20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ef ég man rétt, mun það vera lögfest, að vegáætlun skuli takast til endurskoðunar á þessu þingi. Þótti fyrirsjáanlegt, þegar hún var afgreidd hér í fyrsta sinn, þó að gert væri ráð fyrir, að vegáætlun væri afgreidd til fjögurra ára, að í fyrsta sinn væri réttara að gera ráð fyrir því, að hún þyrfti endurskoðunar við eftir 2 ár. Ég hygg, að reynslan hafi leitt það í ljós, að endurskoðunar er full þörf. Ýmislegt þarf að lagfæra, ýmsu að breyta út frá breyttum viðhorfum síðan hún var sett, og þykir mér nú vafasamt, að við þetta verði staðið, þar sem svo langt er á þingtíma liðið. Má þó vera, að hún sé rétt ókomin. En þá verður a.m.k. frekar naumur tími til athugunar á henni og til þeirrar endurskoðunar, sem fara skal fram.

Nú vil ég ekki hafa um þetta fleiri orð, heldur beina þeirri fsp. til hæstv. samgmrh., hvort ekki verði við það staðið, að vegáætlunin komi til endurskoðunar á þessu þingi og geti fengið sína afgreiðslu.