18.04.1967
Efri deild: 73. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

Starfslok deilda

forseti (SÓÓ):

Þá er þessu þingi senn að ljúka, þingi, sem er hið síðasta á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta verður síðasti fundur þessarar hv. d. fyrir þinglok. Í hönd fara kosningar til Alþingis. Margir af núv. alþm. koma til með að eiga sæti á næsta þingi, en þó eru nokkrir, sem hverfa nú af þingi, þar sem þeir verða ekki í kjöri við næstu kosningar. Og í þessari hv. d. munu vera nokkrir alþm., sem þannig er ástatt um. Þar sem ég er einn í þeirra hópi, sem ekki verða í kjöri við næstu alþingiskosningar, hef ég sérstaka ástæðu til að þakka hv. þdm. fyrir ánægjulega samveru og samvinnu á undanförnum árum. Þar má segja, að aldrei hafi fallið skuggi á. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka ykkur góða fundarsókn, stundvísi, umburðarlyndi við mig sem forseta og leiðbeiningar veittar, þegar eitthvað hefur farið úrhendis hjá mér í starfi. Þetta vildi ég segja við ykkur alla, hv. þdm. Þá vil ég þakka varaforsetum d. fyrir þá hjálp og aðstoð, sem þeir hafa veitt mér, þegar ég hef þurft á að halda. Skrifurum d. vil ég sérstaklega þakka þeirra ágæta starf, skyldurækni og stundvísi. Það má segja, að þeir hafi ávallt verið komnir í sæti sín, þegar fundir hefjast, og sem sagt ekki vikið frá nema óska leyfis. Þeir eiga ekki svo lítinn þátt í því, að þingstörf gangi greiðlega, og fyrir það ber að þakka, sem ég geri hér með. Þá vil ég þakka skrifstofustjóra Alþingis fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum, þakka honum leiðbeiningar mér veittar sem forseta og alla samvinnu, sem hefur verið hin ánægjulegasta í alla staði. Öðru starfsfólki Alþingis öllu þakka ég góða og ánægjulega samvinnu. Að lokum vil ég óska ykkur, hv. þdm., og fjölskyldum ykkar og starfsliði Alþingis öllu gleðilegs komandi sumars og allra heilla í framtíðinni. Þm. utan af landsbyggðinni óska ég góðrar ferðar heim og ánægjulegrar heimkomu, og þeim ykkar, sem nú taka þátt í kosningahríðinni, óska ég góðs gengis.