12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir þetta frv. stefna í rétta átt. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það væri mikil þörf á því, að gert væri nokkurt átak í þá átt að reyna að hafa nokkur áhrif á þróun landbúnaðarins og þá sérstaklega til þess, að þróun hans geti orðið hagkvæmari en hún hefur verið. En ég verð að segja það nú, þegar þetta frv. liggur hér fyrir til 1. umr., að mér þykir harla skammt vera gengið í þessa átt, sem þó miðar með þessu frv., og allt of skammt gengið.

Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því, að stofnframlag til þessa framleiðnisjóðs landbúnaðarins verði 50 millj. kr. Þegar er búið í rauninni að ráðstafa 20 millj. af þessari upphæð, og það er fram tekið í frv., að sú upphæð eigi að fara út á framkvæmdir, sem þegar hafa verið unnar á þessu ári í ýmsum framleiðslustöðvum eða verkunarstöðvum tilheyrandi landbúnaðinum. Ég hygg, að það fari ekkert á milli mála, að hér er um fjárhæð að ræða, sem stendur í nánu sambandi við verðákvörðun á landbúnaðarafurðum á s.l. hausti og á í rauninni harla lítið skylt við það verkefni, sem þetta frv. fjallar eða á að fjalla um.

Þá eru eftir 30 millj. kr. af þessu stofnframlagi framleiðnisjóðs, og þá er gert ráð fyrir því, að það verði greitt út á næstu þremur árum, árunum 1967, 1968 og 1969, eða 10 millj. kr. á ári. Og svo er ekki að finna í þessu frv. neitt um það, hvernig á að tryggja þessum sjóði tekjur á komandi árum. Ég efast ekkert um það, að það hljóta allir, sem gert hafa sér nokkra grein fyrir því vandamáli, sem hér er við að eiga í sambandi við íslenzkan landbúnað, að hafa gert sér grein fyrir því, að 10 millj. kr. á ári eða þar um bil til þess að hafa einhver teljandi áhrif á þróun landbúnaðarins segja harla lítið. Ég flutti hér till. fyrir 2 árum um, að það yrði varið um 50 millj. kr. á því ári til hagræðingarráðstafana í sambandi við landbúnaðarframleiðslu, á svipaðan hátt og þá var gert fyrir sjávarútveginn, og ég taldi, að það væri sízt minni ástæða til þess. Það fékkst ekki fram þá. En það, sem nú kemur, þykir mér í rauninni vera allt of lítið.

Ég efast ekkert um, að það muni skila sér aftur og það ríflega á komandi árum, ef nokkurt fé yrði lagt fram í því skyni að reyna að hafa áhrif á meiri hagkvæmni í íslenzkum landbúnaði heldur en nú er og til þess að reyna að hafa áhrif á það, hvernig landbúnaðurinn þróast. En eigi að síður vil ég taka undir það, að ég tel, að frv. stefni í þá átt, hér sé búið að viðurkenna þessa nauðsyn með því að efna til stofnunar á þessum sjóði, en hefði hins vegar kosið, að meira væri gert en fram kemur nú í þessu frv. Ég skal svo ekki ræða um það í löngu máli frekar.

Það, sem fram kemur í grg. frv., er gripið úr ýmsum áttum, og ég verð að segja, að ég er ekki alls kostar hrifinn af öllum þeim röksemdum, sem þar koma fram, eins og t.d. þeirri, að þar sem er verið að gera grein fyrir verkefnum þessa sjóðs, þar þykir sérstök ástæða til þess að undirstrika það, að um leið og þessi sjóður eigi að vinna að meiri framleiðsluafköstum í landbúnaði, verði það þó gert þannig, að framleiðslan megi ekki aukast, eins og þar stendur. Ég fyrir mitt leyti vil ekki halda mig við það, að það sé nein sáluhjálp út af fyrir sig í því að slá því föstu fyrir fram, að landbúnaðarframleiðsla á Íslandi megi ekki aukast. Ég álít, að í ýmsum greinum sé það aðeins eðlilegt, hins vegar verði það að sjálfsögðu að fara eftir öllum aðstæðum. En ég skal ekki fara út í lengri umr. um það að þessu sinni, vildi lýsa yfir fylgi mínu og okkar Alþb.-manna við þá hugmynd, sem stendur að baki þessu frv., en það er okkar skoðun, að framlög þau, sem er að finna í þessu frv., séu allt of lág, ef árangur eigi að nást.