14.11.1966
Sameinað þing: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

Minning látinna fyrrverandi alþingismanna

forseti (SÁ):

Sú harmafregn hefur borizt, að Steingrímur Steinþórsson fyrrv. búnaðarmálastjóri og forsrh. hafi andazt í morgun í sjúkrahúsi hér í bæ. Hann var á 74. aldursári, hafði fyrir nokkrum árum dregið sig í hlé frá opinberum störfum eftir athafnasama og gagnmerka starfsævi. Ég vil leyfa mér að rekja hér nokkur helztu atriði úr æviferli hans.

Steingrímur Steinþórsson fæddist 12. febrúar 1893 í Álftagerði við Mývatn. Foreldrar hans voru Steinþór bóndi þar Björnsson bónda á Bjarnarstöðum Björnssonar og kona hans, Sigrún Jónsdóttir bónda og alþm. á Gautlöndum Sigurðssonar. Hann lauk prófi við bændaskólann á Hvanneyri 1915, vann á búi foreldra sinna á Litlu-Strönd víð Mývatn 1915–1917 og var fjármaður á Hvanneyri 1917–1920. Því næst fór hann utan til frekara náms í búfræði og lauk prófi við búnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1924. Hann var kennari við Bændaskólann á Hvanneyri 1924–1928 og skólastjóri Bændaskólans á Hólum 1928–1935. Búnaðarmálastjóri varð hann á miðju ári 1935 og gegndi því embætti til ársloka 1962, að undanskildum þeim tímabilum, er hann átti sæti í ríkisstjórn.

Auk þeirra aðalstarfa, sem hér hafa verið rakin, kom Steingrímur Steinþórsson víða við sögu og sinnti margvíslegum ábyrgðarstörfum á sviði félagsmála og þjóðmála. Hann var nýbýlastjóri á árunum 1936–1941, átti sæti í nýbýlastjórn frá 1941 til æviloka og gegndi þar um skeið formannsstörfum. Í skipulagsnefnd atvinnumála var hann 1934–1937, átti sæti í veiðimálanefnd frá 1935, var settur forstjóri landbúnaðardeildar Atvinnudeildar háskólans 1937–1941 og átti sæti í sýningarráði Íslandsdeildar heimssýningarinnar í New York 1938–1940. Hann var formaður mþn. í tilraunamálum landbúnaðarins 1938–1939 og átti síðan sæti og var formaður í tilraunaráði landbúnaðarins. Í nýbyggingarráð var hann skipaður 1944. Hann átti sæti í bankaráði Landsbanka Íslands frá 1957. Á árinu 1957 var hann skipaður í orðunefnd og var jafnframt formaður hennar. Hann tók sæti í náttúruverndarráði 1956 og dýraverndarnefnd 1957. Hann átti lengi sæti á Alþ., var þm. Skagfirðinga á tímabilinu 1931–1959, þó ekki samfleytt, en hann sat á 26 þingum alls. Hann var kjörinn forseti sameinaðs Alþingis haustið 1949, en lét af því starfi 14. marz 1950, er honum var falin myndun ríkisstj. Var hann síðar forsrh. og félmrh. til 11. sept. 1953, en tók þá sæti landbrh. og félmrh. í nýrri ríkisstj., er sat til 24. júlí 1956.

Þótt hér hafi verið getið margra mikilvægra starfa Steingríms Steinþórssonar, er enn ótalið margt af því, sem hann vann á sviði landbúnaðarmála og annarra félagsmála. Á starfsárunum í Borgarfirði og Skagafirði kvað mjög að honum á vettvangi félagsstarfa í héraði, og var hann þar víða valinn til forustu. Eftir að hann gerðist búnaðarmálastjóri, var hann oft kvaddur til starfa í nefndum til að vinna að samningu lagafrv. um landbúnaðarmál. Hvarvetna þar, sem hann lagði hönd og hug að verki, þótti vel skipað málum.

Steingrímur Steinþórsson átti skammt ættir að rekja til gáfaðra og mikilhæfra manna og var gæddur mörgum beztu kostum ættar sinnan. Umhverfi það, sem hann ólst upp í, var þroskavænlegt gáfuðum og þróttmiklum unglingi. Bókmenning var þar mikil og ríkur áhugi á félagsmálum. Hann var vel að heiman búinn, er hann hóf búnaðarnám tvítugur að aldri, þótt efnahagur foreldra hans hafi verið fremur þröngur. Með atorku sinni og hæfileikum brauzt hann síðan áfram til frekara náms. Að námi loknu var honum ekki starfa vant, svo sem ráða má af því, sem rakið hefur verið hér að framan. Hann stundaði fjármennsku af alúð, meðan hann bjó sig undir utanferð, kennsla og skólastjórn fór honum með afbrigðum vel úr hendi, en um störf hans síðar í forustu landbúnaðarmála og þjóðmála er ekki þörf að fjölyrða, svo alkunnugt er, hvernig þau voru af hendi leyst.

Steingrímur Steinþórsson var svipmikill og skörulegur. Hann var vel máli farinn, rökfastur og fylgdi fast fram þeim málum, sem voru honum hugfólgin. Skapmaður var hann, en hafði vald á skapi sínu. Hann var ósérhlífinn samherji og drenglyndur andstæðingur, fús til samstarfs að þeim málum, sem hann taldi horfa til heilla. Við fráfall hans á bændastétt lands vors á bak að sjá mikilhæfum forustumanni og þjóð vor öll merkum þjóðskörungi.

Ég vil biðja hv. alþm. að votta Steingrími Steinþórssyni virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]