20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. segir, að það er gert ráð fyrir að endurskoða vegáætlunina á tveggja ára fresti. Það segir í vegalögum: „Vegáætlun skal endurskoða á tveggja ára fresti.“ Það segir náttúrlega ekkert um það, hvernig þeirri endurskoðun skuli háttað, og til upplýsinga fyrir fyrirspyrjanda og aðra hv. alþm. vil ég segja það, að vegáætlunin verður endurskoðuð eins og lög mæla fyrir og er verið að vinna að því. Vegamálaskrifstofan er, að ég ætla, langt komin með það að umreikna ýmsa liði vegáætlunar og samræma þá breyttum kostnaði, sem á hefur orðið síðan vegáætlun var samþ. o. s. frv. En því miður verður það ekki fyrr en eftir þinghléið, sem till. til endurskoðunar verður lögð fram.