08.04.1967
Sameinað þing: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

Fjárhagsafkoma ríkissjóðs árið 1966

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í tilefni af skýrslu hæstv. fjmrh., þykir mér rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi, að tekjur umfram áætlun fjárl. á árinu 1966 eru 842 millj. kr. Það er lítið eitt lægri upphæð heldur en vinstri stjórnin hafði til ráðstöfunar á fjárl. 1958. En ég vil minna á það, að þegar var verið að afgreiða fjárl. fyrir árið 1966, fór hæstv. ríkisstj. víða til að afla fanga og tíndi saman skatta hér og skatta þar. Og við gerðum á sínum tíma aths. við þessa skattaherferð hæstv. ríkisstj., sem hefur einkennt hana allt hennar stjórnartímabil.

Ég vil einnig minna á það, að þá var lagður á rafmagnsskattur, um 40 millj. kr. Hvaða afleiðingu hafði sá skattur? Hann hafði þá afleiðingu, að rafmagnsverðið hækkaði um allt land í næsta mánuði á eftir. Það var ekki fært, að ríkissjóður greiddi fé það til vegamála, sem samið hafði verið um við afgreiðslu vegalaganna, 47 millj. kr. Til þess að vegasjóður bíði ekki meira tjón heldur en orðið var og til þess að hann hefði jafnmargar krónur til ráðstöfunar, var benzínskatturinn hækkaður og þungaskatturinn einnig. Jafnhliða hækkuðu svo farmgjöld og flutningsgjöld um landið. En vegirnir fengu ekki meira fé. Ríkissjóður hafði ekki efni á að leggja 47 millj. kr. á árinu í vegamál, árinu, sem hafði 342 millj. kr. umfram áætlaðar tekjur fjárlaga. Á þessu ári, við afgreiðslu þessara fjárlaga, var lagður á gjaldeyrisskattur upp á 30–40 millj. kr. Aukatekjur ríkissjóðs voru margfaldaðar og sömuleiðis stimpilgjöldin. Þannig voru tíndar saman tekjur til ríkissjóðs, sem þá voru áætlaðar 200–300 millj. kr. Sjá nú hv. alþm. greinilega, hversu augljóst það hefur verið, hver þörf var á þessari smalamennsku. Það var talið hið mesta ábyrgðarleysi af okkur Framsfl. mönnum, þegar við lögðum til þá eina útgjaldatill. að greiða til vegasjóðsins 47 millj. kr. Það var ekki framkvæmanlegt, nema við legðum einnig til tekjustofn á móti eða viljið þið standa fyrir því að hækka skatta, var svarið þá. En fleira var að gert af hæstv. ríkisstj. til þess að ná tekjum í ríkissjóð á árinu 1966. Um það leyti, sem Alþ. hætti þá um vorið, var hætt við niðurgreiðslu á saltfiski og smjörlíki, til þess að ríkissjóður þyrfti ekki að annast greiðsluna, sem talið var að hann gæti ekki staðið undir vegna fjárskorts. Það var óhætt að bæta á dýrtíðina í landinu ofan á hækkað rafmagnsverð, hækkuð flutningsgjöld og farmgjöld og annað fleira. Þannig var staðið að fjármálunum á árinu 1966. Það var í öllum greinum stefnt að því að auka dýrtíðina í landinu og hirt um það eitt að ná sem mestum tekjum í ríkissjóð.

Í framhaldi af þessu, svo sem til viðbótar við afgreiðslu á vegamálum á því ári, voru svo upptekin leyfisgjöld, sem ekki höfðu verið greidd af jeppabifreiðum. Ríkissjóður hafði svo í tekjur af leyfisgjöldum af bifreiðum á árinu 1966 194 millj. kr. Það hefði munað um að fá þá fjárhæð í vegina í landinu. Þá væri e. t. v. ekki ófær vegur upp að Lágafelli, eins og nú er. En ríkissjóður mátti ekkert missa. Hann þurfti á öllu sínu að halda, enda hafði hann ekki nema 840 millj. fram yfir áætlun. Þannig var stefna hæstv. ríkisstj. á s.l. ári gagnvart fjármálum ríkissjóðs og gagnvart skattheimtu á þjóðina. Það hefði mátt ætla, þegar þannig var að staðið, að þá hefði verið hægt að standa fyrir þeim verklegu framkvæmdum, sem framkvæmdar voru árið 1966 með framlögum af tekjum þess árs. Það var ekki framkvæmanlegt. Framkvæmdalán var tekið upp á 100 millj. kr., eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Það hefði líka mátt ætla, þegar áraði svo vel eins og gerði árið 1966, að þá hefði verið hægt að greiða úr fyrir sveitarfélögum, sem stóðu í framkvæmdum í höfnum, í skólum og slíkum stórframkvæmdum, sem knýja á dag frá degi. En í staðinn fyrir það að bæta hag sveitarfélaganna til þessara framkvæmda, er nú svarað með því að lækka fé til þessara framkvæmda á árinu 1967 um 10% frá því, sem gert er ráð fyrir í yfirstandandi fjárl., og taka einnig af hluta þeirra af jöfnunarsjóði. Þannig er búið að þeim eftir hið mesta góðæri, sem yfir ríkissjóð hefur gengið. Þess vegna er það svo, að í lok þessa árs munum við skulda um 1 milljarð í þeim framkvæmdum, sem við höfum gert í vegamálum, hafnamálum, skólamálum og raforkumálum. Það verður arðurinn frá góðærinu, sem við skilum næsta kjörtímabili. Hver er svo afleiðing af skattheimtu hæstv. ríkisstj. og góðærinu s.l. ár? Afleiðingin blasir við. Við hana er verið að fást hér á degi hverjum. Afleiðingin er sú óðadýrtíð, sem nú lamar allt atvinnu- og viðskiptalíf þjóðarinnar og bezt var lýst hér af hæstv. fjmrh. í gær, þegar hann taldi ekki fært að gera framkvæmdaáætlun til næstu fjögurra ára vegna ástandsins í þjóðmálunum nú. Afleiðingin er sú, að nú verður varið á þessu ári um 200–250 millj. kr. meira til niðurgreiðslna heldur en gera átti á árinu 1966, þó að haldið verði sama verðlaginu og þá var. Þetta er afleiðingin af skattheimtunni. Afleiðingin af skattheimtunni er einnig sú, að nú þarf að verja hundruðum millj. til þess að aðstoða sjávarútveginn og fiskiðnaðinn í landinu umfram það, sem var á s.l. ári, vegna skattheimtunnar, sem ríkissjóður hefur staðið fyrir. Þannig hefur þessum umframtekjum verið náð og hæstv. ríkisstj. kemur svo hér á hv. Alþ. og tilkynnir, hvernig hún hafi ráðstafað því. Ég minnist þess, frá umr. um fjárlög undanfarin ár, að þegar við höfum deilt hér um útgjaldatill., sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að flytja, hefur ríkisstj.-liðið alltaf haldið því fram, að þetta væri ábyrgðarleysi og við yrðum þá að koma með tekjurnar. Við höfum hins vegar bent á það, að hæstv. ríkisstj. hefur ráðstafað hundruðum millj. og nú sennilega 1–2 milljörðum umfram þær tekjur, sem hún gerði ráð fyrir á fjárl., án þess að Alþ. hefði þar nokkuð um að segja. Það væri þetta, sem við vildum koma í veg fyrir, og hefur þó dæmið aldrei orðið jafnstórstígt eins og á árinu 1966. En afleiðingin af skattheimtunni og ráðsmennskunni og framsýninni, sem kom fram í ráðstöfun hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálunum 1966, er nú augljós hverjum manni og sjá nú allir, hve illa hefur til tekizt.