmdir, því að það eru ekki aðeins atvinnuvegirnir, sem koma til greina í þessu sambandi. En með þjónustuframkvæmdum á ég við íbúðarbyggingar, skólamál og samgöngumál t.d. í fremstu röð, svo ég nefni málaflokka, sem miklu skipta. Meira framboð af hentugu og ódýru húsnæði en fæst með ríkjandi skipulagi og aðferðum, er víst óhætt að telja algert undirstöðuatriði þess, að verðbólgan verði lækkuð, — algert undirstöðuatriði þess, að verðbólgan verði lækkuð og að íslenzkir atvinnuvegir geti borgað það kaup, sem menn geta sætt sig við.

Þá blasir líka við, að vænlegur þjóðarbúskapur og farsæll atvinnurekstur í landinu getur áreiðanlega ekki til langframa byggt á því samgöngukerfi, sem nú er búið við. Ekkert sýnir þetta betur en útreiðin á vegunum, því að óbreyttri stefnu verður þeim ekki einu sinni haldið við. En afkastamestu vélarnar til vegagerðar eru látnar liggja aðgerðalausar, að sagt er, til þess að vinna gegn verðbólgunni, þ.e.a.s. til þess að draga úr framkvæmdaþenslu og vinna gegn verðbólgunni eru þessar vélar látnar liggja. Og þá er svo komið, á sjöunda tug tuttugustu aldar, að það er ekki hægt að fá vörur fluttar á sjó eftir þörfum með ströndum fram.

Ef við lítum á skólamálin, sjáum við, að framtíð þjóðarinnar krefst þess, að skólamálin og rannsóknarmálin séu tekin til endurskoðunar frá rótum, því mistakist að búa þjóðina þeirri þekkingu, sem hún þarf til að notfæra sér til hins ýtrasta nútíma tækni og vísindi í þjóðfélagsbúskapnum, mun það fljótt segja til sín á þann veg, að seint verður bætt úr því eða aldrei. En slík endurskoðun þýðir stórauknar framkvæmdir í fræðslu- og rannsóknarmálum.

Fleiri atriði væri freistandi að nefna, en ég ætla af þessu ljóst, að við búum við óðaverðbólgu, en framundan verða að vera vaxandi framkvæmdir í ýmsum greinum, ef vel á að fara, og að mikill þorri þessara framkvæmda, einmitt þessara framkvæmda, er þess eðlis, að þær verða, sjálfar framkvæmdirnar, að mynda stiklurnar út úr verðbólguflóðinu. Einmitt þess vegna er verkefnið ekki auðvelt, og má segja, að hér séu góð ráð dýr. En það ætti þó a.m.k. að fara að verða ljóst, að við þessar aðstæður er ekki heillavænlegt að nota þau úrræði í stríði gegn verðbólgunni að skera niður annars vegar holt og bolt lánsfé, og þar með rekstursfé þeirra atvinnuvega, sem frammi fyrir þessum vanda standa, og hins vegar opinberar þjónustuframkvæmdir, m. a. af því tagi, sem ég hef rætt um og fjölmargar aðrar, sem svipaða þýðingu hafa fyrir þjóðarbúskapinn.

Framkvæmdaafl okkar takmarkast við það, sem menn og vélar geta afkastað. Höfuðúrræðið í þeim stórfellda háska, sem við erum í stödd, á því að vera í því fólgið að raða okkur og vélunum skynsamlega til verka og nota alla möguleika, sem við höfum, til þess að afla okkur nýrri og betri véla og tækja og meiri og meiri þekkingar á því að fara með vélar og vinna haganlega. Nota sem mest þá fjármuni, sem til falla í þjóðarbúskapnum, í þessu skyni hiklaust með fullri ráðdeild. Þessi jákvæða leið er einnig eina leiðin til þess að draga úr verðbólgunni og leggja grundvöll að farsælli þróun í atvinnu- og kjaramálum en við búum nú við.

Til þess að koma þessu í framkvæmd þarf áreiðanlega nýtt viðhorf, nýjan hugsunarhátt. Stjórn landsins verður að hafa forustu um framkvæmd slíkrar stefnu, ekki til þess að draga öll málefni eða öll verkefni í ríkisrekstur, síður en svo, eða til þess að beita endalausum höftum. Þvert á móti á sú forusta fyrst og fremst að vera byggð á samstarfi og samvinnu við einstaklings- og félagsframtak.

Ég nefni sem dæmi um vinnuaðferðir, að menn frá einstaklingsframtaki, félagsframtaki, ríkisvaldi og stéttarsamtökum endurskoði í samstarfi hverja starfsgrein af annarri, hinar ýmsu greinar sjávarútvegs, fiskiðnað, landbúnað, iðnrekstur, íbúðabyggingar, ferðamannaþjónustu o. s. frv.: Hvað skortir til þess að menn fái notið sín við reksturinn og náð fullum árangri? Vélar, nýja tækni, betri aðstöðu, markaðsrannsóknir, markaðsleit eða rekstursfé, eða eitthvað af þessu öllu? Hvað þarf að gera til þess að unnt sé að greiða betra kaup, skila betri árangri og ná betri afkomu fyrir fyrirtækin? Hvað getur ríkið gert til að greiða fyrir atvinnurekstrinum? Það verður hiklaust að leggja miklu meira en gert hefur verið af opinberri hálfu til stuðnings við sjálfan atvinnureksturinn, bæði nýjar greinar og til endurbóta þeirra, sem fyrir eru.

Forusta og samstarf af þessu tagi verður að koma. Í það verða menn að leggja vinnu og aftur vinnu og láta það sitja fyrir öðru. Finna verður leiðir, til að tengja lánapólitíkina og fjármálapólitíkina hæfilega þessu samstarfi ríkisins og einstaklingsframtaksins, svo að það nái fram að ganga, sem þýðingarmest telst, en ekki fari eins og nú, að tækniframfarir komist víða ekki í framkvæmd vegna ósveigjanlegrar lánastefnu, sem byggist á einstrengingslegri frystingu í lánakerfinu.

Í framhaldi af þessari starfsemi og í sambandi við hana þarf að koma á fót samstarfi launþega og atvinnurekenda um framleiðni- og kjarasamninga, ef nota mætti þau orð. En þar á ég við samninga um skiptingu þess ávinnings í atvinnurekstrinum, sem af þessu leiðir, milli atvinnurekandans, starfsfólksins og neytenda. Mætti gera sér vonir um, að umfangsmikil og vel skipulögð starfsemi af þessu tagi hjálpaði mjög til þess að leysa kjaramálin farsællega og auka framleiðnina og þjóðartekjurnar.

Úrvalslið framkvæmdamanna, tæknimanna, stéttarfélagamanna og vísindamanna ætti að setja í víðtækt samstarf ríkisins og þessara þjóðfélagsafla. Og árangurinn mundi sýna sig.

Sömu skil þyrfti að gera þýðingarmestu þáttum þjónustuframkvæmdanna, s.s. opinberum framkvæmdum ýmsum og íbúðarbyggingum, og er þetta síðasttalda, íbúðarbyggingarnar, svo þýðingarmikið atriði, að grundvallarvandkvæði íslenzks atvinnu- og efnahagslífs er sjálfsagt ómögulegt að leysa nema með alveg nýrri stefnu í íbúðarbyggingum, þar sem efnt verður til fjöldaframleiðslu hentugra íbúða í stórum stíl.

Skynsamlegur áætlunarbúskapur í þessum anda verður að koma, því að með engu öðru móti fáum við, svo fámenn þjóð í svo stóru landi, ráðið við allt sem við þurfum að gera, án þess að ofbjóða framkvæmdaafli þjóðarinnar. En slíkt leiðir til ofþenslu og meiri verðbólgu en við fáum staðizt.

Allt verður að miða við, að nýta framkvæmdaaflið til fulls, því að hér á ekki að koma til álita að gjalda með atvinnuleysi fyrir jafnvægi í efnahagsmálum, eins og gert er í ýmsum löndum stórkapítalismans, og einmitt þess vegna ber að taka upp skynsamlegan áætlunarbúskap.

Mér er það vel ljóst, að þetta er ekki vandalaust, en það verður að ganga í þetta með atorku og krafti og taka upp nýja stefnu í þessum anda. Verðbólgan verður sem sé ekki læknuð, nema með nýjum jákvæðum aðferðum, þar sem meginkjarninn er sá að auka framkvæmdaafl þjóðarinnar með nýjum starfsaðferðum og nýjum tækjum, en þetta kostar miklar framkvæmdir, eins og ég hef þegar bent á, í mörgum greinum, sem ekki komast í verk, ef leiðir lánsfjárhafta, skipulagsleysis og forustuleysis eru farnar áfram. Það verður því að finna aðferðir, til þess að það sitji fyrir, sem nauðsynlegt er, til þess að komast út úr sjálfheldunni og þess vegna verður stefnan að byggjast á nánu samstarfi ríkisstjórnar, ríkisvaldsins og annarra þjóðfélagsafla.

Sú mynd, sem nú blasir við, eftir sjö einhver hin hagstæðustu framleiðslu- og verðlagsár, sem við höfum lifað, er þannig, hvort sem litið er á stöðu atvinnuveganna, almennt endurgjald fyrir eðlilegan vinnudag eða þau verkefni, sem ríkisvaldið á að annast, eða aðra þætti flesta, að ugg hlýtur að vekja í brjósti hvers hugsandi manns. En þó ætti ekki að vera nein ástæða til þess að kvíða framtíðinni, því möguleikar okkar eru stórfelldir, ef okkur tækist að taka skynsamlegar á þessum málum.

Ekkert minna dugir nú, en að menn geri sér grein fyrir því, að allsherjar úttekt verður að fara fram á þjóðarbúskap okkar og hreinskilið og undandráttarlaust mat á því, hvernig horfir og hvað fram undan er, að óbreyttri stefnu, og því næst verður að snúa inn á nýja leið, því að á rangri leið erum við, það sýnir reynslan ótvírætt.

Framsóknarmenn munu á þessu Alþingi flytja ýmis frv. og þáltill. um einstaka þætti þessara mála, sem miðast við þau meginsjónarmið, sem ég hef lýst í örstuttu máli.