07.12.1966
Sameinað þing: 15. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

Meðferð dómsmála og dómaskipun

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mér þykir við eiga að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þá skýrslusöfnun, sem hér hefur átt sér stað, og fyrir framlagningu þessarar skýrslu hér. Ég vil enn fremur leyfa mér að þakka þeim, sem unnið hafa að þessari skýrslusöfnun. Hér hefur gott og mikið verk verið unnið. Þetta vil ég því fremur gera, sem það má a.m.k. að öðrum þræði rekja þessa skýrslusöfnun, sem hér hefur átt sér stað, til þál., sem samþ. var hér á Alþ. 13. maí 1964 og ég ásamt fleirum stóð að.

Þessi skýrsla, sem hér liggur fyrir, geymir margvíslegan fróðleik, og í henni er ýmsar verðmætar upplýsingar að fá um meðferð dómsmála, eins og hæstv. dómsmrh. hefur líka gert grein fyrir í ræðu sinni hér á undan. Reyndar má segja, að þessi skýrsla færi mönnum ekki mikinn nýjan sannleika. Hún staðfestir raunar í aðalatriðum það, sem áður var vitað, að hér á landi væri því miður of mikill seinagangur á meðferð dómsmála. Hins vegar má segja, að það sé gott að fá það staðfest með jafn ýtarlegri og viðamikilli skýrslu sem þeirri, er hér liggur fyrir, enda þótt mönnum hafi almennt verið nokkuð ljóst áður, að svona væri þessu háttað.

Þessi skýrsla, sem hér liggur fyrir, er, eins og ég sagði, góðra gjalda verð og geymir ýmsar markverðar upplýsingar. Hins vegar geymir hún ekki allar þær upplýsingar, sem æskilegt hefði verið að fá í þessu sambandi, og má því til styrktar vísa til skýrslunnar sjálfrar, þar sem það kemur einmitt fram og er ekki dregin nein fjöður yfir það á bls. 3–4, að það hafi ekki tekizt að fá allar þær upplýsingar, sem æskilegt hefði verið, enn fremur að sú mynd, sem kemur fram í þessari skýrslu, sé e. t. v. eitthvað örlítið fegruð frá því, sem raunveruleikinn er. Um það segir, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 3.

„Hafa ber í huga, þegar töflurnar eru lesnar, að þær gefa að nokkru leyti fegraða mynd. Líklegt má telja, að ýmis þau mál, sem skemmst hafa staðið, hafi verið flutt milli umdæma og meðferð þeirra í heild staðið lengur en töflur gefa til kynna, þar sem þær eru miðaðar við meðferð í hverju umdæmi fyrir sig. Yrði það mikil fyrirhöfn að kanna til hlítar gang slíkra mála og mundi þó naumast svara kostnaði, þar eð hér er ekki um ýkjamörg mál að tefla.“

Síðan segir, eins og drepið var á, að ekki hafi tekizt að afla allrar þeirrar vitneskju, sem reynt var og æskilegt hefði verið. Síðan eru rakin í framhaldi þar af á bls. 3 og 4 helztu atriði, sem ekki hafi tekizt að fá upplýsingar um. Ég vil ekki þreyta hv. þm. á því að vera að lesa það upp, þar sem skýrslan er öllum tiltæk, en vil þó aðeins benda á atriði, sem þar koma fram, og m. a. það, að ekki hafi tekizt að flokka málin eftir tegundum, en dómsmál eru auðvitað mjög mismunandi og sum eru þess eðlis, að þau taka auðvitað skamman tíma. Það datt mér reyndar í hug í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði varðandi málaskýrsluna hér frá Reykjavík, því að auðvitað er það, að mikill fjöldi þeirra mála, sem hér er dæmdur, er t.d. víxilmál, og það er auðvitað ekki hægt að gera ráð fyrir því, að slík mál taki langan tíma, en þegar þau eru tekin með í heildartölu, geta þau í raun og veru skekkt myndina af raunverulegum dómsmálum. Í annan stað vil ég benda á, að það er upplýst hér í skýrslunni, að það hafi ekki, eins og óskað var eftir, tekizt að fá upplýsingar um það, í hversu mörgum opinberum málum sakir fyrntust vegna dráttar á meðferð þeirra, en það kemur fram í umsögn frá vissum embættum, að þau komi fyrir eða jafnvel að eitthvað kveði að því. Það má segja, að það sé bagalegt að fá ekki upplýsingar um slík atriði sem þetta.

Þó að ég bendi á þessi atriði og þarna séu fleiri slík atriði, má ekki skoða það út af fyrir sig sem gagnrýni af minni hálfu á þessari skýrslu. Ég bendi aðeins á þetta, að þarna eru viss atriði, sem þrátt fyrir alla. viðleitni hafa ekki fengizt fullkomlega upplýst, eins og óskað var eftir af rn. hálfu.

Það geta sjálfsagt verið eitthvað skiptar skoðanir um það, hvaða rannsóknaraðferð hefði átt að beita í tilfelli sem þessu. Þarna hefur þeirri rannsóknaraðferð verið beitt, sem má segja að liggi nokkuð nærri, að leita til sjálfra embættanna og spyrjast fyrir um það hjá þeim, hvernig þessum málum sé háttað, og er ekki að efa, að sú mynd sem þau gefa í því efni, sé rétt. En hins vegar getur maður náttúrlega ímyndað sér, að þegar spurt er að því, hvaða orsakir valdi drættinum, og þeir eru sjálfir að því spurðir embættismennirnir, þá sé nokkur afsökunarblær á þeim ástæðum, sem þar eru færðar fram, enda kom það að nokkru leyti fram hjá hæstv. dómsmrh., þegar hann gerði grein fyrir því, hvað helzt væri talið valda drættinum og hverju væri ábótavant.

Ég skal ekkert finna að því, að þessi aðferð hefur verið höfð, og eins og allt hefur verið í pottinn búið, hefur kannske verið erfitt að fara að á annan veg, þar sem því er svo háttað, eins og hann gerði grein fyrir, hæstv. dómsmrh., að það eru ekki fyrir hendi tölfræðilegar upplýsingar um þessi efni, svo sem æskilegt væri. Ég vil alveg sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hans, að það verði haldið áfram á sömu braut eins og hér hefur verið farið inn á og það verði áfram haldið að safna slíkum upplýsingum sem þessum og skýrslum og að úr þeim verði framvegis unnið, en það álít ég út af fyrir sig mjög mikilsvert.

þáltill., sem hér var samþ. 13. maí 1964, var nú, eins og fram kemur reyndar í þessari skýrslu, ekki beint um skýrslusöfnun sem þessa, heldur um ráðstafanir til þess að hraða meðferð dómsmála, var ef ég man rétt, áskorun til dómsmrn. um að gera þær ráðstafanir, sem tiltækar þættu, til þess að hraða meðferð dómsmála. Það er ekki aðfinnsluvert að mínum dómi, þó að þessi háttur hafi verið hafður á, sem hér hefur verið hafður á, að fá staðfestar upplýsingar um þessi efni, áður en hafizt væri handa um ráðstafanir, því að það er rétt, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, að þó að það hafi verið nokkuð sterkur almannarómur, að meðferð dómsmála drægist oft og einatt meira en góðu hófi gegndi og löggæzlan væri stundum ekki eins skilvirk og helzt þyrfti að vera, er alltaf hæpið að byggja á slíkum almannarómi. Það er æskilegra að fá það staðfest með öruggum hætti, enda ekki alltaf rétt, sem í daglegu tali er sagt um slík mál. Þess vegna er það út af fyrir sig eðlilegt að byrja á því að leggja þann grundvöll, sem hér hefur verið gert að fá það upplýst, hvernig þessum málum sé í raun og veru háttað.

Eftir að þessi rannsókn hefur farið fram, og þessi skýrsla hefur hér verið lögð fram, þá er vitaskuld enn eftir óleyst það verkefni, sem þáltill. frá 13. maí 1964 fjallaði um, sem sagt að gera ráðstafanir til að hraða meðferð dómsmála. Það má vissulega segja, að á grundvelli þessarar skýrslu, sem hér liggur fyrir, sé þægilegra eftir en áður að gera þvílíkar ráðstafanir, því að vissulega koma þar fram ábendingar, eins og ég minntist á áðan, að vísu frá þeim mönnum, sem hér eiga beint hlut að máli, um hvað það sé, sem einkum valdi þeim drætti á meðferð dómsmála, sem talinn er nú eiga sér stað.

Þessi skýrsla er mjög góð, en hún leysir ekki þann vanda að hraða meðferð dómsmála. Nú hefur hæstv. dómsmrh. frá því skýrt og er að því komið í þessari skýrslu, að hann hafi ákveðið og reyndar þegar skipað sérstaka n. embættismanna, dómara, til þess, eins og segir í skýrslunni, að athuga breyt., sem mætti gera á dómaskipuninni og til bóta mættu teljast, og jafnframt að athuga og gera till. um breyt. á löggjöf og framkvæmd varðandi meðferð dómsmála í landinu.

Mér skilst, að það sé eitt höfuðverkefni þessarar n. að athuga sjálfa umdæmaskiptinguna, athuga dómaskipunina. Það er þarft verk. Það er, eins og hæstv. dómsmrh. vék að hér áðan, mjög vandasamt verk, og það er líklegt, að það taki langan tíma, því að það þarf að mörgu að hyggja í því sambandi. Þó að ég sé algerlega sammála um þessa nefndarskipun og telji það vel farið, að hún hefur átt sér stað, er ég hræddur um, að það geti orðið of langt að bíða eftir umbótum frá hennar hálfu varðandi það atriði, sem ég hef lagt áherzlu á, það er sem sé, að ráðstafanir séu gerðar til þess að hraða meðferð dómsmála. Að vísu er þessari n. falið bæði að athuga og gera till. um þær breyt. á löggjöfinni, sem nauðsynlegar gætu talizt eða til bóta gætu talizt, svo og, að athuga framkvæmdaatriði. Það er ljóst mál, að ef þörf er breyt. á löggjöfinni að verulegu leyti til þess að hraða meðferð dómsmála, hlýtur það að taka sinn tíma, og frá því sjónarmiði hef ég ekkert að athuga við það, að n. taki þann þátt til meðferðar og þá væntanlega, eins og hæstv. dómsmrh. vék að, t.d. sérstaklega einkamálalögin og athugi það, hverjar breyt. þurfi þar á að gera, og þá m. a. þær, sem mættu stuðla að hraðari rekstri dómsmála. Það er mín skoðun, að það megi gera ýmsar ráðstafanir til að hraða rekstri dómsmála, án þess að til breyt. á nokkurri löggjöf komi, og ég álít raunar, að það sé nægilegur grundvöllur fyrir hendi, m. a. í þessari skýrslu, til þess og það sé ekki út af fyrir sig ástæða til þess að bíða eftir árangri af starfi þessarar n., sem skipuð hefur verið, til þess að gera þær ráðstafanir. Má líka vel vera, að það sé ekki ætlunin. En mér fannst það ekki koma skýrt fram hjá hæstv. dómsmrh. Í þessari skýrslu eru einmitt dregin saman ýmis þau atriði, sem þessir ágætu embættismenn, héraðsdómararnir, benda á, sem þeir telja höfuðástæðurnar fyrir þeim drætti, sem verður stundum, því miður, á meðferð dómsmála. Það er tekið fram í skýrslunni á bls. 17–18. Þar er í fyrsta lagi talin vöntun á starfsliði og þá bæði átt við löglærða fulltrúa og annað skrifstofulið. Í öðru lagi er sérstaklega bent á lélega aðstöðu, eins og t.d. óhentugt húsnæði. Í þriðja lagi er bent á ófullnægjandi tækjaútbúnað og úrelt vinnubrögð. Það er ekki, að ég held, þörf á neinni löggjöf út af fyrir sig, til þess að hægt væri að bæta úr þessum atriðum. Nú gerði hæstv. dómsmrh. að vísu í sinni ræðu nokkra grein fyrir því, að hann teldi a.m.k. í sumum tilfellum, að úrbætur hefðu átt sér stað í þessum efnum, eins og t.d. að því er varðaði húsnæðismál tiltekinna embætta. Ég vil undirstrika það, að ég held það sé hægt að gera hér ýmsar breyt. til lagfæringar, án þess að breyta þurfi löggjöf. Mönnum verður það gjarnan á, þegar umr. verður um þessi mál, að skírskota til þess, að þörf sé breyt. á l. um meðferð einkamála og að fyrir Alþ. hafi legið oftar en einu sinni frv. til breyt. á þeim l. Það er rétt, þær breyt. hafa ekki náð fram að ganga, mér skilst vegna vissrar andstöðu frá sumum þeim aðilum, sem um þessi mál sérstaklega fjalla eða hafa með þau að gera. En ég er alls ekki sannfærður um, að það þurfi að gera þessar breyt. á 1., til þess að hægt sé að hraða meðferð dómsmála. Þegar einkamálalögin voru sett 1935, fólst í þeim breyt. frá eldra réttarfari. Eitt höfuðmarkmiðið með þeim breyt. var að koma hér á hraðari meðferð dómsmála. Þess var því miður ekki gætt þá að hafa sama hátt á og t.d. í Danmörku. Hér var hafður tiltölulega skammur gildistökufrestur á þessum stórkostlega lagabálki. Þeir, sem áttu að fara að framkvæma l., dómarar og sýslumenn, voru vanir allt öðru réttarfari heldur en fólst í þessum nýju l., og þeir fengu, ef ég svo má segja, ekki nægilegan aðlögunartíma til þess að átta sig á þeim nýju reglum, sem fólust í þessum lögum. Þess vegna held ég, að í raun og veru hafi einkamálalögin aldrei komizt til framkvæmda eins og til var ætlazt. Menn héldu áfram eftir sem áður um langa stund að fara eftir hinum eldri reglum að meira eða minna leyti, og þá að síðar hafi þar á orðið nokkur breyting, þá er þó a.m.k. vafamál, að ekki sé meira sagt, að þeir menn, sem fara með þessi mál, hafi nokkru sinni að fullu tileinkað sér reglur einkamálalaganna að þessu leyti til. Í Danmörku t.d., þegar hliðstæð l. voru lögleidd, var miklu lengri gildistökufrestur og eins höfð þessi skipan á, sem bent er á í bréfi lagadeildarinnar, að það var sett á stofn sérstök n., sem átti að fylgjast með framkvæmd l., og hefur verið starfandi æ síðan.

Á þetta vildi ég aðeins leyfa mér að benda og get sem sagt ekki fallizt á það í eins ríkum mæli og sumir vilja vera láta, að það séu einkamálalögin, eins og þau nú eru, sem standi í vegi fyrir nauðsynlegum breyt. að þessu leyti. En hitt er svo rétt, eins og hæstv. dómsmrh. gerði grein fyrir, að ekki alls fyrir löngu var gerð breyt. á hæstaréttarlögunum, 1962, sem miðar að því einmitt að hraða meðferð mála fyrir hæstarétti, og þess er að vænta, að það beri og hafi borið árangur, og kemur það reyndar fram líka í bréfi frá þáverandi forseta hæstaréttar, sem birt er í skýrslunni, að á þessu tímabili, sem um er að tefla, hafi það verið svo, að eftir að hæstarétti hafi borizt ágrip og grg., þannig að málin séu tilbúin til flutnings, sé ekki og hafi aldrei verið um drátt að ræða á þeim, en málflutningur ákveðinn með hæfilegum fyrirvara. Þetta er alveg tvímælalaust rétt. En þetta á aðeins við, eftir að ágrip og grg. hafa borizt. En það gæti náttúrlega verið, að það hafi stundum orðið, einhver dráttur á því, að grg. og ágrip bærust hæstarétti. Um þau atriði og um það atriði, hvernig mál hafa gengið fyrir hæstarétti, sem og hver hefur verið hraði þeirra fyrir undirrétti, er mjög auðvelt að fá upplýsingar að því er hæstaréttarmál varðar, vegna þess að hæstaréttardómar eru birtir, og þar eru upplýsingar um þetta, og það má reyndar segja, að maður sakni þess í þessari skýrslu, að þau atriði skuli ekki hér hafa einnig verið tekin til meðferðar.

Ég skal svo ekki, herra forseti, þreyta hér með langri ræðu. Ég tel þetta svo merkilegt mál í sjálfu sér, sem hér er um rætt, að ég vildi ekki alveg láta það fara þegjandi hér fram hjá, eftir að hæstv. dómsmrh. hafði lokið sinni löngu og ýtarlegu ræðu, og ég get endurtekið þakkir fyrir þessa skýrslu út af fyrir sig. Hér á eftir eða næst á dagskránni er till. til þál. um nefndarskipun til þess að fjalla einmitt um dómaskipun eða umdæmaskipun. Það má segja, að það verkefni hafi að nokkru a. m. k, verið fengið þeirri n., sem nú hefur verið skipuð og frá er skýrt hér í skýrslunni. En ég vil samt taka það alveg skýrt fram, að ég álít, að þeirri þáltill. megi ekki á nokkurn hátt blanda saman við þá þáltill., sem að nokkru leyti var tilefni til þessarar skýrslusöfnunar, till. frá 13. maí 1964 um ráðstafanir til að hraða dómsmálum. Það er allt annað, sem liggur til grundvallar hvorri fyrir sig. Til grundvallar þeirri till., sem hér verður væntanlega rædd á eftir, liggur réttaröryggissjónarmið, það sjónarmið, að það sé þörf á því út frá réttaröryggissjónarmiði að greina betur á milli meðferðar dómsmála og stjórnsýslumálefna. En hér hefur þessum málum verið þannig farið, að einn og sami embættismaður hefur mjög víða farið með báða þessa málaflokka, en það þykir víðast hvar annars staðar ófært og er algerlega skilið á milli og stefnt að því víðast hvar, eftir því sem verða má, að sá, sem með dómsvald fer, hafi aðeins dómsstörf á hendi. En það, þó að horfið væri að því ráði að breyta umdæmaskipuninni og skipa nýja dómstóla, sem eingöngu færu með dómsmál, en þyrfti út af fyrir sig ekki neitt að hraða meðferð dómsmálanna, en það á að tryggja öruggari meðferð þeirra. Það er þess vegna rétt að taka það skýrt fram, að það er sitthvað, sem liggur þarna til grundvallar. En auðvitað er það, að þó að maður leggi áherzlu á nauðsyn þess að hraða meðferð dómsmála svo sem kostur er, verður að gæta hófs í því skyni, og auðvitað má aldrei fórna réttarörygginu á altari hraðans, þannig að það verður þó auðvitað alltaf að vera aðalatriðið, að það sé gætt fyllsta réttaröryggis. En þetta vildi ég aðeins taka fram, ef menn skyldu álíta, að þarna væri það sama, sem liggur til grundvallar. Það er náttúrlega alls ekki. Það má kannske segja, að að einhverju leyti sé þessu steypt saman hjá þessari n., sem fær þessi mál til meðferðar. En henni er ætlað, eftir því sem segir í hennar erindisbréfi, æði víðtækt verkefni, þar sem henni er bæði ætlað að fjalla um dómaskipunina, æskilegar breytingar í löggjöfinni og framkvæmdaatriði. Það er mjög stórt verkefni og ekki ólíklegt, að það taki langan tíma að skila því verkefni.